06.04.1960
Neðri deild: 62. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (2203)

115. mál, áburðarverksmiðja

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég mun ekki á þessu stigi ræða efnislega um það frv., sem hér liggur fyrir, eða þá breyt., sem er ráðgerð með því. Ég tel eðlilegt, að eftir að það er komið til n., verði því vísað til umsagnar samtaka bænda, sem hafa mestra hagsmuna að gæta í sambandi við skipan þessara mála, og afstaða mín a.m.k. og e.t.v. ýmissa annarra mun að sjálfsögðu fara mjög eftir því áliti, sem fulltrúar bændanna láta í ljós um þá skipan, sem þeir telja heppilegasta á þessu máli. Og það má vera, — ég skal ekkert segja um það á þessu stigi, — að af ýmsum ástæðum kunni mönnum að þykja heppilegt að taka upp þá tilhögun eða samfærslu sem hér er gert ráð fyrir.

Það er hins vegar eitt atriði sem mér finnst rétt að láta koma fram strax á þessu stigi og m.a. vegna nokkurra orða, sem er að finna í grg. frv., og eins af því, sem kom fram í ræðu hæstv. landbrh., og þetta atriði er það, að ég held, að það sé óhætt að fullyrða eða staðhæfa það strax á þessu stigi, að jafnvel þótt sú samfærsla yrði gerð, sem hér er gert ráð fyrir, þá mun það ekki leiða til neins verulegs sparnaðar. Það byggi ég á því, að þetta fyrirtæki, sem nú er ráðgert að leggja niður, Áburðarsala ríkisins, hefur á undanförnum árum eða allt frá upphafi verið rekin með alveg sérstökum sparnaði og hagsýni, og af því að ég veit, að hæstv. landbrh. er oft sanngjarn maður og þekkir þá menn, sem þessari stofnun hafa stjórnað, og þekkir til starfsemi hennar, þá mun hann vafalaust vera fús til að viðurkenna þetta.

Það kemur hér fram í grg. frv., að rekstrarkostnaður Áburðarsölu ríkisins hafi á s.l. ári verið um 674 þús. kr., og mundu kannske einhverjir ætla í fljótu bragði af þessari tölu, að allan þennan kostnað mundi vera hægt að spara, ef áburðarsalan væri lögð niður. Slíkt er að sjálfsögðu mikill misskilningur, og þykir mér rétt að benda á nokkur atriði því til staðfestingar.

Ég vil t.d. benda á það, að vextir og yfirfærslukostnaður nema um 260 þús. kr. af þessari upphæð, og sá kostnaður er þannig til kominn, að það eru engar líkur til þess, að það verði hægt að fella hann niður, þótt af slíkri sameiningu yrði, sem hér er gert ráð fyrir.

Þá er að benda á það, að greidd vinnulaun eða skrifstofukostnaður og afgreiðslukostnaður er um 260 þús. kr., og ég tel mjög vafasamt, að það verði hægt að draga nokkuð sem heitið getur úr þeim kostnaði, þótt af þessari breytingu yrði, og það liggur í því, að áburðarsalan hefur nú mjög umfangsmikla starfsemi með höndum. Hún sér um innflutning og sölu og dreifingu á erlendum áburði, — ég held, að áburðarmagnið skipti eitthvað 220–225 þús. smálestum á ári, — og jafnframt sér hún um innheimtu á þessari sölu, og það sjá allir, að þetta hlýtur að hafa mjög umfangsmikla starfsemi í för með sér, sérstaklega í sambandi við afgreiðsluna. Þess vegna er mjög hæpið að gera ráð fyrir því, svo að ekki sé meira sagt, þó að það verði breyting á fyrirkomulaginu í þessum efnum, að það verði neitt að ráði hægt að draga úr þessum kostnaði. Og vegna þess að ég veit, að hæstv. landbrh. er verzlunarfróður maður og getur vel gert sér grein fyrir því, hve umfangsmikil starfsemi þetta er, þá mun hann áreiðanlega gera sér ljóst, að á þessum lið, á vinnulaununum, verður ekki hægt að spara neitt sem heitið getur, t.d. afgreiðslustarfsemin ein í sambandi við þetta er svo umfangsmikil, að það hlýtur að hafa verulega vinnu í för með sér.

Þá er annar kostnaður, sem eftir er, þegar búið er að telja upp þessa tvo meginliði, þá eru eftir um 150 þús. kr., og það skiptist að mestu leyti á milli símakostnaðar og húsnæðiskostnaðar. Símakostnaður hlýtur að vera mjög verulegur við þessa starfsemi, þar sem um jafnmikinn innflutning er að ræða og þarf að hafa veruleg sambönd við útlönd, og húsnæðiskostnaður hlýtur einnig að vera mjög verulegur vegna þess, hve mikið magn er hér umsett, og það breytist ekki neitt, þó að sú samfærsla eigi sér stað, sem hér ræðir um.

Ég sé ekki ástæðu til þess að nefna fleiri atriði en þetta. En ég held, þegar menn líta á rekstrarkostnað við áburðarsöluna sundurliðaðan og athuga jafnframt, hve umfangsmikil starfsemi er hér rekin, að þá sé ekki hægt að búast við því, að það hljótist neinn verulegur sparnaður af því, að sú samfærsla eigi sér stað, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Meira að segja gæti farið svo, ef t.d. áburðarverksmiðjan er ekki rekin af sömu hagsýni og sömu sparnaðarviðleitni og t.d. áburðarsalan hefur verið rekin á undanförnum árum, að sparnaðurinn yrði minni en enginn. En ég er hins vegar ekki svo kunnugur starfsemi áburðarverksmiðjunnar eða rekstri hennar, að ég vilji neitt um þetta fullyrða. Ég tel mig geta reiknað með því, að hún sé rekin af mikilli hagsýni, vegna þess að þar koma nálægt rekstrinum slíkir menn, að maður á að geta reiknað með því, en samt þori ég að fullyrða, að hún er ekki rekin af meiri sparsemi og hagsýni en áburðarsalan hefur verið rekin á undanförnum árum.

Þess vegna er alveg óhætt að staðhæfa það, að þó að þessi breyting verði gerð, þá mun það ekki hafa neinn teljandi sparnað í för með sér, jafnvel engan. Hins vegar má vel vera, að hún geti verið réttlætanleg af öðrum ástæðum, og það ætti að liggja ljósar fyrir, eftir að málið er búið að vera í n. og búið er að afla upplýsinga eða álits stéttarsamtaka bænda um þetta mál, en ég álit alveg sjálfsagt, að þetta mál verði ekki afgreitt frá þinginu án þess, að það sé borið undir fulltrúa þeirrar stéttar, sem langsamlega mestra hagsmuna á að gæta í sambandi við þessa verzlun.