03.05.1960
Neðri deild: 75. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (2309)

101. mál, Reykjanesbraut

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Eins og flestum hv. þdm. er kunnugt og áreiðanlega engum betur en hv. 1. flm. þessa frv., þá flutti ég um þetta mál till. á síðasta þingi, og sætti hún, svo sem kunnugt er, hinni beztu meðferð, þar sem hv. fjvn. afgreiddi málið með alveg jákvæðri tillögu.

Það var játað, að íslenzka ríkinu bæri að leggja inn á þá braut að steinsteypa vegina, fyrst og fremst aðalumferðaræðarnar og þá í allra fremstu röð Reykjanesbrautina.

Ég sagði, að hv. alþm. mundi vera kunnugt um þetta og ekki sízt hv. 1. flm., og ég sagðist hafa heyrt það á framsöguræðu hans, því að mér fannst ég kannast við ýmis af rökunum, og það er honum alls ekki til vansæmdar að lesa það, sem eldri menn og honum reyndari hafa áður um málið sagt.

Síðan ég flutti þessa tillögu við þessar ágætu undirtektir Alþingis, sem ég er þakklátur fyrir, hef ég svo komizt í enn sterkari aðstöðu til þess að sjá mínum málum borgið, er ég á sæti í ríkisstj, ásamt með tveimur öðrum þm. Reykjaneskjördæmis, hæstv. fyrrverandi forsrh., núv. félmrh., Emil Jónssyni, og hæstv. fyrrv. og núv. utanrrh., Guðmundi Í. Guðmundssyni.

Nú veit ég ekki, hvort þessi ungi keppinautur minn þekkir mig nóg til þess að geta í eyðurnar um það, að eftir slíkar undirtektir á jafnágætu máli og ég flutti í fyrra og hann nú, mundi ég ekki stinga höndunum í vasann og segja: Hallelúja, ég fékk góðar undirtektir, og hvað skyldi ég kæra mig um veginn. — Nei, hann getur alveg treyst því, að þegar þingið tók svo vel á mínu máli og forsjónin lagaði þetta í hendi minni með því að fá mér sæti í ríkisstj. með svo valdamiklum mönnum fyrir Reykjaneskjördæmi sem þeir eru, er ég nefndi, hæstv. félmrh. og hæstv. utanrrh., þá uni ég því auðvitað ekki, að gata þessa máls til framkvæmda sé ekki tryggð og það á styttri tíma en fimm árum. Því má hann alveg treysta.

Ég þakka hins vegar góðar undirtektir og stuðning við þetta mjög þarfa mál, og rökin, sem hann færði, voru, að svo miklu leyti sem það ekki voru börnin mín, þá eru það fögur börn frá honum sjálfum eða hans samherjum, viðbót við hópinn af góðum rökum, þó að ég segi, að það getur vel verið, að það sé kannske ekki djúpur skilningur á eðli málsins að telja, að hann þurfi nú að leggja mér þetta lið. En það er gert af velvilja til mjög þýðingarmikils máls, ekki aðeins fyrir kjósendur okkar, heldur landsmenn í heild. Það eru svo margir, sem þarna eiga hlut að máli, að við megum báðir hafa góða samvizku út af því að styðja þetta mál, og ég vildi mega líta svo á, að ef ríkisstj. gerir sérstakar ráðstafanir til mikillar fjáreyðslu á stuttum tíma, þá megi telja að hans flutningur á þessu frv., sem einnig er flutt af hv. 7. landsk., sem er í hinum stjórnarandstöðuflokknum, sé tilkynning um það, að okkar hendur séu ekki of bundnar um ráðstöfun ríkisfjár í þessu þarfa augnamiði.

Ég sem sagt þakka stuðninginn, en get ekki stillt mig um að segja, að þetta hefði kannske ekki verið alveg lífsnauðsyn. Ég tel, að vitsmunum þessa unga þingmanns og starfsorku megi verja til fleiri gagnlegra hluta, því að þetta skal ég passa. En sem sagt: ég er þakklátur fyrir hugarfarið og sé enga ástæðu til þess að sjá ofsjónum yfir því, þó að hann deili góðu máli með mér. Maður á alltaf að fagna stuðningi við góð málefni, og ég geri það. Ég óska honum þess, að hann beri gæfu til í framtíðinni að eiga samleið með mér, ekki aðeins brautina suður í Keflavík, þar sem við á okkar fínu biðilsbuxum tölum við kjósendurna, heldur á hinum breiða vegi stjórnmálanna, þar sem góðir menn eiga að haldast í hendur. Ég styð svo till. þessa hv. 1. flm. um, að málinu verði vísað til nefndar. Hvað svo skeður, hvort það kemur úr nefnd, áður en vegurinn kemur suður eftir, veit ég ekkert um, en ég legg höfuðáherzlu á að fá veginn, og við gerum það báðir, — er það ekki? — að fá veginn suður eftir.