04.12.1959
Efri deild: 10. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (2438)

32. mál, framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóður

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Þessi ræða hv. 4. þm. Vestf. (SE) var að meginefni til byggð á misskilningi.

Ég hélt því aldrei fram í minni ræðu, að framsóknarmenn hefðu almennt fjandskapazt við aðgerðir til hjálpar landsbyggðinni. Það, sem ég ræddi eingöngu um, var það, að þeir hefðu ekki hingað til sýnt neinn áhuga á því að fá lögfest ákvæði um það, hvernig að þessum jafnvægismálum svokölluðum skyldi unnið. Í ræðu minni fólst því engin deila á Framsfl. um afstöðu hans til strjálbýlisins. Ég skal að vísu játa, að það er margt að henni að finna. Ég ætla ekki að fara að blanda því inn í þetta mál hér. Það var ekki ætlun mín að fara að hefja neinar deilur um það atriði. Ég hélt mig eingöngu að málinu sjálfu, sem hér liggur fyrir, og sögu þess fyrr og síðar. Ég skal fúslega játa, að ég tel það hafa verið vinstri stjórninni til lofs, að hún hækkaði fjárveitinguna til atvinnuaukningar, og það er eitt af fáu, sem er henni til lofs, og henni veitir þess vegna ekki af, að því sé haldið til haga, þó að það stæði nú að vísu ekki lengi, eða aðeins eitt ár, að fjárveitingin væri 15 millj. (Gripið fram í.) Það er rétt, sem hv. þm. skaut hér fram, að hún var lækkuð í fjárlögum í fyrra. Hún hafði verið lækkuð í fjárlögum áríð áður úr þessum 15 millj. En raunverulega er þó sannleikur málsins sá, að fjárveitingin hefur ekki á þessu ári verið minni til atvinnuaukningar eða þessara ráðstafana, sem hér um ræðir heldur meiri, þegar öll kurl koma til grafar. Ég býst við, að hv. þm. viti, að á þessu sumri hefur verið veitt sérstök aðstoð togaraútgerðinni utan þessarar fjárveitingar og auk þess hefur orðið að borga hátt á 3. millj. vegna fjármálaóreiðunnar á Seyðisfirði, sem er einn þáttur þessa máls.

En það er önnur saga, það er frv. hér, sem um er að ræða. Það er alger misskilningur hjá hv. þm., að ég hafi löngun til þess að fara að hefja einhverjar ýfingar um þetta mál. Hinu býst ég varla við, að hann né neinn annar hv. dm. geti undrazt það, þó að ég standi hér upp til þess að benda á, að það hefur hér gerzt, sem vissulega er lofsvert, en er þó einnig á vissan hátt kátbroslegt, að þessir hv. þm. hafa hér tekið upp mál, sem aðrir aðilar hafa flutt þing eftir þing og þeir hafa aldrei sýnt neinn minnsta áhuga á. Það er sannleikur þessa máls. Það þýðir ekkert að vitna í það, að málið hafi ekki náð fram að ganga á síðasta þingi. Vitanlega gat það þá náð fram að ganga, ef flokksbræður hv. þm. hefðu sýnt nokkurn áhuga á, að það næði fram að ganga, og form. þeirrar n., sem það var í, hefði lagt nokkra áherzlu á að afgr. málið úr nefndinni, sem hann ekki gerði. Það veit þessi hv. þm., að milli Alþfl. og Sjálfstfl. var á síðasta þingi ekki samið um afgreiðslu nema ákveðinna, tiltekinna mála og að öðru leyti var ekki samvinna milli þessara flokka á því þingi.

Hv. þm. minntist hér á eitt atriði, sem var gott að hann minntist á. Hann sagði, að það þýddi ekki að halda því fram, að það hafi verið einn flokkur, sem hefði undirbúið málið 1956, stjfrv. Það er alveg rétt, það var ekki einn flokkur. Málið var flutt af ríkisstj. með fullu samkomulagi innan hennar. En ég veit ekki, hvort hv. þm. veit, hvað gerðist í Alþingi og hvernig stóð á því, að þetta mál var ekki lögfest. Það var ekki lögfest, eingöngu vegna þess, að framsóknarmenn snerust gegn því með alls konar brtt. til og frá sem sýnilega voru til þess eins fallnar að eyðileggja samstöðu og samkomulag um málið.

Og síðan hefur málinu ekki verið hreyft, og þeir hafa ekki talið þetta frv. ríkisstj. merkilegra mál en það, að allt frá 1956 og þar til nú í lok árs 1959 hafa þeir ekki séð ástæðu til að hreyfa því og ekki heldur að ljá sitt minnsta lið til þess, að hliðstætt frv. næði fram að ganga.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að það er ástæðulaust að vera að líta of mikið til fortíðarinnar í þessu efni, heldur ber að gleðjast yfir því, þegar menn bæta ráð sitt og virðast nú hafa fullan áhuga á, að þetta mál nái fram að ganga. Og ég get lýst því ákveðið yfir, að ég hef einnig hinn fyllsta áhuga á því og minn áhugi í því hefur ekkert breytzt, að löggjöf verði sett um þetta efni, sem stuðli að því, að þessar framkvæmdir og þessar fjárveitingar komi að betra liði og meira gagni fyrir strjálbýlið en verið hefur og leggi traustari grundvöll að atvinnuaukningu og framleiðsluaukningu en getur orðið, meðan úthlutun þessa fjár og ráðstöfun öll er jafnhandahófskennd og hlýtur að verða, meðan ekki er hægt að vinna eftir neinum ákveðnum og föstum reglum.

Ég endurtek það því, að ég tel það þakkarvert af hv. frsm. og meðflutningsmönnum hans að hafa nú tekið þetta mál upp, og ég vona, að við sjáum þá árangur málsins í samræmi við það og að á þessu þingi verði auðið að afgreiða löggjöf, sem viðunandi megi teljast, í sambandi við þessar jafnvægisráðstafanir og atvinnuaukningarmál.