28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (2223)

7. mál, gjaldaviðauki 1960

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir óskir þær, sem hér hafa komið fram um frestun þessara mála, og það er í samræmi við gang málsins áður og þátttöku mína í þeim í n. Mig undrar það, að hæstv. fjmrh. spyr eftir rökum fyrir því, að slík frestun hefði einhverja þýðingu. Mér finnst, að hann hljóti að hafa getað lesið rökin út úr þeim umr., sem hér hafa farið fram. Menn eru yfirleitt ekki á móti þessum frumvörpum og lýsa ekki yfir því, að þeir vilji ekki veita heimildir til framlenginga, ef farið væri fram á þær á eðlilegum tíma. En þar sem farið er fram á þessar framlengingar með tilliti til þess, að hægt sé að fresta þingi fyrr en talið er af miklum hluta þings eðlilegt, þá neyðast menn til þess að spyrna á móti, og ég tel, að það væri mikilsvert, ef það væri reynt til þrautar að semja milli hæstv. ríkisstj, og stjórnarandstöðunnar um þann frest þings, sem kalla mætti eðlilegan. Í gærkvöld héldum við, að þessir samningar væru að eiga sér stað. Í dag höfum við spurzt fyrir og ekki fengið ákveðin svör. Ég hef fyrir mitt leyti frétt, að hæstv. forsrh. sé forfallaður af veikindum í dag, og þess vegna getur maður látið sér detta í hug, að engin svör séu komin. Ég hygg, að ef frestur væri gefinn, þá gæti vel verið, að þetta mál leystist þannig, að það gæti orðið samkomulag um afgreiðsluna, og það tel ég ekki þýðingarlítið, alls ekki þýðingarlítið, og mér þætti hart, ef hæstv. ríkisstj. teldi það þýðingarlítið, að samkomulag gæti orðið í þessum efnum. Ég ber ekki svo mikið vantraust til hennar, þó að ég vantreysti henni í ýmsum efnum, að ég haldi ekki, að samkomulag um þetta geti fengizt, ef að því er unnið og frestur gefinn til þess að ná samkomulaginu.