23.02.1960
Neðri deild: 35. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (2286)

59. mál, varnir gegn útbreiðslu kartöfluhnúðorma

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 119, sem fjallar um varnir gegn útbreiðslu hnúðorma í kartöflum og æxlaveiki í káljurtum og um útrýmingu þessara kvilla, er flutt af landbn. þessarar hv. d. og samkv. ósk hæstv. landbrh.

Það mun vera álit fræðimanna, sem þekkingu hafa á jurtasjúkdómum þeim, sem frv. fjallar um, og þar má t.d. nefna Ingólf Davíðsson grasafræðing, að það sé nauðsyn, að sett verði l., sem fjalli um varnir gegn þessum sjúkdómum og útbreiðslu þeirra, og mun hæstv. landbrh. hafa talið rétt, að málið kæmi fram hér í þinginu og hlyti athugun. En þó að landbn. hafi talið sjálfsagt að verða við þeim tilmælum hæstv. ráðh. að flytja málið, þá hefur n. ekki enn tekið málið til athugunar að nokkru ráði og hefur því óbundna afstöðu til þess á þessu stigi, bæði einstakir nm. og n. í heild.

Frv. þetta eða frv. nær shlj. þessu frv. mun hafa verið flutt hér í þinginu árið 1957 og þá að tilhlutan þáv. hæstv. ríkisstj., en hlaut þá enga afgreiðslu hér á Alþ. Það frv. mun hafa verið samið árið 1956 af stjórnskipaðri n., sem í áttu sæti dr. Halldór Pálsson deildarstjóri í búnaðardeild atvinnudeildar háskólans, Ingólfur Davíðsson grasafræðingur og Sæmundur Friðriksson framkvæmdastjóri. Á búnaðarþingi 1958 lá svo það frv. fyrir búnaðarþingi til umsagnar, og mun búnaðarþingið hafa talið málið hið nauðsynlegasta og mælt með, að frv. yrði að lögum.

Tilgangur og markmið þessa frv. er, eins og segir í 2. gr. þess, að hindra útbreiðslu jurtasjúkdóma og vinna að útrýmingu þeirra, og er þá fyrst og fremst átt við þá sjúkdóma, sem nefndir eru í 1. gr. frv., hnúðorma í kartöflum og æxlaveiki í káljurtum. Kvillar þessir hvorir tveggja eru taldir einhverjir þeir skaðlegustu sjúkdómar, sem hrjá þessar mikilsverðu mat- og nytjajurtir, og hafa þeir víða um lönd valdið miklu tjóni, og það tjón, sem þeir hafa þegar valdið hér hjá okkur, mun vera verulegt. Það er því að sjálfsögðu mikils um það vert, ef hægt væri að varna frekari útbreiðslu þeirra frá því, sem orðið er, og frá þeirri útbreiðslu er sagt í grg. frv., og mikilsverðast að sjálfsögðu það, ef hægt væri að útrýma þeim með öllu. Hvort sá árangur næst með þeim till., sem fram eru bornar í þessu frv., og hvort það er nauðsynlegt að vinna hér svo að sem frv. gerir ráð fyrir, t.d. með því að skipa 3 manna jurtasjúkdómanefnd, um það atriði vil ég ekki dæma á þessu stigi málsins, en það hefur að sjálfsögðu verið skoðun þeirra manna, sem sömdu frv., og meðal þeirra var, eins og ég gat um áðan, sérfróður maður. En sem sagt, landbn. hefur ekki kynnt sér þetta mál enn sem komið er til neinnar hlítar, og því vil ég, herra forseti, leggja til, að málinu verði vísað til n. að lokinni þessari umr.