17.05.1960
Neðri deild: 83. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2159)

13. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Mér sýnist nú svo sem ástæðan til orðahnippinga fari nokkuð vaxandi eftir síðustu ræðu hæstv. landbrh.

Hann byrjaði með því að reyna að verja það, að áburðarverksmiðjustjórnin hefði búið út falska reikninga. Og hvernig reyndi hann að verja það? Hann reyndi að verja þetta með því, að áburðarverksmiðjustjórnin hefði talað við nokkra ágæta menn og hún hefði m.a. talað við einn lögfræðing, held ég, og þessir menn hefðu sagt, að það væri alveg óhætt að falsa reikningana. Þeir höfðu að vísu ekki orðað það þannig, að það væri óhætt að falsa reikningana, heldur mætti vel ganga svona frá þessu, þannig að reikningarnir raunverulega væru falsaðir og lögbrot.

Nú veit hæstv. ráðh., að það er ein sérgrein ýmissa lögfræðinga að brjóta lögin, alveg sérstaklega þegar um skatta eða annað slíkt og framtöl er að ræða, svo að hann hefði átt að fara dálítið varlega í það að fara að leita til lögfræðinga um þessi mál. Og hann hefði átt að fara enn þá varlegar í það vegna þess, að menn fara kannske að halda, að þetta eigi að verða einhver föst regla hjá ríkinu, í staðinn fyrir að dómstólar eigi að fjalla um eitthvað, þá eigi bara að kalla til einhverja og einhverja menn úti í bæ og láta þá segja til, hvað séu lög og hvað sé rétt og hvaða skaðabætur eigi að greiða og hvaða reikninga eigi að útbúa og annað slíkt. Ég held satt að segja, að einhverjir menn úti í bæ viti ekkert betur um, hvað sé andi laga, heldur en við hér á Alþ. Og ég hefði gjarnan viljað sjá framan í þessa menn og ræða við þá, sem stjórn áburðarverksmiðjunnar hefur talað við og þeir hafa getað sannfært um að ætti að útbúa reikningana svona. Og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. landbrh., svo framarlega sem hann heldur, að þessir reikningar áburðarverksmiðjunnar fyrir árið 1959 hafi verið útbúnir samkv. lögum, af hverju hann leggur þá sérstakt frv. hér fram fyrir Alþ., þar sem hann fer fram á, að þessum lögum sé breytt, þannig að einmitt 10. gr. verði orðuð öðruvísi og þar sé ekki reiknað lengur með kostnaðarverði, heldur sé reiknað með endurnýjunarverði. Og ég á eftir að sjá hann fá það stjfrv. fram í gegnum þingið. Nei, áburðarverksmiðjustjórnin hefur séð það, að hún braut lög, áburðarverksmiðjustjórnin hefur séð, að ráðunautarnir, sem hún hefur haft, hafa ráðlagt henni skakkt. Þeir ætla að reyna að bæta fyrir þetta eftir á með því að breyta lögunum. En þeir eru bara ekki búnir að því. Hvort andi laga sé sá, að það eigi að reikna afskriftir miðað við það, að ein verksmiðja geti endurnýjað sig, geti keypt sínar vélar, eða hvort það eigi að miða við kostnaðarverð, það er alveg tvennt ólíkt. Það geta mælt mörg skynsamleg rök fyrir því, að ein verksmiðja megi afskrifa sig þannig. að hún geti endurnýjað sig, en þar með er ekki sagt, að það sé löglegt. Þó að einhver hlutur sé skynsamlegur, þá er þar með ekki búið að draga þá ályktun af því, að hann sé um leið löglegur.

Því miður fer þetta oft á víxl. Ef allt væri þannig hjá okkur í þjóðfélaginu, að allt, sem skynsamlegt væri, væri um leið löglegt, þá liti þetta öðruvísi út, sérstaklega ef menn kæmu sér saman um, hvað væri skynsamlegt.

Nei, það, sem er löglegt, það er það, sem er ákveðið með lögum, og það, sem ákveðið er með lögum, er, að áburðarverksmiðjuna skuli afskrifa miðað við kostnaðarverð. Og ef til vill man hæstv. landbrh. það, að um leið og þetta mál, sem hann lagði hér fyrir um breytingu áburðarverksmiðjunnar, var rætt hér í þinginu, þá komu hans eigin flokksmenn fram og það einmitt sérstaklega þeir menn, sem vit hafa á þessum málum, til þess að gera athugasemdir við þetta. Og hann veit ósköp vel, hvað þetta mundi þýða. Ég er ekki að neita, að það sé ýmislegt skynsamlegt í því, að hana megi afskrifa miðað við endurnýjunina. En hvað mundi sú regla þýða, hvað mundi það þýða viðvíkjandi Sogsvirkjuninni? Raforkan, sem áburðarverksmiðjan borgar á síðasta ári, er 3,8 millj. Það er verð, sem er langt fyrir neðan allt, sem skynsamlegt er. Það er helmingurinn af allri raforkunni, sem hún framleiðir, en langt fyrir neðan allt, sem skynsamlegt er að selja það á. En það er löglegt, af því að það hefur verið gerður samningur um það. Ef Sogsvirkjunina ætti að mega afskrifa miðað við endurnýjunarverð, hvað heldur hæstv. ráðh. að verðið væri á rafmagni í dag, bæði til áburðarverksmiðjunnar og annarra? Vissulega hefur stjórn Sogsvirkjunarinnar einatt og oft dottið í hug að fara fram á það, að hún mætti afskrifa eitthvað dálítið öðruvísi en hún má núna. Hún hefur gjarnan viljað eignast einhverja sjóði. En hún hefur ekki mátt það. Af hverju? Af því að lögin banna það, af því að lögin fyrirskipa henni, að hún skuli selja rafmagn með kostnaðarverði plús 5%. Og í þessu kostnaðarverði er ákveðinn hluti, hvað hún má afskrifa. Og það mundi ekki nægja fyrir endurnýjun.

Af hverju eru öll þessi ákvæði sett þarna inn? Af því að það er verið að hugsa um ákveðna aðila, sem í þessu efni eru neytendur. Það er verið að hugsa um þá, sem kaupa rafmagnið, þegar svona ákvæði eru sett viðvíkjandi Sogsvirkjuninni. Það er verið að hugsa um bændurna, sem kaupa áburðinn, þegar ákvæðin eru sett viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni. Það er þarna miðað við kostnaðarverð. Það stendur f lögunum, og það er það löglega. En andi laganna, það er allt annar hlutur í þessu sambandi. Það er satt að segja einmitt sérstaklega, þegar peningar eru annars vegar, að þá þýðir andinn venjulega ekki mikið. Það eru tvö element, sem eiga ákaflega erfitt með að samrýmast.

Þess vegna þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðh. að fara að leita til einhverra og einhverra góðra manna úti í bæ og fá einhverja umsögn hjá þeim, að það sé ósköp skynsamlegt og líklega hafi einhverjir hugsað þetta, þegar þeir hafi verið að ræða þetta, og annað slíkt. Bókstafurinn blífur í þessu efni. Og hæstv. ráðh. hefur séð þetta sjálfur eftir á og leggur til nú á þessu Alþ. að breyta þessum lögum, en bara eftir að hann er búinn að taka þátt í því að brjóta lögin.

Hann segir hér, að þeir, sem sömdu lögin, hafi ætlazt til þessa og þessa. Ætlar hann að fara að segja mér, að þeir, sem sömdu lögin, hafi ætlazt til þessa í sambandi við kostnaðarverðið, en tekur ekki gilt það, sem er skráð í lögunum, að þetta sé sjálfseignarstofnun ríkisins, og tekur ekki gilt það, sem er skráð í lögunum, að hlutafélagið sé aðeins rekstrarhlutafélag, hún skuli bara rekin sem hlutafélag, en ekki eign? Ætli ég hafi ekki anda laganna og bókstafinn líka betur með mér í mínum skilningi heldur en hæstv. ráðh., sem reynir að leita í einhvern óljósan anda grg. eða fá einhverja lögfræðinga úti í bæ til þess? Nei, ég er hræddur um, að það þýði ekki. Þessir lögfræðingar, sem hæstv. ráðh. hefur ráðfært sig við í þessu sambandi eða stjórn áburðarverksmiðjunnar, þeir hafa brotið lögin, þeir hafa útbúið ranga reikninga og standa nú uppi eins og þvara og fá þess vegna hæstv. ráðh. til þess að leggja fram lagafrv. hér við þingið, sem ekki er orðið að lögum enn þá, og þess vegna eru lög áburðarverksmiðjunnar óbreytt.

Svo af því að hæstv. ráðh. er nú landbrh. og ber alveg sérstaklega, eftir því sem hann segir, hag bænda fyrir brjósti, má ég þá kannske minna hann á 8. gr. laganna. 8. gr. laganna hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Áburðarsala ríkisins kaupir af verksmiðjunni áburð til notkunar innanlands fyrir kostnaðarverð, er verksmiðjustjórn áætlar og ákveður fyrir 1. marz ár hvert að fengnu samþykki landbrh. Í hinu áætlaða kostnaðarverði skal reiknað með nauðsynlegum og lögákveðnum tillögum í fyrningarsjóð og varasjóð verksmiðjunnar.“

Þetta segja lögin. Þau segja, að það skuli ákveða áburðarverð miðað við kostnaðarverð og í því áætlaða kostnaðarverði skuli reiknað með lögákveðnum tillögum í fyrningarsjóð og varasjóð verksmiðjunnar, — ekki með anda grg. eða anda lögfræðinganna, heldur lögákveðnum.

Með því að afskrifa um 7 millj. kr. meira heldur en leyfilegt er eftir lögunum er verið að gera áburðarverðið hærra en það þyrfti að vera. Það var bæði hægt að hækka laun verkamanna við verksmiðjuna og lækka áburðinn, ef ekki var verið að fela gróða verksmiðjunnar í svona og svona miklum afskriftum. Og þetta var það, sem átti að gera. Þarna er þess vegna engin afsökun. Það er ekki bara 10. gr., sem er brotin, það er 8. gr. líka.

Svo talaði hæstv. ráðh. um það, að endurskoðendurnir hefðu farið yfir þetta, það hefðu ekki bara verið einhverjir lögfræðingar úti í bæ. Hvað segir nú annar endurskoðandinn, sem endurskoðar. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég undirritaður endurskoðandi Áburðarverksmiðjunnar h/f hef yfirfarið reikninga félagsins, sem samdir eru eftir bókum og fylgiskjölum pr. 31. des. 1959 af löggiltum endurskoðanda, og hef ég ekki aðra athugasemd við þá að gera en ég vil benda á, að afskriftir eru reiknaðar og birgðir metnar á annan hátt en áður.

Gufunesi, 1. febr. 1960.

Halldór Kjartansson.“

Það er mjög kurteislega orðað hjá endurskoðandanum, eins og hans er von og vísa. Afskriftir eru reiknaðar á annan hátt en áður. Hingað til hafa þær verið löglegar, nú er hafður annar háttur á því, ekki löglegur. Það er hins vegar greinilegt, að mönnum hefur þótt tími til kominn um leið að fara að færa þetta í löglegt form, og þess vegna hefur hæstv. landbrh. lagt frv. fyrir Alþ.

Nei, það var rangt að færa þetta svona. Og það var sem sé hægt bæði að hækka launin, láta aftur til verkamannanna þessa ½ millj., sem var af þeim tekin á síðasta ári, og lækka áburðarverðið til bændanna.

Viðvíkjandi birgðunum er ég ekki svo vel að mér í rekstri áburðarverksmiðjunnar, að ég viti nokkuð, hvað þar sé átt við eða hvernig þær eru taldar, en ef til vill gæti hæstv. landbrh. upplýst okkur um það. Ég veit ekki, hvort það er ef til vill farið álíka með birgðirnar eins og með afskriftirnar, — ég vona ekki. En mér er sem sé ekki kunnugt um, á hvaða verði þær hafa verið reiknaðar.

En svo komum við að seinni hluta ræðunnar hjá hæstv. ráðh., og hún var svei mér ekki falleg, og hún gefur aldeilis til kynna, hvort muni vera efnilegt að fara að vísa þessu máli til ríkisstj. Hvaða orð eru það, sem hæstv. ráðh. notar? Hann talar um, hvort ríkið kaupi áburðarverksmiðjuna. Ríkið á áburðarverksmiðjuna, ríkið á hana og enginn annar. Það er alls ekki um það að ræða, að ríkið kaupi áburðarverksmiðjuna, heldur sé því slegið föstu, að ríkið eigi hana. Þegar hæstv. ráðh. mælir svona orð, þá er hann augsjáanlega sjálfur að hverfa frá því, sem hann hefur áður staðið á, að þessi áburðarverksmiðja væri sjálfseignarstofnun, m.ö.o. eign ríkisins. Hann segir enn fremur í sinni ræðu: gera verksmiðjuna að ríkiseign. — Það þarf ekki að gera þessa verksmiðju að ríkiseign, hún er það samkv. 3. gr. laganna. Verksmiðjan er sjálfseignarstofnun, er lýtur sérstakri stjórn. Hún er sjálfseignarstofnun á sama hátt og Landsbankinn t.d., og enginn mundi neita því, að Landsbankinn væri ríkiseign. Þegar þess vegna hæstv. ráðh. talar um að gera verksmiðjuna að ríkiseign, þá er hann augsjáanlega í sínu hugskoti að ganga út frá því, að hún sé eign annarra, en ekki ríkisins. Og það er einmitt þar, sem hættan er í þessum málum. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. gerir sér bókstaflega ljóst, hvað hann er að fara, þegar hann er að reyna að deila á mig og segja, að ég sé að væna hluthafana um að græða. Ég hef margtekið eitt fram í þessu sambandi. Ég hafði aldrei vænt sérstaklega þá hluthafa, sem lagt hafa þarna fram 4 millj., um, að þeir sérstaklega hafi verið að gera þetta í gróðaskyni, en ég hef vænt ráðh., sem hér hafa setið áður, og nú mundi ég beina því að hæstv. landbrh. líka eftir þessi orð hans í síðustu ræðu, ég hef vænt þá um að vera af vítaverðu gáleysi að glopra 300 millj. kr. fyrirtæki úr eigu ríkisins í eigu hluthafa, og nú ásaka ég hæstv. landbrh. með þeim orðum, sem hann notar í sinni síðustu ræðu, fyrir að vera að gerast meðsekur um þetta, þegar hann notar orð eins og þetta, að ríkið eigi að kaupa áburðarverksmiðjuna eða það eigi að gera áburðarverksmiðjuna að ríkiseign. Sá hugsunarháttur, sem hann gengur út frá, þegar hann talar svona, er að sá sem á áburðarverksmiðjuna núna, sé hlutafélagið, Áburðarverksmiðjan h/f. Í Áburðarverksmiðjunni h/f er 10 millj. kr. hlutafé. Af þessu 10 millj. kr. hlutafé eiga einstakir aðilar 4 millj. kr. Áburðarverksmiðjan er í dag yfir 300 millj. kr. virði. Ef sú skoðun, sem gloprast nú út úr hæstv. landbrh., yrði virkilega ofan á, þá yrði m.ö.o. litið þannig á, að þessir hluthafar, sem eiga þarna 10 millj. kr., eigi fyrirtæki, sem ég tala nú ekki um með svona afskriftum eins og nú er farið að framkvæma, en annars með afskriftum, sem á 20 árum geta skrifað það niður í kostnaðarverð eða geta afskrifað hana alveg, — þá eiga þeir yfir 300 millj. kr. fyrirtæki, og þá getur hæstv. landbrh. farið að tala um, að einhverjir hluthafar ætli að græða. Ef 4 millj. kr. eign í slíku fyrirtæki ætti þá að jafngilda því, ef ekki verður búið að lækka gengið nokkuð oft þangað til, að þær 4 millj. kr. jafngiltu í eign svona 120 millj. kr., þá er hægt að tala um, að hluthafar fari að græða. Og ef haldið er áfram að afskrifa áburðarverksmiðjuna eins og núna væri gert, þá er ekki lengi verið að afskrifa hana þannig, að það eru engin 20 ár, þangað til þetta hlutafélag væri álitið eigandi verksmiðjunnar, ætti hana alla saman.

Nei, ég dreg ekkert í land með þau stóru orð, sem ég hef haft á undanförnum árum um þetta, og það, sem hryggir mig í þessu sambandi, er, að menn, sem hafa verið með mér í fjhn. þessarar d., þegar við höfum fjallað um þetta mál, og hafa sýnt skilning á því, að hér væri um fyrirtæki ríkisins að ræða, skuli nú vera farnir að smitast þannig af þessari prívat-kapítalistísku skoðun, sem er að reyna að ryðja sér til rúms, að þeir séu farnir að líta þannig á, að það þurfi að kaupa þessa verksmiðju, sem ríkið á, það þurfi að gera hana að ríkiseign, þessa verksmiðju, sem ríkið á. Hér er stærsta fjármálalegt hneykslismál á ferðinni, — og eru þau mörg hér á Íslandi, — sem komið hefur upp um langan aldur, og það er alveg greinilegt, að það eru síðustu forvöð, að Alþingi taki í taumana, slái skjaldborg um þessa eign ríkisins, sjái um það, að þessu sé ekki af ráðherrum, sem tala ógætilega, ráðherrum, sem eiga að vernda eignarrétt ríkisins, gloprað út úr eigu ríkisins. Ég hef aldrei verið að væna hluthafana um það, að þeir væru að reyna að eignast þetta með þessu. Ég veit ósköp vel, að það eru engir prívat-kapítalistískir hluthafar til svo vitlausir, að þeim detti í hug, að með því að leggja 4 millj. kr. í 300 millj. kr. fyrirtæki geti þeir eignazt það. Svona vitleysa getur aðeins komið upp í kollinum á ráðherrum, sem mismæla sig.

Ég held þess vegna, að það, sem þarna er um að ræða, þó að ráðherrar hafi hér á árunum gefið vitlausar yfirlýsingar, þó að hæstv. landbrh. tali núna svona klaufalega, þá sé þarna um að ræða, að þessu þarf að slá föstu, að þetta fyrirtæki er ríkiseign. Hins vegar eigum við að gera vel við þessa hluthafa. Þeir hafa lagt þarna fram sínar 4 millj. kr. Ég vil ekki aðeins borga þeim þeirra 6% fyrir öll þessi ár, ég vil borga þeim meira fyrir þetta, eins og ég legg til þarna í 3. gr., en klára það strax við þá. Hafa allir þingflokkarnir eftir minni till. í 3. gr. aðstöðu til þess að sjá svo um, að það sé ekki verið að níðast á þessum hluthöfum, og sjálfur hef ég enga tilhneigingu til þess. Ég skyldi gjarnan fyrir mitt leyti samþykkja að borga þeim tvöfalt eða þrefalt það hlutafé, sem þeir lögðu þarna fram. Það er alls ekki um það að ræða. Við vitum allir saman, það er opinbert leyndarmál, hvernig þetta er til komið. Þetta er til komið undir þrýstingi frá Bandaríkjunum. Það var eitt af því, sem Marshall-hjálpin gerði að skilyrðum fyrir fyrirtæki, sem reist væru fyrir hennar fé, að það ættu ekki að vera ríkisfyrirtæki, og þess vegna var á síðustu stundu, eftir að búið var að afgreiða þetta mál sem ríkisverksmiðju hér í Nd., því breytt við 2. umr. í Ed. á síðustu dögunum á því annaþingi 1949 fyrir kosningarnar.

En sú glópska, þó að það væri látið undan í vitleysu þá, að fara að ætla þess vegna að glopra þessu út úr höndum ríkisins, það er stórhættulegt. Sú ríkisstj., sem tók við eftir 1952, stóð betur á verði í þessu efni. Við vissum það ósköp vel, að sementsverksmiðjan tafðist um tvö ár, vegna þess að Bandaríkjastjórn reyndi að knýja það fram, að hún væri gerð að einkafyrirtæki. Það var ekki látið undan með það. Það var haldið fast við það, að sementsverksmiðjan væri eingöngu ríkiseign. Og það er sannarlega tími til kominn, að þessar vitleysur, sem voru settar inn með 13. gr., séu gerðar afturreka og séu ekki látnar spilla neinu lengur. En ég vil bara benda þeim meiri hl. í fjhn., sem núna lagði til, að þessu máli sé vísað til ríkisstj., — haldið þið, að það sé nú efnilegt að vísa þessu máli til ríkisstj., þegar einmitt sá hæstv. ráðh., sem að öllum hinum ólöstuðum hefur oft verið einna beztur í þessu máli, meðan hann átti sæti í fjhn., er núna farinn að ruglast þannig í ríminu, að hann er farinn að tala um, að ríkið þurfi að kaupa þessa verksmiðju, og þegar þeim getur dottið í hug, jafnvel ríkisstj., að hún þyrfti að fara að semja við þessa hluthafa.

Ríkið hefur ekkert við þessa hluthafa þannig að semja. Ef ríkið er búið að breyta lögunum eins og ég legg til, þá er enginn lagalegur grundvöllur til fyrir þessu hlutafélagi, ekki neins staðar, það getur fengið að starfa, og þeir geta horft á hlutabréfin sín, en ef þeir vilja fá eitthvað fyrir þau, þá eiga þeir það undir samningum við ríkið, og það er gert ráð fyrir því í 3. gr., að ríkið geri góða samninga við þá um það.

Ég vil benda á, að það er stórhætta í því að vísa þessu máli til ríkisstj. Ríkisstj. gæti tekið upp á því að fara að semja við hluthafana fyrir næsta þing. Hún gæti bókstaflega farið að tala við þá eins og þeir væru einhverjir meðeigendur í verksmiðjunni. Hún gæti farið að tala við þá eins og þeir ættu einhvern eignarrétt á 100 millj. í þessari 300 millj. kr. verksmiðju. Ég vil þess vegna eindregið leggja til við hv. d., að hún samþykki mitt frv., en vísi þessu máli ekki til ríkisstj. Það eru sannarlega komin síðustu forvöð. Það eru nú tíu ár, síðan þetta frv. var samþ. og frá því að sú barátta hófst að reyna að tryggja tvímælalausa eign ríkisins á því, eins og það er eftir lögum.

Ég vil þess vegna vonast til þess, að hv. þm. alveg án tillits til þess, hvar þeir standa í flokki, sjái til þess, að það sé ekki haldið áfram á þessum hættulega vegi, sem undanfarið hefur verið farinn með síendurteknum meira eða minna vitlausum yfirlýsingum ráðh., sem mundi lykta með því, ef svona væri haldið áfram, að glopra þessu fyrirtæki út úr höndum ríkisins og valda ríkinu stórkostlegu tjóni.