07.12.1959
Neðri deild: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (2193)

37. mál, verð landbúnaðarafurða

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Af hendi Framsfl. hefur margoft verið hér á hv. Alþingi nú síðustu dagana í sambandi við fyrirætlanir ríkisstj. um að senda Alþingi heim gerð grein fyrir skoðunum flokksins á þessu bráðabirgðalagahneyksli, bæði útgáfu laganna sjálfra, sem var hneyksli, og hneykslanlegri meðferð hæstv. ríkisstj. á lögunum, sem hefur verið miðuð við það að leggja frv. á borðin hjá þingmönnum svo að segja um leið og þeir eru sendir heim til þess að losa sig við Alþingi og geta gert ráðstafanir í þinghléinu um þetta mál án þess að þurfa að standa Alþingi reikningsskap fyrir þeim eða tryggja, að Alþingi samþykki það, sem kann að verða gert.

Um þetta allt hefur verið rætt mjög ýtarlega af hendi framsóknarmanna og skoðanir látnar í ljós. Ég mun því ekki endurtaka neitt af því hér, en vísa til þess. Ég vil benda mönnum á, að við höfum skorað á hæstv. forseta að eiga þátt í því, að Alþingi verði ekki frestað, án þess að þetta mál fái fullkomlega þinglega meðferð, og með því eigum við að sjálfsögðu við það, að málið fái fullnaðarafgreiðslu. Á hinn bóginn sýnist nú allur háttur þannig hafður, að það sé ekki ætlun hæstv. forseta að verða við þessari beiðni. Það virðist nokkuð augljóst á því, hvernig fundum er hagað, búið er að loka hv. Ed. og ekkert hefur frétzt af því aftur, að hún verði opnuð, o.s.frv., að það muni vera meiningin að verða ekki við þessari beiðni.

Þess vegna vil ég biðja hv. þingmenn að athuga það, að sú atkvgr., sem hér fer fram nú á eftir, mun sennilega verða eina atkvgr., sem fer fram um þetta mál á háttvirtu Alþingi, eins og á þessu er haldið. Og ég vil minna þá, sem hafa heitið því að fara á þing til þess að beita sér á móti þessum brbl., á þetta, að nú er komið að því, að þeir eiga að standa við þetta heit við þá atkvæðagreiðslu, sem nú á að fara fram.

Þá vil ég að lokum aðeins beina tveimur fsp. til hæstv. landbrh., og þær eru þessar:

Vill hæstv. landbrh. lýsa því yfir, að brbl. þessi, sem nú eru hér lögð fyrir, verði ekki undir neinum kringumstæðum framlengd með bráðabirgðalögum í þinghléinu?

Og í öðru lagi:

Vill hæstv. landbrh. lýsa því yfir, að ekki komi til mála, að nokkur brbl. verði sett um verðlagsmál landbúnaðarins í þinghléinu?