25.02.1960
Efri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

61. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Efni þessa frv., sem hér liggur fyrir, er um það að afnema hámarksákvæði þau um álagningu á tóbak, sem eru í núgildandi l. um einkasölu ríkisins á tóbaki. Við 1. umr. málsins gerði hæstv. fjmrh. grein fyrir því efnislega, og þarf ég því ekki að ræða það í einstökum atriðum.

Aðalefni málsins er, að það þykir vera óeðlilegt að hafa þessi ákvæði. Það hefur komið í ljós, að í sumum tilfellum eru þessi ákvæði ónóg, miðað við þá álagningu, sem talið er eðlilegt að sé á vissum tóbakstegundum. Í mörgum tilfeilum er hún að vísu nægileg og vel það. En svo sem forstjóri tóbakseinkasölunnar hefur tjáð fjhn., er svo komið, að þessi álagningartakmörk eru talin hamla því, að hægt sé að leggja á þessar vörur eftir því, sem tóbakseinkasalan telur hentugast. Það liggur í augum uppi, að það er ekki víst, enda hefur það ekki verið framkvæmt svo, að sama álagning hæfi á allar tegundir tóbaksvara, og hefur jafnan, þegar verð hefur verið hækkað á tóbaki, verið talið eðlilegt, að það væri með nokkuð mismunandi hætti eftir því, hvaða vörur væri um að ræða.

Þótt undarlegt megi virðast, gat ekki orðið samkomulag í fjhn. um afstöðu til þessa máls: Þrír nm. mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt, en tveir leggja til, að frv. verði fellt, með röksemdum, sem mér sýnast vera nokkuð einkennilegar. Það má vitanlega segja, að sú álagning, sem heimiluð er á tóbaksvörur, allt að 350%, sé ósköp þokkaleg álagning, og því ætti það eftir almennum sjónarmiðum að vera nægileg álagning og meira en það. En það vita allir hv. dm., að varðandi tóbak og áfengi er sú sérstaða umfram aðrar vörur, að hér er um að ræða sérstaka tekjuöflun fyrir ríkissjóð, sem nú er einn af helztu tekjustofnum ríkissjóðs. Og það hefur aldrei verið neinn ágreiningur um það, hvaða ríkisstj. sem hefur setið að völdum, að eðlilegt væri að nota þennan tekjustofn, og á þeim grundvelli hefur æ ofan í æ verið hækkað verð á þessum vörum, og raunverulega hefur það eina sjónarmið verið ráðandi í sambandi við verðlagningu tóbaks og áfengis, að verðið væri ekki svo hátt, að það drægi úr sölunni og leiddi á þann hátt af sér tekjurýrnun. Það er það eina sjónarmið, sem jafnan hefur verið uppi í þessu efni.

Í nál. hv. minni hl. fjhn. á þskj. 129 eru þau rök fram borin gegn þessu frv., að með því að afnema þessi álagningartakmörk sé Alþingi að afsala sér eðlilegu og hefðbundnu valdi, eins og það er orðað, til þess að ákveða skattheimtu af almenningi.

Hér er vitanlega um algeran misskilning að ræða á eðli málsins. Í l. um einkasölu á áfengi eru engin takmörk á álagningarheimildinn, og það hefur aldrei komið fram mér vitanlega till. um það, að slík mörk yrðu á sett. Það hefur jafnan verið talið eðlilegt og aldrei hreyft mótmælum gegn því, að ríkisstj. á hverjum tíma hefði það í hendi sinni, hver væri álagningin á áfengi. Að þessu leyti er augljóst, að hér er síður en svo um nokkra hefðbundna venju að ræða, að álagning á þessar einkasöluvörur hafi jafnan verið ákvörðuð af Alþingi. Það er að vísu svo með hámarksákvæðin á tóbaki, að þar hefur verið viss hemill. En engu að síður hefur innan þessa ramma jafnan verið talið, að ríkisstj. gæti ákveðið álagningu á tóbak eftir því, sem henni henta þætti hverju sinni.

Mér sýnist það því vera nokkuð langt sótt, þegar andstaða gegn þessu frv. er rökstudd með því, að með því að afnema þessi mörk varðandi tóbakið sé verið að brjóta gegn venjum og reglum, sem fylgt hafi verið til þessa um ákvörðunarvald Alþingis varðandi verðlag þessara tveggja vara. Eins og ég áðan gat um, eru engin slík ákvæði í lögum um einkasölu á áfengi, og hér er aðeins um það að ræða að veita ríkisstj. sama rétt til verðlagningar á tóbaki og er nú í l. varðandi verðlagningu á áfengi. Þetta sjónarmið byggist á því einu, að það sé eðlilegt, miðað við það, að hér er um að ræða starfsemi, sem fyrst og fremst er rekin til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, að það sé metið á hverjum tíma, hvað sé eðlilegt varðandi álagningu á þessar vörur. Og svo sem ég áðan gat um, þá held ég, að það jafnan hafi verið sjónarmið varðandi verð bæði tóbaks og áfengis, að það væri haft svo hátt sem frekast væri taliðfært, án þess að það drægi svo úr sölu, að þessi tekjustofn rýrnaði af þeim sökum. Og vitanlega verður nákvæmlega sama sjónarmiði fylgt framvegis, enda þótt þetta ákvæði, sem hér er um að ræða, verði niður fellt.

Með þessum sjónarmiðum mælir meiri hl. fjhn. með því, að frv. verði samþ. óbreytt.