28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2218)

7. mál, gjaldaviðauki 1960

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Á þessum fundi hafa farið fram nokkrar umræður um það, hve óvenjulegur háttur er hér á hafður um þingstörf að þessu sinni. Ég get ekki látið hjá líða að taka undir þau orð, sem um þetta hafa fallið hér á þessum fundi.

Við þm., sem höfum átt þess kost að starfa í þessari stofnun um nokkurt árabil, getum ekki annað en tekið eftir því, að hér er vinnubrögðum hagað öðruvísi en venja er. Nú er laugardagur, og það hefur verið nokkuð algeng venja um mörg ár undanfarið, að a.m.k. á fyrstu starfsdögum eða starfsvikum þingsins hafa ekki verið boðaðir þingfundir á laugardögum, heldur sá tími notaður til nefndarstarfa og til undirbúnings þingmálum.

Það er einnig eftirtektarvert um þau frv., sem nú eru á dagskrá, að það er svo skammt síðan þau voru tekin til meðferðar í þingnefnd, að það þarf afbrigði til þess að taka þau til umræðu nú í dag. Það mun vera alveg óvenjulegt með frv. af þessu tagi, sem hafa oft verið flutt að ég ætla samhljóða því, sem hér liggur fyrir, — það er alveg óvenjulegur háttur, að þau séu knúin fram með afbrigðum frá þingsköpum, Það hefur einnig komið fram í umræðum um þetta mál, að minni hluta fjhn. hafi verið neitað um örstuttan frest til þess að móta afstöðu sína í málinu, og þessu hefur ekki verið mótmælt af hálfu meiri hlutans. Við, sem höfum starfað hér í þessari stofnun um alllangt skeið og margir gegnt á ýmsum tímum formennsku í ýmsum þingnefndum, vitum líka, að þetta er óvenjulegur háttur. En þessi óvenjulegi háttur um þingstörfin mun skýrast af því, að hæstv. forsrh. hefur nú lagt fram tillögu um, að þingi skuli frestað innan skamms, eins og allmikið hefur verið rætt hér á þessum fundi. Blöð hæstv. ríkisstj. orða þetta þannig, að ríkisstj. hafi ákveðið að fresta þinginu. Einnig það mun vera óvenjulegur háttur. Tillagan til þingfrestunar er fram borin í Sþ. vegna þess, að til þess að hún öðlist gildi, þarf um það atkvæði alþingismanna, og þetta virðast því vera nokkuð nýstárlegar tilkynningar, sem málgögn hæstv. ríkisstj. hafa nú að flytja hv. alþm. og þjóðinni.

Það hefur komið hér fram af hálfu hæstv. fjmrh., að ríkisstj. hefði ekki unnizt tóm til að ganga frá tillögum í efnahagsmálum, og meðan svo væri, mundi þingið hafa litlum verkefnum að sinna. En þinginu er ekki einungis ætlað það verkefni að fjalla um till. hæstv. ríkisstj., heldur er það réttur þingfulltrúa og skylda að vinna að málum fyrir umbjóðendur sína, og þeir eiga að hafa aðstöðu og ráðrúm að vinna þau störf hér í þessari stofnun og koma þeim áhugamálum, sem þeir hafa fram að bera, á framfæri og um þau sé fjallað á þinglegan hátt. Þó að hæstv. ríkisstj. kunni að eiga nokkuð langt í land með að hafa fullmótaðar þær tillögur, sem hún hyggst gera í efnahagsmálum, eru þegar komin fram allmörg mál í þinginu frá þingmönnum, og má gera ráð fyrir, og er það í samræmi við venju, að von sé á miklu fleiri málum inn í þingið til meðferðar, þingmannafrv. og þáltill. Það virðast því næg verkefni fyrir hv. Alþingi að starfa að fram eftir desembermánuði engu síður en verið hefur undanfarin ár. Þess ber og að gæta, að í sambandi við þá stjórnarskrárbreytingu, sem knúin var fram á þessu ári, var fulltrúum þjóðarinnar, sem setu eiga á Alþingi, fjölgað að nokkrum mun, og nú sitja á þingi margir menn, sem ekki hafa gegnt þingstörfum áður, og ekki má heita ólíklegt, að þeir hafi ýmis áhugamál og hugmyndir fram að bera, sem þeir vilji færa í form og fá tekin til meðferðar á þinglegan hátt hér á hv. Alþingi, og þá væri fullkomlega eðlilegt að veita þeim tækifæri til þess að vinna að þeim málum, sem þannig verða lögð fyrir þingið, á meðan hæstv. ríkisstj. vinnur að undirbúningi þeirra till., sem hún ætlar að flytja.

Þetta mál, sem nú er hér á dagskrá, er fjáröflunarmál ríkissjóði til handa. Í þessu frv., sem hér er til umræðu, felast raunar ekki mjög háar fjárhæðir, miðað við ýmsa aðra tekjuliði ríkisins, og þetta eru gjöld, sem innheimt hafa verið að undanförnu samkvæmt heimildarlögum, sem þingið hefur sett að jafnaði frá ári til árs. En í sambandi við þetta mál ber þess að gæta, að ný ríkisstj. hefur, a.m.k. að formi til, tekið við völdum. Ég segi að formi til, vegna þess að sömu flokkar, sem styðja núv. hæstv. ríkisstj., hafa raunverulega veitt stuðning þeirri ríkisstj., sem setið hefur árið 1959 fram að þeim tíma, að þetta þing hófst, og það hefur komið fram af hálfu þessarar hæstv. ríkisstj., að efnahagskerfi þjóðarinnar þurfi að taka til gaumgæfilegrar endurskoðunar í heild.

Ríkisbúskapurinn, þ.e.a.s. fjárlagaafgreiðslan, er einn þáttur í þeirri endurskoðun, og þær leiðir, sem valdar kunna að verða í sambandi við vandamál atvinnuveganna, hljóta að hafa áhrif á það, hvort nauðsyn ber til eða ekki að framlengja þá tekjustofna, sem hér er fjallað um.

Því hefur oft verið haldið fram, ekki sízt af fulltrúum Sjálfstfl., og a.m.k. var því haldið á loft, meðan vinstri stjórnin sat að völdum og einn af þm. Framsfl. gegndi embætti fjmrh., að útgjöldum ríkissjóðs væri ekki nægilega í hóf stillt. Það mætti því ætla, að við þá stjórnarbreytingu, sem orðin er, kynnu að verða einhver þau straumhvörf í þeim efnum, að ekki væri þörf að framlengja þá tekjustofna, sem m.a. er fjallað um í þessu frv., sem hér er til umræðu, og a.m.k. er fullkomlega eðlilegt, að grg. um fjármál ríkisins hafi verið flutt hv. alþm., áður en frv. sem þessi eru lögfest, og ég ætla, að það sé í samræmi við þá venju, sem fylgt hefur verið, að frv. sem þessi hafi ekki verið lögfest, fyrr en 1. umr. fjárlaga hafi farið fram. Ef gripið verður til þess ráðs nú að knýja það fram, að þingið lögfesti þetta frv., sem hér er til umr., og önnur þau frv., sem nú eru á dagskrá þessarar hv. d., áður en 1. umr. fjárlaga hefur farið fram, þá ætla ég, að það sé algert einsdæmi í þingsögunni.

Eftir að hæstv. fyrrv. ríkisstj. tók við völdum og mótaði tillögur sínar við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár, bentum við framsóknarmenn á, að þær leiðir, sem þá var stofnað til að farnar yrðu í fjárhagsmálefnum ríkisins, væru vægast sagt hæpnar og mundu ekki reynast haldgóð úrræði til frambúðar. Við bentum á, að greiðsluafgangur ríkissjóðs frá árinu 1958 yrði ekki notaður nema í eitt skipti til ráðstafana í sambandi við efnahagsmálin og niðurgreiðslu vöruverðs í landinu. Við bentum á, að lækkun á fjárframlögum til framkvæmda í landinu væri um of og að það mundi skerða stórkostlega uppbyggingu á ýmsum sviðum í landinu, ef þeirri stefnu yrði haldið áfram. Og við bentum einnig á, að innflutningsáætluninni á árinu 1959 væri hagað þannig, að óeðlilega mikið ætti að flytja inn af vörum, sem gæfu háa tolla, til þess að fleyta fjárhagsmálum ríkisins og standa straum af gjöldum útflutningssjóðs á þessu ári. — [Fundarhlé.]

Þegar sett voru fjárlög fyrir þetta ár á síðasta reglulega Alþ., því er háð var s.l. vetur, og hæstv. fyrrv. ríkisstj. markaði þá stefnu sína í efnahagsmálum þjóðarinnar, bentum við framsóknarmenn greinilega á, að þau ráð, sem uppi voru, og þær leiðir, sem farnar voru við afgreiðslu þeirra mála, væru þess eðlis, að þau úrræði yrði ekki hægt að nota nema einu sinni. Við bentum á, að greiðsluafgangur frá 1958 yrði ekki notaður nema í eitt skipti til þess að greiða niður vöruverð í landinu og hafa á þann hátt áhrif á verðlagsmálin. Við bentum á, að sú lækkun á fjárframlögum til verklegra framkvæmda, sem lögfest var í fjárlögum þessa árs, frá því, sem verið hafði, mundi draga um of úr uppbyggingu í landinu á ýmsum sviðum, ef þau úrræði yrðu endurtekin a.m.k., og við bentum einnig á, að innflutningsáætlun væri þannig hagað eftir till. fyrrv. ríkisstj., að á þessu ári yrði óeðlilega mikill innflutningur á hátollavörum í því skyni að fleyta fjárhagsmálefnum þjóðarinnar um stuttan tíma, en þau ráð yrðu ekki heldur haldkvæm til frambúðar.

Fram eftir þessu ári hefur mátt skilja það af því, sem fyrrv. ríkisstj. hefur haft að segja þjóðinni, að fjárhagsmálefni landsins væru í mjög góðu horfi, og nú síðast í umr., sem fram fóru fyrir alþingiskosningar í haust, töluðu a.m.k. 2 þáv. ráðh. greinilega í þá stefnu, að hagur útflutningssjóðs hefði ekki staðið í annan tíma betur en nú fyrir fáum vikum og ríkisbúskapurinn væri a.m.k. rekinn greiðsluhallalaust. En nú á fyrstu dögum þingsins eru að koma fram játningar, sem fara mjög í aðra átt en þær yfirlýsingar, sem gefnar voru í áheyrn alþjóðar fyrir síðustu kosningar. Fyrsta játningin, sem fram hefur komið opinberlega, er sú, sem núv. hæstv. forsrh. hefur birt á almennum stjórnmálafundi úti í bæ, en ekki hér á hv. Alþ., að það muni vanta a.m.k. 250 millj. kr. af nýjum tekjum til þess, að efnahagsmálum landsins verði séð farborða á næsta ári að öllu óbreyttu. Og í fjárlagafrv., sem útbýtt hefur verið fyrir fáeinum dögum, er enn haldið áfram játningum af svipuðu tagi. Í aths. við fjárlagafrv. fyrir árið 1960 segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárlagafrv. það, sem hér liggur fyrir, er miðað við það verðlag og kaupgjald, sem nú er og hefur staðið óbreytt síðan snemma á árinu 1959. Þrátt fyrir þetta er ekki hægt að gera ráð fyrir jafnhagstæðri afkomu ríkissjóðs á árinu 1960 eins og verða mun á árinu 1959. Til þess liggja þrjár orsakir. Í fyrsta lagi var í tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 1959 gert ráð fyrir tolla- og skattagreiðslum Sogsvirkjunarinnar að upphæð 30 millj. kr. og notkun greiðsluafgangs frá árinu 1958 að upphæð 25 millj. kr. Þessir tekjustofnar falla nú að sjálfsögðu burt. Í öðru lagi er ekki hægt að gera ráð fyrir, að tekjur ríkissjóðs af verðtolli og söluskatti verði eins miklar árið 1960 og þær munu reynast á árinu 1959. Hinn mikli innflutningur ársins 1959 hefur að nokkru byggzt á notkun erlends lánsfjár, sem gera verður ráð fyrir að minnki á árinu 1960. Erfið gjaldeyrisaðstaða í frjálsum gjaldeyri og sívaxandi greiðslubyrði af erlendum lánum takmarka einnig möguleika á jafnmiklum innflutningi og verið hefur. Af þessum sökum eru tekjur þessa frv. ekki áætlaðar hærri en tekjur fjárlagaársins 1959, enda þótt vitað sé, að tekjur þessa árs munu reynast allmiklu hærri en fjárlögin gerðu ráð fyrir. Í þriðja lagi aukast útgjöld í þessu frv. um 43 millj. kr. frá fjárlögum 1959, ef ekki er tekið tillit til greiðslna útflutningssjóðs.“

Hér er þá játað, að komið er fram og sé að koma fram nákvæmlega í reynd það, sem við þm. Framsfl. bentum á við afgreiðslu fjárlaga s.l. vetur. Sumir tollarnir, þ.e.a.s. tollarnir á vörum til Sogsins, verða ekki notaðir aftur. Greiðsluafgangur ríkissjóðs frá 1958 verður ekki notaður aftur á sama hátt og gert hefur verið á þessu ári. Og það er talað um mjög erfiða gjaldeyrisaðstöðu í frjálsum gjaldeyri. Það er einnig játað, að það séu takmarkaðir möguleikar fyrir innflutning lánsfjár í sama mæli og verið hefur. Einnig þetta er játað. Þetta sannar m.a., — sem ég skal þó ekki rekja ýtarlega að þessu sinni, — að ábendingar okkar framsóknarmanna á s.l. vetri voru hárréttar, og þetta sannar enn fremur, að sá skilningur okkar á fjárhagsvandamálum þjóðarinnar í heild, að ekki væri tryggilega um hnúta búið af hendi fyrrv. stjórnar, reynist líka réttur. Það er nú játað, m.a. með fjárlagafrv. Þetta og allt talið um það, að meðan Framsfl. fór með stjórn fjármála, hafi útgjöldum ríkissjóðs ekki verið nægilega í hóf stillt, skýrist nú m.a. í ljósi þeirra staðreynda, að þetta fjárlagafrv. gerir ráð fyrir a.m.k. 43 millj. kr. hækkun frá fjárlögum 1959, ef ekki er tekið tillit til greiðslna útflutningssjóðs. Er þó vitað, að fjárlagafrv. hækkar að öllum jafnaði í meðferð Alþ., og verður að gera ráð fyrir, að svo reynist nú að þessu sinni eins og að undanförnu. Það er því út af fyrir sig alveg rétt, að efnahagsmál þjóðarinnar í heild þarf sjálfsagt að taka til endurskoðunar og alla aðstöðu ríkissjóðs til þess að standa straum af þeim gjöldum, sem á hann falla. En það er eðlilegast, eins og við höfum bent á, að a.m.k. sé gerð fyllri grein fyrir þessum málefnum í heild af hálfu núv. ríkisstj. en felst í aths. við fjárlagafrv., áður en horfið verður að því ráði að lögfesta tekjuaukafrv., sem hér eru nú á dagskrá.

Í því sambandi álít ég, að vel geti komið til álita að breyta að einhverju leyti ákvæðum, sem standa í þessu frv. um innheimtu þeirra gjalda, sem hér um ræðir, jafnvel þótt þær breytingar fælu ekki í sér skerðingu á tekjum til ríkissjóðs í heild. Sá liðurinn, sem ég ætla að vegi einna mest af þeim, sem taldir eru í 1. gr. þessa frv., er d-liðurinn um álag á gjald af innlendum tollvörutegundum. Það er í því sambandi eftirtektarvert, þegar litið er á fjárlögin, að það eru tveir liðir, sem vega langsamlega mest um tekjur ríkissjóðs í heild. Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir, að í ríkissjóð innheimtist 1033 millj. kr. Þessi heildartala skiptist þannig, að skattar og tollar eiga að nema 778 millj. og 600 þús. kr., en tekjur af rekstri ríkisstofnana eiga að nema 240 millj. kr. Aðrir liðir eru mjög smávægilegir samanborið við þetta, og það vekur eftirtekt þegar litið er á fjárlfrv. fyrir árið 1960, að þá er gert ráð fyrir því, að á árinu 1960 verði tekjur af rekstri ríkisstofnana 250 millj. kr. rúml., eða hækki dálítið frá því sem áætlað var á þessu ári.

Þó að stjórnmálaflokka greini á bæði í skattamálum og fleiri veigamiklum þjóðmálum, þá sýnir reynslan, að enginn stjórnmálaflokkur hefur lagt það til á undanförnum árum að fella niður einkasölur ríkisins, t.d. á áfengi og tóbaki, en þær einkasölur skila langsamlega mestu af þessum tekjum, sem af rekstri ríkisstofnana fæst. Mér finnst því, að í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir, og í sambandi við þá heildarathugun á tekjum ríkisins, sem verður að fara fram á þessu þingi, geti vel komið til álita að taka það til athugunar, hvort ríkið á ekki beinlínis að taka í sínar hendur sölu á einhverju af þeim drykkjarföngum, sem um er rætt í d-lið 1. gr. þessa frv., hvort það sé alveg nákvæmlega hin hárrétta aðferð til þess að afla ríkissjóði tekna af þessari framleiðslu að fara þannig að, sem ráðgert er í þessu frv. Mér virðist, að vel geti komið til álita að gera á þessu einhverjar breyt., og þess vegna væri eðlilegt að fresta afgreiðslu þessa máls nú, a.m.k. á þessum fundi, og hv. fjhn., sem hefur haft nauman tíma til þess að athuga hina ýmsu þætti málsins, tæki það til athugunar á nýjan leik og það yrði svo tekið á dagskrá að hæfilegum tíma liðnum, þegar einstakir þættir þess hefðu verið athugaðir betur.