16.05.1960
Neðri deild: 82. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í C-deild Alþingistíðinda. (2398)

143. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég vil ekki láta þetta undarlega frv. fara í gegnum umr. og til nefndar án þess að segja á því mitt álit. Og sannleikurinn er sá, að það er að verða ýmislegt furðulegt, sem mönnum dettur í hug í okkar Alþingi.

Við vitum það allir, að opinberir starfsmenn, þ.e. embættismenn ríkisins og stofnana ríkisins, það eru menn, sem hafa það hlutverk m.a. að vernda ríkið sjálft, og það á að vera þeirra áhugamál, að ekkert það sé gert, sem er til niðurdreps fyrir það ríki, sem þeir eru starfsmenn hjá. Þessir menn allir taka laun samkv. lögum frá Alþingi, sem hefur verið breytt með nokkurra ára millibili á undanförnum árum og alltaf til hækkunar. Nú er það vitað, að meðal þjóðarinnar er ekki eins mikil ásókn í nokkur störf og fastlaunuð störf. Það eru sívaxandi kröfur um fleiri skóla, jafnvel gengur svo langt, að fyrir þessu Alþingi liggja till. um tvo nýja menntaskóla til þess að undirbúa það, að sem allra flestir af þegnum þjóðfélagsins geti komizt í fastlaunaða stöðu. Ef á nú að fara að samþykkja það, að þessir menn, sem sérstaklega eiga að vernda ríkið, hafi rétt til þess að gera verkfall, þá vil ég segja, að þá gerast undarlegir hlutir. Því hvað er verkfall? Verkfall er ekkert annað en uppreisn. Það er uppreisn, sem með föstum samtökum er gerð gegn þeim aðilum, sem hlutaðeigandi menn vinna hjá. Í þessu tilfelli væri verkfall opinberra starfsmanna uppreisn gegn ríkinu, sem þeir eru starfsmenn hjá. Ég tel þess vegna, að öllu meiri fjarstæðu sé ekki hægt að bera fram á Alþingi heldur en þá, að það sé heimilað, að þeir menn, sem eiga að vernda ríkið og eru starfsmenn þess, hafi rétt til að gera uppreisn gegn því. Ég skal ekki fara út í það að ræða um verkfall annarra manna, svo sem verkamanna, iðnaðarmanna, sjómanna o.s.frv., en allir vita, að verkfall er þó uppreisn gegn þeim atvinnurekendum, sem starfsmennirnir vinna hjá, og það væri alveg að færa skörina upp í bekkinn, ef hv. Alþingi ætlaði að láta sér sæma að gefa heimild til þess, að opinberir starfsmenn mættu gera uppreisn gegn því ríki, sem þeir eru starfsmenn hjá.

Ég skal ekki hafa um þetta öllu fleiri orð, nema frekara tilefni gefist til, en ég vildi segja þessar athugasemdir, til þess að það kæmi ljóst fram nú þegar, hvert álit ég hef á því frv., sem hér hefur verið lagt fram. Og náttúrlega geri ég ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj., sem hefur það hlutverk að vera yfirstjórn allra opinberra starfsmanna meðal alls annars, láti það til sín baka, hvort á að eyða miklum tíma í frv. eins og það, sem hér er um að ræða.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en ég mun greiða atkv. móti því, að svona frv. fari til 2. umr.