28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2219)

7. mál, gjaldaviðauki 1960

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að taka þátt í þeim almennu stjórnmálaumr., sem spunnizt hafa í kringum frv. það, sem hér liggur fyrir, enda álít ég, að þær umr. séu utan þess efnis, sem hér ætti að ræða. En ástæðan til þess, að ég stóð hér upp aftur, er sú, að í sambandi við þessar umr. hefur örlítið borið á góma vinnubrögð fjhn. í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Ég vil þá upplýsa það vegna þeirra hv. dm., sem ekki eiga sæti í n., að málinu var vísað til fjhn., eins og hv. þdm. er kunnugt, s.l. fimmtudag. En þegar að loknum þeim fundi hafði verið boðaður fundur í fjhn. Þeir hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. sama kjördæmis óskuðu þá eftir, að þessum málum væri frestað og töldu sig þurfa að ráðgast við sína flokka um málið. Ég taldi sjálfsagt sem formaður n. að verða við þeirri ósk, og fengu þeir frest rúman dag, þannig að fundur var aftur boðaður í n. í gær kl. hálf sex. Þá er það að vísu rétt, að umræddir hv. nm. óskuðu aftur eftir frestun á málinu, eins og fram kemur líka í meirihlutanál. okkar þriggja, sem að því stóðum. En þar sem við, sem að meirihlutanál. stöndum, féllumst á rök hæstv. ríkisstj. fyrir því, að rétt væri að hraða málinu, svo og vegna þess, að skýrt hefur komið fram, að ósk tveggja hv. nm. um frestun stóð ekki í sambandi við það, að þeir óskuðu að athuga efnislega þau atriði, sem frv. fjallar um, heldur vegna þess, að það var annað mál, sem fyrir þeim vakti, þá töldum við ekki fært að fresta afgreiðslu þessara mála frekar, enda hefur það verið þannig á undanförnum þingum, að þessi framlengingarfrv. hafa að jafnaði verið afgreidd ágreiningslaust, þannig að hér er um gamla kunningja að ræða hvað snertir alla þá hv. þdm., sem skemmri eða lengri tíma hafa átt sæti á Alþ. áður.

Það hefur að vísu komið hér fram í umr., að vel geti verið, að við afgreiðslu fjárlaga verði gerð meiri eða minni breyt. á þeim tekjustofnum, sem hér er um að ræða. Sjálfsagt er það vel hugsanlegt. En ég sé ekki neina ástæðu til þess að fresta afgreiðslu málanna á þeim grundvelli, því að ef samin yrðu lög síðar á þinginu, sem breyttu einhverju um þessa tekjustofna, mundu þau lagaákvæði, sem nú er verið að samþykkja, auðvitað þar með falla úr gildi. Það er mjög sennilegt, að það verði gerð meiri eða minni breyt. á því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir. En svo lengi sem gert er ráð fyrir því, að greiðslur samkv. fjárlögum fari fram á líkum grundvelli og verið hefur s.l. ár, þá er auðvitað eðlilegt að framlengja líka þá tekjustofna, sem byggt hefur verið á.