03.05.1960
Neðri deild: 75. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í C-deild Alþingistíðinda. (2327)

104. mál, ábúðarlög

Jón Pálmason:

Herra forseti. Hv. frsm. landbn., 2. þm. Sunnl. (ÁÞ), er, eins og kunnugt er, fjarverandi, og varð að samkomulagi, að ég í hans stað segði nokkur orð f.h. landbn. um þetta stóra mál. Þar sem fyrir því var gerð almennt allrækileg grein við 1. umr., þarf ég ekki að tala langt mál.

Ábúðarlögin, þau sem nú eru í gildi, eru í aðalatriðum frá 1933 og voru þá undirbúin af mþn. og rækilega frá þeim gengið. Nokkur breyting var gerð á þessum þýðingarmiklu lögum árið 1951 og þá aðallega um einstök atriði til þess að auka réttindi sveitarstjórna til þess að koma í veg fyrir, að jarðir færu í eyði, sem væru ekki setnar af eigendum.

Nú var það orðið nokkurn veginn augljóst fyrir síðasta Alþingi, að þessi lög eru orðin býsna mikið úrelt, miðað við það ástand, sem nú hefur skapazt í sveitum landsins, og því var það, að það var kosin mþn. til að undirbúa lögin, og í henni voru þeir Pálmi Einarsson landnámsstjóri, Ágúst Þorvaldsson alþm. og Jón Sigurðsson fyrrv. alþm. Það frv., sem hér liggur fyrir, er samið af þessari n., og það hefur verið allrækilega rætt á búnaðarþingi og þar gerðar töluvert margar smávægilegar breytingartillögur. Landbn. hefur farið rækilega í gegnum þetta frv. og gegnum brtt. búnaðarþings og tekið meiri hl. af þeim til greina, en þær, sem n. hefur ekki tekið til greina, eru að okkar áliti annað hvort þýðingarlausar eða óþarfar orðabreytingar. Þær brtt., sem landbn. flytur á þskj. 336, eru þess vegna allar í samræmi við brtt. búnaðarþings nema aðeins ein.

Ég sé ekki ástæðu til þess, af því að ég reikna með því, að hv. alþm. hafi litið yfir þessar brtt., að fara að ræða hverja einstaka þeirra, enda eru þær allar þannig, að þær eru meira orðalagsbreytingar og til að gera málið skýrara heldur en að það séu verulegar efnisbreytingar. En síðasta brtt. landbn. er umorðun á 51. gr. frv., og sú brtt. fjallar um viðskipti jarðareiganda og leiguliða, þegar ábúendaskipti verða á leigujörðum, og sú breyt., sem landbn. leggur þarna til, miðar að því að tryggja rétt ábúandans enn betur en gert er í frv., með því að það sé skylt, þegar ábúendaskipti verða á leigujörð, að gera upp verðgildi þeirra umbóta, sem orðið hafa á jörðinni, og hverjar breytingar hafa orðið á verðgildi mannvirkja, frá því að ábúandinn tók fyrst við jörðinni, og þess vegna sé skylt að borga mismuninn, hvort sem hann fellur á landsdrottin eða leiguliða. Nú er það svo í mjög mörgum tilfellum, síðan umbætur hófust fyrir alvöru í sveitum landsins, að sú regla hefur mjög mikið verið notuð á leigujörðum, að eigandinn hefur gefið ábúandanum veðleyfi til þess að taka lán út á jörðina í byggingarsjóði og ræktunarsjóði, eftir því sem við á. En ástandið er þannig, eins og þeim öllum er kunnugt, sem þekkja til í sveitum okkar lands, að nú nokkuð lengi er það svo, að nýjar byggingar eru svo dýrar, að það er ekki von til þess, eins og nú er komið, að selja jarðirnar fyrir kostnaðarverð, og í mörgum tilfellum fer það svo, að í hinar dýru umbætur hverfur hið upphaflega landverð og ekki hægt að selja jarðirnar nema fyrir tiltölulega lítinn hluta af öllu kostnaðarverðinu.

Nú er það í rauninni þannig, að viðskipti milli leiguliða og landsdrottins hér á landi eru að langmestu leyti viðskipti leiguliða og þess opinbera, ríkisins, jarðakaupasjóðs og ýmissa opinberra aðila, því að það eru ekki nema undantekningar nú orðið vegna þess ástands, sem skapazt hefur, að einstakir menn eigi jarðir, sem eru leigðar út. Það eru dæmi til þess, en það eru frekar undantekningar.

Nú sé ég ekki ástæðu til þess, nema tilefni gefist til, að fara um þetta mál fleiri orðum. En ég veit, að hv. þdm. er ljóst, að þetta mál er eðlilegt að afgreiða eftir þá meðferð, sem það hefur fengið, og af því að það er afgr. alveg ágreiningslaust frá landbn., þá vænti ég þess, að það geti haldið hér áfram og fengið greiðan gang í gegnum hv. Alþingi.