09.05.1960
Neðri deild: 78. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (2410)

145. mál, loðdýrarækt

Flm. (Einar Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. þetta felur í sér þá breyt. á lögum um loðdýrarækt, að niður falli úr lögum þær málsgreinar í 1. gr. l., sem banna minkaeldi.

Margar þjóðir heims hafa af minkaeldi miklar tekjur. Hér á landi hefur það verið bannað um nokkurra ára skeið. Hér ætti þó að vera mjög góð aðstaða til minkaeldis, bæði hvað veðráttu snertir og fóðuröflun, þar sem mikið fellur hér til af fiskúrgangi, sem er aðalfæða minkanna. Kaupa nágrannar okkar, Norðurlandaþjóðirnar, nú þennan fiskúrgang af okkur, einmitt í því skyni að ala á honum mink, og hafa af því miklar tekjur. Vöxturinn í minka- og skinnaframleiðslu þessara þjóða og raunar annarra hefur á undanförnum árum verið ótrúlega mikill, og hafa sumar þeirra margfaldað dýr í eldi hjá sér á nokkrum árum. En það er eins og Íslendingar hafi efni á því að sinna ekki þessum arðbæra atvinnurekstri, og ráða þar miklu hleypidómar, af því að illa tókst til, er minkaeldi var reynt hér á árunum.

Það er næstum því ótrúlegt, að tiltölulega auðvelt ætti að vera að gera útflutning minkaskinna að stærstu útflutningsvöru landsmanna, en hér eru þó öll skilyrði til þess. Það ætti ekki að þurfa að óttast, að markaður væri ekki fyrir skinnin, því að þær þjóðir, sem búa við bezt lífskjör, eins og Bandaríkjamenn, kaupa ógrynni af þeim, ýmist skinnunum eins og þau koma fyrir eða þegar saumað hefur verið úr þeim, eins og ýmsar af Norðurlandaþjóðunum gera, svo sem Danir, og auka þannig útflutningsverðmæti þeirra. Loðskinn hafa að jafnaði verið eftirsótt af kvenþjóðinni og verða sjálfsagt um langan aldur.

Allt öðruvísi er nú staðið að minkaeldi en var hér á árunum, þegar það var stundað hér. Nú eru dýrin geymd í steinsteyptum búrum, sem telja má alveg örugg til vörzlu dýranna, svo að útilokað er, að þau geti sloppið út.

En það er önnur hlið á þessu máli, sem vert er að gefa gaum, og það er, að jafnframt því, sem hér væri verið að framleiða mjög verðmæta útflutningsvöru, sem gæti numið þúsund millj. kr., ef allur fiskúrgangur væri notaður, væri verið að leysa mikið vandamál, sem steðjar nú að íslenzkum sjávarútvegi, og það eru erfiðleikar við sölu á fiskmjöli. Perú hefur tekið að framleiða geysimikið magn af fiskmjöli og selt það svo ódýrt, að það hefur orsakað verðfall um 1/3 á íslenzku fiskmjöli, og annað verra, að það er óseljanlegt sem stendur. Perú hefur selt mjög fram í tímann, allt fram í apríl næsta ár, en hér hrúgast mjölið upp í tugþúsunda lesta tali og sprengir utan af sér allar geymslur, og fyrir dyrum stendur síldarvertíðin með sína síldarmjölsframleiðslu, og enginn veit, hvern enda þetta hefur. Það er því ekki seinna vænna að reyna að létta á í þessu efni og finna aðrar leiðir til hagnýtingar fiskúrganginum en framleiðslu úr honum í fiskmjöl, og eru þá ekki aðrar nærtækari en láta minkinn éta úrganginn. Þannig er líka unnt að margfalda útflutningsverðmæti fiskúrgangsins, borið saman við að framleiða úr honum fiskmjöl.

Með því að koma upp hér á landi það stórum minkastofni, að allur fiskúrgangurinn í landinu væri hagnýttur sem fóður, sem er auðvitað sjálfsagt, væru Íslendingar komnir með jafnmikla skinnaframleiðslu og Norðmenn og Svíar samanlagt. Slíkt mundi að sjálfsögðu taka langan tíma, kannske áratug eða áratugi eftir því, hvernig á þeim málum væri haldið.

Það er sama, hvernig á mál þetta er litið. Það virðist allt mæla með því, að Íslendingar ættu að hefja þegar í stað minkaskinnaframleiðslu í stórum stíl eins og grannþjóðir okkar og auka með því fjölbreytni í atvinnuháttum þjóðarinnar, atvinnu og gjaldeyristekjur. Sérstaklega má benda á, að þetta gæti orðið arðvænlegur atvinnuvegur fyrir bændur. Ef frv. þetta verður að lögum, sem helzt þyrfti að verða á þessu þingi, þyrfti að hafa skjót handtök um að koma upp minkabúum og hefja innflutning á góðum minkastofni, en sjálfsagt yrði þetta ekki framkvæmt í stórum stíl, nema það opinbera kæmi til móts við menn með aðgang að stofnlánum og hefði einhverja forustu í tæknilegum framkvæmdum í þessu sambandi.

Villiminkurinn er þyrnir í augum margra. Auðvitað verður að halda honum í skefjum og útrýma honum, en að útrýma honum verður sjálfsagt erfitt. En andúð sú, sem villiminkurinn hefur vakið, má ekki verða til þess, að enginn þori að gera neitt í jafnmiklu hagsmunamáli þjóðarinnar og minkaeldi getur verið. Er þá sama, hvort litið er á hag minkabænda eða útvegsbænda. Þarna verða slegnar tvær flugur í einu höggi.

Ég vona, að hv. þm. bregðist vel við þessu máli og afgreiði það á þessu þingi, og legg til, að því verði vísað til 2. umr. og landbn.