04.12.1959
Efri deild: 10. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (2437)

32. mál, framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóður

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ) kvaddi sér hljóðs til þess eins, að mér virðist, að deila á Framsfl. fyrir að hafa skort áhuga og vilja til að sinna þeim málum, sem eru til umræðu í þessu frv., og talar um frv. „sitt“, sem hafi ekki fengizt lögfest á undanförnum þingum.

Ég skal síður en svo fara að gagnrýna neitt frumvarpið „hans“, en ég minnti á áðan, að það var ekki einn maður og ekki heldur einn flokkur, sem undirbjó frumvarpið 1956 allrækilega, svo að það getur varla verið nákvæmlega rétt hjá hv. þm., að hvenær sem þessu máli er hreyft á hæstv. Alþingi, þá sé það málið „hans“ — og ekki heldur hans flokks. — Þetta sést bezt, ef athugað er, hvenær var lögð mest áherzla á að veita fjármagni út um landið til jafnvægis með fjárveitingum á fjárlögum. Það er vitað, og ég gat þess, að fjárveitingar til atvinnuaukningar voru aðeins 5 millj. á ári í allmörg ár, þar til vinstri stjórnin kom, þá var það hækkað upp í 15 millj. Var þetta eitthvert áhugaleysi eða illvilji Framsfl. til byggðanna úti um landið, að þrefaldað var framlagið á fjárlögum? Og þótt auðvitað sé gott og sjálfsagt að hafa fastar reglur um ráðstöfun þessa fjár, þá er þó aðalatriðið féð sjálft, því að ekki byggja neinir upp atvinnurekstur sinn úti um land með lögunum einum.

Hv. þm. kvartaði undan því, að ekki hefði náðst samstaða hér á hæstv. Alþingi um þetta mál. Það kann vel að vera, að þetta sé rétt hjá honum, að um frv. hans hafi ekki náðst samstaða. En ég held, að ég muni það rétt, að um þetta leyti árs fyrir ári flutti hv. þm. með fleirum frv. um þetta efni. Ég held ég fari rétt með, að það hafi verið rétt fyrir stjórnarskiptin. Hvað varð um það frumvarp? Ætli framsóknarmenn hafi svæft það? Réðu þeir afgreiðslu mála á Alþingi eftir Þorláksmessu í fyrra? Nei, ég held, að það hafi verið flokkur hv. þm. og samstarfsflokkurinn, Alþfl., sem réðu fyrst og fremst afgreiðslu mála í fyrra eftir stjórnarskiptin. Hvað var í veginum þá, að frv. hans varð ekki að lögum? Mig minnir, að það hafi komizt til nefndar. En af hverju fór það ekki lengra? Ef þessir stjórnarflokkar, sem þá voru, höfðu þann áhuga á málinu, sem hv. þm. talar nú um, hvers vegna varð það ekki að lögum þá? Og hvað getur hann bent mér á, sem sýnir, að framsóknarmenn hafi stöðvað það mál? Ég er hræddur um, að það sé erfitt.

Ég held, að það sé ekki sérstaklega álitlegt fyrir framgang málsins eða fyrir neinn aðila að hefja deilur um það, hvernig hafi gengið til um flutning frv. og afgreiðslu þeirra um þetta mál á undanförnum árum. En mér þykir vænt um, að hv. þm. er okkur í aðalatriðum sammála um, að málið er stórt og mikilsvert fyrir þjóðina alla, og má þá vænta, að hér fáist viðunandi lausn á þessu máli.