28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (2214)

7. mál, gjaldaviðauki 1960

Björn Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. hv. meiri hl. fjhn., höfum við hv. 1. þm. Norðurl. e. og ég nokkra sérstöðu í n. að því leyti, að við óskuðum eftir því, að afgreiðslu þess yrði frestað í n., a.m.k. þar til eftir hádegi í dag, og þegar ekki var orðið við þeim hógværu tilmælum okkar, ákváðum við að taka ekki afstöðu til málsins að svo komnu. Ég mun nú með nokkrum orðum gera grein fyrir þessari afstöðu minni og tek strax fram, að hún er ekki komin til af því, að ég sé eftir atvikum algerlega mótfallinn því, að framlenging þessara tekjustofnslaga nái fram að ganga.

Þessi heimild, sem í frv. felst til að innheimta ýmis gjöld með viðauka, hefur, eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, verið framlengd frá ári til árs um fjölda ára án mótmæla frá hendi stjórnarandstöðunnar, hver sem hún hefur verið hverju sinni, og enn mundi hafa svo farið, að innan fjhn. hefði trúlega ekki orðið ágreiningur, ef allar aðstæður hér á Alþ. væru með venjulegum hætti og engar tilraunir væru uppi af hálfu ríkisstj. og stuðningsflokka hennar til að breyta starfsháttum og starfsvenjum í veigamiklum atriðum. Að vísu liggja nú fyrir ákveðnar yfirlýsingar hv. stjórnarflokka um það, að gera eigi nú gagngerðar grundvallarbreytingar á öllu efnahagskerfi þjóðarinnar, þ. á m. afnema að mestu eða öllu leyti ýmsa tekjustofna ríkisins, t.d. tekjuskattinn, jafnvel afnema uppbótakerfið eða a.m.k. stíga stór skref í þá átt og þá auðvitað um leið a.m.k. eitthvað af þeim tekjustofnum, sem það kerfi byggist á. Þegar svo mikið stendur til, mætti virðast eðlilegt, að allir tekjustofnar ríkisins yrðu endurskoðaðir samtímis og þá þeirra á meðal þeir, sem felast í þessu frv. og þeim öðrum, sem hér eru á dagskrá í dag. Í samræmi við þetta spurðist ég fyrir um það á fundi fjhn., þar sem hæstv. fjmrh. var viðstaddur, hvort honum þætti ekki nægjanlegt að framlengja þessa tekjustofna til febrúarloka, en það eru þau tímatakmörk, sem hæstv. ríkisstj. virðist hafa sett sér um afgreiðslu fjárlaga. Hæstv. fjmrh. leizt ekki á þetta og kvaðst ekki sætta sig við skemmri framlengingu en eitt ár, hins vegar gæti endurskoðun á þessum lögum farið fram engu að síður, og er það að sjálfsögðu rétt. En hins vegar hefði framlenging til jafns við afgreiðslu fjárlaga verið undirstrikun á þeim stóru orðum, sem viðhöfð hafa verið um allsherjarendurskoðun efnahagskerfisins. En hvað um það, hæstv. fjmrh. vildi ekki una slíkri undirstrikun sinna orða og sinna flokksmanna. Verður það þó að segjast, að t.d. framlenging ákvæðanna um söluskattinn til ársloka næsta árs virðist með öllu óþörf og óeðlileg, ef leggja á útflutningssjóð niður, en í hann rennur meginhluti þessa skatts.

Eins og áður sagði, er ég ekki eftir atvikum andvígur þessu frv. En ég er andvígur þeim áformum, sem liggja að baki þeim óeðlilega hraða, sem hafður er á afgreiðslu þess og annarra þeirra frumvarpa, sem hér eru á dagskrá í dag, og gengur svo langt gagnstætt þingvenjum, að synjað er um smávægilegan frest fyrir okkur í minni hl. fjhn., eða nánar tiltekið frá kl. 6 að kvöldi í gær til hádegis í dag, til þess að ákveða afstöðu okkar í því. Þessi áform eru, eins og fram hefur komið hér og má sjá á þskj., þar sem prentuð er till. ríkisstj. um frestun Alþ., þau að senda þetta nýkjörna þing heim, aðeins 9 eða 10 dögum eftir það hefur verið kallað saman til fundar óvenjulega seint á ári og aðeins 2–3 dögum eftir að svo hefur verið frá formsatriðum gengið, að unnt sé að hefja þingstörf með eðlilegum hætti. Eins og ég mun víkja nánar að, tel ég, að eins og mörgum, ef ekki öllum þjóðmálum okkar er nú komið, sé slík heimsending þm. óverjandi ráðstöfun, andstæð þingræðislegum venjum, þótt hún kunni að lafa í bókstafnum, og frekleg móðgun við alþm., sem þjóðin hefur trúað fyrir málefnum sínum, og bein tilraun til þess að taka hér upp stjórnaraðferðir, sem bera óhugnanlegan keim þess, að núv. hæstv. ríkisstj. hyggist framkvæma stjórnaraðgerðir í mikilsverðum málum án samráðs og samþykkis Alþingis, að hún hafi í huga að gera stórum verri alla aðstöðu þingmanna til þess hvort tveggja í senn að fylgjast með framvindu mála, sem eftir eðli sínu heyra undir verksvið Alþ., og til þess að bera fram mál umbjóðenda sinna og kjördæma sinna, en vilji síðan grípa til þingmanna eins og lítilþægra atkvæðavéla, þegar málum hefur verið ráðið til lykta í hópi þröngra flokksklíkna. Þegar á þetta er litið, tel ég enga ástæðu til, hvorki fyrir þingmenn stjórnarandstöðunnar né heldur aðra hv. alþm. að láta hjá líða að spyrna nokkuð við fótum með því m.a. að nota þingmannsrétt sinn til athugasemda og umr. í sambandi við þau einu mál, sem hæstv. ríkisstj. virðist nú hafa áhuga fyrir að séu rædd og afgr. hér á Alþ., þ.e.a.s. þau tekjuöflunarfrv., sem hér liggja nú fyrir. Ég tel heldur enga ástæðu til, a.m.k. ekki fyrir hv. þm. stjórnarandstöðuflokkanna, að leggja sig neitt sérstaklega fram um að flýta þessum ótímabæru frumvörpum, sem hér eru til umr., þegar þeim er af hæstv. ríkisstj. sýnt það fullkomna tillitsleysi, sem nú er gert og sem betur fer er fáheyrt eða jafnvel einsdæmi í þingsögunni.

Hingað til mun það hafa verið nær algild venja, að ríkisstjórnarflokkar hafa leitað samkomulags við stjórnarandstöðuna um þingfrestun og um það, þegar talin hefur verið þörf á því að hraða afgreiðslu ákveðinna mála. En nú er ekki sá háttur á hafður. Þingmenn stjórnarandstöðunnar a.m.k. fengu fyrstu fréttirnar af hinni fyrirhuguðu þingfrestun í Mbl. og Alþbl. í gærmorgun. Hæstv. ríkisstj. hefur því þótt tilhlýðilegt að hlaupa með þessa ákvörðun sína á ritstjórnarskrifstofur þessara blaða, áður en alþm. almennt var gert nokkuð um hana kunnugt. Sómasamlegri framkoma hefði virzt og í meira samræmi við þær venjur, sem hér hafa gilt á hæstv. Alþ., að byrja á því að leita samkomulags við stjórnarandstöðuna, áður en ákvörðun var tekin, og geyma hana síðan, þar til séð varð, hvaða lyktir þær tilraunir fengju. En það er ekki nóg með það. Það virðist, að málið hafi ekki einu sinni verið borið undir þm. stjórnarflokkanna, því að í Alþýðublaðinu í gær segir: „Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fresta Alþ. fram yfir hátíðir.“ Ríkisstjórnin hefur ákveðið það, það eru ekki einu sinni þm. stjórnarflokkanna, sem hafa gert það. Það eru þess vegna kannske engin undur, þó að þm. stjórnarandstöðunnar og stjórnarandstaðan í heild sé sniðgengin, þegar ekki þykir lengur þörf á því að bera slík mál undir þá menn, sem eru þó undirstaðan í valdi þessarar hæstv. stj., og tillitssemi og virðing fyrir þeim er ekki meiri en raun sannar hér.

Það fer auðvitað ekki hjá því, að hv. alþm. og aðrir leiti skýringa á því dæmalausa írafári, sem gripið hefur hæstv. ríkisstj. nú, og því kapphlaupi, jafnvel um klukkustundir, sem hún hefur hafið um það að losa sig við þingmennina um tveggja mánaða tíma. Ýmsum getum er að sjálfsögðu hægt að leiða að þessu, en fullnægjandi skýringar virðast enn hafa látið standa á sér, a.m.k. af hálfu hæstv. ríkisstj. og talsmanna hennar. Samkv. frásögn Alþýðublaðsins í gær, sem ég vitnaði til áðan, er ástæðan talin sú, að lítil verkefni liggi nú fyrir Alþ næstu 2–3 vikur. Í öðru lagi, þegar svo standi á, þá sé rétt og sjálfsagt að spara ríkissjóði 800–900 þús. kr. útgjöld, sem blaðinu reiknast til að muni vera sá sparnaður, sem leiði af 6 vikna frestun.

Það er sjálfsagt að athuga þessar ástæður örlítið, og ég vil þá fyrst taka þá, sem mér virðist vera veigaminni, þ.e.a.s. sparnaðarhliðina. Blaðið segir, að það sé hægt að spara nokkurn hluta af starfsliði þings, sennilega er þar átt við þingsveinana, og þar að auki látið liggja að því, að það sparist eitthvað í launum alþm. Nú er svo ákveðið í l. um þingfararkaup alþingismanna, að þeir skuli halda launum sínum í 30 daga, þegar Alþ. er frestað um stundarsakir, og þar að auki í ótiltekinn dagafjölda vegna fría um hátíðir. Mér telst til, að undir venjulegum reglum mundu þetta vera 45 dagar, og væru þá eftir 13 dagar af hinum tiltekna fresti, sem alþm. ættu ekki rétt á launum. En nú er þess að gæta, að þm. eiga einnig laun fyrir ferðir sínar, fyrir þann tíma, sem ferðir þeirra taki til og frá heimilum, og virðist mér þá, að þessi tími gæti farið allt niður í eina viku eða niður fyrir eina viku, sem mundi verða hægt að spara laun þingmanna. Ég held þess vegna, að þessi ástæða, sem blaðið hefur tilgreint, og þessi útkoma sé sennilega fengin í þeirri fljótfærni að setja þetta upp í venjulegan hlutfallareikning, segja, að alþingiskostnaður sé þetta og þetta yfir svo og svo langan tíma, og reikna svo hlutfallslega, hvað sparast mundi, ef þinginu er frestað í þennan tíma. En ég tel mig hafa sýnt fram á, að þetta getur ekki verið hin raunverulega ástæða. Þm. halda launum sínum, og það sparast engar þær upphæðir, sem séu nefnandi, í sambandi við þessa frestun. Mér er til efs, að það mundi sparast sú fjölgun, sem hefur orðið á ráðherraembættum núna í sambandi við myndun ríkisstj., og vafalaust ekki nálægt því sú upphæð. Í raun og veru væri þessi hlið málsins sú eina, sem mark væri á takandi, því að hvaða ástæða gæti verið til þess að reka þingmenn heim héðan, frá þeirri aðstöðu, sem þeir eiga að hafa hér, eiga rétt á að hafa hér til þess að vinna að sínum málum, ef þjóðinni sparast ekkert fyrir það? Er ekki eins rétt, að þm. séu hér til taks og vinni fyrir sínum launum, eins og þeir fái þau fyrir engin störf í þágu Alþingis?

Þá er sjálfsagt að athuga hina hliðmálsins ofur lítið líka, hvort því sé raunverulega svo farið, að Alþ. hafi lítil verkefni. Jafnvel þó að viðurkennt væri, að undirbúningur efnahagsmálanna væri í því horfi, að ekki væri mögulegt, að Alþ. starfaði neitt að þeim málum, — sem ég vil þó alls ekki viðurkenna, — en þó að svo væri, þá er augljóst, að fyrir þessu þingi liggja nú þegar frumvörp og tillögur í mjög veigamiklum málum, t.d. í húsnæðismálunum frá báðum stjórnarandstöðufl., till. um hafnarmál, hér ættu að liggja að réttum venjum brbl. um verð búvara, og hér liggur sýnilega fyrir að ráða fram úr þeim mikla vanda, sem það mál allt hlýtur að vera, og þeim vandkvæðum, sem geta a.m.k. skapazt í sambandi við það mál. Alþ. er einmitt sá rétti vettvangur til að ráða þeim málum til lykta. Það er enn fremur vitað, að þingmenn og þá kannske ekki sízt sá mikli hluti alþm., sem hér er í fyrsta skipti, eru nú að undirbúa sín fyrstu mál, undirbúa það að flytja mál fyrir sína umbjóðendur og sín kjördæmi, og hér er bezta aðstaðan til þess að undirbúa slík mál og ég tel, að henni sé raunverulega kippt burt, ef þm. eru reknir til síns heima, og þá gæti jafnvel svo farið, að lítil tækifæri byðust fyrir þessa þm. að flytja mál, svo að nokkru næmi, því að hvaða trygging er örugg fyrir því, að ekki verði leikinn hér sami leikurinn, þegar þing kemur saman að nýju, þegar hinir sérfróðu umboðsmenn Sjálfstfl., sem sagt er að séu nú að ganga frá till. í efnahagsmálunum, hafa ákveðið, hvernig úrræðin skuli vera? Er þá ekki næsta líklegt, að þannig verði að farið, að þau mál verði hespuð af hér á örstuttum tíma, kannske viku eða hálfum mánuði, sem ekki er dæmalaust að hafi verið gert í stórmálum, og þinginu sennilega þá slitið strax á eftir.

Ég verð að segja það, að þetta, hvað þingmennina snertir að þessu leyti, það varðar fleiri en okkur þm. stjórnarandstöðunnar. Ég sé ekki betur en það varði líka ekki síður þingmenn stjórnarflokkanna. Það var hér í sumar, á sumarþinginu, gerð flokkssamþykkt um það í þingflokki Sjálfstfl, eða miðstjórn, að enginn þm. Sjálfstfl. mætti flytja mál á því þingi. Nú koma ýmsir af þessum hv. þm. öðru sinni til þings. Þeim er að vísu ekki bannað að flytja mál beinlínis, en þeir eru reknir öfugir heim nokkrum dögum eftir án þess að hafa nokkra aðstöðu til að gera nokkuð. Mér þætti ekki mikið, þó að einhverjir af þessum hv. þm. þessara flokka hefðu þann manndóm í sér, að þeir mótmæltu þessari meðferð. Þá mætti líka varpa fram þeirri spurningu í sambandi við þessi mál öll: Er ekki tímabært, að Alþ. fjalli um efnahagsmálin? Liggja ekki þær staðreyndir fyrir, sem úrlausn hlýtur að byggjast á, og er ekki a.m.k. sjálfsögð sú krafa, að hæstv. ríkisstj. geri grein fyrir þessum staðreyndum, þannig að þingmenn geti þó a.m.k. hugsað um þau þann tíma, sem þeir eru reknir hér út úr þingsalnum?

Þeir hv. flokkar, sem standa að þessari ríkisstjórn, hafa nú stjórnað saman í fast að því einu ári. Þeir hafa fyrir löngu haft alla aðstöðu til þess að kynna sér allar staðreyndir efnahagsmálanna, og þeir hafa látið bæði fyrir kosningar og eftir kosningar hafa eftir sér margs konar fullyrðingar um þessi mál. Í Morgunblaðinu 21. nóv. s.l., þar sem birt er frétt frá fundi í Verði, þar sem forsrh. mætti og gerði grein fyrir stjórnarmynduninni og efnahagsmálunum, segir m.a., að ráðherrann hafi lagt áherzlu á það, að þegar ríkisstj. Hermanns Jónassonar settist að völdum, þá hafi hann lofað því, að úttekt skyldi fara fram á þjóðarbúinu. Þetta hafi verið svikið, hefur blaðið eftir ræðumanninum. En Emil Jónsson lofaði hins vegar engri úttekt, segir blaðið, að hæstv. forsrh. hafi sagt, en hann stóð við það, hann hefur látið úttektina fara fram. Hún hefur farið fram. Í framhaldi af þessu fullyrðir forsrh. síðan, — í blaðinu segir, að hann hafi dregið upp nokkrar óhugnanlegar myndir af ástandinu og síðan hafi hann fullyrt, að nákvæmlega 250 millj. skorti nú til þess, að útflutningssjóður og ríkissjóður geti verið reknir hallalausir á næsta ári miðað við óbreyttar aðstæður. Og ræðu sína endar svo ráðh., að sögn blaðsins, með því að segja, að sennilega væri ekki ofmælt, að þjóðin riðaði nú á gjaldþrotsbarmi, — og í næstu setningu á eftir er svo kveðið á um fagnaðarlætin, sem verið hafi á þessum virðulega fundi út af þessum ummælum ráðherra.

Samkvæmt þessari frásögn Morgunblaðsins um skýrslu forsrh. til Varðarfélaga liggur sem sagt fyrir, að úttekt hefur farið fram á þjóðarbúinu, og það er vitað með vissu, hve háar upphæðir vantar til þess, að útflutningssjóður og ríkissjóður verði hallalausir á næsta ári. Og í þriðja lagi er tæplega ofmælt, að þjóðin riði nú á gjaldþrotsbarmi. Ég spyr nú: Þegar slíkar staðreyndir liggja fyrir, er þá ekki löggjafarþingið fyrsti aðilinn, sem á heimtingu á því, að spilin séu lögð á borðið, úttektin, sem sagt er að hafi farið fram, verði lögð fyrir Alþ. og leitað verði eftir úrræðum þess? Eða er rétta aðferðin sú að reka þingmenn burt frá skyldustörfum sínum, í sama mund og fullyrt er, að áðurgreindar staðreyndir liggi fyrir, og leyna þá um tveggja mánaða skeið þeim forsendum, sem úrræði þeirra ættu að byggjast á, ef sannar væru og réttar, sem ég reyndar efa? Eða er svo komið, að Vörður og Heimdallur eigi ríkari kröfur á skýrslum frá forsætisráðherra um mikilvægustu mál þjóðarinnar heldur en sjálft Alþingi? Og væri þá ekki rétt að láta þingfrestun bíða, a.m.k. þar til forsrh. hefur flutt Alþ. skýrslu sína um efnahagsmálin og þannig sannað, að hann meti þá stofnun a.m.k. til jafns við landsmálafélagið Vörð?

Ég þykist hafa sýnt hér fram á, að eina frambærilega ástæðan fyrir þessari þingfrestun, sem gæti verið hlustandi á, þ.e.a.s. sparnaðarhliðin, hefur ekki við neitt að styðjast. Hún er úr algerlega lausu lofti gripin. Samkv. fullyrðingum stjórnarliðsins er ástæðan ekki heldur sú, að upplýsingar skorti varðandi ástand efnahagsmálanna. Það getur því naumast verið um nema eina ástæðu að ræða, að stjórnarliðið eigi í svo miklum innbyrðis erfiðleikum með að koma sér saman um, hvaða úrræði eigi að byggja á þessum upplýsingum, sem þegar liggja fyrir, sem gæti verið ástæðan fyrir þessu óeðlilega og óvenjulega kapphlaupi um það að losa sig við þingið.

Það eru því ekki neinar frambærilegar ástæður fyrir þingfrestuninni og fyrir því að hraða þessum málum, sem hér eru, svo mjög sem raun er á. En hins vegar eru margir vankantar á þingfrestuninni, og hef ég rætt suma þeirra og einnig margar beinar hættur. Ég fæ ekki betur séð en þar með væri verið að gefa fordæmi um það að stjórna með brbl. og sniðganga þannig þingræðið í landinu, eins og hér hefur verið bent á í umr., því að vissulega getur það ekki talizt annað en að sniðganga þingræðið, þegar brbl. eru gefin út og síðan er Alþ. meinað að taka afstöðu til þeirra, en knúin fram aðstaða til þess að gefa út ný brbl.

Mér virðist, að í sambandi við brbl. og búvöruverðið sé einmitt mjög rík ástæða til þess, að Alþ. verði látið halda áfram störfum, ekki sízt vegna þess, að stjórnarflokkarnir eru þar samkv. yfirlýsingum sínum á algerlega öndverðum meiði hvor við annan. Annar — þ.e.a.s. Alþfl. — hefur látið svo að segja hvern einasta verkalýðsforingja sinn, sem mark er á takandi, fyrir þessar kosningar lýsa því yfir, að ef bændur fái þá hækkun, sem hindruð var með brbl., þá muni þeir beita sér fyrir því, að verkalýðssamtökin hefji verkföll. Þá muni þeir berjast fyrir því, að kaupgjald almennt verði hækkað. Manni sýnist að vísu, að margar ríkari ástæður væru fyrir því, að verkalýðsfélögin hæfu kaupgjaldsbaráttu, heldur en þetta. En látum það vera, þetta er sú yfirlýsta stefna Alþfl., sem kom greinilega og óumdeilanlega fram fyrir kosningar, Sjálfstfl. hefur hins vegar lýst því þveröfuga yfir, að hann muni aldrei fallast á annað en að bændur fái þessa hækkun. Þarna er kannske skýringuna að finna á því, hvers vegna Alþ. á ekki að sitja, einmitt ekki 15. desember, þegar þessi mál komast á það stig, að óhjákvæmilegt verður að ráða fram úr þeim. En ég verð nú að segja það, að þar sem þarna er mjög líklegt og nærri því víst, ef nokkurt mark á að taka á orðum og yfirlýsingum þessara flokka, að þessir flokkar séu alls ekki færir um að ráða fram úr þessu máli, hvaða aðili er þá eðlilegri til þess að fjalla um það og ráða fram úr því en Alþ. og þá e.t.v. að skera úr þeim deilum, sem þarna hljóta að koma upp á milli stjórnarflokkanna? Á milli þessara tveggja yfirlýsinga, sem ég hef minnzt á, er ekki til neinn millivegur, nema annar hvor svíki 100% það, sem hann hefur lofað og lýst yfir. Annars vegar eru verkfallshótanir Alþfl, og svardagar um það, að hann muni aldrei gefa leyfi til þess, að búvöruverðið verði hækkað, og hins vegar svardagar hvers einasta þm. Sjálfstfl., miðstjórnar hans og allra forráðamanna um það, að bændur skuli fá hækkunina.

Ég minntist áðan á það, hvernig öll aðstaða alþm. til þess að flytja mál hlýtur að stórversna við það, ef sá háttur er upp tekinn að reka þingið heim, um leið og því hefur formlega verið komið á laggirnar, og hvernig þessi ráðstöfun gæti verið fordæmi fyrir því, að þessu yrði haldið áfram, jafnvel núna strax á síðari hluta þingsins. Ég tel líka, að í þessu felist hætta fyrir þingræðið og fyrir virðingu Alþingis. Það er verið með þessu að drepa niður frumkvæði einstakra alþm. og reyna að gera þá að viljalausum atkvæðavélum. Ég sé ekki betur en þingfrestunin núna sé stórhættuleg efnahagskerfinu og muni geta aukið mjög verulega á þær hættur, sem þar blasa við. Ég hef fullkomnar upplýsingar um það, að óttinn við þessa ríkisstj. og þær aðgerðir, sem hún muni grípa til, er svo mikill meðal almennings og þá sérstaklega óttinn við gengisfellingu, að sparifé er nú rifið út úr bönkunum meira en nokkur dæmi eru til á síðari árum. Þannig er mér sagt, og ég hygg, að það sé alveg rétt, að það hverfi 1 millj. af sparifé út úr Landsbankanum á hverjum degi síðan 1. nóv., — ein millj. kr. á dag, út úr þessum eina banka hér í Reykjavík. Ef svipaða sögu er að segja annars staðar, þá er þarna um svo stórkostlega hluti að ræða, að það er fyllsta ástæða til þess að gefa þeim alvarlega gaum. Og ef það er svo, að ríkisstj. hafi nú t.d. ákveðið að fara ekki út í gengisfellingu, þá væri auðvitað rétti tíminn núna og rétti staðurinn til að lýsa því yfir hér á Alþingi, að það yrði ekki gert, a.m.k. til þess að koma í veg fyrir þær hættur, sem óttinn við gengisfellingu skapar meðal þjóðarinnar.

Það verður að teljast ótrúlegt, að stjórnarflokkunum, þó að þeir birti nú mjög svipaðar stefnuskrár fyrir þessar kosningar, hafi ekki þótt það ómaksins vert að semja um höfuðleiðir. Þeir eru búnir að vera að rannsaka efnahagsmálin og gera ráðstafanir í efnahagsmálunum hér í heilt ár. Engar staðreyndir, sem þær varða, geta verið þessum flokkum duldar. Er þá ekki útilokað annað en flokkarnir, um leið og þeir mynduðu ríkisstj., hafi komið sér saman um höfuðleiðirnar, sem farnar yrðu í efnahagsmálunum, jafnvel þótt ekki yrði gengið frá einstökum smærri atriðum? Og ef þessar höfuðleiðir eru ekki gengisfelling, þá er ekki aðeins rétt, heldur líka skylt að lýsa því nú yfir. Þjóðin óttast þetta, og allir, sem hafa fé undir höndum, haga sér eins og það væri nú þegar ákveðið, að gengislækkun yrði framkvæmd, og það væri vissulega mikils um vert, ef hægt væri að skapa þarna meiri ró þennan tíma, sem ríkisstj. virðist nú vera fullákveðin í að Alþingi starfi ekki.

Hvort sem þessi mál eru rædd lengur eða skemur, verður niðurstaðan sú, að þingfrestun nú er óverjandi. Þm. eru mættir hér samkv. fullu umboði frá þjóðinni til þess hér og nú að gegna skyldustörfum sínum. Það er fullkomin óvirðing við Alþ. og við þingræðið að reka nú þetta nýkjörna þing og nýkjörnu þingmenn heim til sín að hætti einræðisherra, eftir að það hefur aðeins setið eina viku, sem að mestu leyti hefur farið í það að ganga frá formsatriðum. Ég fyrir mitt leyti mótmæli þessum fyrirætlunum.