09.05.1960
Neðri deild: 78. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (2386)

140. mál, skólakostnaður

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta er gamall kunningi hér á hv. Alþ. Hv. fyrrv. þm. Borgf., Pétur Ottesen, flutti það hér á tveimur þingum í röð, á árunum 1956 og 1957. Ástæða þess, að þetta frv. var upprunalega flutt og er nú flutt að nýju, er fyrst og fremst sú, að mikils ósamræmis hefur þótt gæta um greiðslur ríkissjóðs á rekstrarkostnaði nokkurra skóla landinu. Fyrir fjórum árum héldu fulltrúar margra héraða fund um þetta mál og gerðu þá m.a. svofellda ályktun, sem prentuð er upp í grg. þessa frv.:

„Vér undirritaðir fyrir hönd hlutaðeigandi skóla og sýslufélaga beinum hér með þeirri áskorun til ríkisstj. og alþm., að á Alþ. því, er nú situr að störfum, verði gildandi lögum varðandi gagnfræðanám og húsmæðrafræðslu breytt þannig, að héraðsskólar og húsmæðraskólar í sveitum verði kostaðir og reknir að fullu af ríkinu, en til vara, að ríkissjóður greiði öll kennaralaun við skóla þessa og 90% af stofnkostnaði, viðhaldskostnaði og öðrum rekstrarkostnaði þeirra.“

Pétur Ottesen lagði upprunalega til, þegar hann flutti svo þetta frv., að varatill. þessa fundar yrði lögfest, þ.e.a.s. að ríkissjóður greiði öll kennaralaun við skóla þessa og 90% af stofnkostnaði, viðhaldskostnaði og öðrum rekstrarkostnaði. Þeir skólar, sem um er að ræða, eru, eins og ég sagði, héraðsskólar og húsmæðraskólar í sveitum. Að fyrrgreindum fundi stóðu hins vegar flest eða öll þau héruð, sem standa undir rekstri héraðs- og húsmæðraskóla.

Á það hefur verið bent í þessu sambandi, að mikils ósamræmis gæti í þessum efnum, þar sem einstakir skólar, bæði héraðsskólar og húsmæðraskólar, séu að öllu leyti kostaðir af ríkinu. Hefur þar verið bent á Eiðaskólann í flokki héraðsskóla og húsmæðraskólann á Staðarfelli í hópi húsmæðraskóla.

En meginrökin fyrir því, að fluttar hafa verið og eru nú tillögur um það að láta ríkið taka á sig að mestu leyti kostnaðinn við rekstur og stofnun slíkra skóla, eru náttúrlega þau, að hin fámennu sýslufélög eru mjög févana og þess alls ófær að reka þessar stofnanir, sem margar hverjar eru alldýrar í rekstri og standa ekki einungis undir fræðsluþörf héraðanna, heldur og landsbyggðarinnar vítt og breitt um landið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta frv. Það er, eins og ég sagði í upphafi, mjög vel kunnugt flestum hv. þm. Ég hygg, að hér sé um réttlætismál að ræða. Það má að vísu segja, að varhugavert sé að bæta auknum útgjöldum á ríkissjóðinn. En á sama hátt má segja, að sýslufélögin og bæjar- og sveitarfélögin berjast vissulega í bökkum við það að standa undir þeim byrðum, sem á þau hafa verið lagðar og margar hverjar með löggjöf af hálfu hæstv. Alþ.

Ég leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. menntmn.