02.02.1960
Neðri deild: 21. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í C-deild Alþingistíðinda. (2277)

34. mál, hefting sandfoks

Landbrh. (Ingólfur Jónason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Það er rétt, sem hv. flm. og frsm. þessa frv. sagði, að sandgræðslunefndin gamla hefur komið aftur saman til þess að athuga tekjuöflunarleiðir fyrir sandgræðsluna. Það var reyndar áður en þetta frv. var flutt, sem ákveðið var að skipa n. til þess að fara í þessi mál að nýju.

Sandgræðslustjóri kom að máli við mig í nóvembermánuði s.l. og ræddi um það, hversu nauðsynlegt það væri fyrir sandgræðsluna að fá meira fé til umráða. Kom þá til umr. frv. það, sem sandgræðslunefndin hafði skilað af sér á árinu 1958 og flutt var hér í þingbyrjun það ár og dagaði uppi 1959. Okkur kom saman um, að það væri nauðsynlegt að gera tilraunir með að samræma þær skoðanir, sem fram hafa komið, og koma þeim í frv.-form og þá helzt að benda á tekjuöflunarleiðir, sem líklegar væru til að ná fram að ganga. Það er kunnugt, að búnaðarþing mótmælti ýmsu af því, sem stóð í frv. sandgræðslunefndar, og verður að segja, að það frv. hafi ekki heldur fengið æskilegar viðtökur hér í hv. Alþ., þar sem landbn. þessarar d. flutti sérstakt frv. um málið.

Ég held, að það sé eitt, sem ekki verður deilt um, og það er, að hv. Alþ. skilur, að það er nauðsynlegt fyrir sandgræðsluna að fá meira fé til umráða en hún hefur, vegna þess að verkefnið er mikilvægt og kostnaðarsamt, sem sandgræðslan þarf að inna af hendi. Það er ljóst, að enn hafa ekki komið fram tillögur, sem Alþ. er ánægt með, svo að ekki sé meira sagt, og ekki heldur till., sem búnaðarþing getur sætt sig við. Það varð því að samkomulagi milli mín og sandgræðslustjóra að endurskipa gömlu sandgræðslunefndina, vegna þess að þeir menn, sem höfðu unnið að samningu fyrra frv., voru orðnir allkunnugir sandgræðslumálunum og staðháttum og því, hversu mikið fjármagn sandgræðslan þarf að hafa á milli handanna árlega til þess að geta sinnt því starfi, sem hún á að leysa. Það var þess vegna, sem hinir sömu menn, sem höfðu starfað í sandgræðslunefndinni, fengu skipunarbréf í nóvembermánuði s.l. til þess að taka þetta starf upp að nýju og til endurskoðunar og byggja tillögur í nýju frv. á fenginni reynslu og hinum ýmsu skoðunum, sem fram hafa komið, meðal annars hjá búnaðarþingi og á hv. Alþingi. Einnig var lögð áherzla á það að leita eftir nýjum tekjuöflunarleiðum, þannig að það væri ekki eingöngu, að ríkissjóður greiddi kostnaðinn, heldur væri unnt að afla teknanna á annan hátt.

Mér er kunnugt um það, að sandgræðslunefnd er nú að ljúka við nýtt frv. og hún hefur komið sér saman um tekjuöflunarleið, sem er ekki ólíklegt að hv. Alþ. geti komið sér saman um. Ég ætla ekki að fara að ræða um það nýja frv. Væntanlega gefst hv. Alþ. tækifæri til þess að fjalla um það í vetur.

Það er rétt, sem sagt var hér áðan, það er nauðsynlegt, að hv. Alþ. komi sér saman um leiðir til þess að auka tekjur sandgræðslunnar, svo að hún geti innt sín störf þannig af hendi, sem æskilegt er fyrir þjóðina í heild. Til þess að svo megi verða, er nauðsynlegt, að skoðanir hv. Alþ. geti farið að nokkru eða mestu saman við það frv., sem hér verður lagt fram. Með því að sandgræðslunefnd hefur unnið að nýju og byggt á þeirri reynslu, sem hún fékk með fyrra starfi sínu, má líklegt telja, að það frv. verði í senn hv. Alþ. geðfellt og um leið nái því marki að efla tekjur sandgræðslunnar hæfilega mikið.