06.04.1960
Neðri deild: 62. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (2206)

115. mál, áburðarverksmiðja

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í þessum umr., hefur áburðarverksmiðjumálið, ef svo má kalla, verið oft endranær til umræðu hér á Alþ. og þá, eins og fram hefur verið tekið, sérstaklega vegna þess, að fluttar hafa verið margoft till. frá hv. 3. þm. Reykv. til breytinga á löggjöfinni um áburðarverksmiðjuna.

Ég vil viðurkenna það, að mér hefur frá upphafi og síðan fundizt vera mikil vansmíð á l. um áburðarverksmiðjuna. Stundum hafa þessar brtt. um þá löggjöf verið ræddar í fjhn., en aldrei neinar niðurstöður orðið. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar, að þær brtt., sem hv. 3. þm. Reykv. flytur nú og hefur áður flutt og eru til meðferðar í fjhn., séu einnig verulega gallaðar og nái kannske ekki einu sinni þeim tilgangi, sem hann, sjálfur flutningsmaðurinn, stefnir að, en auðvitað mætti hugsa sér að lagfæra þær og breyta, ef menn eru sammála um það markmið, sem að ber að stefna.

Það hafði verið ráðgerður fundur í fjhn., sem af óviðráðanlegum ástæðum hefur fallið niður þessa síðustu daga, og væntanlega hefði þá verið rætt um till. um áburðarverksmiðjuna frá þessum hv. þm., og til þess að fá nokkru ljósari yfirsýn um það frá lögfræðilegu sjónarmiði, þá hafði ég hugsað mér að leggja það til, að þeim till. væri vísað til umsagnar lagadeildar háskólans eða einhvers annars aðila, sem gæti gefið um það þá umsögn, sem æskileg væri frá lögfræðilegu sjónarmiði.

Þegar þetta mál, sem flutt er af hæstv. ríkisstj., er rætt, kemur nokkuð fram, að hér sé um beint landbúnaðarmál að ræða, eins og hæstv. landbrh. sagði. En það er að minni skoðun allt annars eðlis. Þetta er, eftir því sem ég bezt fæ séð, eitt meiri háttar fjárhagsmál, sem þingið hefur haft til meðferðar, einmitt þetta frv., sem hér liggur fyrir, og ekkert síður en aðrar brtt., sem fluttar hafa verið um áburðarverksmiðjuna. Ég held þess vegna um mál eins og þetta, að afgreiðsla þess í þinginu geti ekki oltið á því, hver afstaða bænda verði til þess. Ég get ekki heldur fallizt á það sjónarmið, sem fram kom, að það beri fyrst og fremst að vísa því til samtaka bænda. Þetta var sjónarmið hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ). Og ekki heldur get ég fallizt á sjónarmið hv. 3. þm. Austf., að áburðarverksmiðjan sé eign bænda og bænda einna, vaxin af verðmætum bænda einna og eigi þess vegna að verða hlutafélag þeirra. Hér þarf að hafa margt annað og miklu fleira í huga til þess að gera sér grein fyrir eðli þessa atvinnufyrirtækis, hvernig það er til orðið, að hve miklu leyti það má skoðast sem alþjóðarfyrirtæki og að hve miklu leyti fremur fyrirtæki einnar stéttar í þjóðfélaginu heldur en annarrar.

Í þessu frv. segir í 1. gr.: „Áburðarverksmiðjan selur framleiðsluvörur sínar innanlands á kostnaðarverði, er verksmiðjustjórn áætlar og ákveður fyrir 1. marz ár hvert, að fengnu samþykki landbúnaðarráðherra.“

Þetta lítur nokkuð fallega út, að selja vörurnar á kostnaðarverði að fengnu samþykki landbrh. En hvernig er þetta kostnaðarverð? Hvers konar kostnaðarverð er hér um að ræða? Eitt veigamesta aflið til þess að reka þessa verksmiðju er raforkan. Hvernig er hún til fengin, og hvað er kostnaðarverð á þessum stórvægilegasta kostnaðarlið áburðarverksmiðjunnar, þó að það sé kannske eðlilegt og menn hafi verið sammála um það og ekki mikill ágreiningur um það að selja raforkuna með allt öðrum kjörum en til annars atvinnurekstrar? Það skiptir í sjálfu sér ekki máli, þó að raforkan sé notuð á einhvern hátt sem topporka að næturlagi, og annað slíkt, því að margur atvinnurekstur annar mundi gjarnan vilja láta sinar vinnustöðvar ganga á nóttunni gegn því að fá raforkuna með sama verði og áburðarverksmiðjan. Hvernig ætla þess vegna nokkrir menn að finna út kostnaðarverð á rekstri þessarar verksmiðju, nema málið sé skoðað í miklu stærri og meiri heild en það eitt, hvernig hún getur framleitt við þau vildarkjör, sem hún að öðru leyti fær í þjóðfélaginu og auðvitað eru ekki byggð upp frá bændum eða bændum einum, eins og sagt hefur verið, heldur eru nokkurs konar sameiginlegar þjóðfélagslegar ráðstafanir landsmanna?

Kostnaðarverð áburðarverksmiðjunnar upphaflega, byggingarkostnaðurinn, vitum við einnig, hvernig til er orðinn. Hann er til orðinn af framlögum úr efnahagssamvinnu Vestur-Evrópuríkjanna og Bandaríkjanna fyrst og fremst, Marshall-aðstoðinni og framhaldi hennar, og það hlýtur auðvitað að hafa sín áhrif einnig í sambandi við það, þegar á að fara að reikna út kostnaðarverð. En þegar málið er í eðli sínu þannig, þá er ég líka algerlega á móti 2. mgr. í 1. gr. þessara laga, að ríkisstjórninni sé heimilt að veita áburðarverksmiðjunni einkaleyfi til innflutnings á tilbúnum áburði, enda selji hún áburðinn á kostnaðarverði, eins og hún svo heldur áfram. Hví skyldi áburðarverksmiðjan þurfa að hafa einkaleyfi til þess að flytja inn áburð? Setjum svo, að þetta fyrirtæki væri ekkert meira en þokkalega rekið og framtakssamir menn í þessu landi fyndu það út, að hægt væri að flytja inn hagkvæmari áburð fyrir landbúnaðinn og fyrir vægara verð. Hví í ósköpunum ættu þeir þá ekki að flytja þennan áburð inn, þótt ekki væri nema til þess eins að rumska við yfirstjórn þeirrar áburðarverksmiðju, sem þá væri og hefði ekki betur séð hag bænda borgið en svo, að það væri hægt að fá áburðinn bæði ódýrari og betri, betri samsetningu efnafræðilega og á annan hátt, heldur en endilega kemur frá þessari áburðarverksmiðju? Og allra sízt ætti áburðarverksmiðjan, sem notið hefur slíkra og nýtur slíkra hlunninda sem hér er um að ræða, að þurfa að óska eftir slíkri einkasöluaðstöðu.

Ég sagði áðan, að mér fyndist þetta vera meiri háttar fjárhagsmál. Það er m.a. vegna þess, að þegar á að fara að reyna að finna út kostnaðarverð, eins og talað er um, þá eru svo ótalmargar aðrar greinar, sem koma til greina í okkar fjárhags- og viðskiptalífi. Síðan ber að líta á 2. gr. þessa frv., og þar kemur einnig eitt meiri háttar fjárhagsmál, og það er um fyrningarsjóð, fyrningarafskriftir og sérstaka heimild, sem þar er og annars staðar er held ég ekki í lögum, að verksmiðjustjórnin með samþykki landbrh. geti ákveðið tillag í fyrningarsjóð alveg á sérstakan hátt, eins og þar er sagt. Nú skal ég ekkert dæma um það, hvort þessar leyfðu fyrningarafskriftir þarna eru of háar eða of lágar, þessi 2,5 og 7,5%, og hvort það væri eðlilegt, að þessi heimild væri til, sú sérstaka heimild, sem getur um í 2. gr. En áreiðanlega vísar það þó veginn fyrir sérstökum heimildum annars staðar en á þessu sviði, og er þess vegna veigamikið fjárhagsmálefni, hvernig með á að fara. Ég þori ekki að lítt athuguðu eða alls ekki athuguðu máli að tjá mig um það, hvort þessar reglur, sem hér eru settar fram, eru eðlilegar eða sanngjarnar. En þær eru a.m.k. svo sérstakar, að þær þurfa vandlega athugun áður en slegið verði föstu, að þetta fyrirtæki, sem rekið er með jafnmiklum hlunnindum og ég hef getið, þurfi að njóta þess, ef þær eru eða teljast að athuguðu máli vera annars eðlis og sérstæðari en annars staðar getur. Við höfum í útveginum fyrningarafskriftir, sem eru gífurlega miklar, og ríkar heimildir, eins og kunnugt er, en þó felur þessi grein í sér alveg nýja reglu um þá sérstöku heimild, sem veitt er þar í 2. mgr., staflið a.

Atriði eins og þetta tel ég að beri að skoða sem fjárhagsmál og í fjhn. og með hliðsjón af aðstöðu annarra atvinnugreina og annarra atvinnustétta og heildaratvinnurekstrar þjóðfélagsins, en ekkert sérstaklega varðandi bændur og hvernig búrekstur þeirra er. Það er í raun og veru alveg ómögulegt að gera sér grein fyrir því í dag, hvort bændur hafa haft nokkurn hag af rekstri áburðarverksmiðjunnar. Samanburður liggur ekki fyrir í því efni. Þeir hafa a.m.k. ekki haft hag af því nema vegna þeirra hlunninda, sem samfélagið hefur gefið og löggjafarsamkoman og stjórnarvöldin í þessu landi í sambandi við þennan atvinnurekstur.

Ég er alveg sammála þeim hugmyndum, sem fram koma í 3. mgr. nm nauðsyn þess að efla vísindastarfsemi og rannsóknir í þágu landbúnaðarins í þessu tilfeill, sem hér er um fjallað, enda ætti það að vera á öðrum sviðum atvinnulífsins engu að síður. Það er mjög ánægjuleg stefna einmitt, að það sé sérstaklega lögbundið í slíku fyrirtæki, opinberu fyrirtæki eins og þessu, að að því skuli unnið. Ég er hins vegar alveg sammála hv. 3. þm. Reykv. um það, að annar opinber rekstur ætti auðvitað að temja sér þann hugsunarhátt, að það er kannske eitt af stærstu skyldustörfunum við reksturinn, bæði vegna eigin hags og svo almannahags líka á hverjum tíma, að leggja hæfilega mikið fé af mörkum til vísindastarfsemi og rannsókna. Sennilega eru stærstu og bezt reknu fyrirtæki, sem við að einhverju leyti höfum kynni af í öðrum löndum og í hinum stóra heimi, einmitt þau stærstu og bezt reknu vegna þess, að þau hafa fyrir löngu skilið, hversu mikilvægt þetta atriði er.

Ég vildi aðeins láta þessi sjónarmið koma fram við þessa 1. umr., en vil svo að lokum segja það og tek þá undir með hæstv. landbrh., að það er algerlega að ófyrirsynju og óþarft af hv. 3. þm. Reykv. (EOl) að tala hér um þetta sem eitt af stærstu þjófnaðarmálum, sem komið hafa inn í þingið. Þetta er þá alveg sérstakt og einstakt þjófnaðarmál að því leytinu, að þjófurinn finnst ekki í spilinu. Og ég tek alveg undir það, sem hæstv. ráðherra sagði, að að svo miklu leyti sem kunni að vera annarleg uppbygging áburðarverksmiðjunnar sem hlutafélags með 4 millj. frá einkaaðilum í hlutafé á móti 6 millj. frá ríkinu og þetta mikla kostnaðarverð, þá er það a.m.k. ekki nein sök þeirra, sem lögðu fram hlutaféð, að þetta er svona, og það er sannarlega ekki í neinum illum tilgangi, sem þeir lögðu það fram á sínum tíma, og er mér jafnvel kunnugt um það og hæstv. ráðherra.

Það hefur verið lagt til, að þetta frv. færi í landbn., af því að hæstv. ráðh. hefur lýst þeim skilningi sínum, að honum finnist þetta vera hreint landbúnaðarmál. Ég er annarrar skoðunar um það. Það sker sjálfsagt heldur ekkert úr í þessu máli, hvort þetta frv. verður í landbn. og hinar brtt., sem hér hafa verið fluttar, í fjhn. Auðvitað er miklu eðlilegra, úr því að búið er að vísa einum brtt., sem fram eru komnar, eða einu frv. um áburðarverksmiðjuna í fjhn., þótt ekki væri nema af þeim sökum einum, að það væri þar. Við höfum held ég ekki í þingsköpunum nein ákvæði um þetta. Það er talað aðeins um samvinnunefndir, að sömu n., sem fá sömu mál í d., geti unnið saman og kallazt samvinnunefndir í þeim skilningi. Sjálfsagt mætti lögjafna frá þessu og segja, að landbn. og fjhn. gætu verið samvinnunefndir innan deildarinnar um sama mál, sem vísað hefði verið til tveggja n. Það er þó ekki nema lögskýring og lögjöfnun á þessu. Ekki mun ég treysta mér til þess að skera neitt úr um í þessu efni og eðlilegast, að þingheimur ráði því, hvert málið fer, en það er mín skoðun, að málið ætti eðli sínu samkvæmt að vera í fjhn.