03.05.1960
Neðri deild: 75. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (2378)

136. mál, menntaskóli Vestfirðinga

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Að flutningi þessa frv. um menntaskóla Vestfirðinga á Ísafirði standa allir þm. Vestfirðinga, einnig þeir, sem sæti eiga í hv. Ed. En það hefur orðið að samkomulagi okkar í milli, að frv. væri flutt af þeim Vestfjarðaþm., sem sæti eiga hér í þessari hv. deild.

Svo sem fram kemur í bréfi fræðsluráðs Ísafjarðar, dags. 7. apríl, fskj. 1. en bréfið er til allra þm. Vestfjarðakjördæmis, lýstu frambjóðendur allra flokka í Vestfjarðakjördæmi því yfir fyrir seinustu kosningar, að þeir mundu veita menntaskólamáli Vestfirðinga fullt brautargengi á Alþ., ef þeir ættu þar sæti eftir kosningar. Í bréfinu, sem raunar er að meginmáli samþykkt gerð með shlj. atkv. á fundi fræðsluráðs Ísafjarðar þ. 7. apríl, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fræðsluráð skorar hér með mjög eindregið á alla þm. Vestfjarðakjördæmis, að þeir standi við yfirlýst loforð og flytji nú strax á yfirstandandi Alþ. frv. til l. um stofnun menntaskóla fyrir Vestfirði, sem staðsettur verði á Ísafirði.“

Það er þannig rétt, að frv. er flutt til efnda á áður gefnum loforðum. Sýnir það, hversu hart fræðsluráðið gengur eftir því, að þessi kosningaloforð frambjóðenda verði efnd, meðal margs annars, að málinu er fast fylgt eftir og yfir því vakað af áhugamönnum í öllum flokkum heima í héraði, enda er það einlægur ásetningur okkar þm. Vestf. að gera allt, sem við getum, til að koma málinu í höfn á þessu þingi.

Allir þeir, sem stuðla vilja að auknu jafnvægi í byggð landsins, gera sér ljóst, að það er ekki nóg að jafna aðstöðu landsmanna í atvinnumálum, samgöngumálum og raforkumálum, og eru það þó allt saman mjög þýðingarmikil atriði. Jafnnauðsynlegt er, að aðstaðan sé einnig gerð sem jöfnust í öllum landshlutum í fræðslu- og menningarmálum. Með þessu frv. er einmitt farið fram á aukið menningarlegt jafnrétti Vestfirðinga á við íbúa annarra landsfjórðunga. Hið sama má segja um annað frv., sem fyrir þinginu liggur, nefnilega frv. um menntaskóla Austfirðinga.

Það er nokkuð algeng saga, sem ég þekki allvel, að þegar foreldrar efnilegra unglinga á Vestfjörðum voru búnir að koma börnum sínum í gegnum gagnfræða- eða héraðsskóla heima fyrir, hafa þeir oft orðið að taka sig upp og flytjast búferlum til Reykjavíkur til þess að geta fylgt börnum sínum þar eftir til framhaldsnáms. Efnin leyfðu ekki í mörgum tilfellum að kosta unglingana hér, en halda heimili annars staðar. Þá þykir og ýmsum foreldrum allmikil uppeldisleg áhætta vera við það bundin að verða að sleppa unglingunum frá sér einmitt á þessu viðkvæmasta aldursskeiði hingað til Reykjavíkur einum síns liðs til margra ára dvalar. Þess eru sem sé mörg dæmi, að foreldrar efnilegra nemenda fluttust búferlum frá Vestfjörðum einungis til þess að geta komið börnum sínum áfram til framhaldsnáms í menntaskóla.

Hér er því ekki aðeins um það að ræða, að hið unga, efnilega fólk tapist heimabyggðum sínum, heldur bætist það við, að foreldrarnir ásamt skylduliði hverfa þaðan líka. Og sízt er því að neita, að oft er þetta fólk af góðum og traustum stofni, jafnvel úrval að andlegu og líkamlegu atgervi. Má því öllum skiljast, að hinum fámennu byggðum sé í mörgum tilfellum allsár blóðtaka að brottför þessa fólks.

Áhugi Vestfirðinga fyrir því að koma upp menntaskóla í fjórðungnum á sér lengri sögu. Það var einmitt til þess að mæta þeim áhuga Vestfirðinga fyrir því að bæta menningaraðstöðu sína, sem ég á árinu 1946 ásamt Páli Zóphóníassyni„ þáv. 1. þm. N-M., flutti frv. til l. um menntaskóla á Ísafirði fyrir Vestfirði og að Eiðum fyrir Austurland, en ekki náði málið þá fram að ganga.

Næsti þáttur málsins er sá, að árið 1949 samþ. þáverandi menntmrh. það, að gagnfræðaskólinn á Ísafirði mætti taka upp kennslu í námsgreinum 1. bekkjar menntaskóla, og var svo gert. Fyrsta vorið fóru próf í þessari deild fram undir umsjá stjórnskipaðra prófdómenda, og svo fóru nemendurnir til framhaldsnáms, ýmist til menntaskólans í Reykjavík eða menntaskólans á Akureyri. Næsta ár lýsti menntaskólinn á Akureyri yfir því, að hann tæki gild próf frá framhaldsdeildinni á Ísafirði sem próf upp í 2. bekk hjá sér. Fékk gagnfræðaskólinn á Ísafirði þá heimild fræðslumálastjórnarinnar til að sjá sjálfur um prófin með sama hætti og gert er í menntaskólunum, þegar um bekkjarpróf er að ræða, nefnilega að kennarar eru prófdómendur þar hver hjá öðrum. Með þessu var skólanum sýnt mikið traust og hann tók á sig mikla ábyrgð. En ég held, að hann hafi risið undir þessari ábyrgð, því að fólkið, sem hann sendi frá sér, reyndist vel í þeim skólum, sem það sótti til, og hefur síðan reynzt vel sem þegnar og embættismenn.

Tvo fyrstu veturna tók ríkið þátt í kennslu þessari að sama hluta og kennslu gagnfræðaskólans, að því er kostnaðinn snerti, en þriðja veturinn tilkynnti nýr menntmrh., að ríkið tæki ekki þátt í þessum kostnaði lengur. Tók þá Ísafjarðarbær ákvörðun um að bera eign kostnaðinn af framhaldsdeildinni. Allt gekk að óskum. En næsta haust tilkynnti ráðh., að hann teldi sig skorta lagaheimild til að leyfa gagnfræðaskólanum á Ísafirði að halda uppi slíkri kennslu, og þannig lagðist þessi kennsla í námsgreinum 1. bekkjar menntaskóla á Ísafirði niður.

Um þetta og endurupptöku málsins af ýmsum félagasamtökum og áhugamönnum á Ísafirði segir skólastjóri gagnfræðaskólans á Ísafirði, Guðjón Kristinsson, í seinustu skýrslu um starf skólans þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Svo sem fram kemur í fyrri skýrslum skólans, var starfrækt framhaldsdeild við gagnfræðaskólann í Ísafirði um þriggja vetra skeið, 1949–52. Samsvaraði sú deild 1. bekk menntaskóla. Fór kennslan fram í samráði við menntaskólann í Reykjavík, síðar við menntaskólann á Akureyri. Því miður fékkst ekki leyfi til starfrækslu deildarinnar lengur en þessa 3 vetur. Árangur hafði þó verið ágætur. Á s.l. ári var málinu hreyft á ný í einu félagi hér í bænum, Oddfellow-stúkunni Gesti. Var málið þar rætt, og niðurstöður þeirra umr, urðu þær, að nokkur félög hér kusu n. til þess að vinna að framgangi málsins með það fyrir augum, að hér yrði á vetri komanda komið á fót framhaldsdeild og síðar menntaskóla fyrir Vestfirði. Í þessari nefnd áttu sæti Björgvin Sighvatsson kennari, formaður fræðsluráðs Ísafjarðar, Jóhann Gunnar Ólafsson bæjarfógeti, Matthías Bjarnason framkvæmdastjóri, Rögnvaldur Jónsson framkvæmdastjóri og Guðjón Kristinsson skólastjóri.

Nefndin boðaði til almenns borgarafundar hér á Ísafirði í marzmánuði 1959. Ríkti mikill einhugur á þessum fundi, og var samþykkt einróma áskorun á ríkisstj. og yfirstjórn fræðslumála um, að hér yrði komið á fót framhaldsdeild sem 1. bekk menntaskóla næsta haust. Var þm. Vestfirðinga og fleiri aðilum skrifað og þeir beðnir að vinna að framgangi málsins. Mjög var liðið á þingtímann, þegar þetta var, svo að ekki varð úr því þá, að þm. flyttu frv. um þetta mál. En þess ber að geta, að þm. Vestfirðinga tóku þessu máli mjög vel.

Síðar var málið tekið upp í fræðsluráði Ísafjarðar og bæjarstjórn. Fræðsluráð skrifaði menntmrn. og fór fram á heimild til að starfrækja framhaldsdeild við skólann næsta vetur, 1959–1960. Svar við þessari málaleitun barst ekki fyrr en í byrjun júlímánaðar. Var heimiluð starfræksla deildarinnar, en því aðeins, að nemendur væru minnst 15 að tölu. Þar eð svarið barst svona seint, kom í ljós, að allir þeir nemendur, sem landsprófi luku hér á Ísafirði og nágrenni, höfðu fengið skólavist í öðrum skóla næsta vetur. Taldi fræðsluráð þá tilgangslítið að auglýsa eftir þátttöku. Greindi fræðsluráð menntmrn. frá þessari ákvörðun. Jafnframt var þess óskað, að heimiluð yrði starfræksla framhaldsdeildar veturinn 1960–1961 og þess farið á leit, að ríkissjóður kostaði deildina að öllu leyti. Þegar þetta er ritað hefur ekki borizt svar frá menntmrn., en þess er að vænta, að heimild fáist.

Enn fremur munu þm. Vestfirðinga beðnir að flytja frv. um þetta mál á Alþ. næsta haust, 1959, svo að lagaákvæði fáist fyrir starfrækslu slíkrar deildar og síðar fyrir menntaskóla hér, þegar aðstæður leyfa. Hér er vissulega um að ræða mikið hagsmunamál fyrir alla Vestfirðinga og knýjandi nauðsyn, að afgreiðslu þess verði hraðað, svo sem kostur er.“

Þetta voru sem sé ummæli Guðjóns Kristinssonar skólastjóra gagnfræðaskólans á Ísafirði, tekin upp úr síðustu skólaskýrslu, sem skólinn lét frá sér fara.

Þegar skólastjórinn ritaði þetta, hafði sem sé ekki borizt svar frá menntmrn. um það, hvort skólanum yrði heimilað að taka upp framhaldskennsluna á næsta vetri, en nú hefur slíkt bréf borizt og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytið heimilar hér með, að kennslu 4. bekkjar bóknámsdeildar gagnfræðaskóla Ísafjarðar verði hagað þannig skólaárið 1960–1961, að svari til kennslu í 1. bekk menntaskóla, enda verði nemendur eigi færri en 15 og fullnægi þeir skilyrðum til slíks framhaldsnáms.

Þá ber að hafa fyllsta samráð við stjórnir menntaskólanna um próf, einkunnagjafir og annað, er að náminu lýtur.“

Þannig hljóðaði bréf rn.

En það var einmitt á sama fundi fræðsluráðs Ísafjarðar, sem þetta bréf var lagt fram og rn. þakkað fyrir það, sem fræðsluráðið skoraði einmitt á alla þm. Vestfirðinga að standa við fyrri loforð sín og flytja nú þegar frv. um menntaskóla Vestfirðinga á Ísafirði. Bæjarstjórn Ísafjarðar samþ. síðan einróma þessa ályktun bæjarráðs. Af þessu er ljóst, að heima í héraði vilja menn engu öðru una en lögum um menntaskóla á Vestfjörðum, og tel ég það líka á allan hátt eðlilegt. Þeir vilja sem sé ekki sætta sig eingöngu við að fá heimild til að taka aftur upp kennslu í námsgreinum 1. bekkjar.

Í grg. með frv. höfum við vikið að því, að það, sem einu sinni hefur gerzt, getur gerzt aftur, en það er þetta, að menntmrh. taldi sig ekki hafa lagaheimild til þess að leyfa skólanum rekstur slíkrar deildar. Þessi menningarstarfsemi getur því stöðvazt, hvenær sem er, meðan hún hvílir ekki á lagagrundvelli.

Þá er líka full hætta á því, að yrði hin bréflega ráðherraheimild látin nægja fyrir eitt og eitt ár í senn, þá mundi óvissan um áframhald mjög torvelda það, að hæfir menntamenn áræddu að ráða sig til kennslunnar.

Þess vegna er nauðsynlegt að setja þegar í upphafi lög um slíka starfsemi sem þessa, og er það von mín og okkar Vestfjarðaþm. allra, að áhugi heimamanna fyrir málinu verði metinn að verðleikum og að litið verði á þá ágætu reynslu, sem fengin er af byrjunarkennslu í greinum 1. bekkjar menntaskóla í sambandi við gagnfræðaskólann á Ísafirði.

Þá viljum við einnig vona, að það verði ekki talin óeðlileg skipan menntaskóla í landinu, að þeir verði einn í hverjum landsfjórðungi, norðan, vestan og austan, en nú þegar eru þeir 3 í Sunnlendingafjórðungi, skólarnir, sem rétt hafa til að brautskrá stúdenta.

Um það er e.t.v. hægt að deila, hvort heppilegra sé frá uppeldisfræðilegu sjónarmiði að safna námsfólkinu saman í stór skólabákn, t.d. hér í Reykjavík, eða stuðla hins vegar að því, að skólarnir verði smærri og dreifðari, t.d. staðsettir í öllum landshlutum. Þó munu flestir uppeldisfræðingar og skólamenn hallast að því, að skólar eigi helzt að vera ekki mjög stórir, ef nemendur séu miklu fleiri en 300, þá fari mjög að draga úr persónulegum áhrifum og einstaklingsleiðsögn að skorta. Og víst er ég þeirrar skoðunar, að uppeldislegu hliðinni sé betur borgið að öðru jöfnu í smærri skólum. Hitt virðist mér og auðsætt, að þá beri að staðsetja með ríku tilliti til jafnréttisaðstöðu íslenzkrar æsku til framhaldsmenntunar. Þá er það og ekkert smáatriði í mínum augum, að með því að staðsetja menntaskólana í öllum landsfjórðungum er stutt að auknu jafnvægi í þjóðfélaginu, það er jöfnuð aðstaða þegnanna einnig í menningarlegu tilliti.

Menntaskóli á Vestfjörðum yrði að sjálfsögðu ekki stór stofnun. Fyrst um sinn yrðu sennilega aðeins 20–30 nemendur í hverri bekksögn, og gætu nemendur þannig eftir 4 ár verið orðnir 80–100. En eins og segir í ákvæðum til bráðabirgða aftan við frv., er til þess ætlazt, að næsta ár eftir gildistöku l. starfi aðeins ein bekkjardeild, en síðan bætist við ein deild á ári, þar til kennsla sé hafin í öllum ársdeildum skólans að fjórum árum liðnum.

Nú starfa margir unglingaskólar í kauptúnunum á Vestfjörðum, og sækir þá fjöldi efnilegra nemenda. Auk þess eru svo 3 skólar á Vestfjörðum, sem skila nemendum til landsprófs og veita þannig rétt til framhaldsnáms við menntaskóla. Þetta eru héraðsskólinn á Núpi í Dýrafirði, héraðsskólinn í Reykjanesi og gagnfræðaskólinn á Ísafirði. Í landsprófsdeild Núpsskólans í vetur munu vera um 20 nemendur, í Reykjanesskóla er mér ekki kunnugt um töluna, þeir munu vera fáir, sem þar eru, og í gagnfræðaskólanum á Ísafirði 17 nemendur. Þetta er stofninn, sem ætla má að yfirleitt kysi að hefja menntaskólanám við menntaskóla Vestfirðinga, en sú var reynsla mín, meðan ég veitti gagnfræðaskóla Ísafjarðar forstöðu, að þangað sóttu einn og einn nemandi víðs vegar að af landinu, og lágu til þess margvíslegar ástæður. Slíkt mundi áreiðanlega einnig gerast, ef menntaskóli, sem gæti sér sæmilegt orð, væri kominn á fót á Vestfjörðum. Nemendaskorti þarf því að minni hyggju ekki að kvíða. En með stofnun skólans er opnuð leið til menntunar fyrir fátæka efnismenn, sem ekki legðu e.t.v. ella út á erfiða og torsótta braut langskólanámsins, ef ekki getur notið við aðstöðunnar frá eigin heimili.

Um kostnaðarhlið málsins tel ég rétt að taka þetta fram: Á næsta ári leiðir ekki aukinn kostnað af samþykkt frv. frá því, sem ríkið hefur þegar fallizt á. En þegar skólinn er orðinn fullskipaður eftir 4 ár, verða við hann 4 fastir kennarar, einn fyrir hverja bekkjardeild.

Þá er þess að geta, að á Ísafirði er vegleg, yfirbyggð sundhöll, þar er líka ágætt bókasafn, og þar er í þriðja lagi mjög gott íþróttahús. Allt þetta mundi mjög draga úr stofnkostnaði menntaskóla á Ísafirði, því að þessara stofnana mundi skólinn njóta ásamt þeim skólum, sem fyrir eru á staðnum. Það, sem vantar mjög fljótlega, er skólahús með 4–5 kennslustofum og tilheyrandi aðstöðu og rektorsbústaður. Lóð fyrir menntaskólann má telja víst að Ísafjarðarkaupstaður legði til án endurgjalds.

Það eru nú á milli 50 og 60 ár síðan Ísfirðingar stofnuðu mjög myndarlegan unglingaskóla og fengu honum til forstöðu menn eins og dr. Björn frá Viðfirði og sr. Bjarna Jónsson, nú vígslubiskup. Í beinu framhaldi af starfi unglingaskólans tók við gagnfræðaskólinn á Ísafirði, sem nú hefur hátt á annað hundrað nemendur. Landskunnugt er hið einstæða framlag séra Sigtryggs Guðlaugssonar á Núpi, en hann er stofnandi Núpsskólans og fórnaði sér að mestu í þjónustu vestfirzkra og íslenzkra menningarmála með rekstri þess skóla — mjög lengi við lítinn styrk frá ríkinu. Ísfirðingar hafa alla tíð kostað rekstur gagnfræðaskóla síns að meginhluta, lengstum algerlega. Hins vegar var gagnfræðaskólinn á Möðruvöllum og síðar á Akureyri kostaður algerlega af ríkinu. Nú mun miðskóladeild við menntaskólann á Akureyri einnig vera kostuð af ríkinu ásamt rekstri menntaskólans að fullu. Þá er annar höfuð-gagnfræðaskólinn á Austurlandi, Eiðaskóli, einnig kostaður algerlega af ríkinu. Þetta finnst okkur flm. frv. allt mæla með því, að Vestfirðingar séu vel að því komnir, að ríkið stofni nú og reki lítinn menntaskóla á Vestfjörðum.

Frv., sem hér liggur fyrir, er í öllum meginatriðum samhljóða hinum almennu gildandi lögum um menntaskóla, sömu kröfur gerðar til nemenda og kennara sem í hinum menntaskólunum, sömu prófkröfur, sömu réttindi og skyldur. Hér er þó aðeins gert ráð fyrir, að starfandi verði máladeild í upþhafi, en ekki stærðfræðideild, a.m.k. fyrst um sinn. Um efni einstakra greina frv. tel ég rétt að rætt verði nánar við 2. umr. málsins.

Herra forseti. Ég skal nú bráðlega láta máli mínu lokið, en þó vil ég áður segja þetta: Langvarandi baráttu Norðlendinga fyrir norðlenzka menntaskólanum lauk með sigri forustumannanna, þeirra Stefáns og Sigurðar skólameistara. Þeim úrslitum fagna nú allir. Þegar sá sigur var unninn, ritaði einn fyrrv. nemandi gagnfræðaskólans á Akureyri, sem nú á sæti í þessari hv. þd., þessi eftirminnilegu orð: „Eftir stofnun menntaskóla norðanlands er íslenzk menning orðin einu víginu auðugri.“ Við, flm. þessa frv., viljum nú gera íslenzka menningu einu menningarvíginu auðugri, að þessu sinni á Vestfjörðum. Baráttu Bjarna á Laugarvatni og samherja hans fyrir menntaskóla í sveit lauk einnig með fullum sigri, og mundi nú enginn óska, að það framfaraspor í íslenzkum menningarmálum yrði stigið til baka. Og baráttan fyrir menntaskóla á Vestfjörðum og á Austfjörðum ber sigurmáttinn í sér, því að hún er í samræmi við heilbrigða þróun í skóla- og menningarmálum landsins. Það er athyglisvert, að þegar Sigurður skólameistari stóð í ræðustóli og brautskráði fyrstu stúdentana frá menntaskóla Norðurlands, sagði hann m.a. þetta :

„Það liggur í augum uppi, að hverjum skóla er ætlað að vera menningarvígi eða menningarstöð. Slíkar menningarstöðvar mega eigi allar vera á einum stað. Menningarblóðið verður að renna um allar æðar þjóðlíkama vors.“

Við flm. frv. um menntaskóla Vestfirðinga á Ísafirði gerum þessi viturlegu orð Sigurðar skólameistara að okkar orðum, Vestfjarðaþingmennirnir í báðum þingdeildum. Og við viljum eiga hlut að sköpun menningarvígis á Vestfjörðum, því að það er sannfæring okkar, að ungu hæfileikafólki beri að skapa sem allra jafnasta aðstöðu til að afla sér stúdentsmenntunar, aðeins ef hugur stendur til, en án alls tillits til þess, hvar það er búsett í landinu.

Við viljum, allir þingmenn Vestfirðinga, biðja hv. alþingismenn að fallast á þessa skoðun okkar og hjálpa okkur til að gera frv. að lögum á þessu þingi, þó að tíminn sé nú orðinn í tæpasta lagi, til þess að það megi takast. En mikið má þó alltaf, ef vel vill.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.