05.12.1959
Neðri deild: 13. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (2190)

37. mál, verð landbúnaðarafurða

Eysteinn Jónsson:

Ég vil aðeins taka það fram að enn er í fullu gildi sú ósk mín til hæstv. forseta, að hann taki brbl. á dagskrá í dag á nýjum fundi. Fyrst menn féllust ekki á að taka þau á þessum fundi, vil ég endurnýja þá ósk mína, að hæstv. forseti taki þetta mál fyrir á nýjum fundi og nú í dag, — einmitt í dag, — vegna þess að ég er ekki farinn að trúa því enn, að þeir menn, sem voru kosnir á þetta þing með loforði um það að fella þessi brbl., ætli að fara heim eða láta senda sig heim án þess að gera það. En samkv. vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. sýnist mér, að nú muni skammt þess að bíða, að hún fái þann vilja sinn fram að senda þingmenn heim. Af öllu þessu samanlögðu endurtek ég óskir mínar til hæstv. forseta um að taka þetta mál fyrir á nýjum fundi nú strax á eftir.