19.05.1960
Neðri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (2115)

2. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir, var lagt fram í byrjun þingsins, sem nú stendur yfir, í nóvembermánuði næstliðnum. Það er um breyt. á lögum um bifreiðaskatt. Er þar lagt til, að nokkru meira en áður af bifreiðaskattinum verði lagt í sjóð þann, sem myndaður hefur verið og á að verja til að gera akfæra þjóðvegi milli byggðarlaga.

Það er ástæða til í þessu sambandi að rifja það upp, hvað benzínskatturinn er mikill og hvernig honum hefur verið og er varið. Samkv. lögum frá 1949, þau eru nr. 68 það ár, var álagður benzínskattur 31 eyrir á lítra. Af þessu fóru 26 aurar beint í ríkissjóð, en 5 aurar til brúasjóðs. Síðar var gerð bráðabirgðabreyting á þessum lögum, en skatturinn var þá hækkaður um 20 aura. Af viðbótinni fóru 10 aurar til ríkissjóðs, 5 aurar í brúasjóð og 5 aurar í sjóð, er verja skyldi til að gera akfæra þjóðvegi milli byggðarlaga. Enn gerist það, að með lögum nr. 33 1958 er bætt við skattinn 62 aurum. Af þeirri viðbót var ákveðið, að 50 aurar skyldu renna til útflutningssjóðs, 6 aurar í brúasjóðinn og 6 aurar til millibyggðaveganna.

Þannig var þá þessu fyrir komið um síðustu áramót, að benzínskatturinn var alls kr. 1.13 af hverjum lítra. Af því fóru þá 36 aurar í ríkissjóð, 50 aurar í útflutningssjóð, 16 aurar til brúasjóðs og 11 aurar í sjóðinn, er kosta skyldi lagningu millibyggðavega.

Með lögum um efnahagsmál, sem samþ. voru á þessu þingi nú í febrúarmánuði, var enn aukið við benzínskattinn. Hann var hækkaður þá um 34 aura. Af þeirri hækkun var ákveðið, að 28 aurar skyldu fara í ríkissjóð, 3 aurar í brúasjóðinn og 3 aurar til millibyggðaveganna. Með þeim lögum var enn fremur ákveðið, að þeir 50 aurar, sem áður fóru til útflutningssjóðs, skyldu nú renna í ríkissjóð, þannig að ríkissjóður fékk hækkun á benzíngjaldi samkv. þessum lögum, er nam alls 78 aurum á lítra.

Þannig standa þá sakir nú, að benzínskatturinn er alls kr. 1.47 af hverjum lítra. Af því fara kr. 1.14 í ríkissjóð, 19 aurar í brúasjóðinn og 14 aurar til millibyggðaveganna.

Í frv. þessu var lagt til, að tillagið til millibyggðaveganna skuli hækkað um 11 aura af hverjum lítra, en eins og ég gat um áður, var tillagið í þann sjóð aukið sem nemur 3 aurum á lítra með l. um efnahagsmál í vetur. Vegna þess hef ég flutt hér brtt. um það, að hækkunin til millibyggðaveganna skuli verða 8 aurar í stað 11. Ég hef flutt um þetta brtt. í nál. mínu á þskj. 360, og vegna þess að nú er búið að taka þessi ákvæði um benzínskattinn og ráðstöfun hans inn í l. um efnahagsmál, þá flyt ég einnig brtt., sem felur það í sér, að hér verði breytt 17. gr. þeirra laga.

Í fjárlögum fyrir þetta ár er áætlað, að þetta gjald, 14 aurar á lítra, sem nú fer í sjóðinn vegna millibyggðaveganna, muni nema á árinu 6½ millj. kr., og í fjárl. er þessu fé skipt niður í fjárveitingar til 16 vega. Ég hef talið þá upp í mínu nál. Þarna er um að ræða vegagerðir í öllum fjórðungum landsins, vegi milli byggðarlaga, sem mjög brýn nauðsyn er á að veita fé til. Á Suðurlandi er um að ræða Austurveg, sem tengir saman Reykjavík og Suðurlandsundirlendið, enn fremur veg á Mýrdalssandi. Á Vesturlandi er um að ræða Hvalfjarðarveginn, vegi á Snæfellsnesi utanverðu, Heydalsveg, sem er nauðsynleg samgöngubót, og Vestfjarðaveginn, sem að sjálfsögðu er mikið óunnið við, til þess að komið verði á viðunandi vegasambandi milli Vestfjarða og annarra landshluta. Á Norðurlandi er um að ræða Siglufjarðarveginn ytri, svonefndan Strákaveg, enn fremur Múlaveg, Norðurlandsveg, sem víða þarf endurbóta við, og vegi í Þingeyjarsýslu, bæði suður- og norðursýslunni. Á Austurlandi er um að ræða Vopnafjarðarveg og Austurlandsveg, bæði austan og vestan Lagarfljóts.

Á milli þessara vega, sem ég hef nú nefnt, hefur þessu fé verið skipt með ákvæðum í fjárlögum, samtals 6½ millj. kr., eins og ég gat um áður. En vissulega er mikil þörf að auka við þessi framlög. Ég skal nefna sem dæmi Siglufjarðarveginn ytri, sem ég raunar gat um áður. Nú eru staddir hér í bænum menn frá bæjarstjórn Siglufjarðar og bæjarstjóri þeirra. Þeir áttu fyrir 2 dögum tal við okkur, þingmenn úr Norðurlandskjördæmi vestra, um þetta mikla nauðsynjamál og áhugamál Siglfirðinga að koma á nokkurn veginn öruggu vegarsambandi við Skagafjörð og um leið við aðrar byggðir landsins. Það þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þdm. með mörgum orðum, hve brýn nauðsyn er á því að koma þessum stóra kaupstað, þar sem er mikið athafnalíf, í samband við akvegakerfi landsins. Sá vegur, sem þeir nú hafa yfir Siglufjarðarskarð, er ekki fær nema um hásumarið.

Hér er einmitt tækifæri fyrir hv. þd. til þess að auka nokkuð við þetta framlag til millibyggðaveganna. Verði frv. samþ., hækkar framlagið til þessara framkvæmda um 57% frá því, sem nú er. Í staðinn fyrir, að það er áætlað nú 6½ millj., mundi það verða yfir árið 10 millj. og 200 þús. Það er mikil þörf fyrir þetta, og þótt ekki sé stigið stærra skref í einu, þá mundi muna verulega um þessa viðbót til þess að hrinda áfram þessum bráðnauðsynlegu samgöngubótum víða um land.

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. vék að því, að það væri búið að afgreiða fjárlög fyrir árið í ár og tekjum af innflutningsgjöldum af benzíni hefði þar verið ráðstafað. Ég tel alveg óhætt að fullyrða, að þar sé borð fyrir báru og það sé alveg hættulaust að samþ. þetta frv., hvað sem fjárlagaafgreiðslunni líður.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég hef gert nokkra grein fyrir því, hvernig þessi skattur er nú í heild og hvernig honum er varið. Eins og ég gat um, hefur ríkissjóður fengið hækkun á sínum hluta á þessu ári mjög mikla. Nú fara kr. 1.14 í ríkissjóð af hverjum lítra í staðinn fyrir 36 aura aðeins á árinu sem leið, og ég tel því alveg tvímælalaust, að ríkissjóður geti vel séð af þessum 8 aurum til þessara nauðsynlegu framkvæmda.