31.03.1960
Neðri deild: 59. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (2320)

104. mál, ábúðarlög

Frsm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, sendi hæstv. landbrh. landbn. með tilmælum um, að n. tæki það til flutnings. Þetta hefur n. nú gert með þeim fyrirvara af hennar hálfu, að hún sé óbundin um afstöðu til málsins.

Hinn 4. febr. 1959 var samþ. hér á hv. Alþ. till. til þál. um, að þingið kysi þriggja manna nefnd til þess að endurskoða ábúðarlögin og lög um ættaróðal og erfðaábúð. Kosningin fór svo fram hinn 11. maí sama ár, og voru þeir kosnir Jón Sigurðsson þáv. alþm. á Reynistað, Pálmi Einarsson landnámsstjóri og ég.

Þegar n. tók til starfa við þetta mál, varð henni fljótlega ljóst, að gera þyrfti svo miklar breytingar á ábúðarlögunum, að semja yrði nýtt frv. Á undanförnum árum og áratugum hafa orðið svo miklar breyt, á búskaparháttum okkar Íslendinga á öllum sviðum, að ábúðarlögin eru í mörgum greinum orðin á eftir tímanum. Í frv. þessu, sem hér liggur fyrir til nýrra ábúðarlaga, er reynt að samhæfa löggjöfina hinum nýja tíma. Þó er öllu haldið úr hinni eldri löggjöf, sem enn getur átt við eða að gagni komið. En ég vil geta þess, að í ábúðarlaganefndinni var mjög gott samstarf um þetta mál og n. einhuga um allar þær breyt., sem gerðar voru og hér eru lagðar til með þessu frv.

Þegar litið er á jarðafjöldann í landi okkar og hvernig jarðirnar skiptast í sjálfsábúðar- og leiguábúðarjarðir, þá sést strax, hversu þýðingarmikið það muni vera að hafa löggjöf um skyldur og réttindi landsdrottins og leiguliða, löggjöf, sem er skýr og tekur tillit til þeirra búskaparhátta, sem ríkjandi eru á hverjum tíma. Fyrr á öldum, þegar vald kaþólsku kirkjunnar var mest hér á landi, komust jarðirnar að mestu í hennar eign og svo nokkurra auðmanna. Danakonungar náðu og miklu af jarðeignum undir sig. Þannig urðu flestir bændur þessa lands leiguliðar og urðu að sætta sig við okurleigu og alls konar kvaðir. Þetta tímabil var hið ömurlegasta í sögu þjóðarinnar og skal ekki gert hér að umræðuefni.

Hin elztu ábúðarlög voru sett árið 1884, og var þá kveðið á um skyldur og réttindi landsdrottins og leiguliða. Það er óhætt að fullyrða, að setning ábúðarlaganna var hið mesta nauðsynjamál, og síðan hefur þótt nauðsynlegt að breyta þessum lögum eftir því, sem breyttir búskaparhættir og aðrar breyttar aðstæður hafa gert nauðsynlegt.

Þegar síðasta fasteignamat fór fram á árunum 1938–1944, voru ábúðarumráðin þannig, að 3168 jarðir eða 54% voru í einkaeign og sjálfsábúð, og að nokkru leyti í sjálfsábúð voru 460 jarðir eða 7,9%. Í leiguábúð voru þá 2234 jarðir eða 38,1%. Nokkur breyt. mun hafa orðið síðan í þá átt, að sjálfsábúðarjörðum hefur fjölgað. Má í því sambandi nefna það, að öll nýbýli, sem stofnuð hafa verið á þessu tímabili, eru einkaeign stofnenda. Eyðijörðum hefur farið fjölgandi í landinu hina síðustu áratugi, en þó hefur byggðum býlum ekki fækkað að sama skapi, því að stofnun nýbýla og skipting jarða hefur vegið nokkuð upp á móti fækkuninni. Árið 1922 voru sérmetnar og byggðar jarðir alls 6146 og búendur 6852. En árið 1957 eru sérmetnu byggðu jarðirnar 5915. Eyðijarðirnar voru þá 1130 eða jarðir alls í landinu sérmetnar 7045 að tölu og búendurnir þá 6418. Hefur þá jörðum fjölgað síðan 1922 um 899, en ábúendum hins vegar fækkað á sama tíma um 434. Þess skal þó getið, að 1957 eru ekki teknar með þær jarðir, er lágu eða liggja innan takmarka þeirra staða, sem hafa kaupstaðarréttindi.

Þær athuganir, sem gerðar hafa verið á ábúðarhreyfingum jarða í landinu, gefa til kynna, að um 250–300 jarðir losni úr ábúð árlega og á þeim verði ábúendaskipti. Er þá átt við hvort tveggja sjálfsábúðarjarðir og leigujarðir.

Um breytingar þær, er ábúðarlaganefndin leggur til með frv. þessu, farast henni svo orð í niðurlagi nál. þess, er frv. fylgir — með leyfi hæstv. forseta:

„Í frv. því, sem hér með fylgir, er kaflaskipting hin sama og í núgildandi lögum, og segja má, að grundvallarsjónarmið núgildandi laga haldi sér. Breytingarnar eru fyrst og fremst á þeim ákvæðum, sem vegna breyttrar aðstöðu og nýrra búnaðarhátta eru orðin úrelt. Í öðru lagi má á það benda, að jarðarnytjar, sem áður töldust til leiguliðanota, hafa ekki lengur leigugildi almennt, svo sem hagnýting torfs til bygginga. Aftur á móti er nú orðið mjög mikið verðmæti í sandi og möl sem byggingarefni. Jarðhiti og virkjun vatnsafls var ekki talið jörð til gildis 1884, er hin elztu ábúðarlög voru sett. Eru í frv. tekin upp ákvæði um, að hve miklu leyti þessi verðmæti falla undir notkunarrétt leiguliða og þau undanskilin leiguliðanotum að öðru leyti en því, sem þeirra er þörf vegna búrekstrar á jörðinni. Þá eru tekin upp ný ákvæði um, að landskuld miðast við búrekstrargildi jarðarinnar og ákveðist með tölu búfjár eða annars afraksturs af jörðinni og peningagreiðsla ákveðist eftir verðlagsskrárverði þeirra afurða.

Húsaskylduákvæðin eru gerð nokkru fyllri, einkum þau ákvæði, er lúta að því, þegar endurreisa þarf hús jarðar á ábúðartímanum og auka við þau, en kröfur um jarðarhús úr hendi eiganda, þegar ábúð hefst, eru auknar, því að ákvæði um þetta atriði voru orðin áhrifalítil vegna hinna öru breytinga á verðlagi, frá því að lögin voru sett.

Nokkrar breyt. eru í frv. um kaup á húsum, er ábúandi fer frá jörð, og um greiðslufyrirkomulag leiguliðabóta. Skyldutrygging er ákveðin á jarðarhús í samræmi við aðra löggjöf þar um.

Þá er fastar en áður var kveðið á um, að leiguliði sé skyldur að reka sjálfur bú á jörðinni. Um úttektir á jörðum eru sett nokkru fyllri ákvæði en í núgildandi lögum og um fyrningu jarðarbóta. Þá er sú breyting gerð um yfirúttekt, að í hverri sýslu skuli vera fastur úttektardómur. Er það gert með tilliti til þess, að meira samræmi fáist innan sýslu um úrskurði í ágreiningsmálum varðandi úttektir.“

Ég tel, að ég hafi þá gert í fáum orðum nokkra grein fyrir því, í hvaða átt stefna þær breytingar, sem ábúðarlaganefndin gerði á frv.

Eins og áður er tekið fram, er frv. flutt af n., og þarf þess vegna ekki að vísa því sérstaklega til n., en ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr.