19.05.1960
Neðri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (2114)

2. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. meiri hl. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 132, ásamt brtt. frá hv. 1. þm. Norðurl. v. á þskj. 360 hefur verið athugað í hv. fjhn. d., og þar hefur orðið ágreiningur um afgreiðslu málsins. Þetta frv. var lagt fram nokkuð snemma á þinginu, en þar sem efnahagsaðgerðir ríkisstj. og fjárlögin voru þá ýmist í smíðum eða endurskoðun og hér var um að ræða mál, sem beint snerti útgjöld og einn ákveðinn tekjustofn ríkisins, þá var afgreiðslu málsins skotið á frest í n. Síðar var efnahagsmálafrv. hæstv. ríkisstj., svo sem kunnugt er, afgreitt frá Alþ. og sömuleiðis fjárlög. Eftir að það hafði verið gert, áleit meiri hl. fjhn., að þar sem benzínskattur hafði með þessum ráðstöfunum verið verulega hækkaður og þeim tekjum síðan ráðstafað samkv. fjárlögum, þá væri ekki fært að verða við þeim till. um aukin fjárframlög í þeim tilgangi, sem þetta frv. gerði ráð fyrir, þar sem ekki væri með því séð fyrir neinum tekjum til þess að mæta hinum aukna kostnaði, og þess vegna leggur meiri hl. fjhn. til, að frv. verði fellt.