30.11.1959
Neðri deild: 6. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2182)

17. mál, skemmtanaskattsviðauki

Frsm. (Davíð Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 17, er flutt af hæstv. ríkisstj. og fjallar um það að framlengja heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta skemmtanaskatt með viðauka, svo sem gert hefur verið um mörg undanfarin ár. Sá munur er þó á frá því, sem áður hefur verið, að í stað þess að gera ráð fyrir framlengingu um eitt ár eða fyrir árið 1960 þá gerir þetta frv. ráð fyrir, að heimildin verði ótímabundin. Fjhn. hefur haft málið til meðferðar og er sammála um nauðsyn á þeirri fjáröflun, sem frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar kom sú skoðun fram í n., að ef framlengja ætti ótímabundið heimild til að innheimta skemmtanaskattinn með viðauka, þá væri eðlilegra, að skatturinn yrði ákveðinn með þessum viðaukum og lögunum breytt í samræmi við það. Nefndin féllst á þetta sjónarmið, en á meðan sú leið væri ekki farin, þá væri heppilegra að miða framlengingu við eitt ár í senn, eins og verið hefur undanfarið. Nefndin hefur því samþ. samhljóða að mæla með því, að frv. verði samþ. með þeim breyt., að á eftir orðinu „skal“ í 1. gr. komi: árið 1960, og við fyrirsögn frv. bætist: árið 1960.