06.04.1960
Neðri deild: 62. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (2201)

115. mál, áburðarverksmiðja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta, eins og hv. alþm. hafa séð, gerir ráð fyrir því, að áburðarverksmiðjan, eins og 1. gr. segir, annist sjálf sölu framleiðsluvara sinna til kaupenda á kostnaðarverði, sem háð er samþykki landbrh., og að ríkisstj. er gert heimilt að veita verksmiðjunni einkaleyfi til innflutnings á tilbúnum áburði. Áburður þessi skal sömuleiðis seldur á kostnaðarverði, sem háð er samþykki ráðherra. Með þessu móti er unnt að minnka verulega milliliðakostnað við áburðarverzlun.

Þetta mál hefur verið rætt við stjórn áburðarverksmiðjunnar, og er hún samþykk því að taka að sér innflutning og sölu þess áburðar, sem við þurfum að flytja inn hverju sinni.

Enda þótt Áburðareinkasala ríkisins hafi að ýmsu leyti verið rekin með tiltölulega litlum kostnaði, er augljóst, að þarna verður um einhvern sparnað að ræða, og það er eðlilegt, að áburðarverksmiðjan annist sölu og dreifingu þess áburðar, sem landsmenn nota, en ekki sé verið með þessa dreifingu í tvennu lagi. Ég hygg, að flestir, sem til þessa máls þekkja, séu þessu samþykkir.

Þá er það 2. gr. þessa frv. Hún fjallar um fyrningarafskriftir áburðarverksmiðjunnar. Upphaflegt kostnaðarverð áburðarverksmiðjunnar var 130 millj. kr., en var áætlað nú, áður en nýju efnahagsaðgerðirnar gengu í gildi, 245 millj. kr. Það er þess vegna augljóst, að nauðsynlegt er að rýmka afskriftarheimildir fyrir áburðarverksmiðjuna, því að verksmiðjan getur ekki endurnýjað sig, ef aðeins er miðað við upphaflegt kostnaðarverð. Fyrningarafskriftir þurfa að miðast á hverjum tíma við raunverulegt kostnaðarverð eða eins og endurnýjun kostar á hverjum tíma. Með því móti getur áburðarverksmiðjan endurnýjað sig af eigin rammleik. En sé þetta ekki gert, þá verður, þegar um endurnýjun er að ræða, að láta hana fara fram fyrir lánsfé. Slíkt er vitanlega ekki á neinn hátt heilbrigt, og þarf að komast fram hjá því.

3. gr., sem er afleiðing af því, sem áður er sagt, gerir ráð fyrir því, að Áburðareinkasala ríkisins hætti störfum, þegar þessi lög hafa öðlazt gildi. Eignum hennar verði varið til þess að efla jarðvegsrannsóknir í landinu og þá sérstaklega með það fyrir augum að nýta tilbúinn áburð betur en gert er.

Á s.l. ári keyptu bændur áburð fyrir 80 millj. kr. og verður væntanlega meira á þessu ári og fer vaxandi með aukinni ræktun og nokkuð hækkuðu áburðarverði. Það er því mikið atriði, að rétt sé farið með áburðinn og það sé borið á eftir því, sem jarðveginum hentar bezt hverju sinni. En um þetta er ekki hægt að segja, nema jarðvegurinn hafi verið rannsakaður og það liggi fyrir vísindaleg rannsókn á því, hvernig áburðurinn nýtist bezt.

Með þessu frv. er prentað fskj., sem er umsögn dr. Björns Jóhannessonar um þessi mál. Þar er sagt frá því, að jarðvegskortagerð sé í byrjun hér á landi. Það hafa verið gerð jarðvegskort á svæðinu á milli Ytri-Rangár og Þjórsár og nokkuð í Eyjafirði og Borgarfirði. En mest af landinu er órannsakað og kortagerðin því ekki komin það áleiðis, sem æskilegt væri. Þá er og talið nauðsynlegt að gera gróðurkort og afréttarannsóknir til þess að auka beitarþol landsins. En eins og kunnugt er, þá er það mál fróðra manna, að beitarþoli landsins sé nú jafnvel íþyngt um of og á síðari árum hafi það komið fram, að búpeningur gefi ekki eins góðan arð og unnt væri, vegna þess að það sé orðið og þröngt í högum og afréttarlöndin ekki í því ástandi, sem æskilegt væri.

Það er talið fullvíst, að nægileg sérfræðiþekking sé fyrir hendi, ef hinum sérfróðu mönnum er veitt sú aðstaða, sem þeir þurfa til þess að njóta sín. Þess vegna er lagt til, að eignum áburðareinkasölunnar, sem munu vera um 5 millj. kr., verði varið til þess að reisa rannsóknarstofu fyrir þennan atvinnuveg. Hefur raforkumálaskrifstofan og rannsóknaráð ríkisins gert áætlun um þessa framkvæmd í Keldnalandi, og er gert ráð fyrir, að þetta muni kosta með nauðsynlegum tækjum og áhöldum 4½–5 millj. kr. Með því að verja þessu fé á þann hátt, sem hér er lagt til, er vísindamönnum okkar sköpuð aðstaða til þess að vinna þessi verk, til þess að rannsaka jarðveginn í landinu, gera gróðurkort af haglendi og gróðurlendi og gefa nauðsynlegar leiðbeiningar bændum um það, hvaða áburðartegundir hæfa bezt á hvern stað. Með því er hægt að spara bændum stórkostlegt fé og jafnframt þjóðarbúinu í heild.

Ég vænti þess, að frv. þessu verði vel tekið, að hv. alþm. séu sammála um það, að dregið verði úr kostnaði áburðarsölunnar með því að hafa áburðarverzlunina á einni hendi, og það verði landbúnaðinum í heild til mikillar farsældar að gefa vísindamönnum okkar aðstöðu til þeirra rannsókna, sem hér er farið fram á.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. að sinni, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.