17.05.1960
Neðri deild: 83. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (2158)

13. mál, áburðarverksmiðja

Landbrh. (Ingólfur Jónason):

Herra forseti. Mér þótti vænt um að heyra það áðan hjá hv. 3. þm. Reykv. (EOl), þegar hann sagði: Mér sýnast reikningarnir þannig, að ástæða sé til, — vegna þess að ég hafði áður hlustað á hann, þar sem hann sagði ekki: Mér sýnist, heldur: Það er, reikningarnir eru falsaðir, sagði hann, og vegna þess að mér er vel til þessa manns, þá þykir mér vænt um, að hann áttaði sig og fullyrti ekki lengur, en taldi sem sagt, að það gæti verið, að reikningarnir væru falsaðir. Ég held, að það sé betra að hafa fyrirvarann.

Þannig er það með reikninga áburðarverksmiðjunnar, að þeir eru gerðir eins og lög standa til nú og áður. Afskriftir hjá verksmiðjunni eru nokkru meiri en áður, en það var ekki þannig frá reikningunum gengið, fyrr en ýtarleg athugun hafði farið fram, því að bókstafur laganna, eins og hann er fyrir mínum sjónum og hv. 3. þm. Reykv., heimilar ekki svona mikla afskrift. Og það var þess vegna, sem stjórn áburðarverksmiðjunnar sendi lögin til umsagnar frægs lögfræðings, prófessors í lögum, og til annars vel metins lögfræðings og spurðist fyrir um það, hvort leyfilegt væri þrátt fyrir bókstaf laganna að afskrifa svo mikið sem gert var. Og umsögn þessara ágætu manna var ótvíræð. Þeir höfðu kynnt sér ýmislegt í sambandi við umr., þegar lög áburðarverksmiðjunnar voru sett, kynnt sér grg., sem fylgdi frv., og ýmislegt fleira og lásu það út úr þessu, að andi laganna og meining meiri hl. Alþ., þegar l. voru sett, væri ótvírætt á þá lund, að ætlazt væri til, að afskriftir hverju sinni væru það ríflegar, að það nægði til þess að viðhalda verksmiðjunni og endurnýja hana.

Það var ekki fyrr en þessi dómur lá fyrir, sem reikningar verksmiðjunnar voru gerðir og samdir eins og þeir nú eru. Og þess ber að geta, að tveir kjörnir endurskoðendur skrifuðu undir reikninga verksmiðjunnar og auk þess löggiltur endurskoðandi, sem gerir reikninga verksmiðjunnar. Allir þessir menn, ásamt 5 manna stjórn verksmiðjunnar, standa að þessum reikningum, og á aðalfundi, hluthafafundi, voru reikningarnir samþykktir athugasemdalaust.

Ég endurtek það, að mér þótti vænt um, að hv. 3. þm. Reykv. dró úr fullyrðingum sínum, þegar hann var að tala um fölsun, og dró úr ýmsum þeim stóryrðum, sem hann viðhafði áður og ekki eru viðeigandi. Ég tel, að hann hafi bætt úr því með niðurlagi ræðunnar, þegar hann sagði: Mér sýnist eða mér virðist. Og ég tel það hæfilegan fyrirvara, til þess að það þurfi nú ekki að ræða við hann um þetta mál á þann hátt eða í þeim tón, sem fyrri hluti ræðunnar gaf tilefni til.

Það er svo aftur allt annað mál, hvort lög verksmiðjunnar þarfnast endurskoðunar, hvort það er réttmætt, að ríkið kaupi verksmiðjuna og hún sé rekin á sama hátt og sementsverksmiðja ríkisins. Ég veit, að það er hægt að færa mörg skynsamleg rök fyrir því að gera þetta, og ég ætla ekki nú að ræða það út af fyrir sig. Ég tel, að sá möguleiki sé fyrir hendi að taka það mál upp að nýju, þótt málinu sé nú vísað til ríkisstj. En ég hygg, að það sé eðlilegra, að það sé að einhverju leyti a.m.k. gert í samráði við hluthafana, ef að því ráði verður horfið að gera verksmiðjuna að ríkiseign.

Um það, að hluthafar hafi grætt á verksmiðjunni og ætli sér að græða stórfé á henni, þá held ég, að þar sé um hreinan misskilning að ræða.

Ef maður lítur aðeins á það, sem orðið er, þá er það svo, að það er í fyrsta sinn nú, sem hluthafar hafa fengið vexti af hlutabréfunum. Það er ekki hægt að kalla það arð, vegna þess að það eru 6% vextir af hlutafénu. Það er ekki hægt að kalla það arð, nema það sé eitthvað fram yfir eðlilega vexti. Nú eru greiddir 10% vextir af innstæðum manna, en í þau ár, sem verksmiðjan hefur starfað, hafa hluthafar átt sitt fé þarna vaxtalaust, og ég þekki engan hluthafa, og er ég mörgum þeirra kunnugur, sem lætur sig dreyma um það að verða efnaður á því að eiga hlutafé í áburðarverksmiðjunni. Ég þekki engan hluthafa, sem lagði fé sitt í áburðarverksmiðjuna á þeim forsendum að græða á því peninga. En ég þekki marga hluthafa, sem lögðu fé í áburðarverksmiðjuna, vegna þess að þeir töldu, að hér væri um þjóðhagslega gott fyrirtæki að ræða og það væri þess virði að leggja fé í fyrirtækið, enda þótt ekki væri von um arð af því. Og það er þess vegna, sem mér finnst að hluthafar áburðarverksmiðjunnar eigi ekki skilið þann dóm, sem hv. 3. þm. Reykv. kveður eiginlega alltaf upp yfir þeim, þegar hann tekur hér til máls um áburðarverksmiðjuna. Það er alltaf látið að því liggja, að þessir menn ætli sér að sölsa undir sig þetta fyrirtæki, ætli beinlínis að stela því frá ríkinu og að það sé engin önnur hugsjón þarna á bak við heldur en að auðga sjálfa sig.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta. Ég tel vegna þess, hvernig hv. 3. þm. Reykv. venti kvæði sínu í kross og bætti fyrir það, sem hann hafði sagt í byrjun ræðunnar, með niðurlaginu, að það sé ekki ástæða til orðahnippinga að þessu sinni út af þessu máli.