28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (2225)

7. mál, gjaldaviðauki 1960

Alfreð Gíslason læknir:

Hæstv. fjmrh. lýsir eftir rökum fyrir þeirri ósk, að þessari umr. verði frestað. Það er augljóst mál, að það er ekki svo mjög málefnið sjálft, sem ber á milli, heldur miklu frekar málsmeðferðin öll. Okkur þykir hún bæði flaustursleg og þvingandi. Um rökin að öðru leyti fjölyrði ég ekki, því að nú hefur vart annað verið rætt í nærfellt klukkutíma í þessari hv. d. en einmitt rökin, sem eru talin fram.

Hæstv. fjmrh. talar um að tefja þingið. Hvernig getur hæstv. ráðh. leyft sér að tala þannig um það þing, sem er að byrja störf? Þetta mætti segja undir þinglok, þegar mikið lægi við að ljúka störfunum. Þetta er mjög óþinglega mælt.

Ég beindi ósk minni til hæstv. forseta um, að þessari 2. umr. málsins yrði frestað. Þar með átti ég við þetta mál, fyrsta málið á dagskránni, og ég ítreka þá ósk mína. Að sjálfsögðu skipti ég mér ekki af, hvort hann tekur síðari málin á dagskrá og heldur áfram fundi eða ekki. Það var ekki það, sem ég átti við, heldur aðeins, að mér og öðrum hv. þdm., sem þess óska, yrði gefinn kostur á að athuga málið betur, áður en 2. umr. er lokið.