25.02.1960
Efri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

61. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Í sambandi við þær umræður, sem hér hafa spunnizt út af því frv., sem liggur fyrir, tel ég rétt, að hér komi fram nokkrar upplýsingar, sem forstjóri tóbakseinkasölunnar gaf á fundi fjhn., þegar hún fjallaði um þessi mál. Að vísu hefur þetta nú þegar að nokkru komið fram í ræðum hv. frsm. meiri hl., hv. 6. þm.. Norðurl. e. (MJ). En það eru þó viss atriði í þeim upplýsingum, sem hann gaf, sem ég tel rétt að komi hér alveg skýrt fram, af því að þau gætu varpað nokkru nánara ljósi yfir þetta og leiðrétt ýmislegt, sem komið hefur fram af hálfu hv. stjórnarandstæðinga, sem hafa tekið þá að mínu áliti furðulegu afstöðu að vera á móti þessu frv.

Varðandi verðlagningu tóbaks verða það þrjú atriði, sem eðlilegt er að tekið verði tillit til: Í fyrsta lagi hagsmunasjónarmið ríkissjóðs að afla sér þeirra tekna, sem á hverjum tíma er gert ráð fyrir í fjárlögum. Í öðru lagi, að tekið sé visst tillit til neytandans, þarfa hans og smekks, þannig að hafðar séu á boðstólum tóbaksvörur með mismunandi verði og af mismunandi gæðum. Og svo í þriðja lagi er auðvitað eðlilegt, að tekið sé tillit til þess, að ekki verði meiri gjaldeyri eytt til tóbakskaupa en nauðsynlegt er.

Í þeim upplýsingum, sem forstjóri tóbakseinkasölunnar gaf, kom það í fyrsta lagi fram, að hér er ekki um að ræða nein ný viðhorf í þessum efnum, sem skapazt hafa vegna þeirra efnahagsmálaráðstafana, sem nýverið hafa verið gerðar. Þvert á móti hefur það um langt skeið verið ósk núverandi forstjóra tóbakseinkasölunnar, að núgildandi ákvæði um álagninguna yrði breytt, og fyrir því færði hann þau meginrök, sem ég mun gera grein fyrir hér á eftir.

Það er kjarni málsins, að þau sjónarmið, sem eðlilega liggja að baki verðlagningu á tóbaki og ég nefndi, eða hagsmunasjónarmið ríkissjóðs annars vegar og hins vegar tillitið til neytandans og tillitið til þess að eyða ekki meiri gjaldeyri en nauðsynlegt er hafa rekizt á vegna þess hámarks, sem sett hefur verið um álagningu, og það hafa þau gert á þann hátt, að eins og forstjóri tóbakseinkasölunnar skýrði frá, þá verður miklu meiri hagnaður í krónutali af því að selja dýra tóbakið, jafnvel þótt álagningarheimildin sé ekki notuð að fullu, heldur en mundi vera með því að selja ódýra tóbakið, þó að álagningarheimildin sé þar notuð að fullu, þannig að ágóðinn á selda einingu af tóbakinu, hvort sem það er nú pakki af sígarettum t.d., sem miðað er við, vindlakassi eða eitthvað annað, verður til muna meiri, þegar selt er dýra tóbakið, jafnvel þótt með lægri álagningu sé, heldur en þegar ódýra tóbakið er selt.

Af þessu mundi leiða, að það væri í rauninni alveg óþarfi að breyta álagningunni með tilliti til þess að fá inn þær tekjur af tóbakseinkasölunni, sem ráð er gert fyrir í fjárlögum. Það væri hægt og væri jafnvel enn þá auðveldara eftir gengisbreytinguna en áður, vegna þess að tollur af tóbaki kemur til að hækka, og það að alveg óbreyttri álagningu, og jafnvel þótt álagningarheimildin væri ekki notuð að fullu, aðeins með því að flytja þá meira inn af dýrum tóbakstegundum, en takmarka innflutning á hinum ódýrari tegundum. Vegna hagsmunasjónarmiðs ríkissjóðsins væri þetta í rauninni óþarfi. En auðvitað mundi af þessu leiða, ef minna væri haft af ódýrara tóbakinu á boðstólum, sem gefur minni hagnað, þó að álagningin sé þar minni, meiri verðhækkun á tóbakinu heldur en ella. Þess vegna fer því fjarri, að það sé þannig, eins og virðist vera skoðun hv. stjórnarandstæðinga, sem hér hafa talað, að tilgangurinn með því að setja þessi ákvæði nú sé að skapa þarna einhverja nýja möguleika fyrir ríkisstj. til þess að hækka skatta á tóbaksneytendum, heldur er það þvert á móti þannig, að ástæðan til þess, að forstjóri tóbakseinkasölunnar telur einmitt rétt að setja þessi ákvæði nú, er sú, að með því að hækka álagningarheimildina væri möguleiki á því að flytja meira inn af ódýrara tóbakinu og koma þannig í veg fyrir þá verðhækkun, sem ella mundi verða nauðsynleg, ef hægt á að vera að ná þeim tekjum, sem fjárlög gera ráð fyrir.

Aðalatriðið í þessu efni er einmitt þetta, að það, sem hér er um að ræða, er ekki að gera auðveldara að fá inn hærri tekjur en áður, — það mundi vera auðvelt, þó að álagningarheimildin væri óbreytt, — heldur að skapa meiri möguleika á því að samræma annars vegar gjaldeyrissjónarmiðið og hagsmunasjónarmið neytandans og tekjuþörf ríkisins með því að gera mögulegt að ná svipuðum tekjum og nú með því að flytja inn ódýrara tóbak, sem aftur þýðir, að það yrði að leggja meira á.