19.05.1960
Neðri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (2126)

58. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Frsm. meiri hl. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á l. nr. 47 4. júní 1924, um aukaútsvör ríkisstofnana, hefur verið til meðferðar í hv. fjhn. d., og hefur n. klofnað um afgreiðslu málsins. Meiri hluti n. telur varhugavert að samþ. frv. og færir fyrir því þau rök, að samkv. grg. fyrir frv. til l. um bráðabirgðabreyt. á lögum nr. 66 12. apríl 1945, um útsvör, sem nú liggur fyrir Alþ., er það upplýst, að fjmrh., sem einnig fer með þann þátt félagsmála, sem varðar tekjustofna sveitarfélaga, hefur skipað n. manna til þess að endurskoða tekjustofna sveitarfélaganna og semja frv. til laga um það efni. Þess er vænzt, að sú n. muni ljúka sínu umfangsmikla starfi síðar á árinu og þá verði lagt fyrir Alþ. frv. til laga um framtíðarskipan þessara mála.

Með tilliti til þessa telur meiri hl. n. óheppilegt og ástæðulaust að samþ. nefnt frv., þar sem það muni aðeins tefja heildarlausn málsins, og leggur því til, að frv. verði fellt.