27.11.1959
Neðri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2255)

5. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki á þessu stigi málsins fara út í að ræða það efnislega, en ég vil aðeins láta það koma fram þegar við þessa umr., að í framhaldi af flutningi málsins á vetrarþinginu síðasta var ákveðið í sjútvmrn. að skipa n. sérfróðra manna til þess að athuga þetta mál allt með það fyrir augum, að þeirra umsögn gæti legið fyrir þegar á þessu þingi. Þessi n. hefur að vísu ekki enn skilað áliti, en ég vænti þess, að hún geri það innan ekki mjög langs tíma, og gæti það þess vegna verið til aðstoðar og til upplýsinga við afgreiðslu þessa máls. Ég vil aðeins láta það koma fram hér, sérstaklega vegna þeirrar n., sem fær málið, að þessi n. er til og starfandi og að frá henni má vænta upplýsinga og tillagna í málinu innan ekki mjög langs tíma.