25.02.1960
Efri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

61. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið. Hv. 6. þm.. Norðurl. e. (MJ) fann sig knúinn til þess að vera hér með hálfgerðar vítur í garð okkar, sem mælt höfum gegn þessu frv., fyrir það, að við hefðum haft hér um hönd óþinglegan málflutning til rökstuðnings okkar máll. Ég vil vísa því algerlega á bug. Við ræddum það málefni, sem hér liggur fyrir, og það hefur, að því er ég bezt veit, aldrei verið talið óheimilt á þingi eða verið talin ástæða til þess að finna að því, þó að menn gripu til dæma til rökstuðnings sínu máll, sem lægju utan þess málefnis, sem sérstaklega var rætt um.

En ég held hins vegar, að það megi vissulega segja, að sá útúrsnúningur, sem hv. 6. þm.. Norðurl. e. lét sér sæma hér að hafa á mínu máli, hafi verið í mesta máta óþinglegur, því að hann hefði átt betur við á framboðsfundum heldur en á hv. Alþingi, þar sem hann lét sér sæma að hafa eftir mér allt annað en það, sem ég hafði sagt, og lagði siðan út af því. Ég hef aldrei látið mér þau orð um munn fara, að sá háttur, sem hafður hefur verið á í þessum efnum, hafi verið stjórnarskrárbrot. Ég tel það fyllilega í samræmi við stjórnarskrána að hafa þann hátt á framvegis, sem hafður hefur verið á að þessu leyti, að löggjafinn ákveði viss álagningarmörk, ákveði visst svigrúm, innan hvers stjórnin geti svo ákveðið álagninguna, alveg eins og það samrýmist ákvæðum stjórnarskrárinnar um skattheimildir, að ríkisstj. sé veitt heimild til þess að innheimta þessi og þessi gjöld. Það er ekki alveg bundið, að Alþingi eða löggjafinn þurfi að einskorða það, hvað innheimt skuli. En það nýja í þessu er, að það er verið að fella niður þar mörkin og veita ríkisstjórninni alveg ótakmarkaða álagningarheimild. Það er það nýja í þessu máll, og það var það atriði, sem ég ræddi um. En um það atriði sagði ég aldrei, að það væri stjórnarskrárbrot. Það eru orð hv. 6. þm.. Norðurl. e. (MJ). En ég sagði, að það mundi höggva nærri anda stjórnarskrárinnar að veita ríkisstj. alveg ótakmarkaða heimild til þess að leggja á vörur, sem seldar eru af tekjuöflunarfyrirtækjum ríkissjóðs, án þess að Alþingi eða löggjafinn setji þar nokkur takmörk. Og auðvitað á það alveg sérstaklega við, ef um er að ræða vörur, sem almenningur almennt þarf á að halda, því að þá kemur auðvitað álagningin fram sem skattur á almenning. Þetta ætla ég að sé ljóst. En það ætla ég að hv. 6. þm.. Norðurl. e. sé ljóst, að það er nokkuð annað, hvort maður fullyrðir, að eitthvað brjóti algerlega í bága við stjórnarskrárákvæði, eða hvort maður telur höggvið nærri anda stjórnarskrárinnar í þessu efni.

Af þessu, sem ég hef nú sagt, leiðir það, að ummæli hv. 6. þm.. Norðurl. e., sem lutu að hv. 1. þm.. Austf. (EystJ), voru algerlega út í hött. Ég hef aldrei fundið að eða mælt gegn þeim hætti, sem tíðkazt hefur í þessum málum og mér skildist að hv. 6. þm.. Norðurl. e. teldi, að 1. þm.. Austf. hafi sérstaklega beitt sér fyrir. Ég er nú ekki ákaflega þingfróður, en ég hygg, að þessi ákvæði um tóbakseinkasölu séu áreiðanlega eldri en frá upphafi þingmannstíðar 1. þm.. Austf. En hvað um það, hans ummæli, sem að því lutu, voru algerlega út í hött, eins ummæli hans um það, að ég hefði lagt hér sérstaklega stund á að fordæma atriði, sem hefðu lotið að málefnum, sem flokksbræður mínir hefðu farið með áður. Þetta er vitaskuld algerlega órökstutt. Ég hef fundið að því og mun finna að því, sem mér finnst aðfinnsluvert, alveg án tillits til þess, hverjir í hlut eiga og hvort þau málefni hafa áður lotið undir mína flokksbræður eða ekki. Ég mun þar engan mun á gera.

En annars er það alrangt hjá hv. 6. þm.. Norðurl. e., að það mál, sem hann sérstaklega hefur sennilega haft í huga, máliðum stofnun efnahagsmálaráðuneytis, og þau atriði, sem inn í umræður um það spunnust, hafi verið málefni, sem lutu flokksbræðrum mínum, því að ég sannaði það einmitt í þeim umræðum, að þau ráðuneyti, sem í öndverðu höfðu verið ólöglega sett á stofn eða án þess að formleg lagaheimild hefði verið til þess, hefðu fyrst og fremst verið sett á stofn í tíð hæstv. núv. forsrh., þegar hann hafði veitt ráðuneytinu forstöðu. Annars skal ég ekki fara að blanda þessu efni inn í þetta atriði hér. Mér sýnist; að þetta mál liggi ljóst fyrir. Ég held því fram, að það sé óeðlilegt að fella niður þessi takmörk, sem verið hafa, vegna þess að með því sé höggvið nærri anda stjórnarskrárinnar. Ég tel það hættulegt að gefa þar með hæstv. ríkisstj. enn meðhald í þeirri viðleitni, sem hún hefur haft svo mjög á oddinum á þessu þingi, að draga til sín vald, sem á að réttu lagi að vera í höndum Alþingis. Og ég hef í þriðja lagi bent á, að það sé varhugavert að fara að leyfa og gera ráð fyrir ótakmarkaðri hækkun á tóbaki. Ég hef bent á, að það sé í litlu samræmi við þá stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj., að hún muni ekki leyfa hækkun á álagningu yfirleitt, og tel það þess vegna óeðlilegt, að hún gangi á undan í þeim efnum.

En hvað um það, það má vel vera, að það sé hægt að sýna fram á með rökum, að það þurfi að hækka álagningu á tóbaki, af einhverju því sjónarmiði, sem hv. 11. þm.. Reykv. (ÓB) var að tala um. En þá er rétta aðferðin sú, sem fylgt hefur verið til þessa, að koma til Alþingis og óska eftir rýmra svigrúmi í þessum efnum heldur en nú er. Ég geri ekki ráð fyrir því, ef rétt rök væru flutt fram til stuðnings því, að þá verði fyrirstaða á því hjá Alþingi að veita þá heimild. En hvers vegna er ekki líka sá háttur nú hafður á? Hvers vegna vill ríkisstj. endilega fá ótakmarkaða heimild í þessu efni? Það er það, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. ætti að upplýsa hér. Annars voru athyglisverðar og ég vil segja mjög þakkarverðar þær upplýsingar, sem hv. 11. þm. Reykv. gaf hér. Eftir það liggur ljóst fyrir, að það á að hækka tóbakið, það á að hækka álagningu á tóbaki, og það liggur líka ljóst fyrir, á hverjum tegundum tóbaks á að hækka álagninguna. Það á, eins og hann sagði, að hækka álagningu á hinum ódýrari tegundum tóbaks. Og hverjir mundu það vera hér í þessu landi, sem notfæra sér ódýrari tegundir tóbaks? Ætli það séu þeir, sem bezt eru færir um að borga þessa vöru? Ég hefði haldið satt að segja, að það væri enginn þjóðarvoði, þó að þessar ódýrari tóbakstegundir væru seldar með svolítið vægari álagningu en hinar dýrari.