28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (2227)

7. mál, gjaldaviðauki 1960

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Eins og áður hefur verið vikið að hér og reyndar þm. hafa heyrt, hafa umr. hér að mjög litlu leyti snúizt um það mál, sem hér er á dagskrá, og er það að sjálfsögðu ekki til fyrirmyndar. Ég mun ekki fara langt út í þá sálma að ræða þau almennu atriði, sem hér hafa komið fram, þó að vissulega margt í þeim gefi tilefni til sérstakra hugleiðinga. Ég get þó ekki stillt mig um að segja, að það er næstum því broslegt, þegar hv. 2. þm. Vestf., forsrh. vinstri stjórnarinnar, er sérstaklega að tala um virðingu Alþ. og því sé misboðið að hafa ekki samráð við það um alla hluti. Þetta eru þau vinnubrögð, sem tíðkuð voru á þeim tíma. Ég er ekki að segja, að þau hafi verið til fyrirmyndar, síður en svo, enda væri það ekki æskilegt, að þau væru tekin upp aftur. En óneitanlega virðist manni það koma úr hörðustu átt, þegar af þeim aðila er sérstaklega verið að fordæma það, að sú ráðstöfun sé gerð, sem nú er og er ekki í öðru fólgin en því, að fyrirhugað er að fresta fundum Alþ. um skeið, til þess að ríkisstj. hafi tíma til þess að undirbúa sín mál, mál, sem hún að sjálfsögðu ákveður ekkert um og hlýtur að hafa fullt samráð við Alþ. um, þannig að af Alþ. er enginn réttur tekinn. Ég get ekki heldur stillt mig um að skjóta því fram hér í sambandi við fordæmingu á því, að hæstv. núv. forsrh. hafi flutt ræðu í Varðarfélaginu, þar sem hann hafi farið nokkrum orðum um það, hversu geigvænlegt ástand væri í efnahagslífi þjóðarinnar, án þess þó vitanlega að gefa þar nokkrar sundurliðaðar upplýsingar um þær rannsóknir, sem fram hafa farið á því, heldur var það almenns efnis, að þá minnti það mig á það, að ég man ekki betur en það hafi verið fyrsta árið, sem vinstri stjórnin starfaði, sem sett var n. til þess að rannsaka efnahagsmálin, gera hina svokölluðu og margumtöluðu úttekt, og ég held, að það, sem fyrst hafi birzt, að svo miklu leyti sem nokkuð hafi birzt um það efni, hafi verið frásögn í Tímanum af ræðu, sem hæstv. þáv. forsrh. flutti í Framsóknarfélagi Reykjavíkur, þar sem hann skýrði frá ýmsum atriðum þeirrar úttektar.

Það voru svo örfá atriði í sambandi við meðferð þess máls, sem hér liggur fyrir, sem mig langaði til sérstaklega að drepa á.

Það er talið sérstaklega óeðlilegt við meðferð þessa máls og afgreiðslu þeirra annarra frumvarpa, sem hér eru til meðferðar í dag, að þau séu afgreidd, áður en vitað er um efnahagsmálastefnu ríkisstj. og afgreiðslu fjárlaga. Þetta er ekkert nýtt fyrirbrigði. Í fyrsta lagi hygg ég, að þessi frv. hafi yfirleitt ætíð verið afgr. endanlega, áður en fjárlög hafa verið afgr., og þau hafa meira að segja verið afgreidd stundum án þess, að vitað hafi verið endanlega um það, hver væri efnahagsmálastefnan. T.d. voru þau afgreidd síðasta fjárlagaár vinstri stjórnarinnar áður en vitað var um afgreiðslu efnahagsmálanna. Að vísu voru fjárlög þá afgreidd um árslok eða fyrir áramót, en þá með þeim einkennilega hætti, sem öllum hv. þm. er kunnugt, að tekin voru út úr fjárlagafrv. vissar fjárhæðir, nokkrir milljónatugir, til þess að jafna hallann, án þess að nokkuð væri vitað um það, hvernig þessum vanda yrði mætt. Það fer því víðs fjarri, að staðfesting þessara frumvarpa hafi ætíð verið í beinu sambandi við afgreiðslu fjárlaga og vitað hafi verið endanlega um efnahagsmálastefnuna, þegar þessi lög voru endanlega samþykkt frá Alþingi. Hitt er rétt, að það mun venjulega hafa verið svo, að 1. umr, fjárlaga hafi veríð búin, áður en þessi frumvörp væru staðfest, og kemur þá til athugunar, hvort svo mikið samband sé milli 1. umr. fjárlaga og samþykktar þessara frv., að efnislega sé af þeim sökum óeðlilegt eða jafnvel fjarstætt að samþykkja þessi lög.

Það er auðvitað svo, að ef við 1. umr. fjárlaga kemur fram stefna ríkisstj. í efnahags- og fjármálum, þá hefur það mjög mikilvæga þýðingu varðandi ákvörðun lagafrv. sem þessara og afstöðu til þeirra. Það hefur hins vegar ekki verið undanfarin ár, að neitt hafi legið fyrir um fjármálastefnu ríkisstj., þegar þessi löggjöf hefur verið afgreidd frá Alþingi, og þess er alls ekki að vænta, að það geti legið fyrir nú, eins og hæstv. fjmrh. hefur tekið fram.

Það kemur þá auðvitað til álita í þessu sambandi, hvort upplýsingar um hag ríkissjóðs á árinu sem leið og þeim hluta þess árs, sem nú er að líða, geti orkað það miklu, að af þeim sökum mundi það teljast fráleitt að afgreiða þessa löggjöf, án þess að slíkar upplýsingar lægju fyrir. Vitanlega hafa slíkar upplýsingar mikið að segja varðandi mat manna á efnahagsástandinu, en ég hygg ekki, að neinn hv. þdm. muni í alvöru halda því fram, að slíkar upplýsingar mundu leiða til þess, að það yrði talið óeðlilegt að samþykkja þessar heimildir, sem gilt hafa árum saman og enginn ágreiningur hefur verið um að giltu, vegna þess að fjárhagsástandið mundi leiða í ljós, að ekki væri þörf á þeim tekjum, sem hér um ræðir.

Hv. 5. þm. Austf. ræddi um það hér áðan, að það mætti nú ætla það jafnvel vegna þess sparnaðaranda, sem mætti gera ráð fyrir að yrði hjá ríkisstj., að þá gæti farið svo, að þessir tekjustofnar væru ónauðsynlegir. Hins vegar gekk ræða hans að öllu öðru leyti út á að sanna það, að óhjákvæmilegt væri að hafa þessa tekjustofna, því að hann dró upp mjög dökka mynd af því, hvernig fjármálaástandið væri og hagur ríkissjóðs, og vék sérstaklega að upplýsingum í fjárlagafrv. um það efni, að það væru tekjuliðir, sem ekki mætti reikna með á þessu ári. Allt þetta bendir að sjálfsögðu í þá átt, að það sé síður en svo hægt að gera ráð fyrir, að breyting hafi orðið á þann veg, að það sé ekki lengur fyrir hendi, að það þurfi að framlengja þessa tekjustofna, ef miða á við þær upplýsingar, sem auðið er að láta liggja fyrir, ef 1. umr. fjárlaga færi nú fram. Ég held því, að hvernig sem á málið er efnislega litið, geti það ekki skipt máli varðandi afstöðu manna til þessara frumvarpa, þó að 1. umr. fjárlaga færi nú fram, umræða, sem er útilokað að geti sýnt heildarstefnu ríkisstj, í fjár- og efnahagsmálum, — ég býst ekki við, að neinn ætlist til þess, — heldur aðeins gæti haft í sér fólgnar vissar upplýsingar, sem raunverulega eru að meira eða minna leyti öllum hv. þm. kunnar og ljósar, enda hafa umr. leitt það skýrt fram.

Mér sýnist því, að efnislega geti ekki neitt verið því til fyrirstöðu, að framlenging þessara frv. verði samþ. Ég hef áður vikið að því, hvernig þetta var í tíð vinstri stjórnarinnar. Af hálfu stjórnarandstöðunnar þá var aldrei fótur settur fyrir samþykkt þessara frv., enda þótt ekki lægi fyrir endanleg vitneskja um efnahags- eða fjármálastefnu ríkisstj. á hverjum tíma. Mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið borið fyrir sig í sambandi við afgreiðslu þessara mála. Það er því alveg ljóst, að ef það er skoðun manna, að það sé ekki hægt að samþykkja þessi frv. nú, þá er það ekki efnislegt viðhorf til málanna sem slíkra, heldur einhver annarleg sjónarmið, sem þar koma til greina.

Það hefur verið hér vikið að því, að það væri til framdráttar störfum Alþingis, að það sæti nú lengur og ynni að afgreiðslu þeirra mála, sem fyrir það hafa verið lögð. Þannig standa sakir með meiri hluta þessara mála, að þau eru fjárhagsmál og gersamlega útilokað að taka afstöðu til þeirra, án þess að vitað sé nokkurn veginn um fjárhagsgetu ríkissjóðs og þær leiðir, sem farnar verða í fjárhags- og efnahagsmálum þjóðarinnar. Hitt er að vísu rétt, að það eru nokkur önnur frv., sem fram hafa komið, en ég sé ekki, að það sé hægt að álíta, að það muni á einn né annan veg seinka störfum Alþingis, eftir að það kemur aftur saman, þó að þá þurfi að taka þessi frv. til afgreiðslu.

Því hefur verið haldið fram hér til afsökunar beiðni um að fresta þessum málum nú, að afgreiðsla þeirra í nefnd hafi verið með óeðlilegum hætti og að það sé óeðlilegt að afgreiða þessi mál með afbrigðum, sem kallað er, í byrjun þings. Ég sé nú satt að segja ekki, að það þurfi að vera á neinn hátt óeðlilegt, ef hv. þm. geta ekki með rökum bent á, að þeir hafi ekki kynnt sér þessi mál. Ég held, að það hins vegar liggi alveg ljóst fyrir hverjum einasta þingmanni hér í hv. deild og Alþingi yfirleitt, hvaða mál er hér um að ræða, því að hér eru óbreytt frv., sem staðfest hafa verið og framlengd ár eftir ár, þannig að það getur enginn borið það fyrir sig, að hann hafi ekki þekkingu á þessum málum og þurfi að kynna sér frekar þeirra efni. Einnig þessi röksemd fellur því um sjálfa sig.

Ég skal ekki ræða hér um þingfrestunina. Ég vil hins vegar vekja athygli á því, sem einn hv. þm. úr stjórnarandstöðunni sagði hér í dag, að hann vefengdi ekki, að stjórnin þyrfti starfsfrið, en mér skildist, að honum þætti ekki tímabært, að hún fengi þann frið strax. Ég held aftur þvert á móti, að það sé hin mesta nauðsyn fyrir framvindu allra mála í landinu, að stjórninni gefist kostur á að helga sig undirbúningi efnahagsráðstafana og fjárlaga nú þegar, þannig að þau mál geti orðið tilbúin sem allra skjótast. Mér finnst það miklu meira álitamál, ef það er álitamál á annað borð, hvort rétt væri að fresta þingi eins lengi og gert er ráð fyrir, en hitt alls ekki álitamál, ef menn viðurkenna á annað borð, að það sé eðlilegt, að stjórnin taki sér einhvern frið til undirbúnings þessara mála, að þá fái hún hann þegar. Það leiðir svo aftur af hraðanum í undirbúningi málanna, hvað þessi þingfrestun stendur lengi.

Beiðni sú, sem hér hefur komið fram um að fresta afgreiðslu þessa máls, er atriði að sjálfsögðu, sem hæstv. forseti tekur afstöðu til. Mér sýnist það hins vegar augljóst, að beiðnin um þá frestun er ekki málefnaleg, vegna þess að hún byggist ekki á því, að þingmenn vilji frekar kynna sér þetta mál, heldur er hún eingöngu borin fram til þess að hafa betri vopn í höndum til að geta dregið þingið lengur og komið þannig í veg fyrir þingfrestun. Það er eina skýringin, sem hægt er að finna á þessari beiðni, og ég geri naumast ráð fyrir því, að hv. stjórnarandstæðingar ætlist til þess í alvöru, að það sé orðið við beiðninni, ef ekki er samkomulag um það, að fallið verði frá þeirri þingfrestun, sem fyrirhuguð er, því að það er ljóst, að með frestuninni er ætlunin eingöngu sú að vinna tíma til þess að geta þá með sama málþófi og hér hefur verið í dag reynt að tryggja, að þingstörfin dragist nokkrum dögum lengur.