17.05.1960
Neðri deild: 83. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (2163)

13. mál, áburðarverksmiðja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Enda þótt hv. 3. þm. Reykv. (EOl) segði það hér áðan, að hann vildi ekki draga í land eða taka aftur þær fullyrðingar, sem hann viðhafði í fyrri ræðu sinni, þá held ég samt, að hv. þm. geri sér ljóst, að hann gerði það nú samt, og fullyrðingar hans í síðustu ræðunni byggjast eingöngu á misskilningi. Þær byggjast á þeim misskilningi, að hann telur, að umsögn prófessors í lögum við Háskóla Íslands sé einskis virði. Og úr því að hann dregur sínar fullyrðingar frá forsendum, sem ekki eru mikilvægari en þetta, þá tel ég, að það sé ekki þörf á því að halda langa ræðu til andsvara þeim fullyrðingum, sem hann hér viðhafði.

Stjórn áburðarverksmiðjunnar leitaði til prófessors í lögum við Háskóla Íslands, ekki um það, hvort það væri skynsamlegt að auka afskriftirnar eins og hv. þm. sagði hér áðan, heldur hvort það væri löglegt þrátt fyrir bókstaf laganna að gera það, og umsögn prófessorsins var sú, eftir að hann hafði kynnt sér grg. frv. og umr. við lagasetninguna, að það væri löglegt þrátt fyrir bókstaf laganna að hækka afskriftirnar. Og fleiri lögfræðingar hafa þar komið við sögu. Í stjórn verksmiðjunnar er enginn lögfræðingur, og hv. 3. þm. Reykv. er ekki heldur lögfræðingur. Og það er þess vegna, sem stjórn verksmiðjunnar leitaði til lögfræðings og lögfræðinga, og ég vil kenna þessum hv. þm., 3. þm. Reykv., áður en hann fer að fullyrða næst, áður en hann fer að hafa svo stór orð hér í ræðustól, sem gætu jafnvel skaðað hann sjálfan, að þá leitaði hann til lögfræðings og lögfræðinga, jafnvel prófessors í lögum, um það, hvort sú fullyrðing, sem hann fer með í sambandi við túlkun laga, hefur við rök að styðjast. Ég vildi gjarnan, að hv. 3. þm. Reykv. athugaði þetta í ró og næði, áður en hann kemur hér í ræðustólinn aftur með slík stóryrði sem hann viðhafði hér áðan.

Ástæðan til þess, að lagt er til að breyta bókstaf laganna, áburðarverksmiðjulaganna, á þá lund, að heimilt sé að hækka afskriftir, er eingöngu sú, að stjórn áburðarverksmiðjunnar telur eðlilegt, að þar fari saman bókstafur laganna og andi laganna, þannig að það þurfi ekki lögfróða menn, það þurfi ekki prófessora í lögum til þess að túlka lög um áburðarverksmiðju á réttan hátt. Stjórn áburðarverksmiðjunnar vill hafa lögin þannig úr garði gerð, að hún sjálf geti lesið úr þeim og þurfi ekki að fá aðstoð prófessors í lögum til þess að komast að réttri niðurstöðu.

Hv. 3. þm. Reykv. fullyrti það hér áðan og hefur reyndar gert oft áður, að lögin um áburðarverksmiðjuna væru vansmíð, þau væru illa gerð. Ég held þess vegna, að hann ætti sízt allra að undra það, þótt það þyrfti að breyta lögunum að þessu leyti, ef bókstafur laganna í augum ólöglærðra manna túlkar í rauninni allt annað en þeim er ætlað að gera og lögin sjálf í augum ólöglærðra manna eru nokkurs konar rúnaletur, sem enginn geti lesið úr nema sérfræðingar. Það er þess vegna ekki skrýtið, þó að gert sé ráð fyrir því í frv., sem áður var nefnt, að lögunum verði breytt á þennan hátt, og ég stend hér upp aftur aðeins til þess að árétta það, sem ég sagði áðan, minna á það, að fullyrðingar hv. 3. þm. Reykv. hér áðan eru byggðar á misskilningi, og þess vegna er ekki ástæða til að taka eins strangt á þeim og ella, — byggðar á þeim misskilningi, þeim raunalega misskilningi að gera að engu, að meta einskis úrskurð lagaprófessors við Háskóla Íslands um túlkun þessara laga.

Um það, hvort það sé ekki hagur bænda að fá áburð sem ódýrastan, þurfum við náttúrlega ekki að fara að ræða hér. Við hljótum að vera sammála um, að það sé bezt fyrir bændur að fá áburðinn sem ódýrastan. En við getum þá líka verið sammála um fleira. Við getum verið sammála um það, að eins og það er nauðsynlegt fyrir bændur að fá áburð í dag, svo er það líka nauðsynlegt fyrir þá að fá áburð í framtíðinni og ekki aðeins þann áburð, sem áburðarverksmiðjan í Gufunesi getur framleitt nú, heldur algildan áburð. Og ég hygg, að bændur séu því samþykkir, að Áburðarverksmiðjan h/f sé rekin á þann veg, að hún geti byggt sig upp, hún geti stofnað til aukningar, að að því verði unnið, að bændur geti fengið íslenzkan áburð eins og þeir þurfa við hæfi íslenzks jarðvegs. Og það er vitað mál, að þegar ein áburðarverksmiðja hefur starfað í nokkur ár, þá kemur fram mikið og dýrt viðhald á vélum verksmiðjunnar, og þessar vélar er ekki unnt að endurnýja nema með miklum tilkostnaði.

Við vorum að tala hér áðan um ræktunarsamböndin, að þau gætu ekki endurnýjað vélarnar. Hvers vegna? Það var vegna þess, að þau áttu ekki í sjóði, þau áttu ekki í fyrningasjóði til þess, og nú standa þau uppi ráðalaus og vita ekki, á hvern hátt þau geti aflað sér aftur þessara nauðsynlegu véla. Ég held, að það sé í þágu bændastéttarinnar að koma í veg fyrir það, að áburðarverksmiðjan standi nokkurn tíma í þeim sporum, sem sagt er að ræktunarsamböndin standi í dag.

Svo um eignarrétt verksmiðjunnar. Hv. 3. þm. Reykv. talar hér um hlutafélag. Hann talar um, að hlutaféð sé 10 millj. Hann talar um, að ríkið eigi 6 millj. og hluthafarnir 4 millj. Ég skil ekki, að það sé þá mikill vandi að skera úr því, hvernig með eignarréttinn er í þessu fyrirtæki, og ég undrast það, að hv. 3. þm. Reykv. skuli svo oft sem hann gerir koma hér upp og tala eins og það sé einhver vafi um eignahlutföllin, þegar það er alveg skýrt tekið fram, hvað hver hefur lagt fram.

Ég sé svo ekki ástæðu til að segja fleira í þessu sambandi, en segi það aftur, sem ég sagði áðan, að þar sem fullyrðingar hv. þm. eru byggðar á hreinum misskilningi, þá þarf ekki að taka þær eins alvarlega og annars væri.