06.04.1960
Neðri deild: 62. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (2202)

115. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. hefur borið fram frv. um breytingu á lögum um áburðarverksmiðju. Það liggur nú þegar fyrir Alþingi frv. um breyt. á lögunum um áburðarverksmiðju. Ég flutti sem 13. mál þessa þings strax í byrjun Alþingis frv. þess efnis, og því var vísað til fjhn. 26. nóv. og hefur verið í athugun síðan. Ég vildi þess vegna strax gera þá athugasemd við till. hæstv. ráðh., að mér fyndist viðkunnanlegra, að þessu máli væri vísað til fjhn. Áburðarverksmiðjan og breytingar á henni hafa verið þar venjulega, og það mundi vera rétt, að það væri athugað af þeirri nefnd, sem venjulega hefur með allt, sem snertir fjárhagsmál ríkisins, að gera, því þó að þetta ríkisfyrirtæki sé að framleiða vörur, sem landbúnaðurinn sérstaklega notar, þá er ekki sjálfsagt, að það sé landbn., sem eigi að hafa með það að gera.

En ég sé ástæðu til þess vegna þeirra tillagna, sem í þessu felast, að gera nokkuð að umtalsefni afstöðu áburðarverksmiðjunnar. Það, sem hér er lagt til, er, að það sé lagt niður ríkisfyrirtæki, sem var stofnað 1928 með lögum um einkasölu ríkisins á áburði. Þetta er sem sé hreint ríkisfyrirtæki, sem ríkið algerlega ræður, þó að ríkið hafi haft heimild til þess að fela t.d. Sambandi ísl. samvinnufélaga eða öðrum aðila að annast þetta fyrir sig. Nú er lagt til að fela áburðarverksmiðjunni þetta í hendur.

Nú eftir 10 ár, frá því að lögin um áburðarverksmiðjuna voru sett, hefur enn ekki fengizt skýrt, þannig að það sé alveg ótvírætt að allra áliti, hver sé eigandi áburðarverksmiðjunnar. Ég hef haldið því fram, að það væri ríkið, og stend á því, en hef nú flutt í upp undir áratug frv. til breytinga á lögunum, til þess að það sé gengið alveg úr skugga um það. Og hæstv. landbrh. gefur hér upplýsingar, sem undirstrika það, hve óhjákvæmilegt það er, að gengið sé úr skugga um þetta.

Áburðarverksmiðjan er rekin sem stendur af hlutafélagi. Hlutaféð í því hlutafélagi er 10 millj. kr. Af þessu rekstrarhlutafé á ríkið 6 millj., en einstakir aðilar 4 millj. Það liggja hins vegar fyrir yfirlýsingar ráðherra, sem eru vefengdar og hafa verið vefengdar, frá því að þær fyrst voru hér gefnar, um það, að þetta hlutafélag væri eigandi áburðarverksmiðjunnar. Og það hefur verið gerð af minni hálfu þing eftir þing tilraun til þess að fá skorið úr um þetta. Frv. þess efnis hefur enn aldrei fengizt afgreitt endanlega, þannig að úr því væri skorið við 2. umr. í þingi, hver afstaða flokkanna væri. En þó hefur það oft komizt það langt, að Alþfl. hefur tekið afstöðu með þessu frv. mínu alveg frá upphafi og forustumenn hans lýst því yfir alveg ótvírætt, að þeir álitu tvímælalaust, að áburðarverksmiðjan væri eign ríkisins. Framsfl., því að hans ráðherrar höfðu gefið yfirlýsingar um þetta mál, hefur tekið afstöðu lengst af á móti þessu. Sjálfstfl. hefur ekki tekið afstöðu né hans fulltrúar í n. í þessu máli. Ég upplýsti það næstsíðast, þegar ég flutti þetta mál, að það væri orðið sérstaklega brýnt að skera úr um þetta vegna sérstakra atriða, sem fram hefðu komið í sambandi við álagningu stóreignaskatts og hvernig sú n., sem átti að meta eignir til skatts, hefði metið hlutabréfin í Áburðarverksmiðjunni h/f sem rekstrarfélagi. Ég upplýsti þá, að áburðarverksmiðjan, sem hafði kostað 130 millj. kr., þegar hún var byggð, mundi vera metin allt upp í 190 millj. kr. Nú upplýsir hæstv. landbrh., að svokallað endurnýjunarverð áburðarverksmiðjunnar muni vera, eins og líka stendur í grg., 245 millj. kr. fyrir efnahagsráðstafanirnar. Hvað mundi það þýða, að endurnýjunarverð áburðarverksmiðjunnar væri eftir efnahagsráðstafanirnar? Mundi það ekki þýða, að það væri að öllum líkindum komið upp í einar 300 millj. eða jafnvel meira? Og nú er lagt til í sambandi við 2. gr. þessa frv. að taka alveg sérstaklega tillit til þess í þeim l., sem nú á að fara að semja, að áburðarverksmiðjan geti endurnýjað sig, hún geti endurnýjað sig og það með tilliti til þess verðs, sem þá yrði á henni, þegar hún ætti að fara að kosta sitt viðhald, og jafnvel geti svo að segja fengið nýjar vélar og allt annað slíkt, þegar þessar væru orðnar slitnar.

Það er engum efa bundið, að því lengur sem líður, án þess að tekin sé ákvörðun í þessu efni, því hættulegra verður þetta mál. Ég álít þarna á ferðinni stórfelldasta þjófnaðarmál, sem uppi hefur verið á Alþingi. Ég álít það tilraun til þess að stela úr eigu ríkisins, að Alþingi taki ekki ákvörðun um það, hver það sé, sem á þessa verksmiðju, og því lengur sem líður, því meiri rök munu þeir hluthafar, sem eiga hlutabréf í rekstrarfélaginu Áburðarverksmiðjan h/f, fá í hendur fyrir því, að þeir séu eigendur þessarar verksmiðju. Núna hafa þeir sem rök fram að færa yfirlýsingar landbrh. frá því á árunum 1952, 1953 eða þar í kring og mat stóreignaskattsnefndar eða yfirskattanefnda, sem höfðu með þau mál að gera, sem ég veit þó ekki hvort hefur staðizt, — ég veit ekki, nema það hafi verið tekið til baka, en um tíma var það svo, en hafði ekki að mínu áliti við nein lög að styðjast, því að í lögunum, 13. gr. þeirra, stendur alveg ótvírætt, að þá skuli áburðarverksmiðjan rekin sem hlutafélag, ef það fáist eitthvert ákveðið hlutafé frá einstaklingum, en hins vegar samkvæmt 3. gr. er hún sjálfseignarstofnun.

Ég held þess vegna, að það sé alveg óhjákvæmilegt, ef lög eiga nú að fara í gegnum Alþingi um áburðarverksmiðjuna, sem í fyrsta lagi fela þessari áburðarverksmiðju að hafa með höndum sölu á áburði, sem sérstakt ríkisfyrirtæki hingað til hefur annazt, og í öðru lagi breyta ákvæðunum um afskriftir, að samtímis sé endanlega úr þessu skorið. Það getur ekki gengið svo, að þetta mál sé meira eða minna á huldu, að einhvern dag geti menn, sem hafa einhvern tíma lagt fram 4 millj. kr., komið og sagt og skírskotað í alls konar gamlar yfirlýsingar eða annað slíkt: Ég á 4/10 hluta af fyrirtæki, sem eftir nýjustu og verstu efnahagsráðstafanir hæstv. ríkisstj. mundi líklega vera komið upp yfir 300 millj. sem eign. — Ég veit að vísu, að hæstv. ríkisstj. hefur mikinn hug á að gefa ríkum mönnum mikið og gera þá, sem auðugir eru fyrir, allmiklu auðugri, en að hún gæfi svona mikið í einu lagi, því hafði ég þó ekki hugsað mér að hún kærði sig um að taka þátt í og það á svona lélegum forsendum. Ég held þess vegna, að við meðferð þessa máls í þinginu verði að fá alveg úr þessu skorið, hver það sé, sem þessa áburðarverksmiðju á.

Svo er eitt, sem mig langar til þess að spyrja að í þessu sambandi, af því að ég er nú ekki vel að mér í hlutum eins og þeim, sem 2. gr. fjallar um. Þarna er lagt til grundvallar sem höfuðregla, að það eigi að miða afskriftir við endurnýjunarverð. Hefur það verið áður, eða er það ný regla, sem yrði tekin upp? Og ef slík regla er tekin upp í sambandi við eitt ríkisfyrirtæki, er þá ekki eðlilegur hlutur, að aðrir geti farið fram á slíkt hið sama? Ef það á að leyfa þessu ríkisfyrirtæki að afskrifa sig, ekki miðað við það, sem það hefur kostað það, sem lagt hefur verið út í peningum upphaflega, heldur miðað við það, sem mundi kosta að byggja það að nýju, hafa þá ekki allir aðrir siðferðislega kröfu á samsvarandi meðhöndlun? Og til hvers mundi það leiða, ef öll fyrirtæki í landinu héðan í frá ættu að fara að mega afskrifa allt miðað við kostnaðinn af að endurnýja sig, ég tala nú ekki um með áframhaldandi, reglulegum gengislækkunum á 10 ára fresti, 1939, 1950 og 1960, með tilheyrandi verðbólgu á milli? Verður þá ekki meginið af fyrirtækjum í landinu þannig, að þau geti yfirleitt alltaf verið að afskrifa sig héðan í frá? Ég vil bara skjóta þessu fram, af því að mér er þetta ekki rétt vel ljóst, og náttúrlega gæti þá sú n., sem þetta færi til, athugað það betur. En hins vegar skilst mér, að þetta spursmál um endurnýjun viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni eða afskriftir sé raunverulega því aðeins mjög praktísks eðlis, að litið væri á áburðarverksmiðjuna sem eign hlutafélags. Fyrir algert ríkisfyrirtæki er þetta náttúrlega ekki alveg jafnbrýnt, vegna þess að ef ríkið á þetta sjálft, þá getur það náttúrlega alltaf gefið slíkri áburðarverksmiðju heimild í sambandi við þá álagningu, sem fram færi á áburðinum, sem kæmi í sama stað niður. Hins vegar náttúrlega, jafnvel þótt þetta væri skoðað sem algert ríkisfyrirtæki, áburðarverksmiðjan, þá mundi þetta hins vegar þýða gagnvart notendum áburðarins, gagnvart bændum, þá mundi þetta nýja afskriftaákvæði þýða sjálfkrafa verðhækkun á áburðinum, skilst mér. Ég man hins vegar eftir því, að hæstv. núv. menntm.- og viðskmrh. flutti hér við umr. um þetta mál, áburðarverksmiðjuna, hér í þessari hv. d. fyrir eitthvað 6–7 árum mjög ýtarlega útreikninga einmitt viðvíkjandi afskriftunum til þess að sýna fram á, hvað verið væri að gefa þeim hluthöfum, sem ættu þarna 4 milljónir, með 20 ára afskriftunum, sem þá var gengið út frá, og kom raunar með dálítið svipaðar hugmyndir líka eitt sinn, er hann var að mæla hér fyrir till. viðvíkjandi Eimskipafélagi Íslands og þess aðstöðu, ef einhvern tíma kæmi að því, að það félag yrði annaðhvort þjóðnýtt eða gert upp á einn eða annan hátt eða öll lög látin koma til framkvæmda í sambandi við skatta þess.

Ég held þess vegna, að strax í sambandi við 2. gr. þessa frv. sé það nauðsyn, að gengið sé til fulls frá því nú við meðferð þessa máls í þinginu, hver sé eigandi áburðarverksmiðjunnar. Ég veit að vísu, að það eru tilhneigingar hjá vissum mönnum hér á Alþingi til að ná fyrirtækjum úr höndum ríkisins. En ég hef hingað til yfirleitt gengið út frá því, að þeir menn, sem hafa þann hugsunarhátt að vilja eignast fyrirtæki ríkisins, hafi hugsað sér að kaupa þau af ríkinu. Ég man eftir því, að hv. 3 þm. Austf. (EinS), sem er mikill fylgismaður þess, að það séu einstakir aðilar í landinu, sem reki fyrirtæki, hefur skrifað um, að það ætti að selja fyrirtæki eins og áburðarverksmiðjuna, síldarverksmiðjurnar og annað slíkt, en ég veit alveg fyrir víst, að honum hefur aldrei dottið í hug, að menn ættu að reyna svo að segja að stela þessu úr eigu ríkisins með því móti að flytja brtt. við lög undir fölsku yfirskini, ranglega orðað og fara svo að reyna að ná þessu af ríkinu á óheiðarlegan hátt. Ég veit, að hann og aðrir, sem hafa mikla trú á einstaklingsrekstri, hafa alltaf hugsað sér, að þetta yrði keypt af ríkinu á heiðarlegan hátt, jafnvel kannske þó að þeir hugsuðu til þess að reyna að fá lán í ríkisbönkunum til að kaupa það af ríkinu. En það er nú annað mál.

Ég held þess vegna, að það „prinsip“, hvort menn vilja, að ríkið eigi fyrirtæki eða einstaklingar eigi fyrirtæki, það sé allt annars eðlis en það, sem hérna er um að ræða, að ríkið hefur komið áburðarverksmiðjunni upp, að ríkið hefur lagt fram eða útvegað tæpar 130 millj. kr. til þess. Einstakir aðilar hafa lagt fram 4 millj. kr., sem þeir a.m.k. að allmiklu leyti hafa fengið að láni frá ríkinu, frá ríkisbönkunum, og það að ætla sér síðan á fölskum forsendum að fara að reyna að halda því fram, að þessir aðilar, sem eiga 4/10 hluta þessa litla hlutafélags, þessa hlutafélags upp á 10 millj., þeir eigi áburðarverksmiðjuna, það nær náttúrlega ekki nokkurri átt, og það er til vansa fyrir Alþingi að vera ekki búið að skera úr þessu alveg ótvírætt. En það mun nú fást fram í sambandi við þetta frv., því að ég mun náttúrlega flytja, hvort sem þetta fer til fjhn. eða landbn., mínar brtt. við það, þannig að það fáist úr því skorið með atkvgr. hér á Alþingi, hvaða skoðun menn hafa á þessu. Ég held þess vegna, að þessi ákvörðun, sem er höfuðákvörðunin hérna, að það eigi að leggja niður Áburðarsölu ríkisins og fela áburðarverksmiðjunni að hafa þetta með höndum, það sé þá um leið tilvalin ráðstöfun til þess að skera úr um, hvort það sé verið aðeins að spara innan ríkisheildarinnar eða hvort það sé verið að verksmiðjunni meira eða minna í hendur einkareyna að koma áburðarsölunni á eftir áburðarhlutafélagi, þó að ríkið eigi þar sem stendur meiri hlutann. Það er vitanlegt, að það hafa verið uppi tillögur um það hér á Alþingi að selja öll hlutabréf ríkisins, hlutabréf að nafnverði 6 millj. kr. í áburðarverksmiðjunni, í þessu rekstrarhlutafélagi. Hefði það verið gert, þá mundi samkvæmt skoðunum þeirra manna, sem álíta að þetta hlutafélag eigi áburðarverksmiðjuna, áburðarverksmiðjan hafa verið seld einkaaðilum á 10 millj. kr., og síðan hefðu þeir bæði með núverandi lögum og þessum lögum hérna, 2. gr., fengið fyrningarafskriftir, sem hefðu á 20 árum eða svo gefið þeim þessa áburðarverksmiðju.

Ég veit að vísu, að slíkar hugmyndir eins og að selja hlutabréf ríkisins í áburðarverksmiðjunni, rekstrarhlutafélaginu, komu upp á þeim niðurlægingartímum, þegar amerískt einkakapítal og amerísk ríkisstjórn hafði svo mikil áhrif á gang efnahagsmála á Íslandi, að hún gat sett íslenzkri ríkisstj. stólinn fyrir dyrnar og krafizt þess, að áburðarverksmiðjan, sem engum manni hafði dottið í hug að yrði annað en hreint ríkisfyrirtæki, og ríkisstj. hafði lagt fram lögin þannig á þinginu 1948–49, að það var ríkisfyrirtæki, eins og það kom fyrir, og það fór í gegnum þessa hv. d. þannig, að lögin ákváðu, að það væri ríkisfyrirtæki og ekkert annað, og fyrst við 2. umr. í Ed., þá á síðustu dögum þingsins fyrir kosningar, er þessu breytt eftir kröfum Alþjóðabankans. Og síðan átti að koma þessu þannig úr eigu ríkisins, að þegar Framkvæmdabanki Íslands var stofnaður, þá átti að leggja honum þessar 6 millj. kr., sem ríkið átti í hlutafénu, sem stofnfé, og sá maður, sem varð framkvæmdastjóri bankans, lýsti því yfir, að hans tilætlun væri sú síðan að selja þetta helzt á nafnverði, og þó að mér til mikillar ánægju sú ríkisstj., sem næst tók við, hafi staðið betur á verði gagnvart slíkum þrýstingi frá Alþjóðabankanum og öðrum útlendum auðvaldsfyrirtækjum og hafi ekki látið sementsverksmiðjuna fara sömu leið þrátt fyrir þrýsting að vestan í þá átt, þá þori ég ekki að ábyrgjast með þeirri efnahagsstefnu, sem nú er tekin upp á Íslandi, með þeirri viðleitni til að ná úr eigu ríkisins svo og svo miklu af fyrirtækjum, að það kunni ekki aftur að fara svo, að svona tilhneigingar komi upp.

Hæstv. landbrh. upplýsti, að endurnýjunarverð væri komið upp í 245 millj., miðað við það, sem var fyrir efnahagsráðstafanirnar, og ég gat þess til áðan, að það mundi líklega vera komið upp í yfir 300 millj., þegar ætti að fara að endurnýja það eftir efnahagsráðstafanirnar. Og ef þessi hæstv. ríkisstj. sæti nú lengi og gerði margar efnahagsráðstafanir, þá getur maður svo sem ímyndað sér, hvað þetta yrði komið hátt, og ef það ætti svo að enda allt saman með því að skoða áburðarrekstrarfélagið sem eiganda og selja svo kannske 6 millj. kr. hlutafé á nafnverði, þá færi þetta að verða þokkaleg „forretning“ fyrir einkaaðilana á Íslandi. Það yrðu þá jafnvel kannske til einhverjir einkaatvinnurekendur, sem gætu staðið á eigin fótum, þegar væri búið að setja þessi hlutabréf undir þá, hvort sem þeir kynnu að nota það til þess að koma þá upp einhverjum síldariðnaði á Austfjörðum eða Vestfjörðum, — ég skal ekkert fullyrða um það. Það gæti verið, að þeir vildu heldur láta ríkið koma fyrst upp einhverjum síldariðnaði á þessum stöðum og hafa það kannske hlutafélög og hafa það dálítið blandað og koma því svo yfir á einstaklinga á eftir. Það yrði líklega ódýrara fyrir þá.

Ég held þess vegna, að það sé alveg nauðsynlegt, að það fáist úr því skorið, hvaða afstöðu Alþingi hefur til þessa máls. Og þess vegna geri ég nú þetta að það miklu umtalsefni nú við 1. umr. þessa máls, þó að mínar till. liggi hér ekki fyrir, að færi þetta til t.d. landbn., en ekki fjhn., þá mundi ég eindregið vilja biðja þá n. um að athuga þetta frv. mitt, því að ég mun flytja það þá í brtt. formi við 2. umr. málsins, ef sú n., sem það færi til, hefði ekki sjálf að einhverju leyti ákveðið að flytja það þannig.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. sagði í sambandi við 3. gr. um að verja ákveðnum eignum áburðarsölunnar til jarðvegsrannsókna og slíks, þá er ekki nema gott um það að segja. Sannleikurinn er sá, að þegar svona fyrirtæki eins og áburðarverksmiðjan er sett upp, ekki sízt ef maður mætti líta á það eins og ég lít á það, sem algert ríkisfyrirtæki, þá ætti maður að gera sér það að venju að láta slík fyrirtæki leggja þó nokkuð af mörkum til vísindalegra rannsókna og tilrauna. Það er engum efa bundið, að þó að við rekum slík fyrirtæki sem ríkisfyrirtæki, þá verða þau að temja sér að hugsa ekki síður um nauðsyn þess atvinnurekstrar, sem þau eiga að sjá um, heldur en vel rekið einkafyrirtæki mundi skoða að vera í sínum verkahring. Það er náttúrlega alveg gefið, að hvert vel rekið einkafyrirtæki, sem seldi áburð til allra þeirra, sem hann nota á Íslandi, mundi náttúrlega álíta það í sínum verkahring að reyna að hafa nokkra hugmynd um, hvers konar áburð jarðvegurinn á Íslandi þarf og hvers konar áburður sé þar heppilegastur að öllu leyti. Við vitum, að stórir auðhringar erlendis verja of fjár einmitt til slíkra efnafræðilegra rannsókna og tilrauna, svo miklum fjárhæðum, að okkur mundi jafnvel sundla við því, hve gífurlega mikið ýmis slík fyrirtæki nota til þess að undirbúa það að geta bætt sína framleiðslu og eflt á alla grein. Það er alveg rétt að leggja áherzlu á það, að þegar ríkisfyrirtæki koma upp og eru sett á laggirnar hér hjá okkur, þá má allra sízt vera litið þannig á, að þau séu, eins og við skulum segja tóbakseinkasalan og áfengiseinkasalan hafa verið, bara einhver tekjuöflunarfyrirtæki fyrir ríkið. Þvert á móti þurfa þau að vera þjóðþrifafyrirtæki, sem láta sig varða alla þá atvinnugrein, sem undir þau heyrir. Við vitum hins vegar, að fyrirtæki, sem veita eins miklu og slíkar stórverksmiðjur gera, geta oft og eiga oft miklu hægara með að láta slíkt fé af mörkum, sem þyrfti til ýmiss konar vísindalegrar starfsemi, heldur en jafnvel ríkið sjálft oft gerir, og mætti ákaflega vel athuga hjá okkur að gera meira af slíku, ef — sem ég vildi nú vona — fjölgaði slíkum stórum ríkisfyrirtækjum hér á Íslandi, þá væri það frá upphafi miklu meira en verið hefur sett í þeirra verkahring að sjá um slíka hluti og annast þá, stundum beint í sambandi við þær vísindalegu rannsóknarstofnanir, sem hér eru, og stundum sjálfstætt, sem sagt ég vil mjög taka undir þá till., sem í því felst.

Fyrst frv. til l. um breyt. á l. um áburðarverksmiðju er nú komið hér á dagskrá, þá þætti mér mjög vænt um það, sökum þess að ótvíræðar yfirlýsingar hafa ekki fengizt við þær umr., sem fram hafa farið um mitt frv., sem verið hefur líka um breyt. á l. um áburðarverksmiðju, þá þætti mér mjög vænt um, að flokkarnir hér í þinginu og einstakir þm. lýstu nokkuð sínum skoðunum á þessu, og ég álít, að það væri gott fyrir þá n., sem þetta mál færi til, að hún gæti haft nokkra hliðsjón af því, hvaða skoðanir hér kæmu fram.

Ég vil að vísu ekki á þessu stigi gera beina till. um það, að þetta mál sé sent til fjhn., en skjóta því til hæstv. landbrh. og hæstv. forseta til athugunar, hvort það mundi ekki vera eðlilegt, að þessi frv., sem bæði fjalla um breyt. á sömu lögunum, væru í sömu n. Ég held, að þó að tafizt hafi hjá okkur í fjhn.afgr. mitt frv., þá þurfi hæstv. ríkisstj. ekkert að óttast, að við mundum liggja svo lengi á hennar frv., að hún sæi það ekki næstu 3–4 mánuði.