27.11.1959
Neðri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (2262)

14. mál, lántökuheimild til hafnarframkvæmda

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Flm. þessa frv. um lántökuheimild og ráðstöfun lánsfjár til hafnarframkvæmda eru auk mín hv. 4. þm. Reykn., hv. 2. þm. Austf., hv. 5. þm. Norðurl v., hv. 3. þm. Vesturl., hv. 2. þm. Sunnl.

Í fjárlögum ársins, sem nú er að líða, eru veitt fjárframlög til nálega 60 hafnargerða víðs vegar um landið. Samtals er upphæðin, ef með er talið framlag til hafnarbótasjóðs svo og til greiðslu rekstrarhalla og viðgerða vegna dýpkunarskipsins Grettis, um 15 millj. kr. Af þessum nálega 60 höfnum eru tvær landshafnir, sem ríkið á og sér að öllu leyti um að gera samkvæmt sérstökum lögum, en hitt eru hafnir, sem sérstakir hafnarsjóðir byggja eða í rauninni yfirleitt hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélög, en ríkissjóði ber að leggja fram samkvæmt hinum almennu hafnarlögum 2/5 hluta eða helming stofnkostnaðar. Hina 3/5 hlutana eða helming stofnkostnaðarins ber svo hafnarsjóðum að leggja fram, en eiga kost á ríkisábyrgð, ef þeir geta fengið féð að láni. En báðum aðilum gengur misjafnlega, ríkinu að inna af hendi í reiðu fé sinn hluta og hafnarsjóðunum að útvega lánsféð, og getan til framlaga úr sveitar- og bæjarsjóðum yfirleitt lítil.

Í hafnarlögum eru taldar miklu fleiri hafnir en fé er veitt til að jafnaði á fjárlögum, t.d. á þessu ári. Alls munu það vera 100 hafnir talsins eða rúmlega það. Á sumum þessara staða hafa raunar aldrei verið gerð nein opinber mannvirki og verða varla í bráðina þótt einhverjir hafi vafalaust haft slíkt í huga, þegar þær voru teknar inn í lögin. Hins vegar má gera ráð fyrir, að í 60 höfnum eða svo sé nokkuð unnið, þó ekki árlega, en öðru hverju, og hefur hafnarmálastjórn ríkisins, þ.e.a.s. vitamálaskrifstofan, yfirleitt umsjón með þeim framkvæmdum, eins og kunnugt er, leggur á ráð, gerir verkfræðilegar áætlanir, útvegar verkstjóra, vélar og áhöld og sér um fjárreiður framkvæmdanna a.m.k. víða.

Til eru skýrslur um fjárframlög til hafnargerða frá öndverðu. En það er lítið gagn að upplestri talna úr þeim skýrslum, þar sem peningagildið er næsta breytilegt. Magn framkvæmdanna, ef svo mætti að orði komast, er ekki heldur auðvelt að mæla eða meta. Síðustu árin mun láta nærri, að unnið hafi verið samtals samkvæmt lögum fyrir eitthvað á fjórða tug milljóna ár hvert, og er þá allt meðtalið, bæði það, sem ríkissjóður hefur lagt fram, og það fé, sem fengið er á annan hátt og þá aðallega með lánum, sem einkum hafa verið tekin innanlands hjá ýmsum aðilum með ríkisábyrgð. Hér hefur vissulega verið mikið unnið og allmiklum fjármunum til þess varið. En víða er þó meira óunnið, ef ástand hafnanna á að komast í það horf, sem nauðsynlegt er og stefna verður að. Mjög víða liggja nú fyrir áætlanir, sem verkfræðingar hafnarmálastjórnarinnar hafa gert í flestum tilfellum, áætlanir um, hvaða verk skuli unnin og hvað þau sennilega kosti, miðað við verðlag á tilteknum tíma og þá tækni, sem fyrir hendi er nú hér á landi eða var á þeim tíma, sem áætlanirnar voru gerðar. Nú hefur það mikið verið unnið og þjóðinni vaxið svo fiskur um hrygg, að menn eru farnir að gera ráð fyrir, að því nauðsynlegasta geti orðið lokið á yfirsjáanlegum tíma. Íslenzkar hafnargerðir í heild eru sem sé að komast af frumstigi viðleitninnar yfir á áætlunarstigið, eins og t.d. notendasímakerfið komst fyrir nokkru, en lagningu þeirra er nú að mestu lokið, þótt það takmark væri eitt sinn næsta fjarlægt í hugum manna. Fyrir skömmu samþykkti Alþingi, að tilraun yrði gerð til að gera 10 ára áætlun um hafnargerðir, og nú er unnið að þeirri áætlun.

Fyrr á tímum var það aðalviðfangsefni í þessum málum að finna staði, þar sem flutningaskip gætu siglt að verzlunarbækistöð og legið við akkeri, meðan á afgreiðslu stóð, a.m.k. í sæmilegu veðri, svo og að gera ódýrar eða einfaldar afgreiðslubryggjur á þeim stöðum, þar sem skilyrði voru bezt frá náttúrunnar hendi.

Nú er önnur öld í þessum efnum. Útgerð landsmanna hefur verið að vaxa, er vaxandi og þarf að halda áfram að vaxa. Í stað opinna róðrarbáta, sem hægt var að draga á land undan veðri og ekki þurftu nema rudda vör eða lausabryggju, eru komnir hinir stóru vélknúnu fiskibátar og fiskiskip vorra tíma, og það er ekki nóg, að þessi veiðiskip nútímans getí haft viðunandi löndunarskilyrði og öryggi á fáeinum stöðum á landinu. Fiskimiðin eru umhverfis landið allt, og til þess að hægt sé að nota þau, þurfa sjávarplássin að vera mörg og eru það. Þjóðin hefur háð baráttu til þess að færa út fiskveiðilandhelgina og ýta útlendum skipum og hinum stóru togurum, sem hún á sjálf, út úr fjörðunum og út af grunnmiðunum. Við gerum þetta til þess að vernda miðin til handa hinum minni skipum íslenzkum og auðvitað líka til að vernda uppeldisstöðvarnar. En þá þurfa sjávarplássin, hvar sem þau eru á landinu, líka að geta átt og gert út sína fiskibáta til þess að nota þessi mið. Að því er nú víða unnið af kappi að auka fiskiflotann og þá einnig þar, sem lítið var fyrir, enda þarf svo að vera, ef vel á að vera.

En uppbygging hafnarskilyrðanna, þar sem þau skortir, hafnarframkvæmdirnar, er í raun og veru hluti þeirra atvinnutækja, sem eru undirstaða þess, að atvinnulíf geti haldizt og aukizt í sjávarplássunum og þar með hin dreifða bæja- og þorpabyggð á ströndum landsins.

Ég þykist muna eftir þeim atburði fyrir um það bil 20 árum, að þá hafi allan eða svo að segja allan bátaflotann rekið á land í veðri í einni nokkuð stórri verstöð. Tíðindi af þessu tagi eru heldur engin nýlunda nú. Svo að segja í hvert sinn, sem veður gengur yfir landið eða einstaka landshluta, berast fréttir um, að bát eða báta hafi slitið frá bryggju eða frá legufærum, og fyrir kemur, að mannskaði verður því samfara, þar sem helzt ætti að vera öryggi, ef vel væri. Sjómennirnir þekkja víða þá sögu, og rekið á land, inni í höfn eða í nágrenni hafnar, hvernig það er að koma inn af miðum í misjöfnu veðri og eiga svo lítið athvarf þegar í höfnina er komið, hafa ekki pláss við bryggju eða verða að hrekjast þaðan og halda vélum í gangi.

Tryggingarnar hafa líka sína sögu að segja, þá sögu, að mjög verulegur hluti af bótum, sem greiddar eru vegna skaða, verða vegna skaða inni á höfnum, af því að skip skemmast við bryggju, slást saman eða þess háttar.

Ég ætla ekki að þessu sinni að gera að umræðuefni sérstakar hafnir eða þau verkefni, sem fyrir hendi eru á einstökum stöðum hér og þar á landinu, enda þótt ég hafi á marga staði komið og freistandi væri að minnast á ýmislegt í því sambandi. Af viðræðum við vitamálastjóra, bæði núverandi og fyrrverandi, hef ég líka fræðzt um margt í þessu sambandi varðandi framkvæmdir og framkvæmdamöguleika. En ég hygg, að þessir embættismenn hafi haft glöggt yfirlit um þessi mál. Ég ætla ekki heldur að fara að ræða sérstaklega hina miklu framkvæmdaþörf á þessu sviði í mínu kjördæmi á ýmsum stöðum, enda erum við margir og úr ýmsum landshlutum, sem að þessu frv. stöndum.

Á síðari áratugum hefur sú leið verið farin á ýmsum sviðum að taka lán erlendis til framkvæmda. Ef það hefði ekki verið gert, mundi margt skemmra á veg komið en raun er á. Og lántökur erlendis eru eðlilegar, ef þeim er varið til skynsamlegra framkvæmda, sem beint eða óbeint gera þjóðina færari um að standa straum af slíku. Hingað til hefur tiltölulega lítið verið að því gert að taka erlend lán til hafnargerða. En við flm. þessa frv. teljum, að nú verði ekki lengur hjá því komizt að gera ráðstafanir, eftir því sem tök eru á, til þess að fá erlent fé til þess að byggja upp þessar framkvæmdir að nokkru leyti og meira en hingað til hefur verið gert ráð fyrir og að þessi lán eigi ekki aðeins að taka til einstakra framkvæmda, heldur á breiðum grundvelli til að hraða hafnargerðum almennt.

hæstv. ríkisstj., sem hér var við völd á árunum 1956–58, vann að því á sínum tíma að útvega erlendis lán, allt að 6 millj. dollara, með það fyrir augum, að hluta af því yrði varið til hafnargerða. Í 22. gr. fjárl. fyrir árið 1959 var þáv. ríkisstj. veitt heimild til að taka þetta lán, en það jafngildir með yfirfærslugjaldi um 150 millj. ísl. kr. Fulltrúar Framsfl. í fjvn. lögðu til, að 50 millj. kr. af þessu fé yrðu endurlánaðar til hafnarframkvæmda. Sú till. náði ekki fram að ganga á Alþingi, en samþykkt var að endurlána til hafnarframkvæmda 28 millj. kr. Þessari upphæð var í júlímánuði s.l. skipt milli 10 hafna að frádregnum 500 þús. kr., sem vitamálaskrifstofunni voru ætlaðar af þessu lánsfé til áhaldakaupa. Ekki mun þó enn vera búið að ganga til fulls frá hinni heimiluðu lántöku, en einhverjar hafnir munu þó hafa fengið það, sem þeim var lofað, og hinar fá það væntanlega á árinu 1960.

Á sumarþinginu var af hálfu Framsfl. flutt sérstakt frv. þess efnis, að hluti hafnanna af fjárlagaláninu yrði 50 millj. kr. í stað 28 millj. Frv. varð ekki útrætt, en efni þess er tekið upp í 1. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 14. Rn. þar að auki er í þessu frv. lagt til, að veitt verði heimild til að taka viðbótarlán erlendis, sem að viðbættum yfirfærslubótum mundi nema um 50 millj. kr., og að sú upphæð verði einnig endurlánað til hafnarframkvæmda. Það er ekki ætlazt til, að lán það, sem nú mun vera í ráði að taka vegna Þorlákshafnar, sé innifalið í þessari upphæð, enda mun fyrir þeirri lántöku séð á annan hátt.

Samkv. fjárlagaheimildinni og þessu frv., ef að lögum verður, yrði þá hægt að endurlána hafnarsjóðum samtals um 100 millj. kr. af erlendu lánsfé, þegar yfirfærslubætur eru meðreiknaðar, sem sjálfsagt er. Ef gert er ráð fyrir, að þetta lánsfé yrði notað á 2–3 árum og að framlög ríkissjóðs til hafnargerða yrðu svipuð eða hærri en á s.l. ári, þá næmu þau á þessum tíma a.m.k. 30–45 millj. kr. Að viðbættu því fé, sem ætla má að hafnarsjóður gæti lagt fram með lántökum innanlands eða á annan hátt, og að viðbættu Þorlákshafnarláninu yrði þá væntanlega hægt að gera nokkurt átak í hafnarframkvæmdum á þessum tíma. En framtíð margra staða, sem hér er um að ræða, er að verulegu leyti og sums staðar fyrst og fremst undir því komin, að ekki dragist lengi úr þessu að skapa þau hafnarskilyrði, sem til þess þarf, að fiskibátar og fiskiskip, sem bezt henta á hverjum stað, geti athafnað sig þar eftir þörfum og notið þar öryggis og að hægt sé að afgreiða þar á viðunandi hátt vöruflutningaskip, sem eðlilegt er að hafi þar viðkomu. Sums staðar getur verið hætta á, að mannvirki liggi undir skemmdum, ef ekki er hægt að halda verki áfram. Þá er ekki heldur hægt að loka augunum fyrir því, að hafnarmannvirki, sem vegna fjárskorts verður að vinna í litlum áföngum, verða af þeim sökum oft mun dýrari en vera þyrfti, ef hægt, væri að vinna meira í hvert sinn. Þetta verður mjög augljóst, þegar svo stendur á, að flytja þarf dýr tæki milli staða með ærnum kostnaði, þá verður það óeðlilega mikill hluti kostnaðarins. Og það skiptir miklu, að slík tæki geti verið sem lengst í einu á hverjum stað til þess að gera flutningskostnaðinn sem minnstan hlutfallslega. Fjárskortur hefur það líka í för með sér, að vinna verður verk með úreltum aðferðum eða lélegum tækjum.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég víkja að því, að við flm. þessa frv. gerum okkur ljóst, eins og sjálfsagt fleiri gera og þá fyrst og fremst þeir, sem fyrir framkvæmdum standa í stjórn hafnarmála, að allmikið skortir á, að þeir hafi þau tæki til starfa, sem nauðsynleg eru til að skapa nógu víða þau vinnubrögð og þann árangur, sem mögulegur er á þeirri véla- og tækniöld, sem nú er. Til þess að svo mætti vera, hefur skort fjármuni, og væri vel, ef þetta frv. gæti ráðið þar einhverja bót á. Hér er við hafnargerðirnar t.d. of lítið til af stórum flutningstækjum til grjótflutninga, of lítið af öflugum lyftikrönum, svo að eitthvað sé nefnt, en mig skortir að sjálfsögðu þekkingu til að ræða ýtarlega um þá hluti. Hér þarf víða að auka dýpi, bæði á innsiglingarleiðum, við bryggjur og á skipalegum. Jafnframt getur þurft að gera skipalægi, þar sem áður var þurrt land, og menn vita þess dæmi. Við slíkar framkvæmdir á sjávarbotni þarf fljótandi dælur eða mokstursvélar, sem geta unnið harðan botn. Hafnarmálastjórnin á eina slíka mokstursvél, þar sem er dýpkunarskipið Grettir, sem áreiðanlega hefur gert stórgagn og sennilega skapað nokkur tímamót í íslenzkri hafnargerð, en er nú af mörgum talið nokkuð úrelt að gerð og nokkuð dýrt til afnota með því rekstrarfyrirkomulagi, sem á því hefur þurft að vera. Í fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir þinginu, er gert ráð fyrir heimild til kaupa á sanddæluskipi, ef fé reynist fyrir hendi, og væri þá vel, ef úr því gæti orðið, bæði vegna nýrra framkvæmda og einnig vegna þess, að víða er hætt við sandburði í hafnir, og þarf þá að fjarlægja það, sem inn berst, öðru hverju. Um þessa hlið málsins skal ég svo ekki hafa fleiri orð og ekki heldur um málið í heild, en legg til, að því verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og sjútvn.