17.05.1960
Neðri deild: 83. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (2164)

13. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. byrjaði sína ræðu með því að tala um, að ég hefði viljað láta svo sem umsögn jafnvel prófessora væri einskis virði.

Ég var ekkert sérstaklega að segja það. Umsögn slíkra manna getur oft verið mjög „interessant“, gefið t.d. góða hugmynd um þeirra hugsunarhátt og ýmislegt slíkt. En hún getur verið röng. Það er eitt, sem þeir aðilar, hvort sem það eru hæstaréttardómarar, prófessorar eða aðrir slíkir háttstandandi menn í þjóðfélaginu, sem eru kvaddir til þess að gera út um ýmsa svona mikilvæga hluti, ættu að temja sér, þegar til þeirra er kallað, og það er, sem er eitt grundvallaratriði í allri lögfræði og allri dómfærslu, það er að hlusta líka á hinn málsaðilann. Það er rétt fyrir þessa aðila að kynna sér málin dálítið betur, áður en þeir kveða upp sína úrskurði, hverjir svo sem þeir eru, lagaprófessorar eða hæstaréttardómarar eða aðrir slíkir. Og ég er hræddur um, að áður en þeir fara að kveða sína úrskurði upp um, hvað þeir áliti að sé löglegt, og ætla að fara þar eftir því, hvað komið hafi fram í grg. og annað slíkt, þá þurfi þeir að rannsaka afstöðu löggjafans sjálfs. Það er hann, sem er æðsti aðilinn í þessu efni. Það eru svo og svo margir lögfræðingar, dómarar, prófessorar og aðrir slíkir menn til í þessu þjóðfélagi, en sá, sem er æðstur af þessum öllum saman, er Alþingi, löggjafinn sjálfur, og þótt hvorki ég né hæstv. ráðh. sé lögfræðingur, þá erum við þáttur úr þessum löggjafa og höfum tekið þátt í að semja ákveðin lög og ákveða þar með, eftir hverju hinir eiga að fara. Og það er það, sem við verðum að ætlast til af þessum mönnum, þegar þeir eru tilkvaddir um eitthvað, að þeir geri svo vel og kynni sér aðstæður í þessum málum, og ég er hræddur um, að þeir hafi ekki kynnt sér þær sérstaklega vel, þessir sem kváðu þetta upp.

Ég hef ekki mælt hér á móti því, að það gætu verið ýmis skynsamleg rök, sem mæltu með því, að ef til vill væri afskriftum háttað öðruvísi en fyrir er mælt í lögum, að það skuli miða við kostnaðarverð. Ég get vel trúað t.d., að þeir, sem hafa samþykkt upphaflega ákvæðin um kostnaðarverð, hafi gengið út frá, að krónan héldist í nokkuð svipuðu verði. Það var samþykkt fyrir kosningar 1949, og mönnum hefur þá ekki dottið í hug líklega, að Sjálfstfl. færi að fella krónuna 1950 og aftur 1960 og að allir fyrningarsjóðir yrðu þess vegna tiltölulega lítils virði og annað slíkt. En hverju sem menn kunna að hafa gengið út frá í þessu, þá stendur hitt, að það er svo mælt fyrir, að það skuli vera afskrifað eftir kostnaðarverði, og þetta er ekki aðeins um áburðarverksmiðjuna, þetta er um Sogsvirkjunina, þetta er um öll ríkisfyrirtæki, og þetta er um öll einkafyrirtæki. Og eitt af því, sem þeir menn, jafnvel prófessorar í lögum, sem áburðarverksmiðjustjórn talar við, ættu að gera sér ljóst, er, að ef þeir segja: Það á að afskrifa áburðarverksmiðjuna miðað við anda laga og þar af leiðandi endurnýjunarverð, þá mundi slíkt gilda líka viðvíkjandi Sogsvirkjuninni og hvaða öðru fyrirtæki sem er, — öll sömu rökin sem hægt er að færa fram fyrir, að það sé ósköp gott að eiga peninga seinna meir fyrir vélum til þess að geta endurnýjað áburðarverksmiðjuvélar, heyvinnuvélar, alls konar rekstrarvélar í sambandi við landbúnað, beltisdráttarvélar eða annað slíkt, raforkuvélar og allt mögulegt annað slíkt. Vissulega er hægt að færa mörg rök að því. Kannske væri líka hægt að færa einhver rök að því, að það væri ekki rétt gott, að það væri verðbólga eða gengið væri lækkað, og það væri dálítið slæmt fyrir fyrningarsjóði, sem þessar afskriftir eru lagðar í, að gengið væri lækkað rétt á eftir, og kannske ætti að gera sérstakar ráðstafanir fyrir því. Kannske þeir litu þannig á, að svona gengislækkanir væru ólöglegar, vegna þess að það er raskað öllum útreikningum í því, sem sé andi laganna í sambandi við þessa hluti. Nei, við gætum rætt endalaust um þessa hluti, það stendur jafnt í lögunum þarna, að það eigi að miðast við kostnaðarverð, og meðan þeim lögum er ekki breytt, þá hefur löggjafinn, sem er æðsti aðilinn í þessum efnum, kveðið upp sinn dóm, og þá er það ekki annarra að kveða upp dóminn.

Hæstv. ráðherra talar hér um, að það sé bezt fyrir bændur, að það væri hægt að láta þá fá afskriftir, bezt, að áburðarverksmiðjan gæti eignazt peninga til þess að geta keypt sér vélar, þegar þessar væru orðnar ónýtar. En hver segir það, herra ráðherra, að áburðarverksmiðjan eigi einhverjar vélar, eigi einhverja peninga fyrir vélum, þó að þær afskrifist svona? Hver segir, að það verði ekki lækkað gengið aftur eftir 5 eða 10 ár, þeir fyrningarsjóðir séu aftur gerðir ónógir og dugi ekki til þess að kaupa inn fyrir þetta? Er það ekki það, sem menn hafa verið að reyna viðvíkjandi öllum mögulegum öðrum fyrningarsjóðum? Það er ekki til neins að koma með slík rök. Það er alveg eins hægt að koma með þau rök, að það væri ekki til neins að vera að afskrifa neitt og leggja neitt í sjóði, vegna þess að það komi alltaf einhver máttarvöld, sem fyrirskipi Íslendingum að afskrifa alla sjóði á 10 ára bili og gera peningana einskis virði, þannig að það sé bezt að halda verðinu eins lágu og hægt sé og sjá svo til, hvernig maður geti lagt í hitt á eftir.

Með svona festuleysi í þjóðfélaginu sem þarna er, þá er hægt að beita rökum á allan mögulegan máta. En segjum nú, að þessi rökfærsla sé tekin gild, þau rök hæstv. ráðherra, að það sé bezt fyrir bændur, að áburðarverksmiðjan ætti fyrir því að kaupa sér vélar, þegar þessar væru orðnar ónýtar. Segjum svo, að þetta sama verði þá að gilda um Sogsvirkjunina, að það verði líka að fá að afskrifa hana. Henni er haldið niðri þannig, að hún hefur enga möguleika til þess að afskrifa neitt. Sogsvirkjunin verður með hverri nýrri virkjun að reyna að taka ný lán til þess.

Hvernig mundi þá líta út fyrir áburðarverksmiðjunni, ef sama lögmálið, sem hæstv. ráðh. segir að sínir prófessorar álíti að eigi að gilda fyrir áburðarverksmiðjuna, gilti líka fyrir Sogsvirkjunina? Hvað skyldi rafmagnið þá kosta til áburðarverksmiðjunnar, og hvað skyldi þá áburðurinn þar af leiðandi kosta, jafnvel þó að ekki væri svona farið að í afskriftunum eins og nú er gert?

Hæstv. ráðherra segir, að það hafi ekki verið spurt að því, hvort þetta væri skynsamlegt, það hefði verið spurt að því, hvort þetta væri löglegt þrátt fyrir bókstaf laganna. Þar hef ég aðeins eitt að segja við hann: Hafi einhverjir prófessorar gefið honum eða þeim í áburðarverksmiðjunni svona úrskurð, þá hefur það verið rangur úrskurður. Það er aðeins einn aðili, sem þarna getur breytt, það er Alþingi. Og hæstv. landbrh. er búinn að fara fram á við Alþingi, að það geri það, og Alþingi um það, en fyrr en Alþingi hefur gert það, er ekki rétt að breyta þessu einmitt í því að leggja þetta fyrir Alþingi, með því að leggja það frv. fyrir Alþingi, sem ríkisstj. lagði hér fyrir um áburðarverksmiðjuna, er raunverulega verið að viðurkenna, að þetta var rangt.

Viðvíkjandi túlkun laga er það vissulega gott, að lög séu það skýr, að það sé hægt fyrir hvern mann að skilju þau. Það er nú eitthvað nýtt hjá hæstv. ríkisstj., að hún sé að bera umhyggju fyrir slíku. Ég veit ekki til þess, að nokkur ríkisstj. hafi nokkurn tíma sett önnur eins lög í gegnum þingið og sá bandormur var, sem settur var í gegnum þingið í vetur. (Gripið fram í.) Jú, en hann var svo þvælinn hvað snertir lagabreytingarnar, að hann fór fram úr öllum þeim bandormum, sem meira að segja þjóðstjórnin hafði nokkurn tíma samþykkt, og hann var sannarlega ekki til þess að auðvelda almenningi að geta skilið það, hvað voru lög í landinu. Og ég er hræddur um, eins og hæstv. landbrh. sagði, að það þurfi prófessora til þess að túlka, hvað séu lög, þegar þannig er farið að.

Þá talaði hæstv. ráðh. um, að ég hefði oft sagt, að þessi lög væru vansmíð. Þessi lög eru vansmíð aðeins að einu einasta leyti. Þau eru mjög skýr yfirleitt nema 13. gr. — 13. gr. stangast á við öll lögin. Hún er í mótsetningu við þau. Hún er í mótsetningu við 3. gr. í l., hún er í mótsetningu við allan anda l., og hún er í mótsetningu við lögin, eins og þau höfðu áður verið undirbúin, allt frá því að fyrst var farið að tala um að reisa áburðarverksmiðju á Íslandi. Og það liðu víst ein 15 ár, frá því að var fyrst farið að tala um það, þangað til þessi lög voru samþ. Vansmíðin er eingöngu 13. gr., og þá vansmíði einmitt vil ég sníða burt.

Hæstv. ráðh. talaði um eignina á þessari verksmiðju. Mér þótti nú vænt um, að hann passaði sig á að endurtaka ekki neitt af vitleysunum, sem hann sagði í sinni fyrri ræðu, og það gefur mér nokkra von um, að hann sé nú aftur að átta sig. En ég held, að ég þurfi nú samt að skýra þetta dálítið fyrir honum, því að hann fór að tala um hlutafélagið. Það eru tveir aðilar, sem hafa með áburðarverksmiðjuna í Gufunesi að gera. Annar aðilinn er ríkið, sem á hana samkv. 3. gr. l., þar sem stendur: „Verksmiðjan er sjálfseignarstofnun, er lýtur sérstakri stjórn. Verksmiðjuna má hvorki selja né veðsetja, nema heimild sé veitt til þess af Alþingi.“ Þetta er sá aðili, sem á þessa verksmiðju, fyrirtæki, sem kostar nú yfir 300 millj., það er íslenzka ríkið. Það er sjálfseignarstofnun. Svo er annar aðili, sem hefur með verksmiðjuna að gera. Hans verkefni er að sjá um reksturinn á verksmiðjunni. Sá aðill starfar samkv. 13. gr. l. Í 13. gr. segir, að það sé heimilt, ef fáist þau framlög, sem þar greinir, og lýkur 1. mgr. þar með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta: „Og skal verksmiðjan þá rekin sem hlutafélag.“ M.ö.o.: samkv. 13. gr. er stofnað sérstakt rekstrarfélag, og það eru mörg dæmi slíks. Hæstv. ráðh. þyrfti ekki annað en athuga t.d. við skulum segja Völund hérna í bænum, þar sem fyrir löngu var aðgreint annars vegar eign og hins vegar rekstur, og þannig er með fleiri fyrirtæki. M.ö.o.: þarna eru tveir aðilar. Annars vegar er eigandi verksmiðjunnar, sem er ríkið, hún er sjálfseignarstofnun. Hins vegar er svo hlutafélag, sem um nokkurt skeið samkv. þessari 13. gr. mun sjá um rekstur verksmiðjunnar. Í því hlutafélagi er 10 millj. kr. hlutafé. Það dettur náttúrlega engum heilvita manni í hug, að með 10 millj. kr. hlutafé byggi maður verksmiðju, sem kostar 130 millj:. — 10 millj. kr. hlutafé getur maður e.t.v. lagt fram sem einhvern pínulítinn skerf til að velta þessu. En það er líka allt saman. Af þessum 10 millj. kr., sem eru þarna rekstrarhlutafé, á ríkið 6 millj. og einstaklingar 4 millj. Og það er eingöngu vegna þess, að ákveðinn landbrh. fyrir 7 árum eða 8 sagði hér á Alþ., að áburðarverksmiðjan væri eign þessa hlutafélags, að nokkurn tíma hafa komið upp efasemdir um það, hvernig háttaði um eignarréttinn á þessu fyrirtæki. Ég mótmælti þessari yfirlýsingu þá þegar. Forsrh. sá, sem veitti þeirri stjórn forstöðu, sem samþ. þessi lög, mótmælti því þá þegar. Forseti ríkisins hefur verið á sömu skoðun. En eins og meiri hl. fjhn. segir í sinu áliti, að það sé ekki talið ótvírætt um eignarrétt áburðarverksmiðjunnar, því þurfi að skera úr um það. Það kom mjög greinilega fram einmitt í framsöguræðu hv. frsm. meiri hl., hv. 5. þm. Reykv., að hann áliti þetta spurningu um eignarréttinn, hann áliti ekki, eins og glopraðist út úr hæstv. landbrh., í fyrri ræðu hans, að það kæmi til mála, að ríkið ætti að kaupa þessa verksmiðju, að það ætti að gera þessa verksmiðju að ríkiseign. Hann áleit, að það væri hins vegar spursmál, hvort hún væri núna ríkiseign, og það væri þetta, sem þyrfti að útkljá. Það er þess vegna alveg rangt, þegar hæstv. landbrh. er að tala um eignarhlutfall þarna í. Eignarhlutfall er aðeins þarna um að ræða í sambandi við, að ríkið á 6 millj. kr. af hlutafénu í rekstrarhlutafélagi. Um sjálfan eignarréttinn á áburðarverksmiðjunni er enginn efi. Ríkið á hana alla saman. Þess vegna vil ég leggja áherzlu á það, að eins og nú hefur verið staðfest með þeim klaufalegu yfirlýsingum, sem hæstv. landbrh. hefur gefið, með þeim röngu reikningum, sem stjórn áburðarverksmiðjunnar hefur látið frá sér fara, þá er hættulegt að fresta því lengur að skera alveg úr um það, að þessi áburðarverksmiðja sé ótvíræð ríkiseign, eign ríkisins eins og einskis annars. Þess vegna skora ég eindregið á hv. þm. að greiða atkv. með mínu frv., en vísa málinu ekki til ríkisstj.