04.12.1959
Efri deild: 10. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (2441)

33. mál, vegalög

Flm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil fagna því, að nú á þessum degi hefur slotað nokkuð því umræðumoldviðri, sem hér hefur verið undanfarna daga, þar sem umr. hafa farið mjög vítt og breitt og hnigið að ýmsu öðru en raunar var til umr. Nú í dag hafa mál verið rædd eins og ég álít, að eigi að ræða mál.

Hér var fyrir stuttu afgr. til 2. umr. mjög athyglisvert mál um vegagerð á Austfjörðum og Vestfjörðum. Þó að ég segi, að ég telji þetta athyglisvert mál, þá vil ég þó ekki segja neitt hér á þessari stundu um afstöðu mína til þess í því formi, sem það er flutt, en það kemur inn á það, sem er mín skoðun, að vegaþörf úti í dreifbýlinu sé mjög mikil, og mig hefur lengi grunað, að Austfirðir og Vestfirðir muni hafa dregizt frekar aftur úr að undanförnu vegna aðstöðu, og mín skoðun er sú, að það sé mjög nauðsynlegt að bæta vegakerfi landsins alls staðar þar, sem það hefur dregizt aftur úr.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, hnígur að því að bæta inn á vegakerfi landsins nokkrum vegum í Norðurlandskjördæmi eystra. Ég býst við, að skýrslur og tölur, sem fyrir liggja frá vegamálaskrifstofunni, muni máske sýna, að vegakerfi þess kjördæmis sé í heild betra en víða annars staðar á landinu. En þó vil ég geta þess, að þetta er mjög misjafnt í hinum ýmsu byggðarlögum, og viða hafa talsvert stórir kjálkar eða hlutar byggðarlaganna orðið algerlega út undan með vegi. Að vísu hefur nokkuð af þessu verið tekið inn á sýsluvegi, og þar hefur verið reynt að bæta úr brýnustu þörfum, eftir því sem fjárráð sýsluveganna hafa hrokkið til, en fjárráð sýsluveganna eru ákaflega takmörkuð. Þau eru bundin sérstökum lögum, og eftir því sem dýrtíð hefur vaxið, hafa raunar tekjur sýsluveganna og sýsluvegasjóðanna alltaf farið minnkandi.

Það munu nú vera fjögur ár, síðan vegalög voru opnuð, sem kallað er. Þetta mun vera viðlíka tími og oft áður hefur liðið á milli þess, að vegalög hafa verið opnuð, þ.e.a.s. þjóðvegakerfið tekið fyrir til endurskoðunar og breytinga á þann hátt að bæta við, þar sem þörfin hefur verið talin brýnust.

Ég veit t.d. um það í mínu byggðarlagi eða þar, sem ég þekki bezt til, í allri Suður-Þingeyjarsýslu, því að ég hef nokkuð fengizt við vegamál þar, að sýsluvegirnir þar eru í ákaflega bágu ástandi víðast hvar og raunar engir vegir, þó að eitthvað hafi verið rutt með jarðýtu, þannig að það væri hægt að komast til flestra bæja yfir sumartímann. Og okkur hefur verið mjög ljóst þar, að vegirnir komast ekki í viðunandi horf nema á afar löngum tíma að óbreyttum fjárframlögum. Hefur okkur fundizt nauðsynlegt að fá eitthvað af þessum vegum tekið inn á þjóðvegina til að létta á sýsluvegunum.

Í samræmi við þetta fengum við, þessir sem stöndum að þessu frv., umsögn vegaverkstjórans, sem hefur þessi mál með höndum í meiri hluta kjördæmisins, — fengum umsögn hans um það, í hvaða ástandi vegirnir væru og hvað brýnast væri að taka út úr sýsluvegakerfinu til að bæta inn á þjóðvegatölu, svo framarlega sem á annað borð Alþingi gæti gengið inn á það nú að bæta við þjóðvegakerfið. Og ég hef orðið var við það, að svipað ástand þessu mun vera í mörgum fleiri kjördæmum, enda var það raunar vitað mál fyrir.

Sumt af þessum vegum, sem hér eru upp taldir í frumv., hefur áður verið tekið fyrir hér á þann veg að leggja til, að þeir væru teknir inn í þjóðvegatölu, en það hefur ekki náð fram að ganga.

Ég vænti þess, að hv. Alþingi sjái sér fært að bæta nú á þessum vetri eða á þessu þingi einhverju af sýsluvegum landsins inn á þjóðvegakerfið. Ég geri ekki ráð fyrir því, að því máli verði neitt hraðað, því að það þarf mjög mikillar athugunar við, hvað rétt sé að gera á þessum stað eða öðrum.

Geri ég svo ekki ráð fyrir, að ástæða sé fyrir mig að vera fjölyrða meira um þetta. Ég tel alveg víst, að öllum hv. dm. sé ljóst, að það er brýn nauðsyn á því að framkvæma eins mikið og fjárráð leyfa hverju sinni, að því er snertir vegaþörfina, til þess að koma því fólki sem búið er að sitja við þau aumu kjör áratug eftir áratug að vera veglaust eða sama og vegalaust, inn í viðunandi vegakerfi og jafna þannig aðstöðu fólksins í landinu.

Óska ég svo eftir því, að frv. þessu verði vísað til hv. samgmn.