30.11.1959
Neðri deild: 6. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2183)

17. mál, skemmtanaskattsviðauki

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Frsm. fjhn. hefur gert grein fyrir áliti og till. n. um frv.

Frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 17, er gamall kunningi þeirra manna, sem átt hafa sæti hér á Alþ. undanfarið, vegna þess að frv. samhljóða þessu hefur verið til meðferðar á mörgum þingum áður. Frv. mun jafnan að undanförnu hafa verið til meðferðar eins og nú í fjhn. deildarinnar, og venjulega hefur það farið, eftir því sem ég man bezt, ágreiningslaust og umræðulítið gegnum þingið. Málið er ekki heldur fyrirferðarmikið í Alþt. eða Stjórnartíðindum; en þó er það svo, ef betur er að gætt, að þessi löggjöf um skemmtanaskatt og þá einnig um skemmtanaskattsviðauka hefur reynzt allþýðingarmikil, og mér finnst nokkur ástæða til þess að rekja sögu málsins í stórum dráttum og minnast þá einnig á þau framtíðarverkefni, sem hugsað er að leysa á grundvelli þessarar löggjafar.

Það var árið 1918, merkisár í sögu þjóðarinnar og minnisstætt. Það byrjaði með frosthörkum miklum, og hafa aðrar slíkar ekki komið síðan. Hafís rak að landi í fyrsta mánuði ársins, bjarndýr gengu á land, og þá mátti skeiðríða skaflajárnuðu yfir alla firði og flóa norðanlands og vestan. Hafísinn, sá forni fjandi, var þá hér við land fram á einmánuð, ef ég man rétt.

Stórir hlutir gerðust einnig síðar á þessu ári. Katla gaus í októbermánuði. En stærsti og minnisverðasti atburður ársins 1918 var þó hinn 1. des., þegar Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Þess hefur jafnan verið minnzt síðan þann dag með nokkrum mannfagnaði, og svo mun einnig verða, að því er ég hygg, á morgun, hinn 1. des. 1959.

Það var á þessu merkisári, sem það gerðist hinn 22. nóv., að suður í Kaupmannahöfn skrifaði konungur vor, Kristján X, ásamt ráðh., Jóni Magnússyni, undir lög um skemmtanaskatt, sem Alþingi hafði samþykkt á því ári. Í þeim lögum sagði svo, en það hygg ég að séu fyrstu lögin um skemmtanaskatt, sem hér hafa verið sett, í þeim segir svo í 1. gr., að með reglugerð, sem bæjarstjórn eða hreppsnefnd semur og dómsmrh. staðfestir, skuli heimilt að leggja skatt á skemmtanir fyrir almenning, sem aðganga er seld að, þó geta bæjarstjórnir eða hreppsnefndir veitt undanþágur frá skattgreiðslu, ef sérstakar ástæður mæla með, t.d. fyrir skemmtanir, sem eru haldnar í góðgerðaskyni eða fræðslu, til að halda uppi listum og þess háttar. Í lögunum segir, að skatturinn skuli vera mishár eftir því, hver skemmtunin er, en aldrei mátti hann samkvæmt þeim hærri vera en 20% af aðgangseyri á skemmtun hverja. Skatturinn skyldi renna í bæjar- eða sveitarsjóð, en ákveðið í reglugerð, hvernig honum skyldi verja, og reglugerð mátti setja um önnur atriði þessa máls.

Nú líða stundir fram, en á Alþingi, er háð var 1923, gerðist það, að tveir þm. flytja frv. til laga um skemmtanaskatt og þjóðleikhús. Þessir þm. eru Jakob Möller, þá þm. Reykv., og Þorsteinn M. Jónsson, þm. N-M., síðar bókaútgefandi og skólastjóri á Akureyri við Eyjafjörð. Í grg., sem þeir létu fylgja frv. sínu, segir, að það sé flutt eftir tilmælum ýmissa frömuða leiklistarinnar hér á landi, og tilgangurinn með því sé sá að koma upp þjóðleikhúsi. Þeir benda á það, að allar frændþjóðir vorar á Norðurlöndum eigi þjóðleikhús, sem styrkt séu stórkostlega af ríkisfé, og sé slíkt gott til eftirbreytni. En þeir taka jafnframt fram, að þess sé ekki að vænta, að Alþingi sjái sér fært í náinni framtíð að leggja fram fé það, er nægja mundi, þ.e.a.s. úr ríkissjóði, til að koma upp þjóðleikhúsi. Þeir fara ekki heldur fram á slíkt eða ætlast til neinna framlaga beint úr ríkissjóði. Þeir vilja aðeins fá það í lög tekið með frv., að skemmtanaskatturinn verði látinn renna í sjóð, sem varið verði til að koma upp leikhúsi og til styrktar því síðan. Þeir minna á lögin frá 1918, heimildarlög handa bæjar- og sveitarstjórnum til þess að leggja á skemmtanaskatt, en þeir segja, að bæjarstjórnir kaupstaðanna hafi orðið seinar til að nota sér þá heimild, því að í Reykjavík hafi skatturinn ekki komizt á fyrr en í árslok 1921, á Ísafirði um sama leyti, á Akureyri sé skatturinn ekki kominn enn og hvergi annars staðar á landinu. Í öðrum löndum muni skemmtanaskatturinn hvarvetna vera ríkisskattur. Þannig sé það í Danmörku, Bretlandi og Frakklandi. En þeir telja, að hér virðist einkar vel til fallið að nota þennan skatt einmitt til eflingar hinni ágætu list, leiklistinni. Það muni bæina ekki nema sáralitlu, þó að þeir verði sviptir þessum skatti, það sé vitanlega Reykjavík, sem helzt gæti gert sér eitthvað úr skattinum, og hún ætti einmitt, höfuðborgin, að njóta hans mest og bezt, ef þannig verði með hann farið, sem til er ætlazt með frv., þ.e.a.s. honum varið til að koma upp þjóðleikhúsi, sem byggt yrði einmitt í Reykjavík.

Það urðu að sjálfsögðu nokkrar umr. um þetta merkilega frv. hér á hinu háa Alþingi. Flutningsmenn gerðu grein fyrir málinu í ræðum til viðbótar því, sem þeir sögðu í grg., sem því fylgdi. Jakob Möller lét svo um mælt, að hann vonaðist eftir, að deildin tæki þessu frv. vel, því að nú væri svo komið, að það færi líklega algerlega eftir afdrifum þessa máls, hvort leiklistin deyr út hér á landi eða henni verður leyft að þrífast hér og blómgast, ekki síður en öðrum listum. Hann segir, að Alþingi hafi talið sér skylt að hlúa að íslenzkum listum og það hafi vitanlega engan veginn haft leiklistina út undan. Það mundi líka verða erfitt fyrir þjóðina að halda fullri virðingu annarra menningarþjóða, ef hún léti leiklistina verða úti á gaddinum. Margt fleira vel mælt og viturlega er í ræðu Jakobs Möllers, en tímans vegna mun ég ekki fara frekar út í það, þótt fróðlegt hefði verið að rifja upp ýmis ágæt ummæli hans um þetta mál.

Hinn flm., Þorsteinn M. Jónsson, flutti líka ræðu um málið einmitt hér í hv. Nd., að vísu ekki úr þessum ræðustóli, því að hann var þá ekki kominn, en hann segir, að þjóðleikhús eigi að verða nokkurs konar háskóli leikenda um allt land, og ýmislegt er þar fleira, sem ástæða væri til að vitna til, sem hann sagði um þetta merkilega mál.

Eins og við mátti búast og oft er um mál, þá voru menn ekki að öllu leyti sammála á þinginu 1923 um þetta frv. Í umr. má sjá andmæli frá Jóni Baldvinssyni og Jóni Þorlákssyni. Þeir viðurkenna að vísu fyllilega þörfina á þjóðleikhúsi og menningarhliðmálsins, en hafa ýmislegt við það að athuga, og þeir lögðu hér fram ályktun frá bæjarstjórn Reykjavíkur um málið. Jón Þorláksson las upp þessa ályktun við 2. umr. um frv. Hann segir, að hún hafi verið samþ. með samhljóða atkv. í bæjarstjórn Reykjavíkur. Og ályktunin hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta :

„Bæjarstjórn Reykjavíkur leyfir sér að vekja athygli Alþingis á því, að ákveðið er með samþykkt, staðfestri af ráðuneytinu, að nota skuli skemmtanaskattinn í Reykjavík til að koma upp barnahæli og gamalmennahæli. Er slíkra hæla afar mikil þörf, en vandséð, að unnt sé í náinni framtíð að fá fé til framkvæmda, ef skemmtanaskatturinn verður tekinn til annars. Skorar bæjarstjórnin því á Alþingi að láta heimildarlögin um skemmtanaskatt standa óhögguð.“

Þannig voru nú viðbrögð bæjarstjórnar í höfuðborginni, þegar þetta mál var á ferðinni, að nota skemmtanaskattinn til að koma hér upp þessari menningarstofnun, þjóðleikhúsinu.

Fleiri töluðu um þetta mál á þinginu. Einn þeirra var þáverandi þm. Dal., hinn kunni maður Bjarni Jónsson frá Vogi. Hann segist alls ekkert sjá eftir því, þótt Reykjavíkurbær missi í við þetta og verði af þessu fé, sem bærinn hefur fengið alveg að ófyrirsynju og farið illa með. Hann segir, að það hafi verið lagður skattur á íþróttamenn með rangindum, svo að Alþingi hafi orðið að taka í taumana til þess að varðveita þá fyrir ásælni bæjarstjórnar, og hann segir einnig, að það sé alkunnugt, að bæjarstjórnin taki árlega 2 millj. kr. úr vösum bæjarbúa, og hann sagði, að bærinn hlyti að eiga einhvers staðar fé á vöxtum eða í sjóði, þar sem hann gæti ekki verið búinn að eyða þessu öllu. Hvað skyldi Bjarni Jónsson frá Vogi segja núna, ef hann væri hér á meðal okkar? Það eru ekki 2 milljónir á ári núna, það er hundrað sinnum meira og nokkru betur, sem þeir taka, og sennilega mundi hann líklegt telja, að bærinn ætti einhvers staðar sparisjóðsbók núna, ekki síður en 1923. Ég veit ekki, ég er ekki svo kunnugur, ég veit ekki, hvernig því er varið með sparisjóðsbækur Reykjavíkur, hve mikið bærinn leggur fyrir af þessum milljónahundruðum, sem hann hefur í tekjur, en þótt innstæður hefðu verið einhverjar, getur hugsazt, að þær hafi eitthvað minnkað við þær útsvarsívilnanir, sem ýmsir dándismenn hafa að sögn notið hjá bæjaryfirvöldum nú á þessu ári.

Já, það fór nú þannig um þetta frv. á þinginu 1923, að það var samþ. og afgr. sem lög frá þinginu hinn 5. maí, en nokkrar breytingar höfðu verið á því gerðar. En þegar frv. var samþ., var það þannig, að í öllum kaupstöðum landsins, sem höfðu 1500 íbúa eða fleiri, skyldi leggja skatt á skemmtanir fyrir almenning, sem aðgangur er seldur að, og svo var skemmtununum skipt niður í tvo flokka og skattgreiðslan mismunandi eftir því, hvernig skemmtanirnar voru. Í fyrra flokknum var skatturinn 10%, og hann lenti á hljómleikum, söngskemmtunum, sjónleikjum, fyrirlestrum og upplestrum, kvikmynda- og skuggamyndasýningum og tombólum, en aftur var 20% á ýmsum öðrum skemmtunum, eins og loddarasýningum, fjölleikasýningum og sjónleikjum, er ekki teljast til fyrsta flokks, o.s.frv., og af öðrum almennum skemmtunum. Svo var í 3. gr. ákvæði um, hvað skyldi undanþegið skemmtanaskatti, ýmsar opinberar skemmtanir, svo sem ódýrir, fræðandi fyrirlestrar, t.d. stúdentafélagsfyrirlestrar, og skemmtanir haldnar í góðgerðaskyni eða til styrktar málefni, er miðaði að almenningsheill. Einnig áttu að vera undanþegnar innanfélagsskemmtanir, sem aðeins væru fyrir félaga og gesti þeirra, en komi það upp, að utanfélagsmenn hafi átt kost á að kaupa inngöngumiða að þessum skemmtunum, þá skyldi það skoðast sem brot á lögunum, og ber þá að greiða skatt af slíkri skemmtun, segir í lögunum. Og svo þarf leyfi lögreglustjóra til að halda skemmtun, sem aðgangur er seldur að, og lögreglustjóri innheimtir skemmtanaskattinn og fær 2% í þóknun fyrir, svo er reglugerðarákvæði o.s.frv., en síðan kemur þetta stóra atriði málsins: Skemmtanaskatturinn rennur í sérstakan sjóð, þjóðleikhússjóð. Honum á að verja til að koma upp þjóðleikhúsi í Reykjavík og til að styðja sjónleiki, sem sýndir verði að staðaldri í því húsi. Þrír menn áttu að hafa á hendi stjórn sjóðsins, valdir af kirkju- og kennslumálaráðh. úr hópi þeirra manna, sem vænta mátti að kunnugastir væru leikmennt, og n. átti að starfa ókeypis, eins og segir í lögunum, og n. átti að sjá um ávöxtun þjóðleikhússjóðsins og einnig hafa með höndum allan undirbúning undir byggingu þessa húss. Kirkju- og kennslumálaráðh. skyldi hafa eftirlit með störfum n., og ríkið skyldi leggja til ókeypis lóð á Arnarhólstúni. — Þetta voru aðalatriðin í þessari merku löggjöf.

Ég vildi spyrja hæstv. forseta, hvernig það mundi vera með hæstv. menntmrh. Mér hefði eiginlega þótt betur við eiga, að hann væri í d., þegar um þetta mál er rætt, því að hann hefur með þessi mál að gera, og framkvæmd laganna um skemmtanaskatt og skemmtanaskattsviðauka mæðir þar af leiðandi mest á honum af þeim ráðh., er í stjórninni sitja. (Forseti: Það munu verða gerðar ráðstafanir til að hafa upp á hæstv. menntmrh.) Ég þakka, forseti.

Næst gerist það í þessu máli, að 16. maí 1927 eru samþ. hér á Alþingi lög um breytingar á lögunum um skemmtanaskatt og þjóðleikhús. Með þeirri breytingu var ákveðið að leggja skatt á dansskemmtanir, sem áður voru skattfrjálsar, og má það eiginlega merkilegt heita. Að vísu var í lögunum frá 1923 ákvæði um, að leggja skyldi skatt á aðgöngueyri að dansleikjum, en það hefur líklega verið túlkað þannig, að venjulegar dansskemmtanir eða „böll“ heyrðu ekki þar undir, því að þeir segja, sem flytja þetta frv. um breytinguna 1927, að dansskemmtanir hafi verið undanþegnar þessi fjögur ár, sem þá voru liðin, síðan skattheimtan byrjaði.

Þá var einnig ákveðið að leggja skemmtanaskatt á knattborðsleiki, að taka 30 kr. mánaðarskatt af knattborði.

Nokkur ágreiningur var um það á þinginu 1927, hvað skatturinn ætti að ná til margra staða á landinu, þ.e.a.s., hvað kaupstaður eða kauptún ætti að hafa marga íbúa, til þess að þar skyldi greiddur skemmtanaskattur. Um þetta var nokkuð rætt. T.d. vildi hv. þm. Borgf. fá breytingu á frv., sem fól í sér það, að þeir, sem byggja Skipaskaga, þyrftu ekki að borga skemmtanaskatt. Á þetta var fallizt af flutningsmönnum málsins, og annar af hv. þm. N-M, þá, Árni heitinn Jónsson frá Múla, sagði um þetta, að þetta skipti ekki miklu máli, það mundi ekki vera mikill slægur í því fyrir sjóðinn að ná í Akranes, því að það væri kunnugt, að þeir þar væru ekki gefnir fyrir að skemmta sér.

Nú líður og bíður, og 1932 syrtir í álinn. Þá eru sett lög nr. 76 hinn 23. dag júnímánaðar, útgefin í Kaupmannahöfn af kónginum og Ásgeiri Ásgeirssyni, þáverandi ráðh. Lög þessi eru um bráðabirgðabreyting nokkurra laga. Meðal annars er þar ákvæði um það, að tekjur eftir lögum nr. 56 frá 1927, um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, skuli renna í ríkissjóð til ársloka 1933. Það var fleira í lögunum þessu líkt, ákvæði um að fresta framkvæmd vissra laga, sem höfðu kostnað í för með sér fyrir ríkið, eða þá að taka tekjur, á sama hátt og hér var gert með skemmtanaskattinn, sem áður höfðu runnið til annarra þarfa en ríkissjóðsins, taka þær nú um sinn í ríkissjóð, og rökin sem flm. málsins og hæstv. þáv. fjmrh., núverandi forseti Íslands, fluttu fram í þessu máli, voru þau, að nú væri hin ægilegasta fjárkreppa í landi, og það var vissulega rétt, og því þyrfti að gera hvort tveggja að takmarka greiðslur úr ríkissjóði eftir föngum og að afla nýrra tekna, þar sem möguleikar væru til þess. Þessi lög um bráðabirgðabreytingu nokkurra laga voru síðan endursamþykkt fyrir eitt ár einnig á þinginu 1933, útgefin það ár hinn 19. júní í Kaupmannahöfn af sömu valdamönnum, og eru þau nr. 50 það ár. Þar var ákveðið, að til ársloka 1934 skyldu tekjurnar eftir þessum lögum um skemmtanaskatt og þjóðleikhús renna í ríkissjóð.

1933, hinn 19. júní, voru einnig gefin út önnur lög, nr. 69, varðandi þetta sama mál. Þau heita lög um bráðabirgðabreytingu á lögum um skemmtanaskatt og þjóðleikhús. Þar var ákveðið, að frá gildistöku laganna og til ársloka 1934 skyldi innheimta skattinn með 80% álagi. Þó áttu leiksýningar, hljómleikar og söngskemmtanir innlendra manna að vera undanþegnar álaginu. Og til þess að gera langa sögu stutta, þá skal ég aðeins segja það hér, að þessi lög um bráðabirgðabreyting nokkurra laga, sem fólu í sér m.a., að skemmtanaskatturinn skyldi renna í ríkissjóð, munu hafa verið framlengd árlega frá 1932 og til ársloka 1941. En árið 1942 gerist það, að með lagabreytingu er álagið á skemmtanaskattinn hækkað upp í 200% af kvikmyndasýningum, en af öðrum skemmtunum er álagið ákveðið 20%, og þetta hefur einmitt haldizt óbreytt síðan. Við munum hafa ár hvert á Alþingi samþ. lög um heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta skemmtanaskatt með viðauka, og slíkt frv. er nú hér til umr, í þessari deild, álagið hið sama og ákveðið var 1942, 200% álag á kvikmyndasýningar og 20% á aðgangseyri að öðrum skemmtunum.

Árin líða. Sjö árum síðar en þetta var, sem ég nú síðast greindi frá, eru sett lög nr. 53 25. maí 1949, um bráðabirgðabreytingu á lögum nr. 56 1927, um skemmtanaskatt og þjóðleikhús. Undir þessi lög rita — þeim til staðfestingar — Eysteinn Jónsson, þá menntmrh., ásamt með þrem handhöfum forsetavalds. Með þessum lögum 1949 var ákveðið, að skattinum skyldi ráðstafa þannig: 25% af honum skyldu renna í rekstrarsjóð þjóðleikhússins, 40% í félagsheimilasjóð, og sé því fé varið eftir því, sem fyrir er mælt í lögum nr. 77 frá 1947, um félagsheimili, í þriðja lagi, 10% til lestrarfélaga og til kaupa á kennslukvikmyndum, skyldi 1/3 á þess fjár fara í styrktarsjóð lestrarfélaga, en 2/3 til kennslukvikmyndasafns, og loks í fjórða lagi, að afganginum, 25% skattsins, skyldi varið á þann veg, að hann rynni í þjóðleikhússjóð til að ljúka byggingu þjóðleikhússins. Þetta var 1949.

Á næsta ári, 1950, eru enn gefin út lög um bráðabirgðabreytingu á lögum nr. 56 1927, um skemmtanaskatt og þjóðleikhús. Lögin eru nr. 65, útgefin 25. maí, og undir þau ritar auk forseta Björn Ólafsson, þáverandi menntmrh. Með þessum lögum eru gerðar nokkrar breytingar á þeim ákvæðum, sem samþykkt höfðu verið á þingi árinu áður. Nú skyldi skattinum með viðaukum sem sagt verða varið þannig:

a. 25% fari í rekstrarsjóð þjóðleikhússins,

b. 32% í þjóðleikhússjóð til að ljúka byggingu þjóðleikhússins,

c. 35% í félagsheimilasjóð, og skal því fé varið samkvæmt lögum nr. 77 1927, um félagsheimili,

d. 8% renni til lestrarfélaga og til kaupa á kennslukvikmyndum, fari helmingur þess fjár til styrktarsjóðs lestrarfélaga, en hinn hlutinn til kennslukvikmyndasafns.

Þá var eitt nýmæli í þessum lögum. Það hljóðaði um það, að heimilt skyldi að leggja 10% á skattinn og viðaukana, nýja viðbót, og átti það aukagjald að renna í byggingarsjóð þjóðleikhússins, þangað til byggingin væri að fullu greidd. Og enn var það ákveðið í þessum lögum frá 1950, að á árunum 1950–52, að báðum meðtöldum, skyldi hagnaður viðtækjaverzlunar ríkisins einnig renna í byggingarsjóð þjóðleikhússins. Fleira held ég ekki að hafi gerzt á því herrans ári 1950 í þessu máli, sem í frásögur er færandi.

En ekki er allt búið enn. Árið 1951 eru enn samþ. lög um bráðabirgðabreyt. á lögum nr. 56 1927, um skemmtanaskatt og þjóðleikhús. Lög þessi eru nr. 115, útg. 29. des. 1951 og undirrituð af Birni Ólafssyni menntmrh., ásamt forseta vorum að sjálfsögðu. Enn koma ný ákvæði um ráðstöfun skattsins. Nú skyldu 42% af skattinum fara í rekstrarsjóð þjóðleikhússins. Mun hafa komið á daginn á fyrstu árunum, sem þjóðleikhúsið var rekið, að það hafði fulla þörf fyrir þennan rekstrarstyrk. Í öðru lagi var ákveðið, að 15% skyldu fara til að greiða skuldir vegna byggingarkostnaðar þjóðleikhússins. Í þriðja lagi, að 35% skyldu renna í félagsheimilasjóð, og átti að verja því fé eftir því, sem fyrir er mælt í l. nr. 77 1947, um félagsheimili. Þarna eru komin 92%. Og svo var ákveðið, að afganginum, 8%, skyldi varið þannig, að hann færi til lestrarfélaga og til kaupa á kennslukvikmyndum, helmingur til lestrarfélaganna og hinn hlutinn til kennslukvikmyndasafns. Enn var þá ákveðið, eins og áður hafði verið til bráðabirgða, að 10% álag á skattinn með viðaukum skyldi innheimt til ríkissjóðs, en stj. var heimilt að greiða helminginn af því til sinfóníuhljómsveitarinnar.

Ég sé, að d. helzt illa á hæstv. menntmrh., og vildi ég leyfa mér að bera fram kvörtun um það til hæstv. forseta, einmitt vegna þess, að nú er ég kominn að þætti hæstv. núverandi menntmrh. í þessu stóra máli, og þykir mér stórum miður, ef hann getur ekki verið hér við, þegar ég tala um hans gerðir í málinu. En ef hann er eitthvað sérstaklega vant við látinn, ef hæstv. ráðh. er sérstaklega vant við látinn vegna embættisanna, þá mundi ég gjarnan — með leyfi forseta — geta frestað minni ræðu og flutt þá síðari hlutann, þegar hæstv. ráðh. gæti verið hér viðstaddur. (Forseti: Út af fsp. hv. þm. vil ég taka fram, að hæstv. menntmrh. var bundinn við önnur áríðandi skyldustörf kl. 3.) Þá er það spurning mín til hæstv. forseta, hvort hann mundi sjá sér fært að gera nú hlé á fundi og leyfa mér að flytja þá það, sem eftir er af ræðu minni, síðar, þegar ráðherrann gæti verið hér við. (Forseti: Þar sem fleiri hv. þm. eru á mælendaskrá, mun umr. verða haldið áfram, en hv. þm. gefst væntanlega kostur á að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum síðar.) Ég hefði nú fremur kosið að slíta ekki sundur mitt mál við þessar umr. (Gripið fram í.) Þó að mér þyki stórum miður, að hæstv. ráðh. skuli ekki mega vera að því að sitja þingfund nú, þá mun ég því halda áfram máli mínu. Bætir það líka nokkuð úr skák, að hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ), sem hér kallaði fram í, er viðstaddur. Tel ég það nokkra úrbót, þó að ekki jafngildi hann að sjálfsögðu hæstv. ráðh.

Þá er það næst árið 1957, þá er nú vinstri stj. komin til valda fyrir nokkru og þá er hæstv. núverandi menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, kominn til sögunnar. Enn eru gefin út l. nr. 57, hinn 5. júní 1957, undirrituð ásamt forseta af þessum hæstv. ráðh., og þau eru náttúrlega, eins og stundum áður, um breyt. á l. nr. 56 1927, um skemmtanaskatt og þjóðleikhús. Samkvæmt þeim eru undanþegnir skattinum fræðandi fyrirlestrar og innanfélagsskemmtanir, aðrar en dans, einnig skemmtanir skóla og skólafélaga, annarra en dansskóla. Einnig leiksýningar þjóðleikhússins og hljómleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Er það skiljanlegt, að ekki hefur þótt fært að leggja skemmtanaskatt á tekjur af þessum skemmtunum, því að bæði þjóðleikhúsið og hljómsveitin þurftu þá einmitt á rekstrarstyrk að halda frá því opinbera. Þá eru einnig undanþegnar skattinum vissar kvikmyndasýningar svo og íþróttasýningar. Og einnig er heimilt fyrir ríkisstj. að láta haldast nokkrar eldri undanþágur frá skattgreiðslum, sem í lögum höfðu verið. Enn er sem fyrr ákveðið í lögunum að sjálfsögðu, hvernig skattinum skuli verja, og nú er það þannig, að 50% eða helmingur skattsins, áttu að renna í félagsheimilasjóð og átti að verja honum samkv. l. nr. 77 frá 1947. Hinn helminginn átti að láta ganga í rekstrarsjóð þjóðleikhússins og verja honum samkv. ákvæðum laga nr. 86 frá 1947. Enn er haldið 10% álaginu á skattinn ásamt viðaukum og áttu þessi 10%, viðaukagjaldið, að renna til Sinfóníuhljómsveitar Íslands. — Og nú kemur nýmæli einnig inn í lögin. Leggja skyldi sérstakt gjald á aðgöngumiða að kvikmyndsýningum, sérstakt gjald, og skyldi það renna til menningarsjóðs. — Mér þykir það stórum verra með hæstv. ráðh., því að ég ætlaði einmitt nokkuð að minnast á framkvæmd laganna. Ætli það hafi ekki verið skyndifundur, sem hæstv. ráðh. þurfti að fara á kl. 3, þannig að það gæti borið sig, að hann hefði lokið þar fundarsetu og gæti nú komið? Víst væri mér það kært, ef hæstv. forseti vildi láta grennslast um það. — Nú kárnar gamanið. Hæstv. ráðh. er farinn úr húsinu.

Já, það er náttúrlega ekki nóg að setja viturleg og þörf lög á Alþ. Að hve miklu gagni sú lagasetning kemur hverju sinni, fer að miklu leyti eftir því, hvernig tekst til með framkvæmdina, sem er, eins og kunnugt er, í höndum ríkisstj. á hverjum tíma. Skemmtanaskattinum á, eins og ég nú hef rakið í stórum dráttum, að verja til menningarmála, og þá skiptir að sjálfsögðu miklu máli, hvernig viðhorf ráðamanna er til þeirra málefna. Af núverandi hæstv. ráðh. er það að segja í því efni frá mínu sjónarmiði, að tveir af hæstv. ráðh. hafa — það er mér kunnugt — nokkuð fengizt við ljóðasmíðar og vísnagerð. Ég hef orðið þess var á gleðisamkomum, að þeir hafa stundum flutt bundið mál frá eigin brjósti, en ekki hef ég orðið þess var eða heyrt þess getið, að hinir 5, sem í stj. eru, hafi nokkru sinni iðkað þá íþrótt. Og það vill nú einmitt svo vel til, að annar af þessum hæstv. ráðh., en báðir eru þeir, þessir tveir, af skáldum komnir, — að annar þeirra er einmitt hæstv. menntmrh., sem — eins og ég áður sagði — mæðir mest á framkvæmdin á þessum lögum. Hann er, hæstv. ráðh. Gylfi Þ. Gíslason, sonur Þorsteins skálds og ritstjóra Gíslasonar. Hinn ráðh., sem nokkuð hefur fengizt við ljóðasmíðar og e.t.v. bókmenntir að öðru leyti, — mér er ekki eins kunnugt um það, er hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen. Hann er Sigurðsson Jónssonar skálds og sýslumanns Thoroddsens, en Jón skáld Thoroddsen var sonur Þórðar beykis Þóroddssonar á Reykhólum. Reykhólar, sem áður nefndust Reykjahólar, eru merkur staður. Þar hafa setið höfðingjar fyrr og síðar. Í fornöld var þar einn ágætur maður, sem Þorgils hét Arason. (Forseti: Má ég minna hv. ræðumann á það, að það er skemmtanaskattsviðauki, sem hér er til umræðu.) Ég veit það, ég er alltaf að tala um hann. Ég er að tala um þau lög, hef verið að því, um framkvæmd þeirra og hverjir hafi með þau að gera, og það skiptir miklu máli að vita, hvernig þeir eru kynjaðir og hvers má af þeim vænta í þessu máli einmitt að því er varðar skáldskap og aðrar menntir. — Á Reykjahólum bjó, eins og ég sagði, Þorgils Arason. Eitt sinn á haustnóttum kom til hans Grettir Ásmundsson. Hann beiddist veturvistar, og var hún veitt. Þar voru einnig tveir kappar aðrir frægir, þeir fóstbræður Þorgeir og Þormóður. Voru þessir allir með Þorgils um veturinn. En það þurfti mikils að afla til bús á Reykjahólum, sem vonlegt var. Þorgils bóndi átti uxa mikinn og akfeitan í Ólafseyjum, og þessir þrír kappar fóru rétt fyrir jólin að ná í uxann. Sú för var frækileg. Hún er fræg af Grettis sögu og ekki síður af Bolaskeiðsrímu Matthíasar. Óneitanlega væri það mikils um vert fyrir hæstv. ríkisstj., ef hún hefði slíka afreksmenn til aðdrátta, þegar hún efnir til veizlufagnaðar, eins og Þorgils hafði, en það kemur oft fyrir, að stj. efnir til mannfagnaðar.

Ég hef nú hér minnzt þessara tveggja hæstv. ráðh., en enn er einn í hæstv. ríkisstj., sem nokkuð er við bókvísi riðinn og ritstörf, þ.e. hæstv. dómsmrh. Ég held, að ég fari með rétt mál, þegar ég segi, að hann sé formaður í útgáfufélagi einu, sem nefnist Almenna bókafélagið, og við ritstörf fæst hann einnig, því að hann er aðalritstjóri Morgunblaðsins, sem er höfuðmálgagn Sjálfstfl., sem kunnugt er, og ritar þess vegna allmikið. Ekki veit ég nú um það, ég skal ekkert um það segja, hvort sérfróðir menn í þeim efnum mundu telja eitthvað af þeim ritverkum til bókmennta. Ég treysti mér ekki til að dæma um slíkt. En hvað sem því líður, þykir mér ekki trúlegt, að þau ritverk yrðu talin til þeirra bókmennta, sem stundum eru nefndar fagurfræðilegar.

Eins og ég gat um áður, þá fer nú — eftir l. frá 1957 — helmingur skattsins í félagsheimilasjóð, helmingur af skattinum ásamt viðaukanum, sem hér á að lögfesta, og ég vil halda því fram alveg óhikað að þessi félagsheimilasjóður, sem nýtur tekna af skemmtanaskatti, hafi verið hin þarfasta stofnun. Hann hefur orðið til þess að styrkja byggingu félagsheimila víða um land, og ég tel það vel þess vert að víkja nokkru nánar að því máli, — auðvitað aðeins í stórum dráttum til þess að reyna ekki um of á þolinmæði hæstv. forseta, — því að það verða þm. vitanlega að hafa í huga og taka til athugunar, þegar þeir fjalla um frv. eins og þetta, að þær tekjur, sem aflað er samkv. frv., komi að sem beztum notum fyrir þjóðfélagið. Ég vil álíta, að þannig hafi verið um þann hluta skattsins, sem farið hefur í félagsheimilasjóð, og til þess að gera þetta lítið eitt gleggra bæði fyrir mér og öðrum þdm., vildi ég fara um það nokkrum orðum.

Það er þannig með félagsheimilasjóðinn, að íþróttanefnd ríkisins ásamt fræðslumálastjóra annast málefni þessa sjóðs, og það hafa nú verið, frá því að l. voru fyrst sett, stundum gerðar á þeim breytingar, og 1957 var aukið fjármagn til sjóðsins upp í 50% af skemmtanaskatti. Fyrst þegar ákveðið var að leggja hluta af skemmtanaskattinum til félagsheimilasjóðs, voru 2/5 hans, eða 40%, látnir ganga þangað, en síðar var þessu breytt og hlutur félagsheimilasjóðs nokkuð minnkaður, vegna þess að þá þurfti einkum að nota meira af skattinum til þess að ljúka byggingarkostnaði þjóðleikhússins. Ég hef hér yfirlit yfir tekjur félagsheimilasjóðs af skemmtanaskattinum á árunum frá 1948. — Nei, ég hef nú ekki sagt alveg rétt frá áðan. Upphaflega, árið 1948, fóru 50% af skemmtanaskattinum, en ekki 40 til sjóðsins, eins og nú er. Ég bið menn afsökunar á þessu. En um skeið var úr þessu framlagi dregið til félagsheimilasjóðs. Tekjur sjóðsins á þessu tímabili, frá 1948 til 1958, að báðum meðtöldum, og er þó hér tekið fram, að það hefur ekki verið alveg uppgert 1958, þegar skýrslan var gerð, en tekjurnar eru þá orðnar til félagsheimilasjóðs kr. 16841102.85. Þetta er allveruleg fjárfúlga, og töluvert hefur verið hægt með þetta að gera.

Hér er líka yfirlit í skýrslunni um úthlutanir úr sjóðnum. Er þá fyrst frá því að greina, að í árslok 1958 höfðu 104 félagsheimili fengið byggingarstyrk úr sjóðnum. Þá stóð það þannig, að 54 af þessum félagsheimilum var lokið, að því er talið var, í smiðum, en í notkun, var 21, en í smíðum, en ekki tekin til notkunar, voru 29, — alls 104. Svo segir, að af þessum 104 félagsheimilum séu 26 eldri hús, sem hafi verið endurbyggð og stækkuð. Og það er sagt, að það hafi verið lokið uppgjöri við 55 þessara húsa, en 12 húsanna eru styttra á veg komin en svo, að þau séu orðin fokheld.

Svo er stór tafla nr. 1 í skýrslunni um eigendur þessara félagsheimila ásamt upplýsingum um rúmmál húsanna og byggingarár, stofnkostnað og framlag úr félagsheimilasjóði, en ég vil ekki eyða of miklum tíma frá hv. d. til þess að fara nákvæmlega út í þau atriði. En þó vil ég hér geta þess, sem segir í skýrslunni um hag félagsheimilasjóðs, að með því að áætla þátttöku í stofnkostnaði félagsheimilanna, sem eru í smíðum, og þeirra, sem ekki er þá að fullu gert upp við, þegar skýrslan er gerð, mundi hagur félagsheimilasjóðs vera um síðustu áramót, þ.e.a.s. 31. des. 1958, þannig: Heildarkostnaður, mér skilst við byggingu þessara félagsheimila, 46.7 millj., ég sleppi smærri upphæðum. Áætluð þátttaka sjóðsins skv. reglum, sem þar um gilda, 18.7 millj. tæplega, og búið að greiða af þessu, þ.e.a.s. þátttaka sjóðsins, sem greidd hefur verið, 13.2 millj., og ógreidd áætluð þátttaka þannig 5.4 millj. rúmlega. Þannig stendur þetta um síðustu áramót um félagsheimilasjóð.

Síðan er í skýrslunni gerð grein fyrir þeirri sérfræðilegu aðstoð, sem veitt hefur verið til þess að koma upp þessum félagsheimilum, og segir þar, að að meðaltali muni kostnaður sérfræðilegrar aðstoðar hafa numið um 1.3% af stofnkostnaði, eða að meðaltali rúmlega 15 kr. á hvern teningsmetra í byggingunum.

Svo er fjallað um leiksvið, hvernig þeim sé fyrir komið, og þar eru einnig birtar upplýsingar í skýrslunni, sem er næsta fróðleg, um öll þessi efni, um hvaða kröfur ríkisleikhúsið norska geri í þeim efnum, til leiksviða, stærðar og útbúnaðar, og stj. Bandalags ísl. leikfélaga hafi gert kröfur þeirra norsku einnig að sínum kröfum, og segir þar, að fræðslumálastjóri og íþróttanefnd hafi fallizt á sjónarmið stjórnar Bandalags ísl. leikfélaga og falið henni að hafa samband við húsameistarann á hverjum tíma og þann sérfræðing, sem teiknar raflagnafyrirkomulag, lýsingar á leiksviði.

Ja, svo ætla ég að fara fljótt yfir sögu. Það eru hér kaflar um veitingastofur og eldhús og fundahús og kvikmyndir. En síðan kemur hér, — og ég get ekki alveg látið hjá líða að minnast lítið eitt á þessa töflu, sem hér er og er næsta fróðleg um félagsheimilin í hinum ýmsu héruðum, sem hafa notið þessa stuðnings, og það er nú að sjá hér á nokkrum síðum. Þau eru, eins og ég sagði áðan, 104 samtals og mér skilst, að þetta sé sjálfsagt í öllum fjórðungum landsins, í mjög mörgum héruðum, sem þessum félagsheimilum hefur verið komið upp. Það er fyrst talið í Rangárvalla- og Árnessýslu, — ég vænti, að hv. dm. fyrirgefi þótt ég minnist nú jafnvel frekar á félagsheimili norðanlands, því að það er nú það, sem ég að sjálfsögðu gef nánari gaum en kannske framkvæmdum á öðrum svæðum, en það eru þá aðrir, sem hafa meiri áhuga fyrir því. Er þá t.d. hér að nefna Skjólbrekku í Mývatnssveit, það er nafnið á félagsheimilinu þar. Að því standa Skútustaðahreppur, Ungmennafélag Mývetninga og Kvenfélag Mývatnssveitar, og þetta var byggt 1952–55 og kostaði tæplega 1.3 millj. Og þá er það, sem ég vildi aðeins minnast á einnig, félagsheimili Bólstaðarhlíðarhrepps í Austur-Húnavatnssýslu, sem hefur hlotið nafnið Húnaver, og að því standa Bólstaðarhlíðarhreppur, Ungmennafélag Bólstaðarhlíðarhrepps, kvenfélag sama hrepps svo og búnaðarfélag, og þetta heimili var byggt á árunum 1952–57, kostaði 1.9 millj. um það bil og félagsheimilasjóður búinn að leggja til þess 584 þús. Hitt hafa íbúar þessa hrepps lagt fram frá sér og félög þar, nokkuð á aðra millj. kr., og er það geysimikið átak, enda er það svo um þetta félagsheimili, að það er eitthvert hið fullkomnasta og ánægjulegasta, sem maður sér, og þar eru haldnar skemmtanir góðar, síðan heimilið var tekið til notkunar, og þangað sækja menn gleðisamkomur, ekki einasta úr hreppnum og nálægum sveitum, heldur einnig allt norðan frá Akureyri, Siglufirði og jafnvel héðan úr Reykjavík, og njóta þar lífsins hið bezta. Í þessu félagsheimili hafa einnig verið haldnir nú á þessu ári landsmálafundir, sem frægir hafa orðið um land allt vegna þess, hve vel hefur verið þar á málum haldið.

Ég verð að bregða mér aðeins suður fyrir heiði, því að núna fyrir fáum dögum sá ég svo fallega mynd í einhverju dagblaði af nýju félagsheimili í Suðurlandskjördæmi hinu nýja, nánar tiltekið í Villingaholtshreppi innan Árnessýslu, skammt vestan við Þjórsá. Þetta var eftir lýsingunni að dæma hið glæsilegasta félagsheimili, og ég vil óska þeim til hamingju með það, sem það eiga og þess ætla að njóta.

Eitt félagsheimili, sem hér er á skránni, vil ég þó einkum nefna, vegna þess að það gegnir í raun og veru meira hlutverki en hin önnur félagsheimili flest a.m.k., sem reist hafa verið. Ég vildi finna það hér á skránni, ef þess væri kostur, en þetta er félagsheimili, sem reist hefur verið norður í Kelduhverfi í Norður-Þingeyjarsýslu. Þetta félagsheimili var tekið í notkun fyrir skömmu, og því var valið heitið Skúlagarður. Það er reist á þeim stað, þar sem einn af merkustu og ágætustu mönnum þessarar þjóðar, Skúli Magnússon fógeti, fæddist fyrir 248 árum. Þeir hafa norður þar valið þetta nafn á sitt félagsheimili til þess að halda uppi minningu þessa manns og tel ég það vel farið, að nokkru af þeim tekjum af skemmtanaskatti, sem félagsheimilasjóður fær í sinn hlut, sé varið til þess að halda uppi minningu slíkra manna, og ég efast ekkert um það, að þeir íbúar Norðursýslu muni stjórna þannig, að þessi staður verði menningarsetur og eigi það skilið að bera nafn þessa ágæta manns. Þeir hafa gert fleira, Þingeyingar, til að heiðra minningu Skúla fógeta. Þeir hafa einnig á þessum stað reist sérstakt minnismerki um hann nú fyrir skömmu. Eins og ég sagði, fæddist Skúli í Keldunesi í des. 1711, eða nú fyrir 248 árum. Hann var Magnússon, sem kunnugt er, prests í Húsavík Einarssonar prests í Garði Skúlasonar prests Magnússonar í Goðdölum, en séra Skúli Magnússon í Goðdölum — (Forseti: Ég vil minna hv. þm. á, að það er skemmtanaskattsviðauki, sem um er að ræða.) Já, já, alveg rétt, ég er einmitt að tala um það, hvað þarflegt sé að verja hluta af honum til að halda uppi minningu hinna merkustu manna. — Skúli Magnússon í Goðdölum var dóttursonur Skúla bónda Eiríkssonar á Eiríksstöðum og Steinunnar Guðbrandsdóttur biskups á Hólum Þorlákssonar. Séra Skúli í Goðdölum, langafi Skúla fógeta, mun hafa verið hinn merkasti klerkur, og það er í frásögur fært, að hann hafi verið ræðumaður svo góður, að menn komu langt að til þess að hlýða messu hjá honum. Til þess að þreyta ekki hæstv. forseta ætla ég ekki að fara út í það nú að ræða um fleiri afkomendur séra Skúla í Goðdölum en Skúla Magnússon, en þó væri það þess vert að athuga um það, og víst ætti einhver góður maður og fróður að taka sér fyrir hendur að semja hans ættarskrá, því að afkomendur séra Skúla í Goðdölum eru fjölmargir. Þeir eru margir í Norðurlandskjördæmi vestra, ég þekki marga, og ég veit, að þeir eru dreifðir um allt land og þeir eru hér á Alþ., og það er — (Forseti: Ég vil endurtaka, að það er skemmtanaskattsviðauki, sem er til umræðu.) Já, mér er það kunnugt, hæstv. forseti, og það er einmitt spurning, hvort það væri ekki í framtíðinni hægt að verja hluta af skemmtanaskatti, einhverjum smáhluta, til þess að semja ættarskrár hinna merkustu manna hér á landi, eins og séra Skúla Magnússonar í Goðdölum. Þá kæmi það t.d. í ljós, hversu margir af þeim mönnum, sem nú sitja á Alþ., eru afkomendur hans. Ég veit þeir eru hér, en ég veit ekki hve margir. Ég hef ekki haft tækifæri til að rannsaka það, og er það þó út af fyrir sig eða væri merkilegt rannsóknarefni, eins og forstöðumaður einnar menningarstofnunar mundi orða það, ef hann væri nú á þessum stað. — Það er þá ekki fleira um það að sinni.

Ég hef hér stiklað á stóru aðeins og reynt að gera þannig í stórum dráttum grein fyrir þessari merku löggjöf og því gagni, sem af henni hefur hlotizt á liðnum árum. Þess vegna eigum við þjóðleikhúsið, að þessi lög voru upphaflega sett, og þess vegna hefur verið unnt að verja til félagsheimilasjóðs öllum þessum milljónum, sem ég nefndi áðan, og hann aftur getað varið því fé til þess að byggja upp félagsheimili, sem mikil þörf er fyrir um land allt og væntanlega verða þar menningarstofnanir eða menningarsetur í framtíðinni. Ég hef sem sagt ekki farið hér út í smáatriði eða aukaatriði, aðeins lýst þessu í stórum dráttum. Ég hefði viljað, en tíminn er nú víst naumur, annars hefði ég viljað ræða nokkru meira um það en ég hef gert, hvers vænta mætti í framtíðinni af þessari löggjöf, því að þó að mikið gagn hafi af henni orðið undanfarið, eins og ég hef leitt nokkur rök að, þá er þess að vænta, að gagnið verði ekki minna af löggjöfinni um skemmtanaskatt og skemmtanaskattsviðauka í framtíðinni heldur en þegar hefur orðið. En mér skilst, að hæstv. forseti vilji nú hraða málinu frekar, og ég verð því líklega að láta þetta nægja.

En það er nú þannig, eins og ég reyndar drap á áðan, að þó að vænta megi góðs af þessari löggjöf og ýmsum öðrum verkum Alþ., þá er það svo, það er alkunnugt, að mennirnir eins og aðrar skepnur jarðarinnar kunna mjög misjafnlega vel að meta þau verðmæti, hvort heldur eru menningarleg eða efnahagsleg, sem veröldin hefur að bjóða þeim. Á þetta bendir skáldið Örn Arnarson á sinn listræna hátt í einu af kvæðum sinum með þessum orðum:

„Kveiktu ljós hjá leðurblöku,

láttu templar dæma vín,

sýndu heimskum hnyttna stöku,

hentu perlum fyrir svín,

bjóddu hundi heila köku

og honum Mogga kvæðin þín.“