16.05.1960
Neðri deild: 82. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (2399)

143. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Flm. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að láta ómótmælt nokkrum orðum, sem hv. 2. þm. Norðurl. v. (JPálm) lét hér falla.

Út af fyrir sig koma mér ekkert á óvart hans skoðanir á því, að opinberir starfsmenn eigi ekki að hafa verkfallsrétt. Þetta hefur verið ríkjandi skoðun afturhaldsmanna á öllum alþingum Íslendinga, frá því að frv. var samþykkt 1915. Það kemur mér ekkert á óvart. En það, sem hann segir hér um verkfallsréttinn almennt, voru miklu alvarlegri orð. Og það kæmi mér ekki á óvart úr þessu, þó að á eftir þeim ráðstöfunum, sem hér hafa verið gerðar, ofbeldisráðstöfunum gagnvart launafólki í þessu landi, fylgdu nýjar, þær að skerða þann rétt, sem fólkið þó enn þá hefur til þess að fá að semja um kaup sitt og kjör, ef sú skoðun, sem hér var sett fram, túlkar sjónarmið stærsta stjórnmálaflokksins í landinu.

Það er fullyrt, að verkfallsrétturinn og verkföll séu uppreisn, það var að vísu ekki sagt uppreisn gagnvart ríkinu, nema að sjálfsögðu ef opinberir starfsmenn hefðu þennan rétt. En verkfall verkamanna hjá atvinnurekanda er uppreisn gagnvart atvinnurekandanum. Þetta er skoðunin. Hvað er það nú, sem gerist, þegar verkamaður ræður sig í vinnu til atvinnurekanda? Einvörðungu það, að hann selur atvinnurekandanum vinnuafl sitt, það er ekkert annað sem skeður. En þessu vinnuafli vill verkamaðurinn fá að ráða yfir, þ.e.a.s. hann vill hafa einhver ítök um það, á hvaða verði hann selur þessa vöru sína. Og það að vilja ekki vinna hjá atvinnurekandanum nema því aðeins að lúta því kaupi, hví verði, sem atvinnurekandinn sjálfur vill vera láta, það er að gera uppreisn. Það fer ákaflega vel saman við þær ráðstafanir, sem hér hafa verið gerðar, einmitt þetta sjónarmið á verkfallsréttinum.

Ég er alveg sannfærður um, að það yrði ekki neitt uppreisnarástand í þessu landi, þó að opinberir starfsmenn hefðu verkfallsrétt. Það er fjarri því. Og ég er alveg sannfærður um, að opinberir starfsmenn færu ekki verr með þann rétt en annað verkafólk í þessu landi, og það hefur ekki legið við uppreisnarástandi hér í verkföllum, þó að þau stundum hafi orðið allhörð. En það veldur sjaldan einn, þá tveir deila.

Það er sagt, að opinberir starfsmenn taki laun eftir lögum. Það er rétt, þeir hafa gert það. En það er þetta, einmitt þetta, sem þeir vilja losna við. Þeir vilja fá að semja um sitt kaup og sín kjör eins og annað fólk, en ekki vera háðir því, að löggjafarvaldið eigi þar að hafa allt um að segja og þeir ekki neitt.

Að þessir menn séu sérstaklega til þess að vernda ríkið, opinberir starfsmenn, — ég held, að hv. þm. hafi ekki gert sér ljóst, hvað þessi hópur er stór og margs konar þau störf, sem hann vinnur, og í engu frábrugðin neinum öðrum trúnaðarstöðum, sem verkafólk annað í landinu tekur að sér að vinna fyrir margs konar aðila aðra. Það eru til náttúrlega starfsmenn hins opinbera, sem mætti segja að væru til þess að vernda ríkið. En það er tiltölulega ákaflega lítill hluti af þeim opinberu starfsmönnum, sem hér er um að ræða.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Hv. þm. lauk máli sínu með því, að það væri nú farin að færast skörin upp í bekkinn, ef opinberir starfsmenn með leyfi Alþingis mættu gera uppreisn. Það er þetta sjónarmið, þetta mat á verkfallsréttinum, sem ég vil hér mjög harðlega mótmæla.