30.03.1960
Neðri deild: 58. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (2343)

107. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Þetta litla frv., sem ég flyt á þskj. 238, fjallar um breyt. á 10. gr. l. um framleiðsluráð landbúnaðarins, en sú grein ákveður, með hvaða hætti skuli veitt og hverjum skuli veitt slátrunarleyfi. Framleiðsluráð landbúnaðarins, sem fer með þessar leyfisveitingar, mun líta svo á og það réttilega að mínum dómi, að það sé ekki heimilt samkv. hljóðan laganna að veita slátrunarleyfi nema einu samvinnufélagi á hverju verzlunarsvæði. Nú hefur það gerzt, þó að ekki sé mikið um það, að samvinnufélög hafi verið stofnuð á svæðum eða stöðum, þar sem önnur samvinnufélög voru starfandi fyrir, félög, sem höfðu slátrunarleyfi. Stofnendur þessara nýju félaga eru að meiri hluta til bændur, og er það að sjálfsögðu vilji þeirra og áhugamál, að félög, sem þeir hafa beitt sér fyrir að stofna, hafi sem bezta aðstöðu til þess að taka á móti og vinna úr og annast sölu á framleiðsluvörum þeirra. En svo hefur það skeð, að þessi nýju samvinnufélög hafa átt í nokkru stímabraki að fá slátrunarleyfi og það að vonum vegna þeirra ákvæða framleiðsluráðslaganna, að ekki megi veita nema einu samvinnufélagi á hverjum stað þetta leyfi. Hins vegar mun það nú svo, að þessi félög hafa fengið leyfin og þá eftir einhverjum krókaleiðum, sem vissulega er ætíð leitt að fara.

Fyrir tveimur árum var stofnað samvinnufélag heima í mínu héraði, heima í Skagafirði, sem heitir Verzlunarfélag Skagfirðinga og starfar þar á sama verzlunarsvæði og hið gamla samvinnufélag þar, Kaupfélag Skagfirðinga. Á s.l. ári byggði þetta nýja félag sláturhús, litla, en ég hygg vel vandaða byggingu, og gekk auðveldlega að fá það löggilt. En nú kom það á daginn, sem raunar var vitað áður, að ekki þýddi fyrir þetta félag að sækja um slátrunarleyfi sem samvinnufélag, og var þá það ráð tekið að mynda hlutafélag um sláturhúsið og farið þar eftir fyrirdæmum, sem mjög hafa tíðkazt meðal samvinnufélaganna nú í seinni tíð og að mínum dómi þeim ekki til góðs. Verzlunarfélagið var aðalhluthafinn í þessu hlutafélagi, og framleiðsluráðið veitti svo þessu hlutafélagi, svo sem sjálfsagt var, slátrunarleyfið, og ég geri fastlega ráð fyrir því, að leyfið hefði verið jafnfúslega veitt Verzlunarfélagi Skagfirðinga sem samvinnufélagi, hefðu ákvæði 10. gr. framleiðsluráðslaganna ekki staðið þar í gegn.

Ég hygg, að þetta dæmi, sem ég hef nú hér tekið, skýri fyllilega, að það sé næsta eðlilegt, að umræddri grein framleiðsluráðsl. sé breytt í það horf, sem ég legg til í frv. Ég þarf svo raunar ekki að hafa um þetta fleiri orð. En ég vil aðeins segja það sem skoðun mína í sambandi við veitingu slátrunarleyfa, að vitaskuld sé aðalatriðið í þeim efnum það, að þeir, sem þessi leyfi hljóta, fullnægi þeim ákvæðum laga og reglugerða um sláturhús, meðferð og mat á kjöti og sölu þess, sem þar um gilda. Í kjötframleiðslunni svo sem allri annarri framleiðslu okkar er vitaskuld fyrsta og síðasta boðorðið vöruvöndun. Við Íslendingar eigum að geta framleitt matvörur bæði úr afurðum sjávarútvegs og landbúnaðar, sem jafnvel beztar væru sinnar tegundar á markaðinum. Það ætti að vera metnaður okkar og er raunar undirstaðan undir allri afkomu okkar, að við vöndum svo meðferð þessara matvæla, sem við framleiðum, að fullnægt sé til hins ýtrasta þeim kröfum, sem tímarnir gera í þessum efnum.

Ég vil svo leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.