27.11.1959
Neðri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (2254)

5. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Flm (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Frv., sem hér er flutt um að takmarka veiði til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti, er efnislega á þá lund, að skipum, sem eru undir 35 rúml. að stærð, skuli á tímabilinu frá 1. júní til 1. nóv. ár hvert heimilað að veiða með dragnót innan fiskveiðilandhelginnar. Í öðru lagi er það efni frv., að veiðar þessar verði undir stöðugu eftirliti fiskideildar atvinnudeildar háskólans og að rn. skuli gefin heimild til þess að takmarka veiðarnar frekar en frv. gerir með reglugerð, þannig að veiðiskipafjöldann megi takmarka á einstökum svæðum eða jafnvel banna veiðarnar með öllu í eitt ár í senn, ef atvinnudeild háskólans og Fiskifélag Íslands telja, að hætta sé búin stofni nytjafiska á Íslandsmiðum vegna of mikillar veiði með dragnót.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja efni frv. frekar, enda var þetta frv. flutt á síðasta Alþingi, óbreytt frá því, sem það er hér, og var þá rætt bæði á fundum þessarar hv. d. og einnig í sjútvn. d. Skiptar voru skoðanir um það, og reyndist t.d. enginn meiri hl. vera hvorki gegn því né með því í hv. sjútvn., þar sem tveir nm. skiluðu áliti og lögðu til, að frv. yrði samþykkt, en aðrir tveir mæltu því í gegn, eins og sakir þá stóðu, en fimmti nm. lét ekki uppi neitt álit.

Þær staðreyndir, sem fyrir liggja, þess eðlis, að eðlilegt hlýtur að teljast, að þessar veiðar verði hafnar, eru í fyrsta lagi þær, að á undanförnum árum, áður en til þeirrar landhelgisstækkunar kom, sem nú er orðin síðust, hefur veiði á flatfiski farið vaxandi hér á Íslandsmiðum, og á árunum 1953–57 hafa veiðarnar stöðugt farið vaxandi, og það er álit fiskifræðinga, að flatfiskstofnarnir þoli nú orðið þá veiði, sem á þessum tíma hefur farið fram, og raunar nokkru meiri. Veiðin hefur samkv. alþjóðlegum skýrslum numið milli 10 og 15 þús. lestum síðustu árin, en Íslendingar sjálfir hafa sáralítið af þessu fiskmagni veitt. Þeir hafa veitt mest á þessum tilteknu árum 7,5% af heildarveiðinni og allt niður í 3,3%. Þeir, sem hafa veitt flatfiskinn hjá okkur, eru fyrst og fremst Bretar, en með landhelgisstækkuninni hverfur veiði þeirra og annarra útlendinga að sjálfsögðu. Ef hún er ekki að fullu horfin nú, þá hlýtur hún þó að gera það, um það er lýkur. En eftir hlýtur að hvíla á Íslendingum sjálfum sú skylda varðandi þau matvæli, sem með þessum hætti hafa verið framleidd og okkar fiskifræðingar telja, að eðlilegt sé að tekin séu á þessum miðum, — sú skylda að koma þessum matvælum á markað, hún hlýtur að hvíla á Íslendingum sjálfum. Ég lít því svo á, að sú röksemd sem stundum hefur heyrzt og beint hefur verið gegn samþykkt þessa frv., að við mættum ekki samþykkja svona, vegna þess að það veikti málstað okkar í landhelgisdeilunni við Breta, að slík skoðun sé algert öfugmæli. Ég neita því ekki, að hitt getur orðið okkur til áfellis, ef við lokum fiskimiðum, sem okkar eigin fræðimenn segja, að eðlilegt sé að nytjuð séu, lokum þeim þannig, að það veiði enginn á þeim lengur. Þá erum við að svipta heimsmarkaðina og mannkynið matvælum, sem það þarf að fá, en það hygg ég, að einskis manns skoðun hafi verið, að við ættum að gera með því að útfæra landhelgi okkar, heldur er tilgangurinn með útfærslunni sá að reyna að hagnýta að hámarki þær nytjar, sem hægt er að hafa af íslenzkum fiskistofnum, án þess að þeir spillist, án þess að þeir gangi saman eða án þess að framtíðarmöguleikum sé spillt.

Ef horfið yrði að því ráði að leyfa flatfiskveiðar með dragnót, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, er það að mörgu leyti hið þýðingarmesta hagsmunamál fyrir þá, sem þennan útveg stunda og byggja lífsafkomu sína á honum, því að yfir sumarmánuðina og einmitt á þeim tíma, sem eðlilegt er að veiða flatfiskinn, liggur fjöldi báta ónotaður, og væri hægt að senda þá til þessara veiða, án þess að það hefði verulegan kostnað í för með sér umfram það, sem hvort eð er hlýtur að falla á alla þá báta, sem einhvern tíma ársins eru gerðir út. Enn fremur stendur fjöldi frystihúsa víðs vegar á strönd landsins lítið notaður einmitt á þessu tímabili og bíður verkefna. Sama máli gegnir um verkafólk og sjómenn, sem gjarnan geta stundað þessar veiðar, að án þeirra er oft um að ræða heldur rýran atvinnuveg hjá þessu fólki, einkum því fólki, sem í hraðfrystistöðvunum vinnur, ef ekki berast verkefni til þeirra umfram það, sem nú er. Fyrir þjóðarbúið í heild mundi þetta þýða stórbættan hag. Flatfiskurinn er raunar dýrasti fiskurinn, sem á Íslandsmiðum veiðist, og ég hef ekki séð lagt fyrir þetta Alþ. frv. til bóta á efnahagsmálum þjóðarinnar, sem gerir það í ríkari og raunhæfari mæli en samþykkt þessa frv. mundi vera fyrir þjóðina.

Ég sé hins vegar ekki ástæðu til þess að ræða málið öllu ýtarlegar við þessa l. umr., nema sérstakt tilefni gefist til. En með þeim rökum, sem hér hafa verið fram færð og í grg. frv. liggja fyrir og á þeim fskj., sem því eru samfara, tel ég, að vænta megi þess, að Alþ. fallist á það, að þau sjónarmið, sem sett eru fram í frv., séu réttmæt og það beri að samþykkja. Ég vil ekki fullyrða, að við flm. þessa frv. getum ekki verið til viðtals og samkomulags um einhverjar þær breytingar, sem nauðsynlegar þættu á frv. sem slíku, og vænti þess, að það verði gaumgæfilega athugað. Þó vil ég minna á það, að vegna starfs sjútvn. þessarar deildar á s.l. vetri liggja hér fyrir í Alþingi umsagnir fjölmargra aðila um þetta mál, og ætti það að geta auðveldað starf þeirrar hv. n. og flýtt því nokkuð að þessu sinni.

Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.