27.11.1959
Neðri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2169)

15. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt nokkrum öðrum hv. þm. að bera fram á þskj. 15 frv. það, er hér liggur fyrir til 1. umr. Í grg. þeirri, sem fylgir frv., er tekið fram flest eða allt það, sem máli skiptir til skýringar á því, hvers vegna frv. er flutt.

Það er öllum kunnugt, hversu ræktun og landþurrkun hefur fleygt fram hér á landi, síðan hin stórvirku tæki, jarðýtur, skurðgröfur og stærri og smærri dráttarvélar, komu til sögunnar ásamt þeim mörgu gerðum jarðvinnslutækja, sem tengd eru við þessar vélar. Skýrsla sú um nýrækt í landinu, sem birt er í grg., sýnir, hvernig þróunin hefur verið síðan 1945, að lögin um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum tóku gildi, en það ár var nýræktin 1162 hektarar, en á s.l. ári var hún 3855 hektarar. Eins og grg. ber með sér, hefur þróunin í vélakaupunum, síðan lögin tóku gildi, verið sú, að sífellt hefur verið krafizt stærri og aflmeiri véla. Um næstu áramót mun verða lokið að mestu eða öllu kaupum á þeim vélum og verkfærum, sem styrkja ber samkv. l. um jarðræktarsamþykktirnar. Þá eru liðin 15 ár síðan lögin tóku gildi, og hefur á þeim tíma gerzt, að vélar, sem fyrst voru keyptar, eru nú að verða úr sér gengnar, bæði vegna slits og þess, að nú eru þær vélar taldar of smáar, þar sem aðrar stærri og stórvirkari gefa betri raun.

Það er með þessar ræktunarvélar, eins og allar aðrar vélar, að það þarf að endurnýja þær, leggja hinar úreltu og slitnu vélar til hliðar og kaupa í staðinn nýjar vélar og tæki, sem samrýmast nýjum kröfum um tækni og afköst. Í lögunum er gert ráð fyrir, að eigendur þeirra, ræktunarsamböndin, leggi árlega fé til hliðar, sem síðan verði notað til þess að endurnýja vélarnar og jarðvinnslutækin, þegar slit hefur gert þau ónothæf. Nú er komið í ljós og það fyrir alllöngu, að þessir fyrningarsjóðir geta ekki staðið undir hlutverki sínu vegna þeirra breytinga á verðlagi, sem orðið hafa á þessum 15 árum, og er skýrsla um þá verðbreytingu í grg. Sést þar, að vél, sem kostaði 43500 kr. árið sem lögin tóku gildi, Kostar núna, 15 árum síðar, 385 þús. kr., eða um það bil 8 sinnum meira en í upphafi.

Sá grundvöllur, sem lagður var í lögunum um jarðræktarsamþykktirnar að endurnýjun vélanna með fyrningarsjóðunum og átti að geta endurnýjað vélakostinn, hefur í raun og veru alveg brostið vegna hins síminnkandi verðgildis íslenzkra peninga. Hinar miklu sveiflur, sem orðið hafa á efnahagsmálasviðinu, knýja því til breytinga á lögunum um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, því að ekki dugir að hætta hinum miklu jarðræktarframkvæmdum, sem bændur landsins hafa með höndum og þörf þjóðarinnar áreiðanlega krefst að ekki stöðvist.

Sú mikla ræktun, sem gerð hefur verið hér á landi á s.l. 15 árum, hefur ekki gert miklu betur en hafa við aukinni neyzlu íslenzkra landbúnaðarvara innanlands á þessu tímabili, og af því að s.l. sumar var óþurrkasamt á suður- og vesturhluta landsins, þá er nú yfirvofandi skortur á mjólk og mjólkurvörum, að ég nú ekki tali um á kartöflum.

Nú er talið af mörgum, að þjóðinni muni að öllu eðlilegu fjölga um helming á næstu 40 árum. Er því auðsætt, að ekki má halda að sér höndum í ræktunarmálum, ef hér á að framleiða landbúnaðarvörur þær, sem sú aukning þjóðarinnar þarf með sér til viðurværis. Ég held því, að þegar þetta mál verður athugað, þá verði ekki ágreiningur um, að nauðsynlegt er að halda áfram að styrkja ræktunarsambönd og félög til þess að endurnýja véla- og verkfærakost sinn, því að af ástæðum, sem ég hef drepið hér á, geta þau ekki endurnýjað þennan vélakost sinn án aðstoðar.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara um þetta mál fleiri orðum núna að sinni, en leyfi mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. nú að þessari umræðu lokinni og til hv. landbn.