30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (2233)

7. mál, gjaldaviðauki 1960

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Eftir að ég ræddi þetta mál við umr. s.l. laugardag, tók hér til máls hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ). Hann komst þannig að orði, að ég hefði dregið upp mjög dökka mynd af því, hvernig fjárhagsástandið í landinu er. Ég gerði þó ekki annað en vitna til og lesa orðrétt upp aths. við fjárlagafrv. það, sem nú liggur fyrir. Ef ég hef dregið upp mynd, sem er dökk, um fjárhagsástandið í landinu, þá er sú mynd staðfest í fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir hv. Alþ. og samið er af fyrrv. fjmrh.

Þá vildi hv. þm. hnekkja þeim rökum, sem ég hafði fært fram, að eðlilegt væri, að þingið fengi tóm til þess að fjalla um þau mál, sem þm. bæru fram, og rök hv. þm. fyrir því, að þingfrestun væri eðlileg nú, voru m.a. þau, að frv., sem flutt væru af hálfu þm., væru yfirleitt fjárhagsmál, sem þyrfti að afgreiða og athuga í sambandi við fjárlög og fjárhagsmál ríkisins í heild. Ég get ekki fallizt á þessi rök hv. þm. Það er algengt og mjög eðlilegt, að frv., sem þm. flytja, hafi í för með sér einhver ný útgjöld, en slík mál, ef um þýðingarmikil nýmæli er að ræða, þarf að sjálfsögðu að athuga gaumgæfilega í nefndum og á þingi, áður en þau öðlast lögfestingu, og venja er, að útgjöld vegna nýrra lagasetninga falla yfirleitt ekki á fjárlög þess árs, sem í hönd fer, heldur koma til greiðslu síðar, eftir að lögin hafa öðlazt gildi. Til viðbótar þessu er það augljóst, að það er mjög eðlilegt, að n. geti fjallað um mál, sem til þeirra er vísað á öndverðu þingi, sent þau til umsagnar og fengið umsagnir í hendur síðar, eftir að þinghlé hefur verið gert. Það þekkja allir, sem vanir eru þingstörfum, að það torveldar oft, að nefndir geti á sómasamlegan hátt afgreitt þýðingarmikil lagafrv. frá sér, að þær telja sér nauðsynlegt og jafnvel skylt að leita um þau umsagna ýmissa aðila, sem upplýsingar geta gefið um þau málefni, sem þar er fjallað um. Það má einnig minna á það, sem annar hv. þm. benti raunar á hér í umr. á laugardaginn, að þingsköpin sjálf gera ráð fyrir því og veita nokkurt aðhald um það, að mál, sem þingmenn ætla sér að flytja, séu fram borin á fyrstu vikunum, sem þingið starfar. Þetta aðhald veita þingsköpin sjálf á þann hátt að krefjast þess, að leyfis deildar sé leitað, ef mál eru flutt seint á þinginu. Þá vil ég einnig taka undir það, sem kom fram í umr. hér á laugardaginn, hve það er mikils virði fyrir fjvn. þingsins, sem hefur umsvifameiri störfum að gegna en nokkur önnur þingnefnd, meðan fjárlagaafgreiðslan er í undirbúningi, að fá gott tóm til þess að kynna sér þau fjölmörgu erindi, sem lögð eru fyrir hana, og það verk getur fjvn. að sjálfsögðu unnið, áður en tillögur ríkisstjórnar um meginúrlausnir í efnahagsmálum liggja fyrir. Það er einnig venja, að fjvn. kalli á sinn fund forstöðumenn ríkisstofnana og fái skýrslur þeirra til yfirlits, áður en hún er við því búin að ganga til úrskurðar eða atkvgr. um till. sínar um breyt. á fjárlagafrv. Allt er þetta til stuðnings þeirri skoðun, sem við framsóknarmenn og þingmenn Alþb. hafa flutt fram hér, að það sé mjög óeðlilegt að vinda nú bráðan bug að því næstu daga að láta þingmenn hverfa af þingi og senda þá heim.

Meðan umr. um þetta mál stóð yfir s.l. laugardag hér í þessari hv. d., kom hæstv. landbrh. inn í d. og mælti nokkur orð. Ég álít nú raunar, að hv. d. hefði ekki farið mikils á mis, þó að hún hefði ekki fengið þá ræðu, og hv. 2. þm. Vestf. (HermJ) svaraði svo greinilega því, sem hæstv. landbrh. hafði að segja um yfirfærslugjaldið í sambandi við afurðaverð bænda, að í raun og veru er þar engu við að bæta. Ég vil þó árétta það, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði um það efni, með örfáum orðum.

Meðan vinstri stjórnin sat að völdum og var að undirbúa ráðstafanir í efnahagsmálum, gerði þáv. stjórnarandstaða eða Sjálfstfl. hvorki sjálfstæðar till. né víðtækar brtt. um lausn á efnahagsmálum. En ýmsir forustumenn Sjálfstfl. sögðu þó opinberlega eftir á, að það hefði þurft að gera eitthvað svipað því, sem gert var. Og a.m.k. hinir gætnari þm. Sjálfstfl. sögðu það við umr. um lögin um útflutningssjóð, að yfirfærslugjaldið, 55%, miðaði í jafnvægisátt, í stað þess að áður höfðu verið innheimt mörg mismunandi gjöld á hina ýmsu vöruflokka. M.a. hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ) viðurkenndi þetta í umr. í Nd., og er sá ræðukafli að sjálfsögðu til í þingskjölum. Það er því ekki alls kostar réttmætt eða sanngjarnt af hæstv. landbrh. eða öðrum sjálfstæðismönnum að ráðast nú að þeim, sem skipuðu vinstri stjórnina og studdu hana, fyrir það, að þetta gjald var lagt á. Og ef þessar ráðstafanir hefðu ekki verið gerðar í efnahagsmálum þá, hefði ekki orðið komizt hjá að gera aðrar ráðstafanir, sem hefðu náð svipuðu marki, en í einhverju öðru formi, e.t.v. gengisbreytingu. Og hefði gengisbreyting verið gerð þá í stað þeirra ráðstafana, sem gerðar voru í sambandi við lögin um útflutningssjóð, hefði áreiðanlega ekki minna gjald fallið á afurðaverð bænda með almennri gengisbreytingu en það, sem 55% yfirfærslugjaldinu nam. Og nú ber svo við, að allt þetta ár hefur setið að völdum ríkisstj., sem hefur notið stuðnings Sjálfstfl., ríkisstj., sem hefur haft að baki sér raunverulegan þingmeirihluta, sem myndaður er af Sjálfstfl. og Alþfl. Þeim þingmeirihluta hefði verið það í lófa lagið að koma fram lagabreyt. og afnema þetta gjald á rekstrarvörum landbúnaðarins, ef þeim hefði verið það alvara. En nú liggur reynslan fyrir um það, að þeir hafa ekki ráðizt í það að afnema þetta gjald, ekki einu sinni flutt um það tillögur á þingi.

Hæstv. landbrh. sagði enn fremur í umr. á laugardaginn í sambandi við brbl. frá s.l. hausti um afurðaverð landbúnaðarins, að núv. ríkisstj. mundi fara að lögum í því efni. Stjskr. heimilar, að gefin skuli út brbl. á milli þinga, en í þeirri gr. stjskr., sem um þetta fjallar, er tekið fram, að á næsta þingi skuli leggja brbl. fram til samþykktar eða synjunar á hv. Alþ. Það er oft talað um, hver sé bókstafur laga og hver sé andi þeirra. Það má e.t.v. segja, að bókstafnum sé fullnægt, ef þskj. er prentað einhvern tíma áður en þinginu lýkur og það sýnt þm., þó að áhrif löggjafarinnar séu þá niður fallin, þó að löggjöfin sé hætt að hafa áhrif. En það er áreiðanlega ekki andi stjskr. Heimild ríkisstj. til að gefa út brbl. milli þinga er vitanlega miðuð við það, að ekki sé auðið að kveðja Alþ. saman til þess að ráða fram úr þeim vanda, sem að höndum steðjar, í skyndi. En ákvæðin um, að það skuli leggja brbl. fyrir næsta Alþ., er það kemur saman, eru vitanlega miðuð við það, að löggjafarþingið fái aðstöðu til, ef möguleikar leyfa, að fjalla efnislega um brbl., á meðan áhrif þeirra eru í framkvæmd. Það liggur því í augum uppi, að ef hæstv. landbrh. ætlar ekki að leggja frv. fyrir Alþ. fyrr en eftir 15. des., eftir að áhrif þess hafa átt sér stað, þá fullnægir hann a.m.k. ekki anda stjskr. og fer ekki að lögum að því leyti, hvað sem segja má um bókstafinn.

Hæstv. landbrh. komst einnig þannig að orði, að bændum mundi þykja það nægileg trygging, sem Sjálfstfl. hefði sagt í þessu máli. Ég verð að álíta, að bændur muni gera sér fulla grein fyrir því, sem ég hef nú tekið fram um ákvæði stjskr. og anda hennar í sambandi við samþykkt brbl. Til þess benda einnig, að bændum þyki nú orð Sjálfstfl. eða forustumanna hans heldur létt í vösum sem trygging, ýmsar aðgerðir, sem félagssamtök bænda hafa haft uppi nú á þessu hausti. Það er ekki venjulegt, þegar fulltrúar, sem sitja á aðalfundi Stéttarsambands bænda, eru nýlega komnir heim og búnir að ljúka störfum, að þeir séu kvaddir til fundar að nýju. Ég hygg, að það sé í fyrsta skipti, sem slíkt á sér stað, síðan Stéttarsambandið var stofnað, að þetta gerðist nú s.l. haust til þess að ræða brbl. ríkisstj. og þá málsmeðferð, sem þá var höfð uppi. Ég held, hvað sem hæstv. landbrh. hefur að segja um þetta í þessari hv. d., að þá sýni þetta m.a., að bændum landsins þyki orð Sjálfstfl. helzt til léttvæg trygging fyrir sínum hagsmunamálum. Ég hygg líka, að sú atkvgr., sem nú hefur staðið yfir á mjólkursölusvæðinu hér sunnanlands og vestan um að framkvæma sölustöðvun á mjólk, ef málum bænda verður ekki skipað á hagkvæmari hátt en nú horfir, sé líka bending um það, að bændastétt landsins þyki orð Sjálfstfl.-manna ein út af fyrir sig heldur léttvæg trygging. En þetta er áreiðanlega í fyrsta skipti, síðan Stéttarsamband bænda var stofnað, að slík atkvgr. er látin fara fram og sölustöðvun á mjólkurafurðum undirbúin.

Öll þessi mál, sem eru hér til umr., blandast meira og minna inn í umr. um þá fyrirætlun hæstv. ríkisstj. að fresta Alþ. nú alveg næstu daga. Á þingi, sem haldið var s.l. velur, og svo á aukaþingi í sumar var mikið um það talað, að höfuðnauðsyn bæri til að koma þeirri skipan á, að Alþ. yrði skipað í samræmi við þjóðarviljann og að festa í þjóðmálum gæti náðst, eins og mun standa orðrétt í stefnuskrá Sjálfstfl. Nú er komið saman nýkjörið þing, sem kosið er eftir hinni nýju kjördæmaskipun og á því að vera skipað í meira samræmi við þjóðarviljann en a.m.k. Sjálfstfl. taldi að áður væri. Nú virðist, að þetta þing, sem mun vera skipað í samræmi við þjóðarviljann, eigi ekki að fá eðlilegan starfsfrið, nú eigi helzt að senda það heim, — ja, jafnvel á tíunda degi eftir að það er kvatt saman. Og þetta er bending, sem vert er fyrir þingfulltrúa og þjóðina að gefa nokkurn gaum. Og það má einnig spyrja, og það mun ég nú gera að lokum þessa máls nú að sinni: Hvernig er fyrirhugað að framkvæma það stefnuskráratriði Sjálfstfl., að festa í þjóðmálum geti náðst? Er það á þann hátt að hindra sem mest störf Alþingis, en draga valdið sem mest í hendur ríkisstj. og flokksstjórnanna?