28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (2217)

7. mál, gjaldaviðauki 1960

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. þetta um gjaldaviðaukann er eitt af fimmburum hæstv. ríkisstj., sem eru allir hver öðrum líkir, og ekki óeðlilegt, að menn skoði þá í einu. Einn þeirra er þó langstærstur. Þetta eru frumburðir í löggjafartillögum frá hendi hæstv. ríkisstj., og mér finnst, að hún ætti ekki eða hennar liðsmenn að taka það illa upp, þótt þeim sé nokkur gaumur gefinn.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri sjálfsagður hlutur að samþykkja þetta frv., vegna þess að það yrði aldrei komizt hjá því, og mætti gera það strax eins og seinna, og þetta væri frv, sams konar og fyrrv.stjórnvöld hefðu lagt fyrir þingin og þau samþykkt. Þetta er að vísu rétt. Sá er aðeins munurinn á, að þetta frv. er fætt fyrir tímann, það er ekki í raun og veru fullaldra, þegar það er borið fram nú.

Það kemur ekki fram í grg. frv., og ekki kom það heldur fram í framsögu hæstv. fjmrh., en það kom fram, þegar málið kom til nefndar, að það, sem rekur eftir, og það, sem gerði það að verkum, að frv. er fætt fyrir tímann, er það, að ríkisstj. er haldin af þeirri óheilbrigði að vilja fresta Alþingi nú þegar. Mér finnst, að þessi óheilbrigði, þessi sjúkdómur ríkisstj., sem hefur drifið þessar fæðingar fram, geti verið dálítið hættulegur og máske mætti hugsa sér að bak við þær gæti staðið illkynjaður sjúkdómur. Það er eins og komið hefur fram hér í umræðunum, að á bak við getur legið það, sem kallað hefur verið einræðishneigð og við höfum lastað meðal ýmissa þjóða. Jafnvel gæti maður hugsað sér, að þetta væri snertur af fasisma, sem þarna er á ferðinni, þegar stjórnin ætlar að reka þingið heim og ráða málum án þess að hafa það fyrir ráðgjafa jafnhliða.

Ég get tekið undir öll aðalatriði í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., sem talaði hér áðan og er samnefndarmaður minn úr fjhn. Afstaða okkar í nefndinni var hin sama. Við höfum ekki skilað áliti sérstaklega um þetta frv., af því að við fórum þess á leit, eins og hann gat um, að málinu yrði frestað og það yrði ekki gripið til þess að afgr. strax mál eins og þetta, sem er þess eðlis, að það á ekki að afgreiðast fyrr en kemur nær áramótum og sýnd er nauðsyn þess. En á það var ekki hlýtt. Við biðum til hádegis í dag, vegna þess að það var gefið í skyn í gær, að það kynni að verða eitthvert samkomulag milli ríkisstj, og stjórnarandstöðunnar um þingfrestunina. En menn hafa heyrt hér við umræðurnar í þessari hv. deild, að a.m.k. bólar ekki á því enn. Hæstv. fjmrh. telur sig ekki um það vita, að slíkt sé á döfinni. Þess vegna leggjum við nú ekki fram nál. um þetta mál, en afstaða okkar er sú, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. lýsti í ræðu sinni.

Út af því, sem fjmrh. sagði um það, að hagfellt væri og praktísk vinnubrögð að fresta þinginu strax, vil ég segja það, að ég tel það ekki rétt. Hann sagði, að það væru tvö meginverkefni, sem þetta þing hefði, aðgerðir í efnahagsmálum og afgreiðsla fjárlaga.

Nú er það nokkuð á huldu, hverjar aðgerðir í efnahagsmálum eiga að verða. Hæstv. ríkisstj. hefur gefið í skyn, að þær kunni að verða miklar og merkilegar, og hún vill fá ráðrúm til þess að semja þær og hugsa sitt mál. Ég skal ekki út í það fara. En hitt vil ég þó undirstrika, sem tekið var fram áðan af samnefndarmanni mínum, að víst mundi ekki vera fjarri lagi að leita samkomulags um slík mál í þingi, sem er skipað eins og þetta þing, að þar er aðeins 6 manna meiri hluti af 60 manna hóp, 6 manna meiri hluti, sem stendur að ríkisstj., og mundi þá víst vera viðeigandi að hafa samráð við stjórnarandstöðuna. — Þá er það afgreiðsla fjárlaganna. Það er ekki rétt hjá hæstv. fjmrh., að fjvn. geti engin verkefni haft, fyrr en búið er að afgreiða efnahagsráðstafanirnar. Ég hef unnið í fjvn. og þekki það nokkuð vel. Þar koma fram erindi, svo að hundruðum skiptir, sem tekur langan tíma að kynna sér. Vafalaust liggja nú fyrir mörg slík erindi, og ég hygg, að það væru einmitt hagfelld vinnubrögð, að fjvn. tæki til að kynna sér slíkt til þess að eiga það ekki eftir, þegar til raunverulegrar afgreiðslu kemur, og mörg erindin hljóta að vera þess eðlis, að hægt er að afgreiða þau, þótt ekki sé vitað, hverjar efnahagsaðgerðirnar verða. Ég tel það hví mestu fjarstæðu, fyrst og fremst, eins og tekið hefur verið fram af öðrum hér áður, að vísa ekki fjárlagafrv. til nefndar og gera grein fyrir afkomu ríkissjóðsins, svo sem föst venja hefur verið á þingum að undanförnu og er líka sjálfsagt að gera, og ég er viss um það, að það verður til þess, að þingið þarf að standa lengur, að fjvn. þarf seinna lengri tíma til aðgerða en hún mundi þurfa, svo að þingið mun lengjast við það, ef hún verður send heim, eins og nú er fyrirhugað um þingmenn alla. Það eru því áreiðanlega ópraktísk vinnubrögð að hefja þinghlé nú þegar.

Nú vita menn það, að mörg og merk þingskjöl með frv. og tillögum hafa verið lögð fram, og vafalaust er það svo, að í undirbúningi eru fleiri frv., og um öll þau mál, sem heppilegt er að vel séu athuguð, eru einmitt hagfelld, praktísk vinnubrögð, að þau séu lögð fram í upphafi þings eða áður en þinghlé verður tekið.

Við minnihlutamennirnir í fjhn. leggjum ekki fram neinar till. Við óskuðum eftir því, að nefndin frestaði afgreiðslu málsins með tilliti til þess, að það væri ekki tímabært að afgreiða þetta mál fyrr en síðar. Það var ekki fallizt á þetta í nefndinni, og nú vildi ég bara beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að hann frestaði málinu hér í þessari hv. d., þangað til tímabært er að afgreiða það. Það er ósk mín sem nefndarmanns.