17.05.1960
Neðri deild: 83. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (2173)

15. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Frsm. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Lögin um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum voru afgreidd frá Alþingi veturinn 1944–45 og gefin út 12. jan. 1945. Fyrri hluti þeirra, sem fjallar um jarðræktarsamþykktir, stefnir að því að skipuleggja ræktunarframkvæmdir í sveitum, sérstaklega vélbúnað og rekstur véla til ræktunar. Þessi lög hafa nú verið í gildi í 15 ár, og hafa nokkrum sinnum á því tímabili verið gerðar á þeim ýmsar breytingar, sem m.a. hafa stefnt að því að útvega nægilegt fé til þessara hluta. Seinast mun slík breyting hafa verið gerð árið 1955, þegar samþ. var að veita 1 millj. kr. á ári næstu 6 ár til þessara vélakaupa.

Á s.l. hausti var ljóst, að fjárskortur mundi vera fram undan til þess að hægt væri að afla þeirra véla, sem nauðsynlegar væru í þessu efni, og flutti þá hv. 2. þm. Sunnl. (ÁÞ), sem ég sit nú á þingi fyrir, ásamt fleiri hv. þm. frv. á þskj. 15 um breyt. á þessum lögum, sem gengur út á, að það skuli verja árlega fé úr ríkissjóði til endurnýjunar á þeim ræktunarvélum og tækjum, sem notið hafa framlags skv. lögum þessum.

Þetta frv. hefur svo verið til athugunar hjá landbn., eins og frsm. meiri hl., hv. 2. þm. Norðurl. v. (JPálm) skýrði frá, en n. varð ekki sammála um afgreiðslu þess.

Þegar frv. til l. frá 1945 var til umr. í þessari hv. d., — það var til 2. umr. um það leyti, sem nýsköpunarstjórnin var sett á laggirnar, ég vil leiðrétta þá missögu hv. 2. þm. Norðurl. v., að nýsköpunarstjórnin hafi beitt sér fyrir og undirbúið þetta, því að um það leyti, sem hún er sett á laggirnar, er frv. til 2. umr. í þessari hv. d., og frsm. landbn. við þá umr. er þáv. hv. þm. Skagf. (JS). Hann sagði þá í ræðu sinni, að frv. það, sem fyrir lægi, stefndi að því í fyrsta lagi að veita félagslegum samtökum aðstöðu til þess að hefja stórfelldar ræktunar- og byggingarframkvæmdir, í öðru lagi að tryggja það, að framkvæmdir þessar séu vel gerðar og haganlegar, í þriðja lagi að gera framkvæmdirnar ódýrari en ella mundi verða og loks að tryggja, að það fé, sem ríkissjóður leggur fram til þessa, verði ekki eyðslufé, heldur eins konar stofnfé, sem varðveitist í sveitunum af sjálfu sér til áframhaldandi framkvæmda. Þetta sagði þáv. hv. 2. þm. Skagf. Og þessi löggjöf hefur vissulega náð því marki, sem hann ætlaði henni og setti fram í fyrstu þremur liðunum, sem ég gat um. En um fjórða liðinn gegnir nokkuð öðru máli. Að vísu varðveitist féð til áframhaldandi framkvæmda, en fyrir því hefur farið eins og öðrum sjóðum okkar landsmanna, að þeir hafa að mestu orðið verðbólgunni að bráð.

Það er 10. gr. laganna nr. 7 frá 1945, um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum, sem fjallar um þessi atriði, en þar er gert ráð fyrir því að þjónusta vélanna sé verðlögð þannig, að þar sé innifalið fyrningargjald, sem leggist í fyrningarsjóð hjá Búnaðarfélagi Íslands. En fyrir þessum fyrningarsjóðum hefur farið á þann veg, að þeir geta nú ekki frekar en aðrir sjóðir landsmanna, sem líkt stendur á um, gegnt hlutverki sínu, svo að viðunandi sé. Sú króna, sem var lögð í fyrningarsjóðina fyrir 15 árum, kaupir nú aðeins 1/14 hluta af því, sem hún gerði þá, sú, sem lögð var þar fyrir 10 árum, aðeins 1/5 hluta, og sú, sem lögð var þar fyrir 5 árum, kaupir nú aðeins 2/5 hluta af því, sem hún gerði þá. Og sú króna, sem lögð var þar í haust eða bara um áramót, kaupir nú aðeins 60% af því, sem hún gerði þá. Þessa minnkun á kaupgetu krónunnar er óhjákvæmilegt að bæta, ef framhald á að geta orðið á ræktunarstarfseminni og lögin eiga að geta náð tilgangi sínum.

Það er vissulega góðra gjalda vert, að hæstv. landbrh. hefur hinn 31. marz, þegar frv. þetta hafði legið 4 mánuði fyrir þessari hv. d., skipað nefnd til þess að athuga þessi mál og endurskoða þessa löggjöf og rannsaka fjárþörf ræktunarsambandanna o.s.frv. En okkur, sem stöndum að áliti minni hl. um þetta frv., virðist engin nauðsyn bera til, að l. séu óvirk, meðan þessi athugun fer fram, og við leggjum því til í áliti okkar á þskj. 410, að frv. verði samþ., svo að lögin geti verið virk og starfsemin haldið áfram, meðan sú athugun, sem hæstv. landbrh. hefur stofnað til, fer fram.