27.11.1959
Neðri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2256)

5. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins láta í ljós ánægju mína yfir því, að málið, þó að það væri ekki samþykkt á síðasta þingi, hefur þó vakið þá athygli, að rn. virðist hafa gefið því nokkurn gaum, og samkv. upplýsingum, sem hæstv. sjútvmrh. hefur gefið, hefur verið sett n. í þetta mál. Ég get hins vegar bætt því við, að ég tel, að sjútvn. þessarar d. hafi leitað mjög til sérfræðinga um þetta mál á s.l. vetri, m.a. til atvinnudeildar háskólans, og bendi einnig á það, að álit fjölmargra aðila liggja einnig hér fyrir í þinginu. En að gefnum þeim upplýsingum, sem ráðh, hér hefur gefið, langaði mig til að spyrja um það til viðbótar, hverjir skipa þessa n., og ég vildi einnig spyrja um það, hvort álits hennar muni ekki vera að vænta mjög bráðlega, því að málið er þess eðlis, að það þyrfti að afgreiðast fyrr en seinna. Ef til þess kemur, sem ég vona, að útvegur með þeim hætti, sem frv. gerir ráð fyrir, hefjist á næsta vori, þá getur það að sjálfsögðu ekki orðið nema þá í mjög smáum og óverulegum stíl, nema því aðeins að nokkur tími gefist til undirbúnings, og það er þess vegna í rauninni ekki nóg að samþykkja þetta frv. kannske síðustu dagana, áður en veiðarnar ættu að geta hafizt. Þeir útvegsmenn, sem þessar veiðar vildu stunda, þurfa að sjálfsögðu að búa sig undir það, og ekki síður þurfa frystihúsin, sem ættu að vinna flatfiskinn, að afla sér ýmiss konar tækja, til þess að vinnslan geti gengið greiðlega og orðið sem kostnaðarminnst. Þar af leiðandi tel ég, að málinu ætti að hraða, og óska sem sagt eftir því til viðbótar þeim upplýsingum, sem ráðh. hér hefur gefið, að það verði upplýst, hverjir skipa þessa n., og nákvæmlega tiltekið, hver verkefni þeim hafa verið fengin, og sömuleiðis um það, hvort þeirra álits muni ekki vera að vænta rétt á næstunni.