02.02.1960
Neðri deild: 21. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (2273)

28. mál, vegalög

Flm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Á þskj. 37 flyt ég ásamt þremur öðrum hv. þm. frv. til laga um breyt. á núgildandi vegalögum. Mér höfðu borizt ýmsar ábendingar og óskir frá mönnum norður í mínu kjördæmi um það, að ég leitaðist við að koma nokkrum vegum í Norðurlandskjördæmi vestra í þjóðvegatölu. Ég ákvað því að flytja hér á þingi frv. það, sem hér liggur fyrir til 1. umr., og jafnframt bar ég það undir hv. samþm. mína úr Norðurlandskjördæmi vestra í því skyni, að þeir flyttu frv. með mér. Mér þykir vel fara á því, að þm. einstakra kjördæma sameinist um að flytja mál sem þetta, enda þótt ekki séu allir af sama flokki og greini á stundum um margt.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara að ræða hér sérstaklega um hverja þá 21 breytingu, sem við leggjum til að gerð verði á vegalögunum og snertir vegi í Húnavatnssýslum báðum og Skagafjarðarsýslu. Vegir þeir, sem hér eru nefndir, eru flestir, ef ekki allir, sýsluvegir, sem eru í mjög mismunandi ástandi. Sumir þeirra eða kaflar þeirra eru fullgerðir, aðrir undirbyggðir að meira eða minna leyti og enn aðrir kaflar, sem enginn vegur er. Það halda nú ef til vill ýmsir, að í þessum blómlegu byggðum okkar þarna norður frá sé hvergi um vegleysi að ræða, en því er nú miður, að svo er ekki. Þar má finna býli og sveitarhluta, jafnvel í miðjum héruðum, sem búa við vegleysi og illar samgöngur, og þetta stafar að miklu leyti af því, að sýsluvegasjóðirnir, sem þessa vegi eiga að gera, valda ekki þessum verkefnum sínum, vegna þess að þeir ráða yfir mjög svo takmörkuðu fjármagni til þessara hluta. Sýsluvegunum miðar því allt of hægt áfram, og einstök býli og sveitarhlutar og jafnvel heilar sveitir verða að bíða óþolandi lengi eftir því að komast í vegasamband. Ég fæ því ekki annað séð en ríkið verði í enn ríkari mæli að taka að sér þetta hlutverk sýsluvegasjóðanna og gera þessa vegi, og þess vegna er þetta frv. flutt.

Þegar við ræðum um samgöngur okkar, sem búum úti í sveitunum, er það mikilvægt atriði, sem ég vil benda hér á og við getum alls ekki lokað augum fyrir, að fólk, sem býr við vegleysi og fær ekki komið við og notað þau samgöngutæki, sem kostur er á á okkar tímum og þykja alveg sjálfsögð, hlýtur fyrr eða síðar að yfirgefa þessar jarðir og þær leggjast í eyði, jafnvel þó að þær séu að öðru leyti góðar jarðir og vel byggilegar, og það er alls ekki hægt að álasa þessu fólki, þó að það yfirgefi jarðirnar. Hitt er miklu meira undur, að nokkur skuli una því á þessum framkvæmdatímum að búa við vegleysi og taka á sig alla þá erfiðleika, sem lélegum samgöngum fylgja. Þessir erfiðleikar hafa m.a. í för með sér, að þessar jarðir hljóta óhjákvæmilega að dragast aftur úr um ræktun og húsabætur. Mjög er erfitt oft og tíðum að koma þangað hinum stórvirku tækjum, sem við notum nú við ræktunarframkvæmdir, og mikil vandkvæði á því að flytja þangað nauðsynlegt byggingarefni.

Lífsskilyrði og lífsafkoma þessa fólks, sem þannig býr við illar samgöngur og enga vegi, er því allt önnur og verri en þess fólks, sem ríkið hefur lagt veg til að túnfæti eða jafnvel um hlað. Það má því segja, að í þessu tilliti búi ríkið mjög misjafnt að okkur úti í sveitunum. Hér er um misrétti að ræða, sem vissulega þarf að laga. Ég hygg það mála sannast, að góðar samgöngur séu fyrsta skilyrðið fyrir því, að einstakar jarðir og sveitir haldist í byggð, auk þess sem góðar samgöngur eru vitanlega meginundirstaðan undir því, að hægt sé að reka nokkurn atvinnurekstur, og á það jafnt við um byggðir við sjó og í sveit.

Ég veit ekki fyllilega, hversu þjóðvegakerfið muni lengjast við þessar breytingar, sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Um það atriði ætti að vera auðvelt að fá upplýsingar fyrir þá hv. n., sem fær þetta mál til athugunar. Breytingar á vegalögum munu ekki hafa verið gerðar hér á hinu háa Alþingi síðan árið 1954, og má því segja, að tími sé til kominn að endurskoða vegalögin, og mér virðist, að nokkur vilji sé fyrir því meðal hv. þm. Í hv. Ed. hefur einnig komið fram frv., sem gengur í sömu átt og þetta, að auka við þjóðvegina, og enn fremur eru fjölmargar brtt. nú þegar fram komnar við frv. þessi bæði, sem ganga í sömu átt.

Ég vænti því, að þessu frv. okkar verði vel tekið hér á þingi og því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umræðu og hv. samgmn.