28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (2229)

7. mál, gjaldaviðauki 1960

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það mál, sem hér liggur fyrir til umræðu, er á þskj. 7. Það er frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta ýmis gjöld 1960 með viðauka.

Þessi gjöld, sem þarna er um að ræða, eru svo talin upp í þessu lagafrv. Það er, eins og tekið hefur verið fram í þessum umræðum, vitagjald, það er viðaukastimpilgjald, lestagjöld, leyfisbréfagjöld, önnur en þau, sem ræðir um í aukatekjulögum nr. 40 1954, svo eru það viðaukagjöld samkv. 9. kafla laga nr. 68 5. júní 1947, um eftirlit með skipum, að undanskildum gjöldum samkvæmt 58. gr. laganna, og svo er það loks gjald af innlendum tollvörutegundum samkv. l. nr. 60 frá 1939, en þessi viðaukagjöld, sem þarna er um að ræða, eru mjög mishá eftir því, um hvað gjöldin eiga að fjalla. En eins og komið hefur fram í þessum umr., er þetta í raun og veru ekki eina frv., sem hér er á leiðinni, heldur eru samferða því 3 eða þó öllu heldur 4 önnur, sem eru öll í sambandi hvert við annað, þ.e.a.s. frv. um framlengingu á gildi 3. kafla laga nr. 100 frá 1948, um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, á þskj. 8, frv. til laga um bráðabirgðabreyt. á lögum nr. 90 1954, um tollskrá o.fl., á þskj. 9 og loks frv. til l. um bráðabirgðabreyt. á l. nr. 68 frá 1949, um bifreiðaskatt o.fl., þskj. 10.

Öllum þessum frv. er það sameiginlegt, að þar er ekki um að ræða fastar álögur, heldur er hér um að ræða heimild fyrir ríkisstj. til þess að innheimta þessi gjöld, sem þarna er rætt um, með ákveðnu álagi á ákveðnu tímabili, og þessi heimild er bundin eftir þessum frv. við eitt ár, þ.e.a.s. við fjárhagstímabil.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að þessi mál eru ekki ný. Þau hafa verið hér áður til umræðu á fyrri þingum og hafa verið samþykkt þá þing eftir þing. Eigi að síður ber þetta, að þessi háttur er á hafður. að það er ekki sett alveg föst gjaldalög eða skattalög um þessi efni, heldur ár frá ári framlengd þessi heimildarlög fyrir ríkisstj., þess ljósan vottinn, að það er til þess ætlazt, að það sé tekið til athugunar hverju sinni, á hverju Alþingi, sem fær þessi mál til meðferðar, hvort það sé þörf á þessum álögum. Annars væru þetta óhæfileg vinnubrögð, eins og ég mun síðar koma að, að vera að eyða tíma hvers Alþingis í það að fjalla um þessi frv. ár eftir ár, ef það væri reiknað með því, að þetta væru alveg stöðugir skattar. En það er ekki reiknað með því, heldur er gert ráð fyrir því einmitt, að Alþingi hverju sinni taki þetta til meðferðar.

Ég geri ráð fyrir og ég get lýst því hiklaust yfir, að hvað mig snertir mundi ég að óbreyttum aðstæðum hafa talið eðlilegt, að þessi lög væru framlengd nú eins og áður, og mundi, ef málið hefði borið að með eðlilegum hætti, hafa greitt atkv. með framlengingu þessara lagafrv. En það er samt sem áður svo, þó að þetta séu frv. um framlengingu á lögum, sem hafa verið áður til og framlengd nokkuð oft áður, að það er vissulega skylda þingsins að átta sig á því hverju sinni og athuga það, hvort þörf sé á þessum tekjustofnum framvegis.

Í því sambandi er auðvitað alveg sérstök ástæða til að þm. geri sér grein fyrir því, hverju þessir tekjustofnar nema, hverjar eru þær upphæðir, sem þeir eru að samþ. hverju sinni.

Nú stendur þannig að vísu á, að hér eru margir nýir þm., og ég er nú nýlegur í þeirra hópi líka, og ég skal alveg hiklaust játa á mig þá fáfræði, að þegar ég les nú þessi frv., þá geri ég mér ekki alveg grein fyrir því, hvaða upphæðir þarna er um að ræða. Ég er ekki svo kunnugur þessum gjöldum, sem þarna er um að tefla. En mér finnst samt viðkunnanlegra að vita þetta, áður en ég afgr. svona mál, hve þarna er um litlar eða háar upphæðir að ræða. Ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir því, að hv. fjhn., sem hefur haft málið til meðferðar, hafi gert sér glögga grein fyrir þessu. Og nú vildi ég beina þeirri fsp. til hv. frsm. fjhn., hvort hann geti gefið upplýsingar um það hér, hversu miklu þessi gjöld nemi. Mér finnst það ekki nema sjálfsagt, að það liggi fyrir, áður en málið er afgreitt. Og þar sem ég geri ráð fyrir því, af því að þetta samband er á milli allra þessara mála, sem um er að ræða, að umr. um þessi mál öll fari að meira eða minna leyti fram í einu lagi, þannig að nú fari fram aðalumræðan um þessi mál, en það yrði svo minni umr. e.t.v. um þau mál, sem á eftir fara, þá finnst mér eðlilegt, að hann gefi þessar upplýsingar varðandi þessi frv. öll, sem hér er um að ræða, hverju þessar upphæðir nema, sem þarna er farið fram á að þingið samþykki.

Hér er um heimildarlög að ræða fyrir ríkisstj. Það er af því augljóst, að gert er ráð fyrir því, að ríkisstj. athugi, hvort hún þurfi á þessum gjöldum að halda, áður en hún ákveður að innheimta þau.

Ég hef haldið því hér fram áður og get ekki vikið frá þeirri skoðun, að það sé samband á milli þessara mála og afgreiðslu fjárl. og því sé óheppileg málsmeðferð að taka þessi mál út af fyrir sig til umr. og afgreiðslu, áður en nokkuð er farið að ræða um fjárl. Það hefur enginn fundið að því, að þessi frumvörp væru lögð fram í þingbyrjun. Það eru alveg eðlileg vinnubrögð, og sá háttur hefur sjálfsagt veríð hafður á áður. En það, sem fundið er að er þetta, að það skuli vera ætlazt til þess, að þessi frv. séu afgr. sem lög, áður en Alþingi hefur fengið að heyra skýrslu hæstv. fjmrh. um fjárhagsástandið og um væntanlega stefnu ríkisstj. í þeim efnum. Sú afgreiðsla er algerlega eðlileg, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ) lýsti áðan, að þessi lög séu afgreidd áður en fjárl. eru afgreidd. Það er mjög eðlilegt út af fyrir sig, af því að fjárlagaafgreiðslan hlýtur að byggjast m.a. á þessum tekjustofni. En það, sem er gagnrýnt hér, er þetta, að það skuli lögð áherzla á, að þessi tekjuöflunarfrv. séu afgr., áður en fjárl. eru nokkuð tekin til umr. Og því eru þau í raun og veru, hvað sem hver segir, afgr. áður en þm. er gerð grein fyrir því, hvort þörf verði á þessum tekjustofnum eða ekki. Og það er einmitt sérstök ástæða til þess eð minnast á það nú, vegna þess að sú ríkisstj., sem nýlega er tekin við, hefur einmitt boðað, að hún mundi grípa til nýrra aðgerða í þessu efni. Það veit enginn nema þá hún, hverjar þær aðgerðir verða. En vel gæti það einmitt verið, að þær aðgerðir væru þess háttar, að þessara tekjustofna yrði ekki lengur þörf. Þess vegna get ég ekki með nokkru móti vikið frá þeirri ástæðu, sem ég hef sett hér fram áður, að það sé réttmætt að tengja þessi mál með þeim hætti, sem ég hef vikið að, við fjárl. og að það sé óeðlilegur hraði, sem áætlað er að hafa á afgreiðslu þessara mála.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, að það væri ekki svo mikið atriði, að það færi fram fjárlagaumræða eða fjmrh. héldi sína venjulegu fjárlagaræðu, áður en þessi mál væru afgr., af því að hann sagði, að það væri útilokað, að hún gæti sýnt nokkra heildarstefnu ríkisstj. um fjárhags- og efnahagsmálin. Ég verð að segja það, að mér þykir mjög mikilsvert að fá þessa játningu fram, að það sé útilokað, að fjárlagaræða, sem nú er haldin, geti sýnt nokkra heildarstefnu í fjárhags- og efnahagsmálum. Það er a.m.k. vitnisburður um það, að stjórnin hafi ekki myndað sér neina ákveðna stefnu í þeim málum, áður en hún var mynduð.

Ég lét þess getið áðan, að ég gerði ráð fyrir því, að að óbreyttum ástæðum mundi ég hafa greitt atkv. með þessum frv., sem hér liggja fyrir, þ.e.a.s.: það er ekki efnislegur ágreiningur beint um efni þessara frv., sem kemur til greina, heldur ágreiningur um málsmeðferðina, sem ég vona að hafi komið nokkuð greinilega í ljós af þeim umr., sem hér hafa farið fram, og ég hef hér lítillega reynt að minna á.

Það kæmi auðvitað talsvert annað til greina, ef það væri litið á þessa skatta sem sjálfsagða og varanlega. En það er auðséð af þeirri meðferð, sem höfð hefur verið á þessum málum að undanförnu, að þannig er ekki litið á, enda er alveg auðsætt, að ef litið væri á þessar viðaukaálögur sem sjálfsögð og varanleg gjöld, þá væri alveg óþarfi að vera að hafa þann hátt á að vera að framlengja þetta á hverju ári. Það eru vinnubrögð, sem tefja vissulega tíma Alþingis. Það væru þá vinnubrögð, sem vissulega væru öllum til leiðinda, en engum til góðs. En þessi háttur, sem á hefur verið hafður, sýnir alveg augljóslega, að það er meiningin, að það sé með kostgæfni af Alþingi athugað hverju sinni, hvort þörf sé á þessum tekjustofnum framvegis eða ekki.

Það hefur verið lögð á það nokkur áherzla hér, að því er virðist, að það væri út af fyrir sig nokkuð eðlilegt, að ný stjórn þyrfti að fá eitthvert hlé, hún þyrfti að fá starfsfrið, eins og menn hafa orðað það. Ég get nú ekki fallizt á þessa röksemd, í fyrsta lagi af því, að það verður nú ekki talið, að hér sé í raun og veru um neina nýja stjórn að ræða. Það vita allir, að sú stjórn, sem sat frá því í desember s.l., var studd af Sjálfstfl. og var í reyndinni samstjórn þessara tveggja flokka, Alþfl. og Sjálfstfl., og það er í rauninni alveg vitað mál, að þó að það félli í hlut Alþfl. eða þeirra manna, sem hann skipa, að sitja í ráðherrastólunum, þá var á þessu tímabili húsbóndavaldið hjá Sjálfstfl. Mætti auðvitað nefna mörg dæmi því til sönnunar, ef ástæða þætti til, þar sem það kom ákaflega skýrt fram, að húsbóndavaldið í öllum efnum var hjá Sjálfstfl., þó að Alþýðuflokksmönnum væri leyft að sitja í ráðherrastólunum. Það mætti nefna einstök dæmi um það, hláleg dæmi, eins og t.d. um embættisveitingar. Það mætti nefna það t.d., að Morgunblaðið skýrði frá því, að það væri búið að veita ákveðnum manni ákveðið embætti. Alþýðublaðið fór að afla sér upplýsinga um þetta hjá menntmrn. og það kannaðist ekki við neitt, og Alþýðublaðið vildi bera þetta til baka. En hvað gerðist þá? Morgunblaðið bara tók upp í sig daginn eftir og sagði: Þetta er víst svona, þessi maður fær embættið. (Gripið fram í: Er eitthvað um þetta í frv.?) Nei, þetta er ekki í frv., en þetta er inngangur að því, sem ég ætla að koma að á eftir. Ég er að reyna að sýna fram á, að það hafi ekki orðið nein eiginleg stjórnarskipti, heldur sé þetta í reyndinni sama stjórnin, sem er, og þess vegna sé nú ekki eins mikil þörf á þinghléi og þessi stjórn vill vera láta. Og viti menn, það reyndist svo rétt, sem Morgunblaðið sagði, það stóð svoleiðis á, að menntmrh. var í útlöndum, þegar þetta skeði, en þegar hann kom heim, þá var þetta gert, sem Morgunblaðið hafði sagt. Ég er ekki að gagnrýna þá ákvörðun. Þetta sýnir aðeins það, að þannig var haldið á málunum, meðan þessi stjórn sat að völdum, og það er öllum vitanlegt, að Sjálfstfl. átti á allan hátt innangengt í stjórnarráðið, á meðan þessi stjórn sat, og var þess vegna öllum hnútum þar kunnugur. Þess vegna er það að sjálfsögðu svo, að þessi stjórn, sem að formi til settist á laggirnar 20. þ.m., var kunnug öllum þessum málum, sem stjórnin hefur nú við að glíma, og á þess vegna enga afsökun fyrir því að vera ekki búin að mynda sér skoðun á þeim málefnum. Og það er í rauninni alveg furðulegt, ef stjórnin hefur verið mynduð án þess, að þeir, sem að henni standa, hafi gert sér grein fyrir því, hvaða stefnu þeir ætluðu að hafa, hvaða heildarstefnu þeir ætluðu að hafa í efnahags- og fjárhagsmálum og aðalmálum þjóðarinnar. Það er sannast sagt alveg furðulegt.

Það var þess vegna engin ástæða til þingfrestunar að mínu viti. Stjórnin hefur haft aðstöðu til þess að kanna þessi mál. En auk þess mótmæli ég því alveg eindregið, að ríkisstj. hafi hér ekki starfsfrið, þó að Alþingi sitji. Ég kalla það hreina óvirðingu við Alþingi að komast svona að orði, að ríkisstj. hafi ekki starfsfrið, þótt Alþingi sitji. Það er einkennilegt. Ég veit ekki, hvað Alþingi er að þvælast fyrir ríkisstj.

En þá kem ég að einu atriði, sem mér virðist gæta nokkuð mikið hjá hæstv. fjmrh. og kom fram í ræðu hv. 6. þm. Norðurl e., að það væri ríkisstj., sem ætti alveg að marka störf Alþingis. Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri vitað, að það lægju tvö meginverkefni fyrir Alþingi, sem nú kæmi saman, þ.e.a.s. afgreiðsla efnahagsmála og afgreiðsla fjárl., og hv. 6 þm. Norðurl. e. taldi upp nokkur mál, sem þm. hefðu hreyft hér, og taldi þau mest í þá stefnu, að þau snertu fjárhagsmál. En ég vil segja það, að það er ekki stjórnarinnar að segja til um það endilega, hvaða málefni Alþingi tekur til meðferðar. Það er Alþingis. Þess vegna er alþm. veittur frumkvæðisréttur, að þeir mega hér einmitt hreyfa þeim málum, sem þeir vilja hér á þessu þingi, og mega bera fram frv. um þau efni, sem sem þeir vilja flytja á þessu þingi. Og það er alls ekki svo, að stjórnin geti markað Alþingi neinn bás í þeim efnum, og það er ekki á færi hæstv. fjmrh. að segja fyrir um það, hvort þm. muni á þessu þingi hreyfa einhverjum mikilsverðum framtíðarmálum eða ekki. Þeir geta það að sjálfsögðu, og honum er með öllu ókunnugt um það enn, hver þau mál verða. Þetta þing hefur ekki staðið nema átta daga enn, og það er ekki við því að búast, að þm., sumir hverjir algerir nýliðar, séu búnir að ganga frá þeim málum, sem þeir ætla að bera fram á þessu þingi.

Ég vil þess vegna segja það: Ég skil ekki í fyrsta lagi annað en að stjórnin hafi haft nokkurt svigrúm til þess að athuga þessi mál nú að undanförnu og verð að telja það nokkuð mikið gáleysi af henni að leggja út í það að fara af stað án þess að hafa kynnt sér málin betur en þeir vilja vera láta. Og í annan stað verð ég að halda því fram, að ríkisstj. geti haft alveg fullkominn starfsfrið, þó að Alþingi sitji að störfum. Ég verð að halda því fram, að það sé einmitt skylda ríkisstj. að hafa samráð við Alþ. um þá stefnu m.a. í efnahagsmálum, sem hún ætlar að taka.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði, að það væri ekki farið fram á mikið hér, það væri aðeins farið fram á frestun þingsins um skeið. En athugum nokkru nánar, hvernig frumkvæðisrétti þm. er háttað. Það er ákvæði um það í þingsköpum, og ég veit ekki betur en þau lagafrv., sem þeir vilja bera fram, skuli komin fram, áður en 8 vikur eru liðnar frá þingsetningu. Eins og ég drap á áðan, er þess ekki að vænta, að nýjum þm. hafi gefizt svigrúm til þess á þessum stutta tíma, sem liðinn er frá þingbyrjun, að flytja þau mál, sem þeir vilja hreyfa á þessu þingi. Mér sýnist, að ef samþykkt er þessi frestunartillaga, sem hér hefur verið lögð fram af hálfu hæstv. forsrh., þá væri svo komið, þegar þing kæmi aftur saman, að lokað væri fyrir frumkvæðisrétt þm. Ég veit að vísu vel, að það er hægt að veita afbrigði frá þessu, og ég veit að vísu vel, að það er yfirleitt venja að veita þau afbrigði. En hvaða trygging er fyrir því, að sá háttur verði hafður á hér eftirleiðis?

Manni virðast þau vinnubrögð, sem hér eru á ferðinni, að ætla að fara að fresta þingi, eftir að það hefur staðið aðeins 10 daga eða um það bil, vera óvenjuleg, — ég hygg, að þau eigi sér ekki nokkurt fordæmi í þingsögunni. Og það er vissulega verið að marka nýja stefnu með því og með þeim ummælum, sem hæstv. ráðh, hefur um það haft, þar sem hann hefur lagt alla áherzlu á ríkisstjórnina, en eins og viljað víkja þinginu til hliðar. En það er vissulega hlutverk þm., jafnt stjórnarandstæðinga sem stjórnarsinna, að standa á verði um rétt þingsins í þessu efni og gæta þess, að ríkisstj. víki þinginu ekki um of til hliðar. Á því byggist okkar lýðræði, að þetta Alþingi, þessi söguhelga stofnun þjóðarinnar, standi á sínum rétti, en láti ekki ríkisstj, taka of mikið af völdum þeim, sem hafa verið hjá Alþingi og eiga að vera hjá Alþingi, í sínar hendur. Á þetta ber að leggja áherzlu. Og ég get ekki annað séð en að þingfrestun undir þessum kringumstæðum lýsi megnri óvirðingu gagnvart Alþingi, og það er alveg auðséð, eins og þegar hefur reyndar komið fram í þessum umr., að með slíkri þingfrestun er þm. gert erfiðara um það að rækja sitt þingmannshlutverk. Það er auðvitað svo, að þm. hafa verið falin til meðferðar ýmis málefni af sínum kjósendum, mál, sem þeir eiga að koma á framfæri hér á þessu þingi.

Það má ef til vill segja, að ég hafi nú í lokin eitthvað vikið frá því málefni, sem hér er sérstaklega til umræðu, en ég vona, að mér fyrirgefist það, þegar athugað er sambandið, sem er á milli þess kapps, sem lagt er á afgreiðslu þessara mála nú, og þingfrestunar þeirrar, sem til stendur.