16.05.1960
Neðri deild: 82. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (2401)

143. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þetta mál er í sjálfu sér svo víðtækt, að það gæti verið ástæða til, að um það yrðu langar og miklar umr., en ég ætla ekki að fara út á þá leið við þessa umr., enda þótt ég vildi ekki láta frv. fara mótmælalaust hér í gegn.

Hv. flm. þessa frv., hv. 2. landsk. (EðS), áleit það eiginlega hreina óhæfu frá minni hálfu að nefna það, að verkfall væri uppreisn. En ég sný þar alls ekki frá. Verkfall er ekkert annað en uppreisn, hvort sem það er hjá einni stétt eða annarri. Hv. þm. segir, að þegar verkamaður ráði sig í vinnu hjá einhverjum atvinnurekanda, þá geri hann um það samning að gefa sitt vinnuafl fyrir ákveðið gjald. Þetta vita allir að er auðvitað rétt. Það eru samningar ekki einasta fyrir einstaka menn, heldur líka heilar stéttir, um ráðningakjör í vinnu hjá einstökum atvinnurekendahóp. En við nútíðarmenn og ekki sízt við, sem erum búnir að þekkja verkfallapólitíkina lengi hér á Alþ., vitum, að það gerist aldrei verkfall fyrir atbeina einstaklinga eða fárra manna. Til þess þarf víðtæk samtök í félagi að gera verkföll, og þegar svo er komið, þá er verkfall í raun og veru ekkert annað en uppreisn gegn þeim atvinnurekstri, sem um er að ræða. Hvort það er réttmætt eða ekki réttmætt að leyfa slíka uppreisn, það getur verið álitamál, og það hefur verið að þessu alltaf vilji hér á Alþ., að verkföll skuli vera leyfð, og ég ætla ekkert að fara að gera neinar till. um, að það verði sett neitt bann við því. Um hitt er öðru máli að gegna, að það eru óeðlilegar reglur, sem gilda um það, hvernig hægt er að stofna til verkfalls. Það hefur komið fyrir, að örfáir matreiðslumenn hafa getað stöðvað allan kaupskipaflotann með verkfalli. Hvaða vit er í, að slíkt skuli vera liðið? Það hefur komið fyrir í stærstu útgerðarstöð landsins hér á árunum, ef ég man rétt, að 13 menn í eitthvað 200 manna félagi gátu samþ. verkfall. Það var meiri hluti þeirra manna, sem mættu á fundi. Þó að verkföll séu leyfð og verði sjálfsagt áfram, þá tel ég, að það sé alveg nauðsynlegt að laga þetta.

Hv. 2. landsk. sagði: Verkamenn vilja ráða því, hvað þeir selja sína vinnu dýrt. — Það er ekkert óeðlilegt við það eða undarlegt. Það hefur gjarnan verið svo, og það er búið að reka þessi mál þannig á undanförnum 50–60 árum, að með allri verkfalla- og kröfupólitíkinni er búið að 400–500-falda kaupgjald í sveitum landsins, ef miðað er við árskaup, og það er búið að gera það að verkum, að það er útilokað að reka landbúnað á Íslandi með aðkeyptu vinnuafli. Nú er það út af fyrir sig miklu víðtækara mál en það, sem hér er til umr. og snertir eingöngu verkfallsrétt opinberra starfsmanna. En eins og ég sagði áðan, þá teldi ég það þó hina herfilegustu fjarstæðu, ef það ætti að vera leyft, að mennirnir, sem vinna hjá ríkinu skv. lögum og sækjast eftir þeim störfum meira en sótt er eftir nokkrum öðrum störfum í okkar þjóðfélagi, hafa rétt til þess að gera samtök, félagsleg víðtæk samtök og gera verkföll gegn ríki, sem þeir eru starfsmenn hjá og þeir eru skyldugir til að vernda. Hvort sem það er hv. 1. landsk. eða hv. 2. landsk., sem mælir með því að afnema bann við þessu, þá álít ég, að það sé hrein fjarstæða, því að hér á að fara eftir launalögum, eins og alltaf hefur verið. Hitt er auðvitað á verksviði þessara manna, sem eru umboðsmenn fyrir opinbera starfsmenn eða aðra aðila, að berjast fyrir því að fá breytt launalögum, eins og gert er með hver önnur lög í okkar Alþingi.

Að störf opinberra starfsmanna séu ekkert frábrugðin störfum annarra manna, eins og hv. 2. landsk. tók fram, það get ég ekki fallizt á, því að það er allt annað, hvort maður er ráðinn til þess að vinna hjá ríkinu, sem hefur stjórnina á öllum landsmálum, og um leið á eðli sínu samkvæmt að vera skuldbundinn til að vernda það ríki, sem hann er að vinna hjá. Hann er öðruvísi settur en hinn, sem vinnur hjá einstökum atvinnurekanda, þó að hann sé með launasamningum á sama hátt. Við skulum segja, ef við berum saman menn, sem vinna hjá iðnaðarfyrirtæki eða verzlurnarfyrirtæki, sem einstaklingar reka, jafnvel við skulum segja jafnvíðtæku fyrirtæki og Sambandi ísl. samvinnufélaga eða kaupfélagi, þeir menn eru að mínu áliti a.m.k. í starfi, sem er allt annars eðlis en það, sem er hjá ríkinu sjálfu. Mennirnir, sem eru starfsmenn ríkisins, hafa sérréttindi aftan og framan, á allan máta meira en aðrir menn, og þess vegna er það, að sótzt er eftir því meira en nokkru öðru að vera starfsmaður ríkisins. Slík sérréttindi hafa alls ekki starfsmenn hjá verzlunarfyrirtækjum, iðnaðarfyrirtækjum, útgerðarfyrirtækjum og slíku. Þess vegna er þetta algerlega annars eðlis, hvort maðurinn er starfsmaður ríkisins eða starfsmaður atvinnufyrirtækis.

Hv. síðasti ræðumaður, 1. landsk., taldi, að andstaða opinberra starfsmanna væri einna mest gegn því ákvæði, að það væri skylda þeirra að hlíta breyt. á lögum og reglugerðum. Það er ekkert óeðlilegt, þó að menn geri kröfur og vilji breyta hinu og þessu. En þetta hefur nú verið í lögum, og er eðlilegt, að sé í l., því að það er svo, ef Alþ., sem hefur löggjafarvald, vill breyta lögum og reglugerðum, þá er það eðlilegt, að því verði að hlíta. Við vitum allir, að fulltrúar á Alþ. eru kosnir af almenningi, og það er þeirra verk að breyta svo eða setja þannig lög og reglugerðir, sem þeir sjálfir álíta sannast og réttast.

Nú er það svo, að ég veit ekki dæmi til þess á síðasta — ég held mér sé óhætt að segja 40 ára tímabili, að það hafi nokkurn tíma verið hreytt launalögum eða launareglugerð á annan máta en þann að hækka kjör þeirra starfsmanna, sem hjá ríkinu vinna. Ég held, að það hafi aldrei verið gert til þess að lækka. Og meira að segja er búið að fara út í svo miklar öfgar, eins og ég hef oft og mörgum sinnum minnzt á hér á Alþ., að það hefur legið við borð, sem hefur komið einna bezt í ljós á þessu þingi, — legið við borð, að hér væri alveg verið að glata okkar fjárhagslega sjálfstæði, og það er vegna starfsemi þeirra kröfufélaga, sem fyrst og fremst hafa átt hlut að því að gera þær uppreisnir, sem verkföll og launabarátta oft og einatt hafa verið.