16.05.1960
Neðri deild: 82. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (2400)

143. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Sigurður Ingimundarson:

Herra forseti. Það hefur verið krafa þinga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um mörg undanfarin ár, að þeir fengju samningsrétt um kjör sín til jafns við aðrar stéttir. En það er staðreynd, að þeir hafa mjög orðið að gjalda gamallar og úreltrar löggjafar um þetta efni. Hafa stjórnir bandalagsins reynt að fá fram breytingar á þessu í samræmi við samþykktir þinga sinna, en ekki orðið ágengt í því efni fyrr en s.l. haust, að þáverandi hæstv. fjmrh. (GÍG) féllst á, að skipuð yrði n. til að endurskoða núgildandi löggjöf um starfskjör opinberra starfsmanna með það fyrir augum, að þeim yrði veittur samningsréttur um kjör sín til jafns við aðrar stéttir. Er sú nefnd enn starfandi, og eru tveir nm. skipaðir að tilnefningu bandalagsstjórnarinnar.

En málið er ekki eins einfalt og ætla mætti eftir því frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 356. Það er að vísu nauðsynlegt að fella úr gildi lögin frá 1915 um berort bann við verkfalli opinberra starfsmanna. En það er ekki nóg. Ýmis önnur löggjöf varðandi opinbera starfsmenn er gegnsýrð þeirri hugsun eða staðreynd, að opinberir starfsmenn hafi ekki haft verkfallsrétt, og eru víða annars staðar í lögum óbein bönn við því, að opinberir starfsmenn knýi fram kröfur sínar með verkfalli, eða a.m.k. ákvæði, sem mundu gera aðstöðu þeirra til samninga mjög erfiða. Hafði ég bent hv. flm. a.m.k. á eitt atriði í því sambandi, daginn áður en þeir létu útbýta þessu frv., en hafði vænzt þess að fá aðstöðu til þess að undirbúa frv. og einkum grg. fyrir því betur en til var stofnað, þar sem svo hafði verið um talað,að ég yrði meðflm. En þeir óskuðu að hafa á þessu annan hátt. Ég hafði óskað eftir því að fá tóm til þess að gera nokkrar breytingar á grg., en því var heldur tómlega tekið, og þegar ég kom með þær breytingar daginn eftir, voru þeir búnir að láta útbýta frv. Þrátt fyrir það lýsti ég því yfir þegar í stað, að ég mundi verða stuðningsmaður frv., en ég get ekki látið hjá líða að harma þessi vinnubrögð.

Eins og ég hef þegar sagt, tel ég sjálfsagt að fella verkfallsákvæðin úr gildi. En það eitt dugir ekki. T.d. eru opinberir starfsmenn bundnir af launalögum og a.m.k. mundi sérhver ríkisstj. telja sig bundna af launalögunum, meðan þau eru ekki felld úr gildi, og því ekki geta samið við starfsmennina. Að vísu mun geta farið saman verkfallsréttur og launalög, þó að einkennilega hljóði í fyrstu, og þannig er það a.m.k. framkvæmt í nokkrum löndum, að þingin staðfesta síðar meir þá samninga, sem ríkisstj. og opinberir starfsmenn hafa gert. En ef það á að fara saman, þá verður að selja um það reglur og lög, og er nefnd sú, sem ég gat um áðan og starfandi er í þessu máli, að kynna sér löggjöf þeirra þjóða, sem viðurkennt hafa verkfallsrétt opinberra starfsmanna.

Þá vil ég einnig leyfa mér að benda á, að í lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna stendur m.a. í 18. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Starfsmenn taka laun samkvæmt lögum eða ráðningarsamningum. Starfsmönnum er skylt að hlíta breytingum á launakjörum sínum skv. lögum eða reglugerðum staðfestum af hlutaðeigandi ráðherra.“ Það eru raunar fleiri ákvæði þessara laga, sem yrðu skrýtin í því ljósi, að verkfallsrétturinn væri viðurkenndur.

Menn kunna kannske að segja sem svo, að það sé ekkert annað að gera en að fella öll þessi lög úr gildi og semja um öll atriði á grundvelli frjáls samningsréttar. En málið er ekki nægilega undirbúið til þess, og kemur þar margt til. T.d. ákvæðin um, að ekki megi segja upp opinberum starfsmanni, nema hann hafi brotið af sér í starfi eða stofnun sé lögð niður. Ég mundi seint leggja blessun mína á það, að þau ákvæði yrðu numin úr gildi, eins og háttar til.

Lögin frá 1915 mega hins vegar falla úr gildi strax. En það þarf að ganga frá fleiru í þessu sambandi, og því er nauðsynlegt, að hin stjórnskipaða nefnd haldi áfram störfum, þó að frv. þetta verði samþykkt.

Lög þau, sem gert er ráð fyrir að hér séu felld úr gildi, um bann við verkföllum opinberra starfsmanna, eru sett á þeim tíma, sem samningsréttur stéttarfélaga hér á landi var ekki almennt viðurkenndur. Síðan hefur sú breyting orðið á, að hann er ekki aðeins viðurkenndur, heldur einnig lögverndaður. Launalög hafa verið sett aðeins þrisvar sinnum á þessari öld, en það var á árunum 1919, 1945 og 1955. Opinberir starfsmenn hafa að vísu nokkrum sinnum fengið launahækkanir til samræmingar við aðrar stéttir, milli þess að launalög væru endurskoðuð. Þeir hafa þó oft orðið að bíða mörg ár eftir þessum leiðréttingum, og hafa þær stundum numið 10–20% eftir einhliða mati stjórnarvalda, þegar loksins kom til framkvæmda. Er þess varla að vænta, að opinberir starfsmenn sætti sig við þessa þróun kjaramála sinna, þar sem réttarstaða þeirra er ekki í neinu samræmi við það, sem nú tíðkast. Verður því að vænta þess, að löggjafarvaldið, sem áður hefur lögverndað verkfallsrétt annarra launþega, telji tíma til þess kominn að fella úr gildi úrelt lög um bann við verkföllum opinberra starfsmanna, en í skjóli þeirra hefur iðulega verið staðið á móti réttmætum kröfum þeirra um sanngjarnar og tímabærar kjarabætur.

Ég tel því, að það sé réttlætismál, að opinberir starfsmenn fái samningsrétt til jafns við aðrar stéttir, og legg til, að frv. þetta verði samþykkt, en lýsi því jafnframt yfir, að ég tel nauðsynlegt að samræma aðra löggjöf þessum breyttu aðstæðum, svo að opinberir starfsmenn fái notið þess réttar, sem til er ætlazt. Samþykkt þessa frv. mundi hins vegar vera leiðbeining fyrir hina stjórnskipuðu nefnd um vilja hv. Alþingis, og bæri n. þá að undirbúa samræmda löggjöf, sem snerti önnur mál opinberra starfsmanna.